Borg fyrir börn

Skúli Helgason skrifar:

ZP7A0155Samfylkingin leggur áherslu á húsnæðismál og málefni barnafólks í borgarstjórnarkosningunum .  Þar vega þungt skóla- og frístundamál enda renna um 40% af útgjöldum borgarsjóðs til þeirra mikilvægu mála.  Mikilvægustu verkefni skólamálanna eru bætt kjör kennara í leikskólum og grunnskólum, nemendamiðað skólastarf sem tekur mið af hæfileikum og áhugasviði hvers og eins og aukinn stuðningur við innra starfið í skólunum,m.a. með snemmtækri íhlutun í þágu nemenda sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.

Hærri frístundastyrkur

Við viljum hækka frístundastyrkinn um ríflega helming á kjörtímabilinu – í 50 þúsund krónur með hverju barni og auka systkinaafslætti þannig að foreldrar sem eru með börn bæði á leikskóla og í frístundastarfi grunnskóla njóti afsláttarins.  Það mun auka ráðstöfunartekjur þeirra um 80-100 þúsund krónur á ári eftir fjölda barna og aldri þeirra, og munar um minna.

Brúum bilið

Mikil eftirspurn er eftir fleiri úrræðum fyrir ungbarnafjölskyldur í borginni og er nauðsynlegt að fjölga leikskólaplássum fyrir yngsta aldurshópinn á sama tíma og við styrkjum samstarfið við dagforeldra, en þeir veita mikilvæga þjónustu, sem foreldrar kunna vel að meta.  Við viljum taka yngri börn inn í leikskólana í áföngum, með það að markmiði að börn komist að haustið sem þau verða 18 mánaða.

Þá viljum við efla enn frekar frístundastarfið í borginni og jafna aðgengi barna að frístundastarfi, þar með talið barna af erlendum uppruna.

Skóla- og frístundamál eru undirstaða velferðar í samfélaginu því þar getum við skapað börnum jöfn tækifæri til að blómstra sem sterkir skapandi einstaklingar.

Greinin birtist upphaflega í Vesturbæjarblaðinu. 

Fjárfestum í fólki

Skúli Helgason skrifar:

ZP7A0155

Ungir karlmenn eru fjölmennastir í hópi þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna samkvæmt nýrri skýrslu Rauða Kross Íslands. 57% þeirra 3.350 einstaklinga sem þáðu framfærslustyrk í Reykjavík á árinu 2013 hafa eingöngu lokið grunnskólaprófi og má því ætla að meirihluti þeirra komi úr röðum nemenda sem fallið hafa brott úr framhaldsskóla. Brotthvarf úr framhaldsskólum á Íslandi er rúmlega tvöfalt hærra en á hinum Norðurlöndunum að meðaltali. Löngu tímabært er að bregðast við þessum staðreyndum í skólakerfinu með auknu samstarfi grunnskóla og framhaldsskóla, ríkis og sveitarfélaga. Þar mun ekki duga til að stytta nám í framhaldsskólunum. Við þurfum að grípa til aðgerða strax í grunnskólunum til að koma í veg fyrir að börn falli frá námi síðar.

Reykjavík greiðir 4 milljarða króna á ári í fjárhagsaðstoð til einstaklinga án atvinnu og bótaréttar gagnvart ríkinu. Slíkt úrræði verður alltaf að vera til staðar en mikið er til vinnandi fyrir viðkomandi einstaklinga og samfélagið að við náum að breyta áherslum í þá veru að fleiri úr þessum hópi komist til vinnu og sjálfsbjargar. Þar er hlutverk skólanna mikilvægt ekki síst grunnskólans, þar sem tækifærin til að draga úr brotthvarfsáhættu eru mest að mínu mati.

Leiðin liggur í gegnum aukna áherslu á virkni nemenda og námsval við hæfi hvers og eins. Við eigum að setja okkur það markmið að öll börn og ungmenni læri það sem þau hafa áhuga á og nýtir best hæfileika þeirra. Við þurfum að skapa fagfólki í skólum þá umgjörð sem dregur fram það besta úr hverjum nemanda. Það kallar vissulega á meiri stuðning í skólastofunni og aukna þverfaglega samvinnu kennara og sérhæfðs starfsfólks við að mæta ólíkum þörfum nemenda.

Þróuð hafa verið skimunarpróf hér á landi til að greina snemma þá nemendur sem eru í mestri brotthvarfshættu. Til þessa hafa slík próf aðeins verið notuð í framhaldsskólum hérlendis en næsta skref er að hagnýta þau í grunnskólum borgarinnar með það í huga að öll börn njóti sín í skólanum.

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu.

Bætum hag barnafólks
Grein Skúla Helgasonar í Reykjavík - vikublaði 18.05.14

Grein Skúla Helgasonar í Reykjavík – vikublaði 18.05.14

Barnaborgin Reykjavík

HEIÐA HILMISDÓTTIR SKRIFAR:

Fátt skiptir okkur foreldra meira máli en að geta veitt börnum okkar hamingjuríka æsku og sjá þau vaxa og dafna. Reykjavíkurborg er á margan hátt fyrirmyndarstaður fyrir barnafjölskyldur, enda búum við að góðum skólum, fjölbreyttu frístundastarfi, heilbrigðu borgarumhverfi og þéttu öryggis- og stuðningsneti ef eitthvað bjátar á. Við erum því að mörgu leyti afar lánsöm.

Getum gert betur
En við getum gert enn betur og í mínum huga skiptir fátt meira máli í stjórnmálum dagsins, en einmitt það að gera borgina okkar að enn betri stað fyrir börn og barnafjölskyldur. Þannig borg viljum við sem bjóðum okkur fram fyrir XS í Reykjavík og þess vegna ætlum við að forgangsraða málefnum barnafjölskyldna á næsta kjörtímabili.

Við ætlum að efla stuðning við barnafjölskyldur og tryggja að foreldrum standi til boða ráðgjöf og fræðsla sem taki mið af ólíkum þörfum og aldursskeiðum barna. Öll börn eiga að njóta sín í skólunum, þeim á að líða vel og ganga vel í námi. Það er borgarkerfisins að laga sig að börnunum en ekki að laga börnin að kerfinu.

Fjölga rýmum
Við ætlum að fjölga leikskólarýmum fyrir fjölskyldur með ung börn. Við ætlum að hækka frístundastyrk með hverju barni í 50 þúsund krónur á kjörtímabilinu og taka upp samræmdan systkinaafslátt á milli leikskóla og frístundaheimila.

Við ætlum að stytta „vinnudag“ barna með samþættingu frístunda- og skólastarfs og stuðla um leið að fleiri samverustundum fjölskyldna. Við ætlum að tryggja að hollar og ódýrar skólamáltíðir standi leik- og grunnskólabörnum til boða óháð efnahag.

Minna skutl
Við ætlum líka að minnka skutlið og efla enn frekar hinn svokallaða frístundastrætó. Við viljum einnig eyða þeirri óvissu sem bíður margra ungra fjölskyldna þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur og á næsta kjörtímabili ætlum við að taka markviss skref við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og þar til börn komast inn á leikskóla.

Undir forystu Dags B. Eggertssonar ætlar XS að tryggja að í Reykjavík verði áfram komið ríkulega til móts við barnafjölskyldur þannig að þær geti treyst því að þar sé hagstæðast að búa fyrir barnafjölskyldur.

Barnapakkinn

 Magnús Már Guðmundsson skrifar:

Eitt mikilvægasta verkefni Reykvíkinga er að tryggja sem best velferð barna og unglinga í borginni. Reykjavík á umfram allt að vera barnvæn borg en það gerist ekki af sjálfu sér. Þess vegna hefur Samfylkingin lagt fram sérstakan „barnapakka“ sem er eitt af aðalstefnumálum flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Eftirsótt fjölskylduborg

Föst fjárútlát hjá ungum fjölskyldum eru mikil og eiga barnafjölskyldur oft erfitt með að láta enda ná saman. Í hverjum mánuði þurfa flestar fjölskyldur að standa skil á íbúða-, bíla- og/eða námslánum, greiða fyrir húsaleigu, leikskólapláss eða aðra dagvistun sem og tómstunda- og íþróttastarf barnanna. Af nógu er að taka og verður Reykjavík að halda áfram að koma til móts við barnafjölskyldur þannig að borgin verði áfram öflug og eftirsótt fjölskylduborg.
Borg fyrir börnin

Barnapakkinn er í fjórum hlutum. Í fyrsta lagi á Reykjavík að vera áfram hagstæðust fyrir barnafjölskyldur. Þannig styðjum við stóran hóp borgarbúa og fáum ungt fjölskyldufólk til borgarinnar. Í öðru lagi ætlar Samfylkingin að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum aðferðum í áföngum í samvinnu við dagforelda og ungbarnaleikskóla. Um gríðarlega stórt hagsmunamál er að ræða fyrir ungar fjölskyldur og aðstandendur þeirra. Frístundakortið hefur gefið góða raun til að tryggja aðgang barna að frístundastarfi óháð fjárhagsaðstæðum foreldra sinna og stefnir Samfylkingin að því hækka frístundastyrkinn í 50 þúsund krónur á hvert barn á kjörtímabilinu í samstarfi við íþróttafélög, tónlistarskóla og æskulýðssamtök. Þá mun Samfylkingin beita sér fyrir systkinaafslætti þvert á skólastig.
Til þess að barnapakkinn komist í framkvæmd þarf Samfylkingin að fá góða kosningu í komandi borgarstjórnarkosningum. Þannig tryggjum við að áfram verður gott að ala upp börn í Reykjavík.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 22. apríl 2014