Nýtt Breiðholt – Nýtt samfélag

Kynni mín af Breiðholtinu hófust árið 1986 þegar ég fór að æfa sund með Sundfélaginu Ægi, í Breiðholtslaug, tæplega níu ára gömul. Sem barn hjólaði ég úr Kópavogi, um undirgöngin í Mjóddina, eftir göngustígum hverfisins upp í sundlaug. Ræturnar gagnvart hverfinu voru lagðar, og liggja enn, víða um hverfið. Ég vissi ekki þá, að ég myndi sjálf enda sem íbúi í hverfinu, að ungarnir mínir myndu hjóla um sömu göngustíga og ég gerði forðum og að maðurinn minn yrði uppalinn Breiðhyltingur.

Oft þróast hverfi hraðar en kerfin sem þjónusta þau og það má segja um Breiðholtið. Mér finnst ásýnd hverfisins hafa breyst meira síðustu árin en öll árin þar á undan. Breiðholtið, sem ég þekkti og upplifði sem barn, hefur elst og þroskast. Þegar ég flutti í hverfið var viðhaldi víða ábótavant, eins og við skóla og leikskóla, og víða í samtölum upplifði ég vissa vanþekkingu og fordóma gagnvart hverfinu. Á þessum árum sem liðið hafa, eru fleiri en ég sem hafa séð tækifærin sem hverfið býður upp á, enda mikil og jákvæð uppbygging átt sér stað síðustu árin.

Mér finnst grettistaki hafa verið við lyft uppbyggingu innviða og í ásýnd hverfisins síðustu árin. Aðbúnaður sem ég og börnin mín höfum notið góðs af, eins og endurbætur við leiksskóla og skólalóðir. Nýjum leiktækjum hefur verið komið fyrir á skólalóðum og grænum svæðum innan hverfisins. Gervigrasvellir hafa risið og eru vinsælir viðkomustaðir krakka í hverfinu. Græn svæði hafa verið fegruð eftir ábendingum íbúa í gegnum Betri Reykjavík að ógleymdum tveimur frisbígolfvöllum sem eru vinsælir yfir sumarmánuðina.

Hjarta Breiðholtsins

Hjarta Breiðholtsins, að mínu mati, slær í sundlauginni. Laugina hef ég sótt frá blautu barnsbeini og má segja að laugarsvæðið hafi tekið stakkaskiptum, vatnsgufa, endurbættir klefar, kaldi potturinn handan við hornið og nýjasta viðbótin, heilsurækt í hjarta hverfisins. Þvílík lyftistöng fyrir hverfið og íbúa þess.

Fyrir utan sundlaugina er Elliðaárdalurinn sem er minn uppáhaldsstaður. Nálægð Breiðholtsins við dalinn, Árbæjarsafnið, uppbygging göngu- og hjólastíga síðustu ár, tengingin við náttúruna og fuglalíf er ómetanleg. Það eru forréttindi að búa í borg en á sama tíma hafa aðgang að þeirri náttúruperlu sem Elliðaárdalurinn er. Það eru lífsgæði sem seint verða metin til fjár. Heilsurækt er geðrækt. Að hafa góðan aðgang að heilsurækt í göngu- og hjólafjarlægð eru ein bestu lífsgæði sem völ er á.

Fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf innan hverfis

Mjög öflugt íþrótta- og tómstundastarf er í hverfinu og hefur bæst við flóruna frá því að ég naut góðs af starfinu. Barnafólk hverfisins veit hversu gott aðgengi ungviðið hefur að fjölbreyttu og skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi innan hverfis en skipulagt starf fyrir börn og ungmenni er ein allra besta forvörn sem völ er á. Haustið 2016 lagði ég upp í vegferð til að tryggja uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði ÍR við Suður Mjódd, þannig að börnum hverfisins og komandi kynslóðum yrði tryggður aðgangur að fjölbreyttu íþróttasvæði um ókomna tíð. Samningur var undirritaður í ársbyrjun 2017 um uppbyggingu mannvirkja á landsvæðinu.

