Reykjavíkurmódelið virkar

Reykjavíkurborg hefur náð ótrúlegum árangri að undanförnu í að fækka í hópi þeirra Reykvíkinga sem þurfa á fjárhagsaðstoð til framfærslu á að halda. Notendum í janúar til mars 2016 fækkaði um 23,6% miðað við sama tímabil árið 2015. Um er að ræða 455 einstaklinga sem er sambærilegur fjöldi og býr í Vík í Mýrdal og öllum í Mýrdalshreppi. Stærð hópsins er sömuleiðis sambærileg á við 7-8% stöðugilda hjá Reykjavíkuborg. Þannig að um umtalsverðan fjölda er að ræða og árangurinn augljós.

Samfélagslegt öryggisnet

Eins og oft hefur komið fram þá er fjárhagsaðstoð neyðaraðstoð og samfélagslegt öryggisnet. Þeir sem ekki hafa rétt á atvinnuleysisbótum eða eru óvinnufærir fá aðstoð. Það er mjög mikilvægt að fólk festist ekki á fjárhagastoð og brýnt að veita þeim góðan stuðning svo aðstæður hópsins versni ekki. Þetta er hverjum og einum einstaklingi mikilvægt og samfélaginu í heild sömuleiðis, meðal annars fjárhagslega. Á síðasta ári sparaðist hjá borginni tæplega hálfur milljarður kóna vegna góðs árangurs hvað fjárhagsaðstoð varðar.

Reykjavíkurmódelið byggir á  samræmdu verklagi við móttöku og meðferð umsókna um fjárhagsaðstoð þar sem áhersla er lögð á inngrip snemma í ferlinu og að notendur finni styrkleika sína, meti starfsgetu og setji sér valdeflandi markmið. Um leið þarf að muna að um afar fjölbreyttan hóp er að ræða og að þarfirnar eru breytilegar.

Manneskjulegt viðmót

Árangurinn að undaförnu er frábær. Hann hefur ekki náðst sjálfkrafa því ásamt betra atvinnuástandi í landinu skiptir þar mestu fjölbreytt úrræði, manneskjulegt viðhorf og öflugir virkni- og þjónusturáðgjafar á þjónustumiðstöðum borgarinnar. Enda var það ekki að ástæðulausu að virkiniráðgjöfum var fjölgað á árunum eftir hrun. Það var gert til að ná betur utan um málaflokkinn og hjálpa fólki að komast aftur í virkni, öllum til gagns. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram á sömu braut enda öllum vonandi orðið ljóst að Reykjavíkurmódelið virkar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. júní 2016.

Styttri vinnuvika virkar

Líkamleg og andleg líðan og starfsánægja mælist marktækt meiri á tveimur starfsstöðvum Reykjavíkurborgar sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar. Á sama tíma mælist enginn munur á viðhorfi til þjónustu eða opnunartíma.

Undanfarna 14 mánuði hefur tilraunaverkefnið staðið yfir en það nær til tveggja starfsstöðva borgarinnar, Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Barnaverndar Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðinni er lokað klukkutíma fyrr alla virka daga en skrifstofu Barnaverndar er lokað eftir hádegi á föstudögum. Bakvakt og neyðarþjónustu hefur verið sinnt með sama hætti og áður utan hefðbundins opnunartíma.

Nú liggja fyrir niðurstöður eftir fyrsta árið og þær benda til jákvæðra áhrifa verkefnisins. Betri líðan og starfsánægja mælist marktækt meiri á tilraunavinnustöðunum en samanburðarstaðnum. Sömuleiðis dregur úr veikindum á tilraunavinnustöðunum en ekki á samanburðarstaðnum og engar breytingar er að merkja á hreyfingum í málaskrá hjá Barnavernd. Yfirvinna eykst hjá Barnavernd vegna bakvakta á föstudögum en ekki að öðru leyti. Almennt virðist starfsfólk hafa aðlagast verkefninu vel og ánægja ríkir með fyrirkomulagið.

