Ungt fólk, fyrstu kaupendur og nýjar stúdentaíbúðir

Borgin hefur í samstarfi við Félagsstofnun stúdenta farið í umfangsmikla uppbyggingu á stúdentaíbúðum. Þær íbúðir rísa nú í stórum stíl. Af þeim verkefnum sem teljast ný eru Oddagarðar við Sæmundargötu og Skjólgarðar við Brautarholt sem opnuðu árið 2016. Nú eru stærstu stúdentagarðar landsins að rísa sem telja 244 íbúðareiningar á reit Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Það mun skipta stúdenta miklu máli að uppbygging stúdentagarða haldi áfram af enn meiri krafti. Næsta stúdentagarðaverkefni er á reitnum við Gamla garð sem kallað hefur verið eftir víðtæku samráði um og við viljum að fari af stað sem allra fyrst.

HR og Byggingafélag námsmanna

Fram undan eru svo fleiri reitir á háskólasvæðinu sem eru fráteknir fyrir stúdentaíbúðir og gætu farið í uppbyggingu á næstu misserum. Á næstunni munu fyrstu áfangar 400 íbúða uppbyggingu fyrir stúdenta Háskólans í Reykjavík fara af stað við rætur Öskjuhlíðar. Eins er Byggingafélag námsmanna að fara að reisa 100 íbúðir á reit Kennaraháskólans við Stakkahlíð. Byggingafélagið hefur einnig fengið vilyrði fyrir frekari uppbyggingu á Stýrimannaskólareit. Enn frekari uppbygging er til skoðunar þannig að heildarfjöldi nýrra íbúða Byggingafélags námsmanna verður 250-300 á næstu árum

Hvernig komum við ungu fólki inn á húsnæðismarkaðinn?

Með því að taka frá lóðir sem eru í eigu borgarinnar fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur getum við fjölgað íbúðum sérstaklega fyrir þann hóp sem markaðurinn nær ekki að sinna. Alls er á áætlun að þúsund íbúðir rísi fyrir þennan hóp ungs fólks á næstu árum. Lóðirnar sem borgin hefur þegar tekið frá í sérstakt verkefni þess efnis eru í Gufunesi, Skerjafirði, Úlfarsárdal, Bryggjuhverfi III, á Veðurstofuhæð og lóð Stýrimannaskólans. Með því að beita því afli sem borgin hefur til að auðvelda ungu fólki og fyrstu kaupendum að eignast sína fyrstu íbúð getum við haft mikil og góð áhrif á húsnæðismarkaðinn í borginni. Allar þessar lóðir verða afhentar með því skilyrði að byggðar verði á þeim íbúðir sem eru á færi ungs fólks og fyrstu kaupenda.

Greinin birtist á Vísi þriðjudaginn 22. maí 2018.

 


Ragna Sigurðardóttir og Sonja Björg Jóhannsdóttir, fyrrverandi forystukonur stúdenta í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík, eru meðal frambjóðenda Samfylkingarinnar í Reykjavík

Húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur

Yfirstandi kjörtímabil hefur verið mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar. Aldrei áður hafa verið jafnmargar íbúðir í byggingu í Reykjavík og einmitt nú. Samfélagið er að gjalda það dýru verði að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagði niður verkamannabústaðakerfið. Fyrir vikið eru fjölmargir sem eiga erfitt með að koma sér öruggu þaki yfir höfuðið.

Til að mæta þessum vanda hefur verið leitað fyrirmynda á Norðurlöndum. Áhersla meirihluta borgarstjórnar hefur verið á fjölgun félagslegra leiguíbúða og uppbyggingu á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Þessi félög eru á vegum stúdenta, eldri borgara, verkalýðshreyfingarinnar og fleiri uppbyggingarfélaga sem byggja nú íbúðir um alla borg.

Það er lykilatriði til að húsnæðismarkaðurinn verði heilbrigðari. Til viðbótar byggja Félagsbústaðir sérstök búsetuúrræði fyrir fatlað fólk. Fyrir síðustu kosningar var markmiðið sett á að yfir 2.500 leigu- og búseturéttaríbúðir færu af stað í Reykjavík á fimm árum. Þær verða yfir 3.000 og er það sérstakt fagnaðarefni. Ekki veitir af.

Húsnæði um alla borg

Uppbygging öruggari leigumarkaðar heldur áfram á næsta kjörtímabili. Til viðbótar er nauðsynlegt að auka möguleika ungs fólks og fyrstu kaupenda til að eignast hagkvæmt húsnæði.

Til að slík verkefni verði að veruleika hefur borgin tekið frá lóðir fyrir slíkar íbúðir í Skerjafirði, á Veðurstofuhæð, á lóð Stýrimannaskólans, í Bryggjuhverfinu í Grafarvogi, Gufunesi og í Úlfarsárdal. Í fyrsta áfanga verða þetta 500 íbúðir sem munu standa ungu fólki og fyrstu kaupendum til boða.

Sjötíu hugmyndir bárust í hugmyndaleit að uppbyggingarverkefnum fyrir þennan hóp í vetur og næsta skref er að fá beinar tillögur og tilboð frá áhugasömum uppbyggingaraðilum. Við val á samstarfsaðilum mun borgin m.a. horfa til þess hve hratt viðkomandi getur skilað húsnæðinu og á hvaða kjörum. Þetta er enn eitt verkefnið sem gerir húsnæðismarkaðinn í Reykjavík fjölbreyttari og heilbrigðari.

Greinin birtist í Fréttablaðinu þriðjudaginn 22. maí 2018.

 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

Borg þar sem er gott að vera ung

Reykjavík er höfuðborg okkar allra. Þess vegna skiptir máli að hún sé fjölbreytt, lifandi og skemmtileg og haldi áfram að vera borg fyrir okkur öll.

Ég vil búa í höfuðborg þar sem hægt er að ganga, hjóla og taka strætó milli hverfa. Þar sem hægt er að taka Borgarlínu hratt og örugglega borgarmarka á milli og minnka mengun í leiðinni. Þar sem auðvelt er að rölta í sund, á kaffihús og í verslanir. Þar sem leiðirnar á þessa staði eru gerðar fyrir gangandi og hjólandi fólk en ekki einungis fyrir bíla.

Þannig borg vil ég – og þannig borg eigum við öll að geta tekið þátt í og búið í. Hún einkennist af blandaðri byggð þar sem stúdentaíbúðir, íbúðir fyrir eldri borgara, íbúðir verkalýðshreyfingarinnar og félagsbústaða eru hluti af öllum hverfum. Borg þar sem þeim sem minnst eiga á milli handanna er ekki hrúgað í ný hverfi á útjaðrinum langt frá hverfum fyrir efnað fólk. Borg sem einkennist af líflegu háskólasvæði þar sem nóg er til af stúdentaíbúðum og þær eru til staðar í nálægð við háskólann. Enda er þéttari byggð forsenda aukinnar þjónustu við þá sem þar búa fyrir.

Ég vil líka búa í borg þar sem verkefni á borð við Druslugönguna eru styrkt af yfirvöldum og átökum til að útrýma kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi er gert hátt undir höfði. Ég vil búa í borg þar sem miðstöðvar eins og Bjarkarhlíð eru starfræktar og brugðist er af festu við áköllum eins og #metoo. Borg þar sem unnið er markvisst að því að útrýma kynbundnum launamun jafnvel þó launamunur ríkisins og almenna markaðarins sé að aukast á sama tíma. Borg þar sem hatursorðræða er fordæmd og markvisst er unnið að því, í samstarfi við grasrótarhreyfingar, að útrýma fordómum gagnvart minnihlutahópum með fræðslu og opnu samtali.

Þannig borg vil ég búa í – og það er borgin sem Reykjavík er og stefnir áfram í að vera ef núverandi meirihluti heldur velli. Þess vegna er mikilvægt að við öll sem trúum á þessa sýn fyrir höfuðborgina okkar tökum þátt í að halda í hana. Tökum virkan þátt í kosningunum framundan og kjósum!

Áfram Reykjavík.

Greinin birtist í Jöfn og frjáls – tímariti Ungra jafnaðarmanna.

 

Ragna Sigurðardóttir, kosningastýra Samfylkingarinnar í Reykjavík og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, skipar 9. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Omaggio vasar og húsnæðisvandinn

Hinn frjálsi mark­aður er ekki full­komn­ari lausn vanda­mála heims­ins en svo að í kap­ít­al­ismann virð­ist vera inn­byggð til­hneig­ing til að valda djúpum kreppum endrum og eins, líkt og við Íslend­ingar fengum að kenna á fyrir 10 árum síð­an. Meira um það rétt á eft­ir. Á smærri skala en þjóð­hags­legum stór­á­föllum lendir mark­að­ur­inn einnig stundum í að mis­reikna sig og margs­konar mark­aðs­brestir valda því að ekki er alltaf jafn­vægi á fram­boði, eft­ir­spurn og verð­lagi. Það sleppur nú kannski fyrir horn þegar um er að ræða ein­hverja vöru eins og Omaggio vasa. Þegar varan sem um ræðir er hins vegar hús­næði, er vanda­málið heldur svæ­snara. Ólíkt Omaggio vös­um, er öruggt hús­næði nefni­lega mann­rétt­indi.

Óarð­bæru mann­rétt­indin

Van­hæfi hins frjálsa mark­aðar í hús­næð­is­málum hefur margoft valdið stór­kost­legum vanda­málum á Íslandi í gegnum sög­una. Hús­næð­is­vand­inn sem við búum við í dag er fyrst og fremst kom­inn til vegna þess að eftir Hrun lækk­aði hús­næð­is­verð eða stóð í stað, á sama tíma og bygg­ing­ar­kostn­aður rauk upp. Hinn frjálsi mark­aður áleit bygg­ingu nýrra íbúða óarð­bæra, og þar sem eng­inn annar aðili stóð fyrir hús­bygg­ingum á þeim tíma, var ein­fald­lega næstum ekk­ert byggt. Það litla sem þó var byggt á fyrstu árunum eftir Hrun var svo dýrt í kaupum að það fór alla­vega fjarri því að leysa hús­næð­is­vanda ungs fólks.

Vanda­málin leyst

Lausn­irnar á þessum stóru hús­næð­iskreppum Íslend­inga hafa alltaf verið félags­leg­ar. Á fyrstu ára­tugum 20. aldar var ömur­legur húsa­kostur hinna vinn­andi stétta við­var­andi vanda­mál og stærsta ógn við lýð­heilsu þjóð­ar­inn­ar. Þá voru það jafn­að­ar­menn með Héð­inn Valdi­mars­son í broddi fylk­ing­ar, sem komu á fót verka­manna­bú­staða­kerf­inu og reistu verka­manna­bú­stað­ina við Hring­braut. Þangað gátu flutt hund­ruð fjöl­skyldna úr hinum vinn­andi stéttum og komust í fyrsta sinn í hús­næði með renn­andi vatni og nútíma­þæg­indum á þeirra tíma mæli­kvarða. Hús­næð­iskreppan á 7. ára­tugnum var leyst með merkum kjara­samn­ing­um, þar sem ríkið og verka­lýðs­hreyf­ingin sam­ein­að­ist um að reisa Breið­holt­ið.

Lausnin aflögð

Á góð­ær­is­ár­unum í kringum alda­mótin þótti nýfrjáls­hyggju­flokk­unum sem þá voru við völd, Sjálf­stæð­is­flokki og Fram­sókn­ar­flokki, óþarfi að púkka upp á félags­lega hús­næð­is­kerfið og verka­manna­bú­stað­ina. Jóhanna Sig­urð­ar­dótt­ir, sem staðið hafði vörð um kerfið á árum sínum sem félags­mála­ráð­herra 1987-1994, sló ræðu­met Alþingis þegar hún tal­aði í 10 klukku­tíma og 8 mín­útur til varnar félags­lega hús­næð­is­kerf­inu árið 1998. Sú orr­usta tap­að­ist samt og rík­is­stjórn Dav­íðs Odds­sonar og Hall­dórs Ásgríms­sonar lögðu kerfið nið­ur. Þegar hinn frjálsi mark­aður brást svo í Hrun­inu tíu árum síð­ar, var því ekk­ert kerfi til að taka við og tryggja fólki ódýrt og hent­ugt hús­næði.

End­ur­reisnin

Það sér nú fyrir end­ann á núver­andi hús­næð­is­vanda í Reykja­vík og er það ekki síst fyrir til­stilli þess frum­kvæðis sem núver­andi meiri­hluti í Reykja­vík undir for­ystu Dags B. Egg­erts­sonar hefur sýnt við að koma á sam­starfi borg­ar­innar og leigu­fé­laga á vegum verka­lýðs­fé­laga, sem ekki eru rekin með hagn­að­ar­sjón­ar­miði. Með þessum vísi að end­ur­reisn verka­manna­bú­stað­anna stefnir loks í að hund­ruð og þús­undir íbúða bjóð­ist fólki sem ekki hefur efni á okur­kjör­unum sem hinn frjálsi mark­aður býður upp á í dag. Það skiptir nefni­lega máli hverjir stjórna.

Greinin birtist á Kjarninn.is þriðjudaginn 1. maí 2018.

 

Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, for­maður Ungra jafn­að­ar­manna, skipar 40. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík