Reykjavík er okkar allra

Já, hún er okkar allra. Margbreytileiki er það fyrsta sem kemur upp í hugann – þar er rými fyrir alla, sama hvernig við erum og sama hvaðan við komum. Það er ekki draumsýn að vilja sjá góða borg betri, það er eðli borgar að þróast og vera í stöðugri endurnýjum á öllum sviðum. Ég vil að Reykjavík verði áfram fyrirmynd og hvatning fyrir önnur sveitarfélag þegar kemur að því að gera vel við sína íbúa.

Mannréttindaborgin

Reykjavíkurborg hefur aukið framlög til velferðarmála og eflt mannréttindi og þar á Reykjavík að vera áfram fremst í flokki. Ég á þann draum að Reykjavík verði skilgreind sem mannréttindaborg, þar sem mannréttindi og virðing fyrir manneskjum verði það stef sem gangi í gegnum alla þjónustu við borgarbúa, alla stefnumörkum og áætlanir – það sé ein af stoðunum sem við stöndum á.

Mér er umhugað um hag barna og fjölskyldna þeirra. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni með þeirra hagsmuni í huga, geta gripið inn í sem fyrst með stuðningi og fræðslu, fjölskylduaðstoð og sérstökum stuðningi til þeirra barna sem slíkt þurfa. Við viljum byrgja brunninn. Það þarf að efla markvissa vinnu gegn kvíða barna og ungmenna, styrkja sjálfsmyndina og tryggja alla faglega aðstoð til þeirra.

Með kynjagleraugun á nefinu

Við þurfum líka alltaf að vera á vaktinni vegna margþættar mismununar og því væri mannréttindavottun fyrir stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar jákvætt skref. Kynjagleraugun þurfa alltaf að vera á nefinu – þar verður alltaf að halda vöku sinni því ekkert er sjálfgefið í þeim efnum. Höldum áfram að útrýma kynbundum launamun, þar til hann er allur!

Höldum áfram að vera með áberandi forystu í jafnréttis- og kvenfrelsismálum og hugum að jafnrétti kynjanna í allri þjónustu þannig að hún nýtist öllum jafnt. Þróum áfram kynjaðar fjárhagsáætlanir þannig að við sjáum í raun hvar fjármagnið nýtist og höldum áfram á þeirri vegferð að útrýma kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í starfsumhverfi borgarinnar.

Áfram gegn ofbeldi

Ofbeldi og varnir gegn ofbeldi í öllum myndum á að vera forgangsmál, alltaf. Það verður haldið áfram á þeirri farsælu braut sem þegar hefur verið mörkuð af Ofbeldisvarnarnefnd, t.d. með tilkomu Bjarkahlíðar, miðstöðvar þolenda ofbeldis. Áfram þarf að vinna gegn öllu ofbeldi hvar sem er í borginni, hvort sem það er á götum úti, á skemmtistöðum eða á heimilinu. Gerum góða borg betri. Áfram Reykjavík!

Greinin birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 9. maí 2018

 

Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vegna vistheimila og fyrrverandi þingkona, skipar 7. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík