Gætu börnin þín lært að lesa á pólsku?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8.2.2018

Undanfarin ár hefur innflytjendum í Reykjavík fjölgað gífurlega. Þetta fólk kemur hingað til að vinna, tilbúið að leggja sig fram og greiðir sína skatta frá fyrsta degi. Þetta fólk eins og það er stundum kallað, kemur hins vegar ekki bara sem „vinnuafl“ heldur eru þetta manneskjur, fjölskyldur með börn og þessara barna bíður að ganga í gegnum íslenskt skólakerfi. Því miður virðist þróunin vera sú að hátt hlutfall þeirra barna sem hingað koma með erlendum foreldrum nær ekki að komast áfram í framhaldsskóla. Þetta er mikill skaði fyrir marga einstaklinga, en ekki síður fyrir íslenskt samfélag. Á þessum vanda verður að taka föstum tökum á næstu árum ef ekki á illa að fara fyrir bæði einstaklingum og okkar samfélagssáttmála.

Leik- og grunnskólar Reykjavíkur hafa vissulega unnið margt afrekið við að taka á móti börnum með erlent móðurmál en betur má ef duga skal. Á líðandi kjörtímabili hefur verið reynt að styðja við móðurmálskennslu ungra barna með erlent móðurmál, því þau eiga við ramman reip að draga þegar kemur að því að geta lesið sér til gagns. Við vitum að íslensk börn eiga orðið nokkuð erfitt með lestrarnám ef marka má síðustu PISA-kannanir. Það eru flóknar ástæður þar að baki, ekki bara kennsluaðferðir og skólar, heldur einnig hlutverk lestrar og bóka inni á heimilunum.

Allt snýst þetta um læsi

En hvernig ætli íslenskum börnum gengi lestrarnámið ef þau lærðu að lesa pólsku en ekki íslensku? Líkast til ekki vel. Rannsóknir í þessa veru hafa sýnt að börn eiga ekki aðeins auðveldara með að læra að lesa á móðurmálinu. Þau eiga líka auðveldara með að læra annað mál á grundvelli móðurmálsins. Þetta er þekking sem við eigum að nýta okkur við skipulagningu skólastarfs á næstu árum því ljóst er að fjöldi barna með erlent móðurmál fer hraðvaxandi í íslenskum skólum og skólarnir verða að fá stuðning og þekkingu til að takast á við þá áskorun.

Við höfum þegar lagt grunn að slíku starfi á þessu kjörtímabili, en nú ríður á að málin verði tekin föstum tökum í samráði við foreldra, kennara og skólastjórnendur.

Tvítyngi er fjársjóður

Á þessu kjörtímabili höfum við m.a. dæmis innleitt gjaldfrjálsa frístund í þrjá mánuði fyrir börn sem eru nýflutt til landsins. Við höfum tvöfaldað framlag til íslenskukennslu barna af erlendum uppruna. Við höfum tvöfaldað þróunarsjóð skóla- og frístundasviðs með mikla áherslu á fjölmenningu. En einnig höfum við ráðið móðurmálskennara og brúarsmiði. Þau styðja börn af erlendum uppruna í náminu sínu til þess að virkja þann fjársjóð sem virkt tvítyngi er. Það er skylda okkar að leyfa öllum börnum að njóta sín til fulls og leyfa þeim að þroska sína styrkleika. Og hvað getur verið meiri styrkleiki, meiri fjársjóður, en að geta talað, skrifað og hugsað á fleiri en einu tungumáli?

Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Atvinnuútlendingur í Samfylkingunni

Þegar Vigdís var kosin forseti þá vissu litlar stelpur allt í einu að þær gætu orðið hvað sem þær vildu. En hvar sjá börn af erlendum uppruna í dag innflytjendur að störfum nema að skúra í skólanum sínum?

Þegar Logi okkar Einarsson var kosinn varaformaður á Landsfundinum þá sagði einhver eitthvað eins og: „Ég þekka þennan Loga ekki neitt en systir hans var með mér í námi og pabbi hans kenndi mér og það var svo flott viðtal við frænkuna um daginn, þannig að hann er örugglega fínn.“ (Sem hann er nú reyndar). Ég hló og sagði: „Ja, það er nú ástæðan fyrir að ég sem innflytjandi fór aldrei í prófkjör.“ Svarið sem ég fékk var: „Æ, ekki láta svona, þú hefur nú komið mjög langt á því að vera svona atvinnuútlendingur í Samfylkingunni.“

Fyrst var ég pínu sár en svo hugsaði ég: Og hvað með það? Eru konur sem komast inn á kynjakvótanum að skammast sín fyrir það að við viljum ekki bara karlmenn í öllum nefndum og ráðum?

#MEtoo Kvenna af erlendum uppruna

Þið heyrðuð MeToo sögur kvenna af erlendum uppruna í fyrsta skipti núna. Ég hef hlustað á þær síðan 2004 og ég er sannfærð um það að við styrkjum þennan hóp ekki nema með því að senda skýr skilaboð út í samfélagið að við innflytjendur séum eðlilegur hluti af þessu samfélagi og höfum margt fram að færa. Sem fyrrverandi Berlínarbúi hef ég til dæmis mjög sterka sýn á borg sem er lifandi, skemmtileg og heilnæm fyrir alla. Umhverfisvernd og skólamál eru mér efst í huga og þar hef ég unnið mikið í sem varaborgarfulltrúi.

Þannig að já, ég er tilbúin að vera áfram atvinnuútlendingurinn í Samfylkingunni. Því við eigum öll heima hér og það er jafnaðarmannastefna í hnotskurn.

Valdefling. Ekki vorkunn.

Greinin birtist fyrst á Vísi, þann 30. janúar 2018.

MeToo sögur kvenna af erlendum uppruna sem birtar voru í síðustu viku vöktu athygli. Þetta voru sömu sögurnar en samt ekki. Í þeim var talað um hrottalegt ofbeldi, um niðurlægingar, um mismunun af hálfu einstaklinga og kerfisins. En það sem var öðruvísi en hjá öðrum hópum sem höfðu áður stigið fram var sú margþætta mismunun sem þessi hópur lýsir og það var líka raddleysi og alger einangrun sem margar af þessum konum upplifa.

Í okkar feðraveldi eru nefnilega ekki bara karlmenn, þar eru líka hefðir, þar er ótti við hið ókunnuga, þar er tungumál, þar eru lög og stofnanir og þar er sannfæring margra – jafnvel margra kvenna – um að jafnrétti snúist einungis um kynjajafnrétti.

Ég hef verið í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna, vann í Alþjóðahúsinu, er nú varaborgarfulltrúi og sit í stjórn Kvennaathvarfsins og barátta mín hefur farið fram á tveimur vígvöllum. Að upplýsa, styðja og styrkja konur af erlendum uppruna sem þurfa á því að halda. Til þess flutti ég til dæmis hugmyndina um jafningjaráðgjöf frá Lissabon hingað sem félagar mínir í Samtökunum hafa haldið gangandi af krafti en þar styðja konur af erlendum uppruna aðrar sem þurfa á því að halda.

Upplýsingagjöf og útrétt hönd í neyð er það sem svo margar konur af erlendum uppruna þurfa á að halda. En það þarf meira til. Það þarf bekkjarfulltrúa sem taka eftir að mæður af erlendum uppruna mæta aldrei á fundi, það þarf fyrirtæki sem líta á innflytjendur sem mannauð, ekki bara ódýrasta kostinn, það þarf innflytjendur í ábyrgðarstörfum í stéttarfélögum og opinberum stofnunum, það þarf fjölmiðla sem tala við innflytjendur um annað en bara innflytjendamál, það þarf pólitíska umræðu sem er tilbúin að gera sér grein fyrir að innflytjendur geta komið með nýrri, jafnvel ferskari sýn á hlutina sem eru oft bara eins og þeir eru að því að þeir voru það alltaf.

Það hefur ekki alltaf verið einfalt að taka til máls í opinberri umræðu og það tók ansi mikið á að ákveða að bjóða sig fram í prófkjöri en ég hvet sem flesta konur af erlendum uppruna að taka þátt í komandi sveitastjórnarkosningum og hvet alla flokka að setja upp innflytjendagleraugun eins og við höfum lært að setja upp kynjagleraugun.

Höfundur er varaborgarfulltrúi og frambjóðandi í flokksvali Samfylkingarinnar

Hefur þú mannslíf á samviskunni?

Birtist fyrst í Stundinni  þann 15. mars 2016

“Meira en tíu þúsund flóttabörn hafa horfið eftir komuna til Evrópu. Óttast er að þau hafi fallið í hendur glæpagengja og verið seld mansali” hljómaði úr útvarpi allra landsmanna um dagin. Lengi vel hélt fólk að þrælasala væri eitthvað sem viðgekkst fram á byrjun 20 aldar en fjaraði svo út, vondu mennirnir sem við höfum séð svo margar bíómyndir um sem rændu fólki í afríku og seldu.  Það var hryllingur rétt eins og þrælahald í dag og því miður er það svo að nú eru fleiri þrælar en voru þegar þrælahald var löglegt. Alþjóða vinnumálastofnunin(ILO) segir að í dag séu 21 milljón manns í þrældómi og að fjöldinn hafi nær tvöfaldast á síðustu 10 árum. Ríflega helmingur er konur og stúlkur og helmingur þeirra er seldur til kynlífsglæpamanna,  fjórðungur þræla í heiminum eru börn.  Gróðinn af þessari starfsemi er eitthvað um 20.000.000.000.000 á ári -20 þúsund milljarðar ! sem er eins og kostar að reka Ísland í 31 ár.  Mansal sagt arðbærasta glæðastarfsemi samtímans og álíka algeng og vopna og eiturlyfjasala. Framboð á fólki í neyð er mikið og ódýrt að flytja það milli landa og eftirspurn er þannig að auðvelt er að selja, jafnvel oft sömu manneskju. Ríkisstjórnir norðurlandanna hafa lagt á það áherslu að vinna gegn þessari glæpastarfsemi og Ísland er þar á meðal þó við séum í þessum samanburði langt á eftir nágrannaþjóðum okkar. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn mansali felur í sér að unnið verði að forvörnum, aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb, rannsókn mansalsmála og samstarf, samráð og mat á árangri. Fram hefur komið fram að lögregla hafi ekki fengið fjárveitingu vegna aðgerðaráætlunar gegn mansali og að lögreglumenn hafi sinnt fræðslu um mansal í frítíma sínum.  Ísland var enda gagnrýnt í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins á síðasta ári fyrir slaka frammistöðu í baráttunni gegn mansali. Í erindi Line Barfod, dansks lögfræðings, á dögunum kom fram að meðan lítil hætta er á að lögregla upplýsi mansal og refsli glæpamönnunum, þá verði til fólk sem er reiðubúið til að hneppa aðra í þrældóm. Það er því gríðarlega mikilvægt að styrkja og fræða alla aðila réttargæslukerfisins um mansal og eðli þess. Sá sem er seldur mansali er sjaldnast í sýnilegum hlekkjum og algengt er að um sé að ræða flókið samand ofbeldismans og fórnarlambs sem jafnvel er ekki er viljug til samstarfs við að uppræta brotið. Stundum af ótta við refsingu eða öryggi ættingja sína. Mansalinn hefur kannski neytt viðkomandi til að brjóta lög eða heldur henni í óvissu um sína eigin réttarstöðu eða viðkomandi treystir ekki yfirvöldum.

Við vitum að mansal viðgengst á íslandi, það vakti til að mynda óhug þegar lögregla frelsaði þrjár konur úr kjallara á dögunum og fram hefur komið að tugir mansalsmála eru til rannsóknar hjá lögreglunni hérlendis um þessar mundir.  Hérlendis hefur komið upp grunur um mansal m.a.  í fiskvinnslu, ferðaþjónustu, byggingariðnaði, vændi, heimilishjálp, bakaríi, veitingastað,skemmtistað og margskonar glæpastarfsemi. Við stuðlum einnig að þrælasölu með þeim vörum sem við kaupum því hætt er á eitthvað af þeim vörum sem við kaupum séu framleiddar af þrælum í sem fá lítið eða ekkert greitt fyrir vinnu sína og leggja líf sitt jafnvel í hættu við óviðunandi aðstæður.

Við þurfum eiginlega öll að fræðast um mansal og láta vita ef okkur grunar eitthvað, ef manneskja hagar sér undarlega, er ekki með vegabréf eða skilríki gæti hún verið fórnarlamb mansals og þá er mikilvægt að láta lögreglu vita. Við sem samfélag þurfum að ákveða að standa með fórnarlömbum mansals og veita þeim þá vernd og hjálp sem þau eiga skilið burtséð frá uppruna eða stöðu á íslandi. Kvennaathvarfið hefur tekið að sér að veita konum skjól og hjálp þó það sé eiginlega neyðarúrræði en engin úrræði eru til fyrir karla eða börn sem seld hafa verið mansali sem er bagalegt þar sem nokkuð öruggt getur talist að hingað koma einnig karlar og börn sem hafa verið seld. Rauði krossinn hefur komið að stuðningi við fórnarlömb en óvissa er um félagsþjónustu samstarf og slípa þarf það til að sá einstaklingur sem verður fyrir þessum hryllilega glæp hérlendis geti gengið að því vísu að fá hjálp.

Til að ráðast að rót vandans þyrfti auðvitað að útrýma fátækt og misskiptingu í heiminum þannig að hver einasta manneskja fengi þá virðingu og þann aðbúnað og tækifæri í lífinu sem hún á skilið. Meðan það er ekki þannig þurfum við að krefjast þess að þær vörur og matvæli sem okkur stendur til boða séu framleidd við viðunandi aðstæður og ekki af þrælum.  Við verðum að hætta að líta á það sem eðlilegt að hægt sé að kaupa aðgang að líkama fólks í hvaða tilgangi sem er og við þurfum að opna augun fyrir því sem viðgengst í kringum okkur og segja STOPP. Þrælahald var bannað fyrir rúmri öld síðan og það er hægt að stöðva það ef við tökum öll höndum saman – það á enginn að hagnast á neyð annarra hvort sem er meðvitað eða bara með því að standa á sama.

Framsókn hatursins

Afar ógeðfelld og óvægin umræða fór fram um múslima og byggingu mosku í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í maí síðastliðnum. Upphafið má rekja til umdeildra ummæla oddvita Framsóknarflokksins. Umræðan sem fór af stað í kjölfarið var mun grófari í garð múslima en þekkst hefur. Ein af ástæðunum er vafalítið sú að opinberar persónur – frambjóðendur til borgarstjórnar og áhrifafólk – gáfu umræðunni samfélagslegt samþykki  með orðum sínum og gjörðum. Það er í það minnsta niðurstaða umfangsmikillar greiningar á hatursorðræðu í ummælakerfum íslenskra netfréttamiðla sem Bjarney Friðriksdóttir, doktorsnemi í Evrópulöggjöf, vann að frumkvæði mannréttindaráðs Reykjavíkur og var nýverið kynnt. Greininguna má nálgast á vef Reykjavíkurborgar www.reykjavik.is.

Hótað lífláti

Sá hluti úttektarinnar sem snýr að moskumálinu byggir á um tæplega 6000 ummælum. Þar má finna ummæli sem gætu verið skilgreind sem hatursorðræða samkvæmt almennum hegningarlögum, t.a.m. var fyrrverandi formanni Félags múslima á Íslandi hótað lífláti. Á umræðuþráðum eru ummæli sem einkennast af ný-rasisma, kynþáttahyggju og þjóðernishyggju. Rauður þráður í þessum ummælum er að hættulegt sé að leyfa byggingu mosku, það muni leiða til þess að múslimum fjölgi gríðarlega mikið og að þeir muni taki að lokum yfir landið. Í mörgum tilfellum settu þátttakendur inn slóðir á myndbönd sem ætlað er að sýna fram á slæmar afleiðingar þess að leyfa múslimum að búa á Íslandi og byggingu mosku.

Samfélagslegt samþykki áhrifafólks

Upphaf þessarar ógeðfelldu umræðu má rekja til ummæla oddvita Framsóknarflokksins, en framboð flokksins mældist ekki með mann inni í skoðanakönnunum þegar þau féllu. Það breyttist skömmu eftir að umræðan hófst og skilaði að lokum tveimur sætum í borgarstjórn Reykjavíkur. Kjörnir fulltrúar Framsóknarflokksins, þar á meðal ráðherra jafnréttismála, tjáðu sig ekki um málið í langan tíma og leyfðu þannig umræðunni að grasera.

Óstjórntækur flokkur

Þögn forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins var æpandi. Þegar hann loksins tjáði sig um málið var innihaldið afar rýrt. Hann hafnaði ekki málflutningi oddvitans og sagði þess í stað umræðuna hér á landi ekki nógu frjálslynda og að mjög fáir stjórnmálamenn þyrðu að ögra og vekja athygli á málum sem skipta máli.

Skömm Framsóknarflokksins er mikil. Þrátt fyrir fjölmörg tækifæri og úrsagnir úr Framsóknarflokknum hefur flokksforystan og flokkurinn ekki gert hreint fyrir sínum dyrum. Réttast væri að Framsóknarflokkurinn bæðist formlega afsökunar. Framsóknarflokkurinn er ekki stjórntækur eins og málin standa og er í rauninni ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki gert athugasemdir við þetta útspil samstarfsflokksins í ríkisstjórn.

Fjölbreytt þjóðfélag

Íslenskt þjóðfélag er fjölbreytt og því ber að fagna. Að mati mannréttindaráðs Reykjavíkur er mikilvægt að uppræta hinar ýmsu staðalmyndir m.a. þjóðerna og trúarbragða, líkt og fram kemur í bókun ráðsins í tilefni af útgáfu greiningarinnar. Til þess þarf að efla fræðslu, umræðu og temja sér virðingu gagnvart samborgurum sínum. Virðingarvert væri ef Framsóknarflokkurinn gerði einmitt það og bæðist afsökunar á hlut sínum í moskumálinu.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. ágúst 2014.

Orðum fylgir ábyrgð

SABINE LESKOPF SKRIFAR:

ZP7A9769Undanfarna daga hefur öfgafull umræða átt sér stað sem oddviti Framsóknarinnar kveikti  með orðum sínum. Orðið rasismi hefur fallið oftar en einu sinni, en það á ekki við hér, því umræðan snýst ekki um ákveðinn kynþátt heldur ótta við hið ókunna, sem er ein af frumhvötum mannsins. Við erum hrædd við það sem við þekkjum ekki eða höfum mjög óljósar hugmyndir um. Þessa hvöt hyggst Framsóknarflokkurinn nú nýta sér í örvæntingu sinni og kjördagurinn leiðir í ljós hvort fólk lætur afvegaleiða sig á þennan hátt. En það er eitt sem kemur ofar í hugann en atkvæðin á laugardaginn og það eru afleiðingar þessarar umræðu.

Hvað þýðir það að fólk talar um málefni múslíma og þar af leiðandi málefni innflytjenda almennt á þennan hátt í kaffistofum landsins, við kvöldmatarborðið fyrir framan börnin sín? Hvaða áhrif hefur þetta á börn sem heyra foreldra sína tala svona, fullir af áhyggjum og ótta? Hvernig taka þessi börn svo á móti börnum af erlendum uppruna í skólanum næsta dag? Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að börn af erlendum uppruna verða nú þegar fyrir einelti í meiri mæli en önnur börn. Er oddviti Framsóknarflokksins virkilega tilbúinn að kaupa sér atkvæði á kostnað þeirra?

Þann 10. maí var haldið upp á Fjölmenningardag Reykjavíkurborgar þar sem við fögnuðum fjölbreytileikanum, þetta er borg eins og við viljum hafa hana, borg sem er litrík og skemmtileg, sem ber virðingu fyrir öllu því jákvæða sem fólk flytur með sér alls staðar að úr heiminum. En einn dagur á ári er ekki nóg. Samfylkingin vill gera alla daga ársins að fjölmenningardögum og bjóða öllum börnum samfélag sem skiptir þeim ekki í fyrsta og annan flokk.

Greinin birtist upphaflega á vísir.is