Úrslit í flokksvali

Dagur B. Eggertsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir og Hjálmar Sveinsson hlutu bindandi kosningu í fimm efstu sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi borgarstjórnarkosningum.

Kosningu lauk kl. 19 á laugardaginn 10. febrúar og neyttu 1852 félagsmenn atkvæðisréttar síns í flokksvalinu. Kjörsókn var 33,55%. Auð og ógild atkvæði voru 7.

Atkvæði í fimm efstu sæti féllu þannig:

  1. sæti – Dagur B. Eggertsson með 1610 atkvæði i fyrsta sæti, eða 87%
  2. sæti – Heiða Björg Hilmisdóttir með 1126 atkvæði í fyrst og annað sæti
  3. sæti – Skúli Helgason með 708 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti
  4. sæti – Kristín Soffía Jónsdóttir með 732 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti
  5. sæti – Hjálmar Sveinsson með 779 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti

14 voru í framboði og samkvæmt reglum um flokksvalið áttu kjósendur að greiða 8 til 10 frambjóðendum atkvæði. Niðurstaðan er bindandi fyrir efstu fimm sætin. Niðurstöðu flokksvalsins í heild sinni má sjá í töflunni hér fyrir neðan.

Reykjavík er okkar

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu og Visi þann 8. febrúar 2018 

Í umræðum um borgina eru skipulags- og samgöngumál áberandi enda mikilvæg fyrir líðan, heilsu, hagkvæmni, öryggi og fleira. En það sem býr til samfélag er fólk sem á það sameiginlegt að í því býr djúpstæð þrá eftir vellíðan. Það hlýtur því að vera markmið stjórnvalda í öllu sem þau taka sér fyrir hendur að stuðla að vellíðan íbúa og heilbrigði.

Fyrir utan áhrif hins manngerða umhverfis á vellíðan hefur jöfnuður þar líklega mest áhrif, í tekjudreifingu, efnahagslegri stöðu, menntun og heilsufari. Einstaklingur sem upplifir að hann tilheyri samfélagi þar sem samkennd og samvinna ríkir og hans framlag skipti máli er líklegri til að upplifa vellíðan.

Á kjörtímabilinu hefur meirihlutinn í Reykjavík unnið að því að kortleggja hvað það er sem við getum gert til að stuðla að heilbrigði, vellíðan og hamingju íbúa og á næstu vikum verður kynnt heildstæð Lýðheilsustefna. Við erum að skapa borg þar sem íbúar hafa tækifæri til að velja heilsusamlegan lífsstíl, eiga samskipti og vinna saman að sameiginlegum áhugamálum. Hverfi borgarinnar eru nú heilsueflandi þar sem fyrst er horft til umhverfis barna og eldri borgara. Við höfum tekið stefnu á að vera aldursvæn borg, erum að móta stefnu í málefnum eldri borgara þar sem kortlagðir eru allir möguleikar þeirra til að eiga fjörugt eða rólegt ævikvöld, allt eftir óskum hvers og eins. Auk þess sem víðtæk mennta- og þjónustustefna við barnafjölskyldur er í mótun.

Þó hentugt geti verið að horfa á mismunandi aldur fólks í stefnumótun er mikilvægt að nærþjónusta borgarinnar sé til staðar alltaf þegar á þarf að halda út frá þörf en ekki aldri. Lífið færir okkur flestum einhverjar óvæntar áskoranir sem geta tengst öldrun, ofbeldi, langvinnum veikindum, fötlun eða hverskyns óvæntum áföllum.

Ef eitthvað er að hjá barninu þínu eða einhverjum nákomnum ættingja þá er eitthvað að hjá allri fjölskyldunni og allt nærumhverfið líður fyrir bragðið. Við þurfum að auðvelda íbúum að fá þjónustu sem fyrst eftir að þörf skapast, því með því getum við oft komið í veg fyrir frekari veikindi eða vanlíðan. Það tekur tíma að breyta „Kerfinu“ en við höfum tekið mikilvæg skref á þessu kjörtímabili og stefnan er sett á aðgengilega og vingjarnlega þjónustu fyrir fólk.

MeToo kvenna af erlendum uppruna

Ræða í borgarstjórn, 6. febrúar 2018.

Ég er búin að vera í þessum málaflokki svo lengi, ég hélt ég vissi þetta allt. Ég var búin að heyra sögu um konuna sem var sannfærð af hálfu mannsins síns að á Íslandi þurftu konur alltaf að vera naktar heima og þjóna bæði honum og vinum hans. Ég var búin að heyra frá asískum vinkonum að þær gætu aldrei farið út að djamma án þess að vera spurðar hvað þær tæki nú á tímann. Ég vissi – og veit – um konur sem afsöluðu sér forræði yfir börnunum sín, annaðhvort vegna þess að sýslumenn panta ekki túlk heldur leyfa eiginmönnum að útskýra fyrir konunum sínum hvað sé í gangi eða vegna þess að konurnar héldu þetta væri bara svona á Íslandi eða jafnvel að þetta væri börnunum fyrir bestu.

En það var rangt hjá mér, ég var svo langt frá því að vita þetta allt og á meðan sögurnar hrúguðust inn á lokuðum facebook hópinn, þurfti ég oft að taka mér hvíld.

Ég byrjaði sem sagt í þessum málaflokki árið 2004, þegar ég tók sæti í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna. Á þeim tíma voru staðalmyndir erlendra kvenna allsráðandi þar sem erlendar konur voru í augum samfélagsins með stimpil fórnarlambsins frá byrjun, pantaðar á netinu af lágmenntuðum ofbeldismönnum. Við börðumst á þessum tíma fyrir konur utan EES svæðisins sem voru neyddar að fara aftur til ofbeldismanns því það var ekki möguleiki á að fá dvalarleyfi óháð hjónabandinu fyrr en eftir 3 ár. Og baráttan bar árangur, þessi löggjöf var breytt, og bæði Útlendingastofnun og velferðakerfið unnu með okkur þar.

Því alltaf völdum við þá leið að þetta væru ekki við útlendingar á móti ykkur Íslendingum, heldur við öll fyrir betra samfélag. Þess vegna var alla tíð mikið samstarf við íslensku kvennahreyfinguna. En málið var oft, og ég vonast einmitt til að sjá breytingar á því núna, að það skorti stundum skilning á því hvernig konur af erlendum uppruna upplifa margþætta mismunun, því í okkar feðraveldi eru nefnilegar ekki bara karlmenn, það getur verið samfélagið, það er tungumál, menningarheimur, saumaklúbbamenningin, hræðsla við hið ókunnuga og svo margt annað.

Meira en helmingur dvalarkvenna í Kvennaathvarfinu

Það er ekki til eitt svar við af hverju yfirleitt meira en helmingur dvalarkvenna í Kvennaathvarfinu eru konur af erlendum uppruna. Þær vantar tengslanet, fjölskyldu sem er tilbúin að skjóta skjólshúsi yfir þær. Leigumarkaðurinn er innflytjendum vægast sagt mjög fjandsamlegur. Stundum koma konurnar frá menningarheimum þar sem viðhorf til ofbeldis gagnvart konum er einfaldlega á allt öðrum stað. Ofbeldið getur einnig þrifist í álaginu sem flutningur milli landanna hefur í för með sér. Það er líka svo miklu einfaldara að einangra konu af erlendum uppruna sem hefur ekki tengslanet, upplýsingar, tungumálakunnáttu eða fjölskyldu, þannig að margir ofbeldismenn leita sérstaklega inn í þennan hóp.

Sögurnar sem birtar voru eru margar hrottafengnar. Sumar það slæmar að ég sé hætta á að samfélagið í heild sinni gæti skýlt sér á bak við hugsunina að þetta séu bara örfá skrímsli og kemur okkur ekki við. En rót vandamálsins liggur svo miklu dýpra. Ég heyrði bara núna um ungt par sem breytti ættarnafni nýfædda barnsins síns sem hljómaði útlenskt því þau vildu tryggja því betri framtíð. Þau vildu vera viss um að barnið fengi a.m.k. símtal til baka frá leigusala eða atvinnurekanda. Það er þessi stóri misskilningur sem ég upplifi oft að við innflytjendur höfum öll fæðst á Keflavíkurflugvelli með lítið fram að færa.

Bjarkarhlíð og Ofbeldisráðið

Reykjavíkurborg hefur tekið forrystu í ofbeldismálum áður, við höfum Bjarkarhlíð og Ofbeldisráðið, við höfum líka Fjölmenningarráðið og -þingið. Sviðstjóri Velferðasviðs er nú þegar búin að tala við fulltrúa hópsins og ég held að það sé enginn vafi hér hjá okkur kjörnum fulltrúum að Reykjavík þarf að stuðla að aukinni fag­þekk­ingu á meðal starfs­fólks vel­ferð­ar­sviðs um þjónustu við innflytjendur, hælisleitendur og flóttafólk með sérstakri fræðslu. Ég hef til dæmis oft upplifað að starfsfólk er einfaldlega óöruggt í þjónustu við innflytjendur. Sumir kennarar eða félagsráðgjar gefa eftir þegar foreldrar vilja frekar að barnið þeirra túlki fyrir þá.

Jú, það þarf að þýða verkferla vegna áreitni og ofbeldis á vinnustöðum á erlend tungumál, styrkja erlendra foreldra til dæmis með brúarsmíðum eins og við höfum byrjað á Skóla- og frístundasviði en það þarf að gera það rétt. Ég flutti hingað með 2 lítil börn og það var margt sem ég þurfti að læra í sambandi við réttindi og skyldur í kerfinu en einnig viðhorf samfélagsins. En ef einhver félagsrágjafi hefði sent mér boð um að kenna mér hvernig ég ætti að ala upp börnin mín á Íslandi, þá stæði ég nú örugglega ekki hér í dag. Reykjavíkurborg er einnig stærsti vinnuveitandinn hér, þannig að við þurfum að endurskoða starfsmannastefnuna með tilliti til breytts veruleika. Ný innflytendastefna sem hefur verið hér til umræða leggur til margvíslegar aðgerðir þar.

Því aldrei munum við skilja og styðja þennan hóp sem sagði okkur sínar sögur ef við förum ekki að líta á innflytendur sem eðlilegan hlut af þessu samfélagi, sem mannauð, ekki vandamál.

Þegar áskorun frá hópnum í skugga valdsins birtist, var það tæplega helmingur kvennana þar sem skrifaði undir með nafni. Í hópi MeToo kvenna af erlendum uppruna voru það 97 af 660. Það segir okkur að íslenskt samfélag á eftir að vinna sér inn traust þessara kvenna og þar er ekki síst verk að vinna fyrir okkur hér.

 

Aukum og samþættum heimaþjónustu

Birtist fyrst í Fréttablaðinu og Vísi  þann 23. mai 2017/flokkur Velferðarmál /höf. Heiða Björg Hilmisdóttir og Gunnar Alexander Ólafsson

Undanfarið hefur verið mikil umræða um málefni aldraðra og þjónustu sem þeim er veitt. Rætt hefur verið um að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum lengist, margir aldraðir liggja „fastir“ inni á Landspítala vegna þess að viðeigandi úrræði skortir og uppbygging hjúkrunarrýma hefur ekki verið í samræmi við þörf.

Í markmiðum laga um aldraða nr. 125/1999 segir að þeir skuli eiga völ á heilbrigðis- og félagslegri þjónustu sem þeir þurfa á að halda, m.v. þörf og ástand hins aldraða. Einnig segir að markmið laganna sé að aldraðir eigi að geta búið eins lengi og unnt er við eðlilegt heimilislíf. Til að gera öldruðum það kleift að búa eins lengi heima og hægt er geta þeir fengið ákveðna félagslega heimaþjónustu og ef þarf heimahjúkrun.
Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er að veita aðstoð við þrif, heimilishald og persónulega umhirðu, félagslegan stuðning, kvöld- og helgarþjónustu. Heimahjúkrun á að gera öldruðum kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi. Heilsugæslustöðvar út um allt land annast heimahjúkrun en í Reykjavík hafa þessir tveir þættir verið samþættir í heimaþjónustu og hefur það gefið góða raun. Þar er veitt hefðbundin heimahjúkrun og geðhjúkrun auk félagslegrar heimaþjónustu frá sömu þjónustueiningu sem gerir þeim kleift að vinna meira saman að því að styðja hinn aldraða.

Um næstu áramót mun endurhæfing í heimahúsi einnig bjóðast fólki sem þá getur fengið stuðning í sínu daglega umhverfi. Þannig er hægt að styrkja einstaklingana til að hafa val á að búa heima og vera virkir þátttakendur í sínu heimilishaldi og lífi. Þessi þjónusta mun koma mörgum öldruðum til góða og valda straumhvörfum í að gera þeim kleift að búa sem lengst heima. Að auki mun þetta vera nýbreytni í þjónustu sem eykur hið faglega starf innan velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en sambærileg þjónusta er veitt í heimahúsum í Noregi og Danmörku.
Það er hins vegar þannig að vilji einstaklingur ekki búa heima eða hann upplifi þjónustuna þar of litla þá vandast málið í ljósi þess að biðlistar eru eftir hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Það er dýrt að hafa um 90 aldraða „fasta“ á Landspítala vegna þess að viðeigandi úrræði eru ekki tiltæk. Hvert rými á hjúkrunarheimili kostar um 10 milljónir í rekstri á ári og í mati á þörf á hjúkrunarrýmum frá árinu 2014 sem velferðarráðuneytið lét gera kom fram að byggja þyrfti 1.100 hjúkrunarrými fyrir 2025 fyrir um 30 milljarða. Hafin er bygging um 250 rýma af þessum 1.100 rýmum og augljóst er að það er ekki nóg.

1 milljón í stað 10
Fjöldi fólks sem hefur fengið félagslega heimaþjónustu í Reykjavík hefur verið um 3.700 á ári frá árinu 2009 og fjöldi þeirra sem hafa fengið heimahjúkrun hefur vaxið úr 2.089 manns árið 2009, í 2.387 árið 2015. Kostnaður við heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu er brot af því sem kostar að reka hjúkrunarrými. Meðan kostnaður við hjúkrunarrými er ca. 10 milljónir á ári, er kostnaður við heimahjúkrun rétt yfir hálfri milljón á ári og kostnaður við félagslega heimaþjónustu er um 480 þúsund á ári. Samtals kostnaður um 1 milljón í stað 10.

Það er mat greinarhöfunda að það sé mikilvægt að þjónusta sveitarfélaga verði samþætt með sama hætti og gert er í Reykjavík og að mikilvægt sé að auka fé til málaflokksins þannig að aldraðir fái öflugan félagslegan stuðning og hjálp, hjúkrun og endurhæfingu ef þarf og geti þannig sannarlega valið að búa lengur heima við eðlilegar aðstæður. Þetta mundi lækka kostnað vegna þjónustu við aldraða til lengri tíma litið og auka vellíðan og virkni eldra fólks um leið. Með því að veita meira fjármagni í þjónustu og stuðning má í mörgum tilfellum koma í veg fyrir slys og veikindi sem kosta samfélagið meira og minnkar lífsgæði og lífslíkur fólks.

Hvaða borgarstarfsmönnum mun Eyþór segja upp?

Hin fimm fræknu keppast nú í oddvitaslag um atkvæði Sjálfstæðismanna í Reykjavík og beita þau til þess ólíkum meðulum. Tvö nýta sæti sín í borgarstjórnarsalnum ágætlega, einn frambjóðandinn býr í Garðabæ en keyrir til Reykjavíkur, sá fjórði fordæmir feita og útlendinga og sá fimmti birtir forsíðufréttir um sjálfan sig í eigin fjölmiðli. Sá heitir Eyþór Arnalds sem skrifaði greinar í vikunni, þó ekki Morgunblaðið, heldur í Fréttablaðið sem ritstjóri Morgunblaðsins segir að enginn lesi.

Í byrjun vikunnar boðaði hann lausn á „leikskólavandanum“  sem felst í því að segja starfsfólki borgarinnar upp. Í gær skrifaði hann að þétting byggðar væri misheppnuð og boðaði í sömu grein frekari uppbyggingu í 101 til að minnka umferðartafir! Á milli þess sem hann skrifaði greinar birtist hann á forsíðu Morgunblaðsins og vildi segja upp samningi við ríkið sem tryggir borginni árlega milljarð til reksturs Strætó og hafnaði hugmyndum um sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu. Skemmst er frá því að segja að ekkert var fjallað um tafirnar á umferðinni sem þessar breytingar mundu óhjákvæmilega valda.

Fátt um svör
Mótsagnakenndur málflutningur Eyþórs er með miklum ólíkindum og hann hrakinn með afgerandi hætti  í vikunni undir merkimiðanum #tómirvagnir.  Hér verður spjótunum beint sértaklega að skólamálum, sem oft fá litla athygli, og þeim starfsmönnum sem Eyþór ætlar að reka til að bæta skólastarf. Í grein sinni tilgreindi Eyþór ekki hvar hann sér fyrir sér að losa sig við borgarstarfsmenn né hvernig þeir fjármunir sem myndu mögulega sparast í slíkum aðgerðum ættu að skila sér í bættu skólastarfi.

Rósa Ingvarsdóttir, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, krafði Eyþór svara vegna þessara skrifa og óskaði eftir því að fá heyra í hverju niðurskurðartillögurnar sem Eyþór boðaði fælust. Svarið var hins vegar svo gott sem jafn innihaldslaust og hin popúlíska grein hans. Eyþór segist vilja bæta skólana og til þess þurfi að „setja skýr markmið og vinna markvisst að árangri“ . Punktur. Hann hefur sem sagt ekki nein svör.

Gera þarf betur í mönnun leik- og grunnskóla. Uppsveiflan og mikill skortur á vinnuafli gerir sveitarfélögunum erfitt fyrir. Vegna stærðar sinnar hefur athyglin ekki síst beinst að Reykjavík þrátt fyrir að staðan hafi ekki verið verst þar í vetur. Ágætlega hefur gengið að ráða í lausar stöður, þó enn séu einhverjir leikskólar ekki fullmannaðir. Það er sannarlega slæmt og er okkur sem komum að stjórn borgarinnar mikið kappsmál að leysa.

Þetta er veruleikinn eins og hann blasir við stjórnmálamönnum á höfuðborgarsvæðinu og víða annarsstaðar á landinu hvort heldur sem fólk stendur til vinstri eða hægri í pólitík. Í Reykjavík höfum við kappkostað að vanda okkur og forgangsraðað fjármunum í skólamál, velferð og innviði.

Fjárveitingar til skóla- og frístundamála hafa þannig aukist um 9 milljarða króna á yfirstandandi kjörtímabili þrátt fyrir að leikskólagjöld hafi einnig lækkað. Að auki stendur nú yfir metnaðarfull vinna verið gerð menntastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030 auk þess sem sérstakir hópar með kennurum, fulltrúum fræðasamfélagsins og fleirum innanborðs hafa rýnt í starfsumhverfi í leik- og grunnskóla. Það hefur sem sagt ansi margt verið gert sem þegar hefur og mun áfram skila sér til baka á næstu misserum.

Minnir á Trump
Að einn helsti ökuþór Valhallar reyni að breiða yfir þessu mikilvægu skref sem hafa verið stigin og segi lausnina felast í því að segja borgarstarfsmönnum upp störfum er grafalvarlegt. Þar er boðuð ódýr töfralausn sem stenst enga skoðun. Lausn sem er til þess fallinn að villa um fyrir almenningi og afvegaleiða umræður á fölskum forsendum í aðdraganda kosninga. Málflutningurinn minnir óþægilega á Donald Trump og helstu forsvarsmenn Brexit.

Það má öllum vera ljóst sem hafa minnsta áhuga skólamálum að uppsagnir nokkurra embættismanna duga skammt þegar litið er á þá staðreynd að 4.300 starfsmenn starfa hjá skóla- og frístundasviði.

Smekkleysið sem felst í því að hóta starfsmönnum borgarinnar uppsögnum verða Sjálfstæðismenn í Reykjavík að eiga við sig sjálfa. Hins vegar heyrir það upp á okkur öll að láta ekki innistæðulausar upphrópanir og hægri popúlisma stela umræðunni. Þá munum við sitja uppi með svikin loforð og verri samfélög.

Greinin birtist á Vísir.is 20. janúar 2018.

Ömurlegar staðreyndir kalla á raunverulegar breytingar

Við höfum orðið vitni að ansi mögnuðum atburðum undanfarnar mánuði og vikur. Konur út um allan heim hafa stigið fram og greint frá áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Hér á landi voru það stjórnmálakonur sem stigu fyrstar fram í nóvember þegar meira en 400 konur skrifuðu undir yfirlýsingu sem tekið var eftir. Í framhaldinu hafa fjölmargar konur og kvennahópar stigið fram, deilt sögum og krafist breytinga.

Súr kvenfyrirlitning

Það hefur verið ömurlegt að lesa þessar frásagnir og í raun er það ekkert annað en þjóðarskömm þessi mikla kvenfyrirlitning sem fengið hefur að grassera út um allt samfélagið. Vissulega hefur okkur miðað áfram í rétta átt þegar við horfum almennt á jafnréttismálin. Sjálfur trúði ég því að við værum á betri stað en umræðan síðustu misseri þar á meðal #metoo byltingin sýnir hins vegar allt aðra stöðu.

Alvarlegt kynbundið ofbeldi er staðreynd hér landi og risavaxið samfélagsvandamál. Í krafti valdamisvægis er meðal annars brotið á konum sem virðast hvergi óhultar eins og til að mynda grófar frásagnir kvenna í sviðslistum og íþróttahreyfingunni báru skýr merki.

Breytinga að vænta

Þær konur sem sagt hafa sínar sögur og tekið þátt í #metoo byltingunni hafa sýnt ótrúlegan kjark. Um leið hafa þær dregið línu í sandinn. Breytinga er að vænta.

Við karlarnir og samfélagið í heild þurfum að gera betur og vinna þannig að raunverulega bættu samfélagi. Samfélag sem tekur ekki á kynbundnu ofbeldi er einfaldlega ekki merkilegt samfélag. Forvarnir og fræðsla skipta þar lykilmáli en í grunninn þurfum við meiri samkennd og meiri virðingu.

Við þurfum öll að hugsa okkar gang, ekki síst karlar. Umræðan síðustu vikur og mánuði hefur eðli málsins samkvæmt kallað á viðbrögð ólíkra aðila. Íþróttahreyfingin, kirkjan, fjölmiðlar, Landlæknir, Landspítalinn og fjölmargar aðrar stofnanir og aðilar hafa nú sett af stað vinnu til að takast á við þennan vonda veruleika.

Viðbrögð og aðgerðir á opnum fundi

Í framhaldi á yfirlýsingu stjórnmálakvennanna ákvað stjórn Samfylkingarinnar að skipa hóp innan flokksins sem fékk það verkefni að móta verklagsreglur og aðgerðaáætlun til að takast á við þessi mál.  Samfylkingarfélagið í Reykjavík og Kvennahreyfing Samfylkingarinnar bjóða til fundar um #metoo á morgun, laugardaginn 20. janúar, þar sem farið verður yfir hreyfinguna sjálfa, viðbrögð flokksins og þær aðgerðir sem er verið að undirbúa.

Fundurinn hefst klukkan 12 og fer fram í húsnæði Samfylkingarinnar við Hallveigarstíg 1. Þangað eru allir áhugasamir velkomnir.

Greinin birtist á www.sffr.is 19. janúar 2018.

Pólitísk ábyrgð Kjartans Magnússonar

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi liggur undir skemmdum og tjónið gríðarlegt – miklu meira en talið var í fyrstu. Forsvarsmenn fyrirtækisins kanna nú hvaða leiðir eru færar að sækja skaðann á hendur þeim sem komu að byggingu hússins. Málinu er því ekki lokið og þarfnast miklu frekari skoðunar, sem þarf að gera af festu og ábyrgð frekar en af taugaveiklun. En því miður og eins og oft áður, laðast örvæntingafullir stjórnmálamenn að Orkuveitunni – og reyna að slá pólitískar keilur.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu og í frétt hér í Fréttablaðinu fyrir helgi sýnir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi áður óþekkta takta. Þar kallar hann eftir því að einhver taki pólitíska ábyrgð á málinu og kennir svo Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Samfylkingunni um ástand hússins. Kjartan kallar líka eftir rannsókn á þessu öllu saman – ekki bara tjóninu á Orkuveituhúsinu heldur öllu ferlinu frá því að ákvörðun um byggingu hússins var tekin og kostnaður vegna byggingu hússins. Margt af þessu liggur þó nú þegar fyrir.Þrátt fyrir að Kjartan hafi, líkt og undirritaður lagt stund á sagnfræði – þá vísvitandi ákveður hann að gera tilraun til að blekkja almenning frekar en að horfast í augu við eigin fortíð í málinu. Veturinn 1999-2000 er ákveðið að byggja húsnæðið á Bæjarhálsi. Fyrsta skólastungan var tekin vorið 2000. Það var nokkrum mánuðum áður en að Samfylkingin var yfirhöfuð orðin til. Á þessum tíma átti Dagur B. Eggertsson ekki sæti í borgarstjórn. Hann bjó í Svíþjóð, nýúskrifaður úr læknisfræði. Tvö ár liðu því frá því að skóflustunga var tekin að höfuðstöðvum OR þangað til Dagur var kjörinn í borgarstjórn fyrir R-listann.

Kjartan Magnússon teygir sig lengra en venjulega í tilraunum sínum til að gera hræðilegt ástand hússins að pólitísku deilumáli – og það með ósmekklegum hætti. Áður en við förum að benda á sökudólga í málinu þarf liggja fyrir hvers vegna húsið er í þessu ástandi, dómskvaddir matsmenn þurfa að skera úr um það og segja til um hvort hægt sé að sækja bætur til þeirra sem komu að byggingu höfuðstöðvanna á sínum tíma.

Það er hins vegar allt annað mál að rýna í hverjir komu að ákvörðuninni að reisa húsið. Fyrir liggur þó að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti byggingu höfuðstöðvanna bæði í stjórn veitustofnana og í borgarráði. Eini núverandi borgarfulltrúinn sem starfaði á vettvangi borgarstjórnar þegar þetta allt saman átti sér stað var hver? Jú áðurnefndur Kjartan Magnússon.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. september 2017.

Erindi Samfylkingarinnar

Ungt fólk á Íslandi á að geta fundið sér starf við hæfi að loknu námi. Það á að geta treyst því að þurfa ekki að búa í foreldrahúsum of lengi. Undanfarin ár hefur ungt fólk þurft að búa við styttra fæðingarorlof, lægri greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og skerðingu á barnabótum – enda hefur ríkisstjórnin markvisst unnið gegn hagsmunum ungs fólks. Þetta er óspennandi veruleiki og fleiri Íslendingar flytja frá Íslandi en flytja aftur heim. Spá Hagstofunnar gerir ekki ráð fyrir að þetta muni breytast. Við verðum að taka þessu alvarlega og snúa þessari þróun við. Öflugt atvinnulíf og sköpun nýrra spennandi starfa er lykilatriði til að koma í veg fyrir fólksflótta.

Erindi Samfylkingarinnar í komandi þingkosningum er að beita sér fyrir bættum kjörum venjulegs fólks, hlúa betur að börnum, skapa fleiri störf fyrir háskólamenntaða og efla verk- og iðnnám. Kominn er tími á að ráðast í kraftmiklar aðgerðir gegn brotthvarfi í námi sem er mest hér landi samanborið við önnur OCED-ríki. Löngutímabærar breytingar á stjórnarskránni og fiskveiðistjórnarkerfinu ættu að vera í augsýn ásamt endurreisn heilbrigðiskerfisins og kraftmiklum aðgerðum í húsnæðismálum.

Við þurfum mannvænna samfélag að norrænni fyrirmynd þar sem við styðjum við og tökum utan um hvort annað. Ójöfnuður grefur undan samfélaginu – þess vegna þarf að jafna byrðarnar, meðal annars með því lækka skatta á venjulegt fólk með þrepaskiptu skattkerfi og sanngjörnum gjöldum fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum okkar.

Við verðum að byggja samfélag þar sem við höfum öll jöfn tækifæri. Þar sem unga fólkið þarf ekki að kvíða því hvort það geti nokkurn tímann eignast eigið heimili eða fengið vinnu við hæfi. Þar sem eldra fólk getur hlakkað til efri áranna, þar sem fólk hefur aðgang að traustu heilbrigðiskerfi, fjölbreyttri menntun og þéttu öryggisneti velferðar fyrir þá sem höllum fæti standa. Með áherslu á klassísk gildi jafnaðarmanna er Samfylkingunni best treystandi til að koma þessum samfélagsbreytingum í gegn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í 6. september 2016

Hefur þú mannslíf á samviskunni?

Birtist fyrst í Stundinni  þann 15. mars 2016

“Meira en tíu þúsund flóttabörn hafa horfið eftir komuna til Evrópu. Óttast er að þau hafi fallið í hendur glæpagengja og verið seld mansali” hljómaði úr útvarpi allra landsmanna um dagin. Lengi vel hélt fólk að þrælasala væri eitthvað sem viðgekkst fram á byrjun 20 aldar en fjaraði svo út, vondu mennirnir sem við höfum séð svo margar bíómyndir um sem rændu fólki í afríku og seldu.  Það var hryllingur rétt eins og þrælahald í dag og því miður er það svo að nú eru fleiri þrælar en voru þegar þrælahald var löglegt. Alþjóða vinnumálastofnunin(ILO) segir að í dag séu 21 milljón manns í þrældómi og að fjöldinn hafi nær tvöfaldast á síðustu 10 árum. Ríflega helmingur er konur og stúlkur og helmingur þeirra er seldur til kynlífsglæpamanna,  fjórðungur þræla í heiminum eru börn.  Gróðinn af þessari starfsemi er eitthvað um 20.000.000.000.000 á ári -20 þúsund milljarðar ! sem er eins og kostar að reka Ísland í 31 ár.  Mansal sagt arðbærasta glæðastarfsemi samtímans og álíka algeng og vopna og eiturlyfjasala. Framboð á fólki í neyð er mikið og ódýrt að flytja það milli landa og eftirspurn er þannig að auðvelt er að selja, jafnvel oft sömu manneskju. Ríkisstjórnir norðurlandanna hafa lagt á það áherslu að vinna gegn þessari glæpastarfsemi og Ísland er þar á meðal þó við séum í þessum samanburði langt á eftir nágrannaþjóðum okkar. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn mansali felur í sér að unnið verði að forvörnum, aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb, rannsókn mansalsmála og samstarf, samráð og mat á árangri. Fram hefur komið fram að lögregla hafi ekki fengið fjárveitingu vegna aðgerðaráætlunar gegn mansali og að lögreglumenn hafi sinnt fræðslu um mansal í frítíma sínum.  Ísland var enda gagnrýnt í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins á síðasta ári fyrir slaka frammistöðu í baráttunni gegn mansali. Í erindi Line Barfod, dansks lögfræðings, á dögunum kom fram að meðan lítil hætta er á að lögregla upplýsi mansal og refsli glæpamönnunum, þá verði til fólk sem er reiðubúið til að hneppa aðra í þrældóm. Það er því gríðarlega mikilvægt að styrkja og fræða alla aðila réttargæslukerfisins um mansal og eðli þess. Sá sem er seldur mansali er sjaldnast í sýnilegum hlekkjum og algengt er að um sé að ræða flókið samand ofbeldismans og fórnarlambs sem jafnvel er ekki er viljug til samstarfs við að uppræta brotið. Stundum af ótta við refsingu eða öryggi ættingja sína. Mansalinn hefur kannski neytt viðkomandi til að brjóta lög eða heldur henni í óvissu um sína eigin réttarstöðu eða viðkomandi treystir ekki yfirvöldum.

Við vitum að mansal viðgengst á íslandi, það vakti til að mynda óhug þegar lögregla frelsaði þrjár konur úr kjallara á dögunum og fram hefur komið að tugir mansalsmála eru til rannsóknar hjá lögreglunni hérlendis um þessar mundir.  Hérlendis hefur komið upp grunur um mansal m.a.  í fiskvinnslu, ferðaþjónustu, byggingariðnaði, vændi, heimilishjálp, bakaríi, veitingastað,skemmtistað og margskonar glæpastarfsemi. Við stuðlum einnig að þrælasölu með þeim vörum sem við kaupum því hætt er á eitthvað af þeim vörum sem við kaupum séu framleiddar af þrælum í sem fá lítið eða ekkert greitt fyrir vinnu sína og leggja líf sitt jafnvel í hættu við óviðunandi aðstæður.

Við þurfum eiginlega öll að fræðast um mansal og láta vita ef okkur grunar eitthvað, ef manneskja hagar sér undarlega, er ekki með vegabréf eða skilríki gæti hún verið fórnarlamb mansals og þá er mikilvægt að láta lögreglu vita. Við sem samfélag þurfum að ákveða að standa með fórnarlömbum mansals og veita þeim þá vernd og hjálp sem þau eiga skilið burtséð frá uppruna eða stöðu á íslandi. Kvennaathvarfið hefur tekið að sér að veita konum skjól og hjálp þó það sé eiginlega neyðarúrræði en engin úrræði eru til fyrir karla eða börn sem seld hafa verið mansali sem er bagalegt þar sem nokkuð öruggt getur talist að hingað koma einnig karlar og börn sem hafa verið seld. Rauði krossinn hefur komið að stuðningi við fórnarlömb en óvissa er um félagsþjónustu samstarf og slípa þarf það til að sá einstaklingur sem verður fyrir þessum hryllilega glæp hérlendis geti gengið að því vísu að fá hjálp.

Til að ráðast að rót vandans þyrfti auðvitað að útrýma fátækt og misskiptingu í heiminum þannig að hver einasta manneskja fengi þá virðingu og þann aðbúnað og tækifæri í lífinu sem hún á skilið. Meðan það er ekki þannig þurfum við að krefjast þess að þær vörur og matvæli sem okkur stendur til boða séu framleidd við viðunandi aðstæður og ekki af þrælum.  Við verðum að hætta að líta á það sem eðlilegt að hægt sé að kaupa aðgang að líkama fólks í hvaða tilgangi sem er og við þurfum að opna augun fyrir því sem viðgengst í kringum okkur og segja STOPP. Þrælahald var bannað fyrir rúmri öld síðan og það er hægt að stöðva það ef við tökum öll höndum saman – það á enginn að hagnast á neyð annarra hvort sem er meðvitað eða bara með því að standa á sama.

Pólitískur subbuskapur

Reykjavík er fjölbreytt borg sem veitir borgarbúum ólíka og mikilvæga þjónustu á hverjum degi, en hún er meira en það. Reykjavík er m.a. borg friðar og mannréttinda eins og fjölmörg dæmi undanfarin ár bera vott um. Sú þróun að borgir eins og Reykjavík hafi sjálfstæða stefnu í ólíkum málaflokkum er löngu hafin. Borgir munu halda áfram að verða umfangsmeiri og mikilvægari ef eitthvað er. Skiptir þar engu um pirraða framsóknar- og sjálfstæðismenn á Íslandi.

Í umræðunni undanfarna daga um tillöguna sem borgarstjórn hefur nú dregið til baka fór lítið fyrir umfjöllun um tilgang hennar. Viðleitni okkar gekk út á að auðvelda Palestínumönnum að lifa eðlilegra lífi í stað lífs takmarkana, múra og kúgunar. Lóð á vogarskálarnar í þeirri baráttu en fyrst og fremst táknræn aðgerð.

Gerð voru mistök þar sem málið var ekki nógu vel undirbúið af hálfu okkar í meirihlutanum og því var ákveðið draga tillöguna til baka og hefur það verið gert með stuðningi minnihlutans. Áður en tekin verður ákvörðun um næstu skref verður ráðgjafar leitað hjá öðrum höfuðborgum Norðurlandanna og samráð haft við utanríkisráðuneytið.

Málið komst á mikið flug og notaði minnihlutinn í borgarstjórn og einstaka ráðherrar sér það til framdráttar. Miðað við upphrópin og hamaganginn mætti ætla að mikið hafi gengið á þegar tillagan um sniðgönguna var samþykkt í borgarstjórn 15. september. Umræðan var þvert á móti nokkuð hófstillt og fór allnokkur tími fulltrúa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í að tala um ágæti borgarfulltrúans sem lagði fram tillöguna! Umræðan tók ekki langan tíma og einungis þrír af sex fulltrúum minnihlutans tóku til máls. Sem er í grunninn ekki óeðlilegt nema í ljósi þeirra gífuryrða sem fallið hafa síðan, þar á meðal kröfunnar um afsögn borgarstjóra. Andstaðan var lítil auk þess sem einn minnihlutafulltrúi sat hjá. Málatilbúnaður sjálfstæðis- og framsóknarmanna undanfarna daga hefur því fyrst og fremst einkennst af pólitískum subbuskap og er í engu samræmi við tilefnið.

 Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. september 2015.