Það er mat stýrihópsins sem haldið hefur utan um tilraunaverkefnið að niðurstöðurnar sýni að brýnt sé að halda verkefninu áfram og afla frekari gagna á tilraunastöðunum tveimur, mæla áhrif til lengri tíma, enda hætta á að langtímaáhrif kunni að vera önnur en þau sem mælast eftir eitt ár. Að auki leggur stýrihópurinn til að tilraunin nái til fleiri starfsstöðva borgarinnar og verður slík tillaga lögð fram á næstu vikum. Jafnframt er lagt til að farið verði í samstarf við háskólasamfélagið um frekari rannsóknir, þar á meðal að kanna áhrif verkefnisins á heimilishald og fjölskylduaðstæður. Enn fremur verði óskað eftir samstarfi við starfshóp ríkisstjórnarinnar um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar sem senn hefur störf.

Ríki, sveitarfélög og stéttarfélög eiga að hjálpast að því styttri vinnuvika er hagur okkar allra. Það er því til mikils að vinna.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. maí 2016. Meðhöfundar: Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, og Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB.

Stytting vinnuvikunnar í Reykjavík

Nú um mánaðamótin hefst afar spennandi tilraunaverkefni í Reykjavík um styttingu vinnudags án launaskerðingar. Verkefnið nær til tveggja starfsstaða borgarinnar; annars vegar Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og hins vegar Barnaverndar Reykjavíkur. Þjónustumiðstöðin mun loka klukkutíma fyrr alla virka daga en skrifstofa Barnaverndar verður lokuð eftir hádegi á föstudögum. Bakvakt og neyðarþjónustu verður sinnt með sama hætti og áður utan hefðbundins opnunartíma.Markmiðið með tilraunaverkefninu er að kanna áhrif á vellíðan og starfsanda starfsmanna og þjónustu starfsstaðanna, bæði með tilliti til gæða og hagkvæmni. Þessir tveir tilteknu starfsstaðir voru valdir eftir mikla yfirlegu og var m.a. horft til þess að á báðum stöðum hefur starfsfólk unnið undir miklu álagi síðustu misseri.

Sífellt fleiri hafa á undanförnum árum talað fyrir styttingu vinnuvikunnar og ekki að ástæðulausu. Íslendingar vinna að jafnaði nokkrum klukkustundum lengur en aðrir Norðurlandabúar í viku hverri og þá hefur verið sýnt fram á að starfsánægja og afköst starfsfólks aukast hlutfallslega með styttri vinnutíma. Styttri vinnudagur getur þannig orðið ein leið til að auka framleiðni, öllum til hagsbóta.

Víða hefur tekist að stytta vinnuvikuna án þess að það hafi teljandi áhrif á afköst eða launakostnað. Það er því í raun lítið því til fyrirstöðu að skoða hvort slíkar aðgerðir séu framkvæmanlegar hér á landi. Það skref hefur Reykjavíkurborg nú stigið fyrst allra sveitarfélaga hér á landi að því er við best vitum.

Fjölskylduvænt samfélag og langur vinnutími fara ekki saman. Þess vegna bindum við sem störfum ásamt embættismönnum í stýrihóp tilraunaverkefnisins miklar vonir við verkefnið sem mun standa a.m.k. fram á haust þegar ákvörðun verður tekin um framhaldið með hliðsjón af reynslunni. Við vonumst til þess að hægt verði að taka stærri skref þegar tilraunaverkefninu lýkur svo koma megi á fjölskylduvænna samfélagi og tryggja aukinn jöfnuð og lífsgæði.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. mars 2015.

Svínað á atvinnulausum

Nú um áramótin styttist réttur fólks til atvinnuleysisbóta, en á sama tíma verða veiðigjöld á útgerðina lækkuð og auðlegðarskatturinn afnuminn. Áfram mokar ríkisstjórnin undir þá sem nóg hafa milli handanna, en þyngir byrðar þeirra sem minna hafa á milli handanna.

Um er ræða einn af niðurskurðarliðum fjárlagafrumvarpsins sem ríkisstjórnarflokkarnir tveir samþykktu skömmu fyrir jól. Fyrirvarinn á þessum breytingum er óboðlega stuttur og bitnar aðgerðin á um 500 manns strax 1. janúar. Þá vekur athygli að tryggingargjaldið sem notað er til að fjármagna atvinnuleysistryggingarsjóð er ekki lækkað í takt við þessa skerðingu.

Margar vondar ákvarðanir

Styttingin á hámarksgreiðslutímabili atvinnuleysisbóta fékk ef til vill minni athygli en ella enda hefur verið af nógu að taka þegar kemur að vondum áherslum og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Mál eins og þetta einfaldlega týnist innan um alla hina vitleysuna á borð við heilbrigðiskerfi í upplausn, matarskatt, ferðamannapassa, nýja höfuðborg í Skagafirði, niðurskurð á RÚV, bókaskatt og þá gölnu ákvörðun að meina 25 ára og eldri aðgang að framhaldsskólum. Þessi upptalning er ekki tæmandi.

Glórulaus pólitík

Næstum því tíundi hver skjólstæðingur Vinnumálastofnunar missir bótaréttinn um áramótin og þá áætlar ASÍ að allt að 1500 manns missi rétt til atvinnuleysisbóta á árinu 2015.  Vandi fólks án atvinnu leysist ekki með þessum breytingum. Þetta virkar ekki sem hvati fyrir fólk að leita sér að vinnu. Þvert á móti. Og kostnaðurinn gufar heldur ekki upp. Ljóst er að fleiri munu nú njóta fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögunum en áður vegna þessarar breytingar. Samband íslenskra sveitarfélaga telur að á næsta ári muni aukinn kostnaður vera um hálfur milljarður króna, en nú þegar er kostnaður sveitafélaganna við fjárhagsaðstoð fimm milljarðir á ári, þar af tæpir þrír í Reykjavík.

Það sér hver heilvita maður að hér er gengið afar harkalega fram auk þess sem fyrirvarinn af breytingunum er alltof stuttur. Það er orðið löngu ljóst að sitjandi ríkisstjórn vinnur ekki að því að dreifa hinni margumtöluðu köku jafnt heldur eiga þeir sem þurfa ekki á því að halda alltaf að fá meira og meira. Það er glórulaus pólitík hjá ríkisstjórn ríka fólksins.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. desember 2014.

Gestrisin borg

Dóra Magnúsdóttir skrifar:

Dóra MagúsdóttirÁ nýliðnu málþingi um ferðaþjónustu í Reykjavík fjallað virtur ferðamálafrömður frá Vancouver m.a. um að borgir ættu ekki að stefna að því að verða góðar ferðamannaborgir. Hinsvegar ætti að kappkosta að því að búa til góðar borgir. Punktur. Góð borg fyrir íbúa hennar verður ósjálfrátt eftirsóknarverður áfangastaður fyrir gesti. Ferðamenn vilja hitta og sjá heimamenn á nýjum áfangastað og kynnast siðum þeirra og menningu.  Þess vegna er mikilvægt, þegar kemur að ferðaþjónustu, að huga að þróun borgarinnar út frá þörfum íbúa hennar. Það er í anda félagslegrar sjálfbærni.

Þegar sjálfbærni ber á góma dettur mörgum í hug náttúruvernd af ýmsu tagi, en sjálfbærni snýr líka að félagslegum og efnhagslegum þáttum. Þar er reynt að halda neikvæðum áhrifum á umhverfi og menningu þeirra áfangastaða sem heimsóttir eru í lágmarki.  Að sama skapi er lögð áhersla á að ferðamenn leggi sitt af mörkum til uppbyggingar atvinnutækifæra. Markmið sjálfbærrar ferðaþjónustu er m.a. að þær breytingar sem verða á samfélögum vegna ferðamannanna verði eins jákvæðar og unnt er fyrir íbúana,  ferðamennina sem og fyrirtækin sem þjóna þeim.

Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein í Reykjavík og íbúarnir hafa orð á sér fyrir gestrisni. Erlendir gestir eru hluti af mannlífinu og vegna þeirra njótum við meiri og betri þjónustu af ýmsu tagi í Reykjavík; fleiri veitingastaða, fjölbreyttari menningar, viðburða og afþreyingar af ýmsu tagi. Í ljósi þess hve vel hefur tekist að fá ferðamenn til landsins utan háannar er ástæða til að rifja upp að ekki eru mörg ár síðan  sumir veitingastaðir í miðbænum lokuðu eftir áramótin vegna ládeyðu.  Það hefði þótt út í hött í byrjun árs 2014. Ferðamenn skila miklum tekjum til borgarinnar en nýta að sama skapi ekki þá kostnaðarliði sem eru borgum dýrastar, svo sem velferðar- og skólamál. Þannig eru ferðamenn eftirsóknarverðir gestir í borgum.

Vöxtur ferðaþjónustunnar hérlendis hefur verið töluvert örari en í öðrum Evrópulöndum. Vegna fámennis hérlendis ber oft meira á þeim en í stærri borgum, sérstaklega að sumarlagi. En það er mikilvægt fyrir Reykvíkinga að muna að ferðamennirnir eru aufúsugestir sem leggja mikið af mörkum inn í okkar samfélag. Að sama skapi er mikilvægt fyrir borgaryfirvöld að hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna í borginni.

Samfylkingin vill huga að sjálfbærri uppbyggingu ferðaþjónustu í Reykjavík. En auka einnig hlut ráðstefnugesta og hvataferða, halda áfram að efla vetrarferðamennsku og leitast þannig við að jafna árstíðasveiflu greinarinnar.  Að sama skapi er mikilvægt að huga að því að dreifa álaginu af ferðaþjónustunni á stærra svæði út frá miðborginni og leitast þannig við að stækka það svæði sem er miðbæjartengt.  Uppbygging ferðaþjónustu til austurs leiðir af sér jákvæða þjónustu fyrir íbúa hverfa utan miðborgarinnar. Í þessu samhengi er fyrirhuguð uppbygging hótela til austurs í samstarfi við íbúa og hverfisráð umfram þá sem nú er þegar fyrirhuguð í miðborginni.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu

Öflugt atvinnulíf í Reykjavík

Dóra Magnúsdóttir skrifar:

Dóra

Það er mikilvægt verkefni fyrir stærsta sveitarfélag landsins að hlúa að uppbyggingu atvinnulífs, nýsköpun og rannsóknum. Reykjavíkurborg á að vera forystuafl á Íslandi í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyrirtæki, fjárfestingu, vinnuafl og ferðamenn.

McKinsey skýrslan, sem kynnt var árið 2012, kynnir leiðir til aukins hagvaxtar. Í henni segir að sjálfbær hagvaxtaráætlun verði að ná til allra atvinnuvega og þurfi að fela í sér aukna skilvirkni í innlenda þjónustugeiranum, auka þurfi virði takmarkaðra auðlinda og efla alþjóðlegra atvinnustarfsemi – sem er forsenda heilbrigðs viðskiptajöfnuðar. Nauðsynlegar sé að efla skilvirkni þjónustu- og útflutningsgreina og auka virði útflutnings sem byggir á náttúruauðlindum, t.a.m. með opnun hagkerfisins, bættu aðgengi að áhættufjármagni, úrbótum í menntakerfi, o.fl. í þeim tilgangi að á Íslandi verði viðskiptaumhverfi samkeppnishæft á heimsvísu.

Leiðir til úrbóta í þessum málaflokki eru takmörkunum háðar á sveitarfélagastiginu en mikilvægt er að Reykjavíkurborg starfi í þessum anda og leggist á sveif með opnun hagkerfisins og samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi. Samfylkingin vill skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulífið í borginni og stuðla að stofnun og rekstri nýrra fyrirtækja með áherslu á fjölbreytni, þekkingu, skapandi greinar og græna hagkerfið.

Sömuleiðis vill Samfylkingin hlúa að ferðamannaborginni Reykjavík og huga að sátt atvinnugreinarinnar við samfélagið. Ör vöxtur ferðaþjónustu getur kallað á of litla framleiðni, óarðbæran rekstur og neikvæða upplifun borgarbúa. Með  markvissri stefnu er hægt að skapa hagkvæm skilyrði fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og leggja grunn að jákvæðari upplifun íbúa borgarinnar og ferðamannanna sjálfra sem er grunnþáttur í hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Öflug menntun, hátækni og rannsóknir skipta miklu máli fyrir fjölbreytt atvinnulíf. Samfylkingin vill leggja áherslu á uppbyggingu sem krefst hugvits og hátækni og ber í sér kraftmikinn hvata til nýsköpunar og þróunar. Þrátt fyrir gjaldeyrishöft er mikilvægt fyrir Reykjavíkurborg að laða að og auka innlenda og erlenda fjárfestingu og gefa í með markaðssetningu borgarinnar á þeim grunni.

Hlúa þarf að félagslegum þáttum íbúa Reykjavíkur en það er ekki síður mikilvægt að borgin leggist á sveif með atvinnulífinu til að skapa öfluga umgjörð um fjölbreytt störf fyrir Reykvíkinga.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu.

Borg launajafnréttis

Árið er 2014 og hér á landi ríkir ekki raunverulegt jafnrétti. Kynbundið ofbeldi er enn útbreytt. Konur eru enn í minnihluta í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Þá er óútskýrður launamunur kynjanna enn til staðar sem gerir það að verkum að íslenskar konur eru á starfsævi sinni hlunnfarnar um margar milljónir króna. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins og á hún að beita sér að fullum þunga við að uppræta það mein sem kynbundinn launamunur er á íslensku samfélagi.

Hann fær hærri laun

Dóttir mín er þriggja ára og vel má hugsa sér að hún verði samferða skólabróður sínum af leikskólanum gegnum lífið og upplifi samskonar hluti – þar sem þau verða sjö ár í Fossvogsskóla, eigi sömu vinina, æfi hand- og fótbolta með Víkingi, verði þrjú ár í Réttarholtsskóla, fari í sama menntaskólann og ljúki sama háskólanámi. Það er grátlegt að hugsa til þess að þrátt fyrir sama bakgrunn, reynslu og menntun eru raunverulegar líkur til þess að hann muni fá hærri laun en hún fyrir sambærilegt starf. Ef ekkert breytist mun uppsafnaður launamismunur að starfsævi þeirra lokinni nema skuggalega háum upphæðum. Þessu verður að breyta.

Borgin sýni gott fordæmi

Reykjavíkurlistinn beitti sér gegn kynbundnum launamun hjá borginni og dró þá verulega saman með kynjunum, en þrátt fyrir það er launamunurinn enn til staðar líkt og kannanir sýna. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokks tók alvarlega niðurstöðum sem sýndu að konur sem starfa hjá borginni fá lægri laun en karlar. Í framhaldinu var fyrir hálfu ári sett upp metnaðarfull áætlun um aðgerðir gegn kynbundnum launamun sem fylgja verður eftir. Innleiða þarf svokallaðan jafnlaunastaðal sem aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við að koma á og viðhalda launajafnrétti. Höfuðborgin á að ganga fram með góðu fordæmi og mun Samfylkingin beita sér fyrir því á komandi kjörtímabili.

 

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu.