Áfram Reykjavík

Reykjavík er nú heilsueflandi borg en það þýðir að unnið er að því markvisst að skapa borg sem stuðlar að vellíðan borgarbúa og gerir þeim auðvelt að taka góðar ákvarðanir fyrir sína heilsu. Við viljum móta samfélag þar sem allir fá tækifæri og enginn er skilinn eftir.

Á liðnu kjörtímabili hefur meirihlutinn í borgarstjórn markað skýra stefnu til framtíðar í öllum helstu málaflokkum með jöfnuð, jafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi. Við erum á réttri leið. Nefna má að við höfum stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, lækkað leikskólagjöld, hækkað afslætti á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara og öryrkja og nánast eytt launamun kynjanna á vinnustöðum borgarinnar.

Kraftmikil græn borg

Á næsta kjörtímabili ætlum við að halda áfram kraftmikilli uppbyggingu í öllum hlutum borgarinnar með áherslu á öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, stúdentaíbúðir, íbúðir aldraðra, endurreisn verkamannabústaðakerfisins og sérstaka áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Kjalarnes býður upp á mikla möguleika í íbúabyggð, landbúnaði, ferðaþjónustu og alls konar atvinnuuppbyggingu auk þess að vera ein af perlum höfuðborgarsvæðisins með sína útivistarparadís.

Samningur við skógræktarfélag Kjalarness um skógrækt í Esjuhlíðum, samstarfsverkefnið Grænt Kjalarnes og sjóböðin eru dæmi um verkefni sem eru til fyrirmyndar. Samfylkingin vil vinna með íbúum Kjalarness í að styrkja samfélagið og hlúa að svæðinu. Verið er að skoða hvernig auka megi útivistamöguleika á svæðinu, s.s. stígagerð meðfram sjó og opnun gömlu póstmannaleiðarinnar og fleiri slík verkefni.

Samgöngur

Ný pöntunarþjónusta Strætó fyrir íbúa á Kjalarnesi á leið 29 hefur gefið góða raun og komið til viðbótar við leið 57 ásamt fjölgun ferða á þeirri leið. Þegar nýr Vesturlandsvegur rís mun umferðaröryggi aukast sem er mikilvægt, reiðstígar verða á sínum stað en einnig vonandi göngu- og hjólastígar sem opna á fjölbreyttari og vistvænni ferðamáta.

Meiri velferð

Velferðarþjónustan á að vera til staðar og styðja okkur og valdefla þegar þörf er á. Við eigum að fá jöfn tækifæri og við eigum öll að geta treyst á stuðning, helst í okkar nærumhverfi. Aukin áhersla á snemmtæka íhlutun í skólaþjónustu hefur gefið góða raun í Breiðholti og verið er að innleiða það verklag um alla borg núna. Við höfum lagt áherslu á geðheilsu og öflugan stuðning við börn og fjölskyldur í vanda og viljum sjá fleiri starfsstéttir og aukna sálfræðiþjónustu inni í skólunum og úrræði til að mæta betur þörfum ungmenna með fíknivanda. Efla þarf forvarnir á sviði geðheilsu. Þá þarf að efla stuðningsþjónustu, heimaþjónustu og heimahjúkrun enn frekar og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með enn betra Menningar- og heilsukorti.

Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu og við viljum halda áfram að byggja upp kraftmikla og nútímalega borg þar sem engin er skilinn eftir. Vilt þú vera með?

Greinin birtist í Kjalnesingi miðvikudaginn 23. maí 2018.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, skipar 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík