Kosið um framtíð Reykjavíkur

Kosningarnar 26. maí skipta miklu máli fyrir framtíð Reykjavíkur og í kosningabaráttu síðustu vikna hafa kristallast mjög ólíkar hugmyndir um þróun borgarinnar. Á undanförnum árum höfum við verið að leiða breytingar í Reykjavík sem blasa við borgarbúum í þeirra nánasta umhverfi. Reykjavík er að verða meiri borg. Hverfin eru að lifna við með fjölbreyttari nærþjónustu. Hvarvetna sjáum við þróast kraftmikla og nútímalega borg sem er fjölbreytt, skemmtileg og lifandi í samræmi við framtíðarsýn borgarinnar. Og við viljum halda áfram að styðja við þessa þróun.

Þinn stuðningur skiptir máli

Til þess þurfum við á þínum stuðningi að halda í kosningunum þann 26. maí. Á næsta kjörtímabili eru gríðarleg tækifæri til að festa í sessi þær breytingar sem eru að verða í borginni og við þurfum skýrt umboð í kosningunum til að geta haldið áfram á sömu braut með Reykjavík. Þróun borgarinnar skiptir máli fyrir okkar öll. Við viljum við hefja framkvæmdir við Borgarlínu strax og setja Miklubraut í stokk. Við viljum halda áfram að leiða mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar með áherslu á hagkvæmt húsnæði á spennandi stöðum um alla borg. Við viljum klára uppbyggingu leikskólana með því að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti. Og síðast en ekki síst viljum við að Reykjavík verði áfram borg fyrir okkur öll.

Áfram Reykjavík

Framtíðarsýn Samfylkinginnar í Reykjavík er skýr. Við erum stolt af því og höfum fundið fyrir miklum meðbyr meðal borgarbúa í kosningabaráttunni. Kosningarnar á laugardaginn snúast um framtíð Reykjavíkur og hverjum við treystum til að leiða breiðan meirihluta í Reykjavík þar kraftmikil uppbygging á sér stað, þar sem við þróum græna, lifandi og fjölbreytta borg saman. Borg fyrir okkur öll. Við viljum halda ótrauð áfram. Áfram Reykjavík!

Greinin birtist í Vesturbæjarblaðinu fimmtudaginn 24. maí 2018.

 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Heiða B. Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar skipa 1. og 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík

Áfram Reykjavík

Reykjavík er nú heilsueflandi borg en það þýðir að unnið er að því markvisst að skapa borg sem stuðlar að vellíðan borgarbúa og gerir þeim auðvelt að taka góðar ákvarðanir fyrir sína heilsu. Við viljum móta samfélag þar sem allir fá tækifæri og enginn er skilinn eftir.

Á liðnu kjörtímabili hefur meirihlutinn í borgarstjórn markað skýra stefnu til framtíðar í öllum helstu málaflokkum með jöfnuð, jafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi. Við erum á réttri leið. Nefna má að við höfum stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, lækkað leikskólagjöld, hækkað afslætti á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara og öryrkja og nánast eytt launamun kynjanna á vinnustöðum borgarinnar.

Kraftmikil græn borg

Á næsta kjörtímabili ætlum við að halda áfram kraftmikilli uppbyggingu í öllum hlutum borgarinnar með áherslu á öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, stúdentaíbúðir, íbúðir aldraðra, endurreisn verkamannabústaðakerfisins og sérstaka áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Kjalarnes býður upp á mikla möguleika í íbúabyggð, landbúnaði, ferðaþjónustu og alls konar atvinnuuppbyggingu auk þess að vera ein af perlum höfuðborgarsvæðisins með sína útivistarparadís.

Samningur við skógræktarfélag Kjalarness um skógrækt í Esjuhlíðum, samstarfsverkefnið Grænt Kjalarnes og sjóböðin eru dæmi um verkefni sem eru til fyrirmyndar. Samfylkingin vil vinna með íbúum Kjalarness í að styrkja samfélagið og hlúa að svæðinu. Verið er að skoða hvernig auka megi útivistamöguleika á svæðinu, s.s. stígagerð meðfram sjó og opnun gömlu póstmannaleiðarinnar og fleiri slík verkefni.

Samgöngur

Ný pöntunarþjónusta Strætó fyrir íbúa á Kjalarnesi á leið 29 hefur gefið góða raun og komið til viðbótar við leið 57 ásamt fjölgun ferða á þeirri leið. Þegar nýr Vesturlandsvegur rís mun umferðaröryggi aukast sem er mikilvægt, reiðstígar verða á sínum stað en einnig vonandi göngu- og hjólastígar sem opna á fjölbreyttari og vistvænni ferðamáta.

Meiri velferð

Velferðarþjónustan á að vera til staðar og styðja okkur og valdefla þegar þörf er á. Við eigum að fá jöfn tækifæri og við eigum öll að geta treyst á stuðning, helst í okkar nærumhverfi. Aukin áhersla á snemmtæka íhlutun í skólaþjónustu hefur gefið góða raun í Breiðholti og verið er að innleiða það verklag um alla borg núna. Við höfum lagt áherslu á geðheilsu og öflugan stuðning við börn og fjölskyldur í vanda og viljum sjá fleiri starfsstéttir og aukna sálfræðiþjónustu inni í skólunum og úrræði til að mæta betur þörfum ungmenna með fíknivanda. Efla þarf forvarnir á sviði geðheilsu. Þá þarf að efla stuðningsþjónustu, heimaþjónustu og heimahjúkrun enn frekar og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með enn betra Menningar- og heilsukorti.

Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu og við viljum halda áfram að byggja upp kraftmikla og nútímalega borg þar sem engin er skilinn eftir. Vilt þú vera með?

Greinin birtist í Kjalnesingi miðvikudaginn 23. maí 2018.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, skipar 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík

Borgarlína, nei takk?

Meirihluti Reykvíkinga ferðast einn um í bíl. Annar stærsti kostnaðarliður heimilanna er samgöngur. Samkvæmt FÍB kostar rekstur lítils fólksbíls yfir milljón á ári og mörg heimili reka fleiri en einn.

Beinn kostnaður borgarinnar af rekstri og viðhaldi gatnakerfisins er um 3,2 milljarðar á ári. Tekjur borgarinnar af bílum eru engar umfram bílastæðagjöld.

Borgin er skipulögð í kringum bíla og hlutfall samgöngumannvirkja af landnotkun er 48%. Þrátt fyrir að bíllinn sé í forgangi og að stofnbrautir kljúfi borgina og hverfi borgarinnar og þrátt fyrir að mislæg gatnamót greiði fyrir umferð inni í borginni þá hægist á umferð á háannatíma.

Það hægist á umferð þar sem stór hluti fólks ferðast sömu leiðir til og frá vinnu á sama tíma, hver og einn í sínum bíl. Til þess að bílarnir komist leiðar sinnar höfum við 4-8 akreina hraðbrautir sem liggja milli úthverfa Reykjavíkur, nágrannasveitarfélaga og borgarinnar þar sem stór hluti stundar nám eða vinnu.

Ferðatími fólks í borginni hefur lengst um 1-2 mínútur í hverri ferð á seinustu árum. Umferðin hefur þyngst og fólk er 1-2 mínútum lengur í bílnum í hverri ferð. Aðspurður vill meirihluti Reykvíkinga setja borgarlínu, strætó og hjólreiðar í forgang þegar spurt er út í umbætur á samgöngukerfi borgarinnar. Þriðjungur nefnir stofnvegakerfið.

Stofnkostnaður við borgarlínu felst í að leggja og reka forgangsakreinar og gera skýlin rúmgóð, hlý og þægileg og aðgengileg öllum. Þessar forgangsreinar, ef notaðar undir almenna umferð, myndu kosta jafnmikið en hafa mjög takmörkuð áhrif á umferðarflæði og ferðatíma.

Rekstrarkostnaður borgarlínu mun vera vegna rekstrar rafmagnsvagna sem keyra á 5-10 mínútna tíðni óhindrað eftir helstu samgönguleiðum borgarinnar. Farþegar borgarlínu munu taka þátt í þeim rekstrarkostnaði með farþegagjöldum.

Kostnaður við einkabílinn leggst þyngst á heimilin, sem greiða fleiri milljónir á ári fyrir rekstur einkabíla og finnst þau ekki hafa val um annað. Kostnaður borgarinnar við rekstur vegakerfisins er um 3,2 milljarðar á ári og við það leggst svo rekstur stofnbrauta sem er hjá ríkinu. Samfélagslegur kostnaður vegna umferðarslysa er gríðarlegur og áætlað er að rekja megi 80 dauðsföll á ári til svifryksmengunar.

Með því að segja já við borgarlínu og horfa til framtíðar þá munum við sjá styttri ferðatíma, minni samöngukostnað fyrir heimilin, hagkvæmari rekstur samgöngukerfis borgarinnar, minni mengun og meira frelsi fólks til að ferðast um höfuðborgina.

Því segi ég Borgarlína, já takk!

Greinin birtist í Fréttablaðinu miðvikudaginn 23. maí 2018.

 

Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi, skipar 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Almenningssamgöngur þvert á hverfi

Kæri Árbæingur.

Undanfarið kjörtímabil hef ég leitt Hverfisráð Árbæjar og unnið ásamt öðrum fulltrúum þess að hagsmunum hverfisins okkar eins og mér hefur frekast reynst unnt. Ég er fæddur og uppalinn Árbæingur og er nú sjálfur að ala upp börnin mín fjögur í hverfinu. Búsetan hér og um tíma í Grafarvogi hefur kveikt sérstakan áhuga á málefnum úthverfanna og hefur öðru fremur hvatt mig áfram í verkefnum undanfarinna ára. Þau verkefni urðu loks til þess að ég kom sjálfum mér á óvart og tók þátt í prófkjöri og er nú á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar. Á þessu kjörtímabili hefur ýmislegt færst til betri vegar í hverfinu og ýmsar nýjungar litið dagsljósið og hlutir verið endurbættir. Þá hafa Árbæingar hrundið af stað fjölda verkefni sjálfir með sérlega virkri þátttöku í  íbúakosningum betri hverfa.

Þjónusta Strætó er oft bitbeinið í úthverfunum. Að mörgu leyti hefur þjónusta Strætó batnað a.m.k. þegar leiðakerfið frá úthverfum vestur í bæ er skoðað. Þá er búið að endurvekja næturstrætó sem kemur sér vel fyrir Árbæinga. Eftir stendur að bæta þarf samgöngurnar þvert á hverfin austan við Elliðaárósa.

Það er staðreynd að mikið af fólki í úthverfum sækir þjónustu og frístundir á milli hverfanna, jafnvel frekar en niður í bæ. Ég er til dæmis viss um að margir íbúar kannast við vandann sem fylgir því að skutla krökkum á æfingu í Egilshöll, eða skólahljómsveit í Breiðholti á háannatíma.

Það er deginum ljósara að almenningssamgöngur um úthverfin þarf að styrkja og slíkar úrbætur munu draga úr skutli og einfalda líf íbúa. Með tilkomu Borgarlínu ætti þetta raunar að verða auðveldara þar sem hún mun taka við þjónustu stofnæðanna og auka þannig möguleikann á uppbyggingu almenningssamgangna innan og á milli hverfa. Það er því ekki að undra að hverfisráð Árbæjar lýsti samhljóða yfir nauðsyn góðrar tengingar hverfisins við Borgalínuna í umsögn sinni um hana síðast liðið haust. Góð tenging Borgarlínu við hverfið okkar er mikið hagsmunamál og mun án efa hafa áhrif á mótun hverfisins til framtíðar.

Fyrir þessum hagsmunum okkar sem og öðrum ætla ég mér að berjast á næsta kjörtímabili fyrir alla hverfisbúa og bið þig því um stuðning til þeirra verka í kosningunum 26. maí. Áfram Reykjavík.

Greinin birtist í Árbæjarblaðinu fimmtudaginn 10. maí 2018.

 

Þorkell Heiðarsson, náttúrufræðingur og formaður hverfisráðs Árbæjar, skipar 14. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík