Gestrisin borg

Dóra Magnúsdóttir skrifar:

Dóra MagúsdóttirÁ nýliðnu málþingi um ferðaþjónustu í Reykjavík fjallað virtur ferðamálafrömður frá Vancouver m.a. um að borgir ættu ekki að stefna að því að verða góðar ferðamannaborgir. Hinsvegar ætti að kappkosta að því að búa til góðar borgir. Punktur. Góð borg fyrir íbúa hennar verður ósjálfrátt eftirsóknarverður áfangastaður fyrir gesti. Ferðamenn vilja hitta og sjá heimamenn á nýjum áfangastað og kynnast siðum þeirra og menningu.  Þess vegna er mikilvægt, þegar kemur að ferðaþjónustu, að huga að þróun borgarinnar út frá þörfum íbúa hennar. Það er í anda félagslegrar sjálfbærni.

Þegar sjálfbærni ber á góma dettur mörgum í hug náttúruvernd af ýmsu tagi, en sjálfbærni snýr líka að félagslegum og efnhagslegum þáttum. Þar er reynt að halda neikvæðum áhrifum á umhverfi og menningu þeirra áfangastaða sem heimsóttir eru í lágmarki.  Að sama skapi er lögð áhersla á að ferðamenn leggi sitt af mörkum til uppbyggingar atvinnutækifæra. Markmið sjálfbærrar ferðaþjónustu er m.a. að þær breytingar sem verða á samfélögum vegna ferðamannanna verði eins jákvæðar og unnt er fyrir íbúana,  ferðamennina sem og fyrirtækin sem þjóna þeim.

Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein í Reykjavík og íbúarnir hafa orð á sér fyrir gestrisni. Erlendir gestir eru hluti af mannlífinu og vegna þeirra njótum við meiri og betri þjónustu af ýmsu tagi í Reykjavík; fleiri veitingastaða, fjölbreyttari menningar, viðburða og afþreyingar af ýmsu tagi. Í ljósi þess hve vel hefur tekist að fá ferðamenn til landsins utan háannar er ástæða til að rifja upp að ekki eru mörg ár síðan  sumir veitingastaðir í miðbænum lokuðu eftir áramótin vegna ládeyðu.  Það hefði þótt út í hött í byrjun árs 2014. Ferðamenn skila miklum tekjum til borgarinnar en nýta að sama skapi ekki þá kostnaðarliði sem eru borgum dýrastar, svo sem velferðar- og skólamál. Þannig eru ferðamenn eftirsóknarverðir gestir í borgum.

Vöxtur ferðaþjónustunnar hérlendis hefur verið töluvert örari en í öðrum Evrópulöndum. Vegna fámennis hérlendis ber oft meira á þeim en í stærri borgum, sérstaklega að sumarlagi. En það er mikilvægt fyrir Reykvíkinga að muna að ferðamennirnir eru aufúsugestir sem leggja mikið af mörkum inn í okkar samfélag. Að sama skapi er mikilvægt fyrir borgaryfirvöld að hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna í borginni.

Samfylkingin vill huga að sjálfbærri uppbyggingu ferðaþjónustu í Reykjavík. En auka einnig hlut ráðstefnugesta og hvataferða, halda áfram að efla vetrarferðamennsku og leitast þannig við að jafna árstíðasveiflu greinarinnar.  Að sama skapi er mikilvægt að huga að því að dreifa álaginu af ferðaþjónustunni á stærra svæði út frá miðborginni og leitast þannig við að stækka það svæði sem er miðbæjartengt.  Uppbygging ferðaþjónustu til austurs leiðir af sér jákvæða þjónustu fyrir íbúa hverfa utan miðborgarinnar. Í þessu samhengi er fyrirhuguð uppbygging hótela til austurs í samstarfi við íbúa og hverfisráð umfram þá sem nú er þegar fyrirhuguð í miðborginni.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu

Öflugt atvinnulíf í Reykjavík

Dóra Magnúsdóttir skrifar:

Dóra

Það er mikilvægt verkefni fyrir stærsta sveitarfélag landsins að hlúa að uppbyggingu atvinnulífs, nýsköpun og rannsóknum. Reykjavíkurborg á að vera forystuafl á Íslandi í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyrirtæki, fjárfestingu, vinnuafl og ferðamenn.

McKinsey skýrslan, sem kynnt var árið 2012, kynnir leiðir til aukins hagvaxtar. Í henni segir að sjálfbær hagvaxtaráætlun verði að ná til allra atvinnuvega og þurfi að fela í sér aukna skilvirkni í innlenda þjónustugeiranum, auka þurfi virði takmarkaðra auðlinda og efla alþjóðlegra atvinnustarfsemi – sem er forsenda heilbrigðs viðskiptajöfnuðar. Nauðsynlegar sé að efla skilvirkni þjónustu- og útflutningsgreina og auka virði útflutnings sem byggir á náttúruauðlindum, t.a.m. með opnun hagkerfisins, bættu aðgengi að áhættufjármagni, úrbótum í menntakerfi, o.fl. í þeim tilgangi að á Íslandi verði viðskiptaumhverfi samkeppnishæft á heimsvísu.

Leiðir til úrbóta í þessum málaflokki eru takmörkunum háðar á sveitarfélagastiginu en mikilvægt er að Reykjavíkurborg starfi í þessum anda og leggist á sveif með opnun hagkerfisins og samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi. Samfylkingin vill skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulífið í borginni og stuðla að stofnun og rekstri nýrra fyrirtækja með áherslu á fjölbreytni, þekkingu, skapandi greinar og græna hagkerfið.

Sömuleiðis vill Samfylkingin hlúa að ferðamannaborginni Reykjavík og huga að sátt atvinnugreinarinnar við samfélagið. Ör vöxtur ferðaþjónustu getur kallað á of litla framleiðni, óarðbæran rekstur og neikvæða upplifun borgarbúa. Með  markvissri stefnu er hægt að skapa hagkvæm skilyrði fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og leggja grunn að jákvæðari upplifun íbúa borgarinnar og ferðamannanna sjálfra sem er grunnþáttur í hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Öflug menntun, hátækni og rannsóknir skipta miklu máli fyrir fjölbreytt atvinnulíf. Samfylkingin vill leggja áherslu á uppbyggingu sem krefst hugvits og hátækni og ber í sér kraftmikinn hvata til nýsköpunar og þróunar. Þrátt fyrir gjaldeyrishöft er mikilvægt fyrir Reykjavíkurborg að laða að og auka innlenda og erlenda fjárfestingu og gefa í með markaðssetningu borgarinnar á þeim grunni.

Hlúa þarf að félagslegum þáttum íbúa Reykjavíkur en það er ekki síður mikilvægt að borgin leggist á sveif með atvinnulífinu til að skapa öfluga umgjörð um fjölbreytt störf fyrir Reykvíkinga.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu.

Borg launajafnréttis

Árið er 2014 og hér á landi ríkir ekki raunverulegt jafnrétti. Kynbundið ofbeldi er enn útbreytt. Konur eru enn í minnihluta í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Þá er óútskýrður launamunur kynjanna enn til staðar sem gerir það að verkum að íslenskar konur eru á starfsævi sinni hlunnfarnar um margar milljónir króna. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins og á hún að beita sér að fullum þunga við að uppræta það mein sem kynbundinn launamunur er á íslensku samfélagi.

Hann fær hærri laun

Dóttir mín er þriggja ára og vel má hugsa sér að hún verði samferða skólabróður sínum af leikskólanum gegnum lífið og upplifi samskonar hluti – þar sem þau verða sjö ár í Fossvogsskóla, eigi sömu vinina, æfi hand- og fótbolta með Víkingi, verði þrjú ár í Réttarholtsskóla, fari í sama menntaskólann og ljúki sama háskólanámi. Það er grátlegt að hugsa til þess að þrátt fyrir sama bakgrunn, reynslu og menntun eru raunverulegar líkur til þess að hann muni fá hærri laun en hún fyrir sambærilegt starf. Ef ekkert breytist mun uppsafnaður launamismunur að starfsævi þeirra lokinni nema skuggalega háum upphæðum. Þessu verður að breyta.

Borgin sýni gott fordæmi

Reykjavíkurlistinn beitti sér gegn kynbundnum launamun hjá borginni og dró þá verulega saman með kynjunum, en þrátt fyrir það er launamunurinn enn til staðar líkt og kannanir sýna. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokks tók alvarlega niðurstöðum sem sýndu að konur sem starfa hjá borginni fá lægri laun en karlar. Í framhaldinu var fyrir hálfu ári sett upp metnaðarfull áætlun um aðgerðir gegn kynbundnum launamun sem fylgja verður eftir. Innleiða þarf svokallaðan jafnlaunastaðal sem aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við að koma á og viðhalda launajafnrétti. Höfuðborgin á að ganga fram með góðu fordæmi og mun Samfylkingin beita sér fyrir því á komandi kjörtímabili.

 

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu.