Borg fyrir börn

Skúli Helgason skrifar:

Samfylkingin leggur áherslu á húsnæðismál og málefni barnafólks í borgarstjórnarkosningunum .  Þar vega þungt skóla- og frístundamál enda renna um 40% af útgjöldum borgarsjóðs til þeirra mikilvægu mála.  Mikilvægustu verkefni skólamálanna eru bætt kjör kennara í leikskólum og grunnskólum, nemendamiðað skólastarf sem tekur mið af hæfileikum og áhugasviði hvers og eins og aukinn stuðningur við innra starfið í skólunum,m.a. með snemmtækri íhlutun í þágu nemenda sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.

Hærri frístundastyrkur

Við viljum hækka frístundastyrkinn um ríflega helming á kjörtímabilinu – í 50 þúsund krónur með hverju barni og auka systkinaafslætti þannig að foreldrar sem eru með börn bæði á leikskóla og í frístundastarfi grunnskóla njóti afsláttarins.  Það mun auka ráðstöfunartekjur þeirra um 80-100 þúsund krónur á ári eftir fjölda barna og aldri þeirra, og munar um minna.

Brúum bilið

Mikil eftirspurn er eftir fleiri úrræðum fyrir ungbarnafjölskyldur í borginni og er nauðsynlegt að fjölga leikskólaplássum fyrir yngsta aldurshópinn á sama tíma og við styrkjum samstarfið við dagforeldra, en þeir veita mikilvæga þjónustu, sem foreldrar kunna vel að meta.  Við viljum taka yngri börn inn í leikskólana í áföngum, með það að markmiði að börn komist að haustið sem þau verða 18 mánaða.

Þá viljum við efla enn frekar frístundastarfið í borginni og jafna aðgengi barna að frístundastarfi, þar með talið barna af erlendum uppruna.

Skóla- og frístundamál eru undirstaða velferðar í samfélaginu því þar getum við skapað börnum jöfn tækifæri til að blómstra sem sterkir skapandi einstaklingar.

Greinin birtist upphaflega í Vesturbæjarblaðinu.