Aðbúnaður fyrir ungviði hverfisins eru mér hjartans mál og ég veit að mikil vinna hefur verið innt af hendi til að keyra framkvæmdir í gang, bæði af hálfu borgarinnar og forsvarsmanna ÍR. Breiðhyltingar eins og ég, hafa sýnt mikið langlundargeð í gegnum árin og við vitum öll að biðlundin er komin að þolmörkum. Það væri óskandi að skóflustunga yrði tekin sem fyrst og framkvæmdum þar með ýtt úr vör. Með vonina að vopni hef ég fulla trú á að þessar efndir verði að veruleika.

Það besta við Breiðholtið

Það besta við Breiðholtið finnst mér samt vera allur félagsauðurinn, fólkið, fjölbreytt menning og sýnileiki hennar. Það er ómetanlegt veganesti fyrir börn okkar allra og komandi kynslóðir að fá tækifæri til að alast upp í iðu margbreytileika. Það er gott að heyra ólík tungumál, kynnast því að heimurinn er stærri en bakgarðurinn heima og læra að við séum einstök á meðan við erum eins.

Breiðholt fyrir komandi kynslóðir

Þann 26. maí næstkomandi gefst íbúum Breiðholtsins tækifæri til að leggja mat á verkefni liðinna ára. Spurningin er einföld. Viltu áframhaldandi uppbyggingu innviða innan Breiðholtsins, með hagsmuni barnafólks og ungmenna að leiðarljósi. Ef svarið er já þá þarf að tryggja Samfylkingunni brautargengi með því setja X við S í kosningunum 26. maí 2018.

Áfram Breiðholt – Áfram Reykjavík.

Greinin birtist í Breiðholtsblaðinu fimmtudaginn 17. maí 2018

 

Sara Björg Sigurðardóttir, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur, skipar 16. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík

 

Framtíðin er núna

Í borgarstjórnarkosningunum á laugardaginn verður kosið um þróun borgarinnar til framtíðar. Hvernig borg verður Reykjavík eftir fjögur ár, hvernig verður hún árið 2030? Verður hún vistvæn og mannvæn? Verður losun gróðurhúsaloftegunda mikil eða sama og engin í borginni? Verður Reykjavík græn eða grá? Verða hér öflugar og hraðvirkar almenningssamgöngur? Mun félagslegt misrétti aukast eða minnka í borginni? Verður gott að ala hér upp börn, verður gott að nema hér og starfa og eldast? Verður Reykjavík skemmtileg og áhugaverð borg?

Ég þykist vita að allir borgarbúar séu sammála um að vel takist til en það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir að það er langt í frá sjálfgefið. Ekkert gerist af sjálfu sér. Við þurfum að taka pólitískar ákvarðanir sem byggja á heildstæðri framtíðarsýn. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun að samþykkja bindandi stefnu um kolefnishlutlausa Reykjavík árið 2040, að hrinda af stað metnaðarfullri stefnu um borgarlínu í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðina, að gera samninga við verkalýðsfélögin um endurreisn verkamannabústaðakerfisins með því að útvega þeim kjörlóðir víðsvegar um borgina fyrir eitt þúsund íbúðir á hagstæðum kjörum. Það er pólitísk ákvörðun að fjölga leikskólum og ungbarnadeildum þannig að á næstu árum komist 12 til 18 mánaða gömul börn á leikskóla. Það er pólitísk ákvörðun að þétta borgina og gera hverfin sjálfbærari.

Einn mesti vandinn sem blasir við núna og þegar horft er til framtíðar er atgervisflótti ungs fólks frá Íslandi. Þess vegna þurfum að sjá til þess að Reykjavík þróist þannig að hún verði áfram kraftmikil, skapandi og spennandi borg fyrir ungt fólk til að búa í og starfa. Það er beinlínis lífsnauðsynlegt. Ég er sannfærður um að stefna núverandi meirihluta í borginni felur í sér mikilvæg skref í rétta átt. Unga fólkið í Reykjavík hefur sem betur fer áttað sig á þessu. Þeirra er framtíðin. Í splunkunýrri könnun Félagsvísindastofnunar kemur í ljós að hvorki meira né minna en rúm 44% Reykvíkinga á aldrinum 18 til 29 ára segjast ætla að kjósa Samfylkinguna. Áfram Reykjavík.

Greinin birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 24. maí 2018.

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, skipar 5. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Reykjavík fyrir allar fjölskyldur

Fjölskyldugerðir eru margskonar og má þar meðal annars nefna kjarnafjölskyldur, einstæða foreldra, stjúpfjölskyldur eða fósturfjölskyldur. Að tilheyra fjölskyldu getur þýtt að þú hafir fjölbreytilegar skyldur en sumir eru svo heppnir að eiga börn og aðrir eiga ömmur og afa eða aldraða foreldra. Stundum eru nánustu vinir einnig ígildi fjölskyldu. Við fögnum margbreytilegum fjölskyldugerðum í borgarsamfélagi nútímans.

Kerfi sem léttir undir

Við getum gefið okkur það að öll viljum við fjölskyldum okkar og vinum vel en í hröðu samfélag nútímans, vinnuálags og áreitis er bakið ekki alltaf nógu breitt til að sinna öllu sem við myndum helst vilja gera. Því verðum við einnig að geta treyst á opinbert kerfi og þær lögformlegu skyldur sem kerfinu ber að sinna. Kerfi sem grípur okkur þegar við þurfum á að halda, kerfi sem léttir undir með fjölskyldunni og jafnvel styður við okkur til að geta sinnt þessum ólíku störfum og skyldum sem við höfum öll, mismiklar og misþungar eftir aldursskeiðum.

Aukum stuðninginn

Við í Samfylkingunni viljum auka enn frekar stuðning við fjölskyldur og sérstaklega fjölskyldur í vanda þannig að við komum til móts við fólkið í borginni á öllum aldursskeiðum. Það yrði gert meðal annars með því bjóða upp á fjölskyldumeðferðir og börnum upp á sálfræðiþjónustu. Þá þykir okkur mikilvægt að efla stuðning við börn í námserfiðleikum ásamt því að efla stuðning við börn með raskanir eða fatlanir og fjölskyldur þeirra. Þar ætlum við að bjóða upp á þjónustu þverfaglegra teyma og stuðningsaðila. Með því móti eiga börn að geta notið styrkleika sinna í skóla, frístunda- eða tómstundastarfi og fjölskyldurnar fá stuðning til að auka líkur á að svo verði.

Menningar- og heilsukort

Reykjavík er aldursvæn borg og hefur Samfylkingin unnið ötullega að málefnum aldraðra í samvinnu við öldrunarráð. Þar leggjum við til að borgarbúar fái boð, þegar þeir hafa náð 70 ára aldri, um heilsueflandi heimsókn þar sem menningar- og heilsukort borgarinnar er kynnt ásamt því starfi sem er í boði fyrir eldri borgara í hverfinu þeirra. Við leggjum einnig til að allir íbúar 70 ára og eldri fái heimsókn frá starfsfólki félagsþjónustunnar þar sem farið er yfir öryggisþætti heimilisins með tilliti til forvarna.

Þá ætlum við einnig að koma á fót álíka korti fyrir fatlað fólk í Reykjavík, sem veitir gjaldfrjálsan aðgang að bókasöfnum og öðrum söfnum á vegum borgarinnar, sem og í sundlaugar. Fatlað fólk mun einnig fá boð um heilsueflandi heimsókn þar sem kortið er kynnt og farið er yfir hvað er í boði í nærumhverfinu sem tengist kortinu. Með þessum kynningum og heimsóknum þar sem boðið er upp á leiðbeiningar og aðstoð erum við mögulega að létta á álaginu hjá fjölskyldum og aðstandendum.

Aðgengilegri þjónusta

Þjónusta og sjálfsafgreiðsla á vegum borgarinnar á að verða aðgengileg öllum á netinu þegar unnt er og þá eiga borgarbúar að geta leitað til þjónustumiðstöðva eða þjónustuvers borgarinnar til að fá aðstoð eða leiðbeiningar vegna sjálfsafgreiðslu. Við stefnum á að bæta aðgengi að öllu húsnæði þar sem þjónusta Reykjavíkurborgar.

Gegn fátækt

Við ætlum að vinna gegn fátækt í borginni en Samfylkingin mun ekki leggja til skilyrta fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð til framfærslu er neyðaraðstoð þar sem við leggjum áherslu á að fólki sé mætt með vinsemd og virðingu. Þá skal stuðningurinn til þeirra sem fá fjárhagsaðstoð miðaður að valdeflingu einstaklingsins og fjölskyldunnar. Stuðningur við sálfélagslega þætti er mikilvægur og við munum leggja áherslu á stuðning til að komast út úr erfiðum aðstæðum.

Við viljum að borgarkerfið – hvort sem um er að ræða þjónustu, skipulag eða samgöngur – sé gert til að mæta þörfum fólksins í borginni og að fjölskyldur finni til þess að hægt sé að leita eftir stuðningi og aðstoð hjá Reykjavíkurborg við þau margvíslegu verkefni og skyldur sem mæta þeim á ólíkum aldursskeiðum lífsins.

Áfram Reykjavík fyrir allar fjölskyldur!

Greinin birtist á Kjarnanum fimmtudaginn 18. maí 2018.

Ellen Calmon, grunnskólakennari og fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins, skipar 10. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Metnaðarfull menntastefna Samfylkingarinnar

Samfylkingin hefur sett menntamál í borginni í forgang með því að auka framlög um 9 milljarða að raungildi frá 2014. Forgangsverkefni er að bæta kjör starfsfólks og vinnuumhverfi og nú liggja fyrir drög að framsækinni menntastefnu Reykjavíkur til 2030 sem þúsundir aðila í skólasamfélaginu hafa tekið þátt í að móta.

Leikskólar fyrir börn frá 12 mánaða aldri                   

Samfylkingin hefur ein flokka lagt fram raunhæfa áætlun um hvernig við brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.  Strax í haust fjölgar leikskólaplássum um nærri 200 m.a. með viðbótarhúsnæði við starfandi leikskóla og á næsta ári fjölgar þeim um 200 til viðbótar m.a. með tilkomu nýs Dalskóla.  Á árunum 2020-2024 er svo ráðgert að nýir borgarreknir leikskólar rísi á nýbygginga- og þéttingarsvæðum, á Kirkjusandi, í Vatnsmýri, Vogabyggð og víðar.  Alls fjölgar leikskólarýmum um 750-800 og þar með getum við boðið öllum 12 mánaða börnum og eldri leikskólavist í borginni innan 4-6 ára. Sjö nýjar ungbarnadeildir með sérhæfðri aðstöðu fyrir yngstu börnin bætast við í haust og verða þær þá fjórtán alls í öllum borgarhlutum. Samhliða þessu verður haldið áfram að bæta kjör og vinnuumhverfi kennara og starfsfólks leikskóla og vinna með ríkinu að því að fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám.

Öflugra dagforeldrakerfi

Við höfum líka skipulagt úrbætur á kerfi dagforeldraþjónustu í samráði við félög dagforeldra í borginni. Þær miða m.a. að því að auka gæði og öryggi þjónustunnar, tryggja húsnæðisstuðning, fagstuðning og fleira til að fjölga dagforeldrum og hvetja þá til að vinna saman í pörum og loks hækka niðurgreiðslur til foreldra.

Jöfn tækifæri allra barna

Jöfnuður í menntakerfinu er grundvallar markmið okkar jafnaðarmanna og brýnasta hlutverk okkar er að búa svo um hnútana að öll börn hafi jöfn tækifæri til menntunar og alhliða þroska en efnahagur og félagsleg staða foreldri setji ákveðnum börnum ekki stólinn fyrir dyrnar þegar kemur að tækifærum til þátttöku í fjölbreyttu skóla- og frístundastarfi.  Mikilvægt er að einfalda allt fyrirkomulag sérkennslu og stuðnings og gera breytingar á fyrirkomulagi skólaþjónustunnar í þá veru að þjónusta við börn með sérstakar þarfir fari að mestu fram úti í skólunum.  Stuðningur við börn á að miðast við þarfir þeirra en ekki vera háður læknisfræðilegum greiningum. Við viljum fjölga fagfólki sem starfi við hlið kennara í skólum að því að mæta fjölbreytilegum þörfum nemenda.  Síðast en ekki síst viljum við að aukið fjármagn renni til skóla í hverfum þar sem er lágt menntunarstig foreldra og hátt hlutfall fólks sem býr við þröngan hag.

Greinin birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 10. maí 2018.

 

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík

 

Öll með í Reykjavík

Gott borgarsamfélag verður ekki til að sjálfu sér. Gott samfélag verður til þegar allir fá tækifæri til að þroskast og dafna og enginn er skilinn eftir. Þannig samfélag viljum við jafnaðarfólk í Samfylkingunni. Öll viljum við leggja okkar að mörkum, öll eigum við okkur vonir og þrár og öll tökumst við á við mismunandi áskoranir sem lífið færir okkur. Hvar sem við erum stödd á æviskeiðinu, hvort sem við glímum við veikindi, atvinnuleysi, fötlun eða ef börnin okkar lenda í vanda eða einhver okkur nákominn, þá eigum við í góðu samfélagi að geta treyst á stuðning og hjálp og fundið sameiginlega leið. Öll þurfum við að fá tækifæri og engan má skilja eftir.

Verkin tala – höldum áfram

Undir forystu Samfylkingarinnar hefur Reykjavíkurborg á liðnu kjörtímabili stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, eflt almenningssamgöngur, unnið á launamun kynjanna og leitt markvissa vinnu gegn ofbeldi í öllum myndum. Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu. Á næsta kjörtímabili getum við haldið áfram á sömu braut og aukið enn frekar aðstoð við þá sem þurfa á stuðningi að halda í borginni – enda á góðærið að nýta til slíkra hluta, ekki til skattaafslátta fyrir hina ríkari.

Styðjum börn og fjölskyldur í vanda

Við höfum lagt áherslu á geðheilsu og öflugan stuðning við börn í vanda. Það þarf að efla þjónustuna í skólunum, nútímavæða fræðslu og forvarnir um geðheilsu og fíknivanda og bjóða fjölskyldumeðferð.

Við leggjum líka sérstaka áherslu á að jafna aðstæður barna og unglinga til að þroska hæfileika sína í frístundastarfi og listnámi utan skóla. Við viljum halda áfram að efla skólahljómsveitir, opna æfingahúsnæði fyrir tónlistarfólk í hverfum, efna til tilraunaverkefnis með hverfiskóra barna og auka tækifæri yngstu barnanna til að prófa ólíkar íþróttir endurgjaldslaust.

Örugg borg án ofbeldis

Við komum á fót ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkur sem hefur þegar sannað mikilvægi sitt. Við opnuðum Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Við gerðum samkomulag um örugga og ofbeldislausa skemmtistaði og erum að innleiða stóreflda skimun og forvarnir gegn ofbeldi í skólum borgarinnar. Við þurfum áfram að vinna markvisst gegn öllu ofbeldi í borginni.

Aldursvæn borg

Við höfum lækkað fasteignagjöld á alla borgarbúa og einnig hækkað sérstaklega afslætti á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara og öryrkja. Við viljum á komandi kjörtímabili efla heimaþjónustu og heimahjúkrun enn frekar, brúa kynslóðabilið og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með því að þróa áfram Menningar- og heilsukort eldri borgara.

Geðheilsa í breyttu samfélagi

Við þurfum einnig að svara kalli tímans með aukinni áherslu á bætta geðheilsu, vellíðan og geðrækt í borginni – sérstaklega á meðal ungs fólks. Við viljum auka sálfræðiþjónustu fyrir börn í grunnskólum borgarinnar og mæta betur þörfum fólks með fíknivanda. Við viljum fjölga geðheilsustöðvum á borð við þá sem var opnuð í Breiðholti á kjörtímabilinu og styðjum áfram frjáls félagasamtök sem vinna að bættri geðheilsu borgarbúa.

Áfram Reykjavík

Í komandi kosningum er valið skýrt. Viljum við halda áfram að byggja upp kröftuga, nútímalega borg þar sem enginn verður skilinn eftir og þeir sem þess þurfa fá stuðning og hjálp? Viljum við borg án ofbeldis þar sem jafnrétti, jöfnuður og sjálfbærni eru gildi sem unnið er eftir? Ef svarið er já, þá kjósum við XS og höldum áfram að byggja borg fyrir alla.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. apríl 2018.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, 2. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík