Gott samfélag

Reykjavíkurborg hefur á liðnu kjörtímabili stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, eflt almenningssamgöngur, nánast eytt launamun kynjanna og verið í fararbroddi í vinnu gegn hvers kyns ofbeldi. Við höfum lagt áherslu á geðheilbrigði og öflugan stuðning við börn og fjölskyldur í vanda. Það er mikilvægt að haldið sé áfram að því að auka jöfnuð og vinna að betri borg fyrir okkur öll og það ætlum við að gera.

Heilsueflandi borg

Reykjavíkurborg hefur tekið ákvörðun um að vera heilsueflandi borg sem þýðir að við vinnum markvisst að því að gera borgina þannig að hún stuðli að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Bæði hvað varðar manngerða umgjörð og félagslega. Það skiptir til að mynda miklu máli að íbúabyggð sé þannig skipulögð að það sé stutt í þjónustu, að fólk hafi tækfæri til hreyfingar, geti hjólað eða gengið til vinnu eða í skóla, nálgast heilsusamlegan mat og gefandi félagsstarf.

Innihaldsríkt líf

Við leggjum sérstaka áherslu á að jafna aðstæður barna til að þroska hæfileika sína í frístundastarfi við hækkuðum frístundastyrkinn úr 35 þúsund í 50 þúsund á barn og viljum halda áfram að efla frístundastarf um alla borg. Auk skólahljómsveita viljum við, opna æfingahúsnæði fyrir tónlistarfólk í hverfum, efna til tilraunverkefnis með hverfiskóra barna og auka tækifæri barna til að prófa ólíkar íþróttir endurgjaldslaust. Við viljum auka þverfaglega þjónustu fyrir börn í grunnskólum borgarinnar og mæta betur þörfum fólks með fíknivanda. Við viljum fjölga geðheilsustöðvum og styðja frjáls félagasamtök sem vinna að bættri geðheilsu borgarbúa.

Velferðarborg

Við höfum lækkað fasteignagjöld á alla borgarbúa og einnig hækkað sérstaklega afslætti á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara og öryrkja. Við viljum á komandi kjörtímabili efla heimaþjónustu og heimahjúkrun enn fekar, brúa kynslóðabilið og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með því að þróa áfram Menningar- og heilsukort eldri borgara. Við komum á fót ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkur sem hefur þegar sannað mikilvægi sitt. Við opnuðum Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Við gerðum samkomulag um örugga og ofbeldislausa skemmtistaði og erum að innleiða stóreflda skimun og forvarnir gegn ofbeldi í skólum borgarinnar. Við þurfum áfram að vinna markvisst gegn öllu ofbeldi í borginni.

Áfram Reykjavík

Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu og við viljum halda áfram að byggja upp kröftuga, nútímalega borg þar sem engin er skilinn eftir. Borg án ofbeldis þar sem jafnrétti, jöfnuður og sjálfbærni eru gildi sem unnið er eftir.

Greinin birtist í hverfisblaðinu Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir.

 

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, 2. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík

Leikskólauppbyggingin í Vesturbæ

Við erum stolt af leikskólunum okkar og erum ekki ein um það því samkvæmt nýjustu þjónustukönnun þá eru 96 prósent foreldra ánægðir með leikskóla barna sinna. Fátt skiptir meira máli fyrir lífsgæði barna en að fá að þroskast, læra og leika við örvandi aðstæður. Þess vegna leggur Samfylkingin höfuðáherslu á að öll börn eigi þess kost innan fárra ára að vera á leikskóla frá lokum fæðingarorlofs.

Í Vesturbæ munum við opna tvær nýjar ungbarnadeildir og fjölga leikskólarýmum  í hverfinu strax í haust.  Þá stefnir í að byggður verði nýr leikskóli á Vatnsmýrarsvæðinu m.a. til að þjóna nýjum íbúum í Skerjafirði, Hlíðarenda og svæði Háskólans í Reykjavík.

Skýr aðgerðaáætlun

Markmiðið er skýrt: Öllum 12 til 18 mánaða börnum í Reykjavík bjóðist leikskólarými á næstu fjórum árum. Meirihlutinn í borgarstjórn undir forystu Samfylkingarinnar hefur lagt fram útfærða og ítarlega áætlun um það hvað þarf að gera, hvernig og hvenær, til að ná þessu skýra markmiði – og hvað það kostar.

Það þarf að bæta við allt að 800 nýjum leikskólaplássum, byggja 5 til 6 leikskóla, opna fleiri ungbarnadeildir og fjölga starfsfólki á leikskólum um 20-50 á ári, mest á seinni hluta tímabilsins. Þetta kostar rúma þrjá milljarða í framkvæmdakostnað og rúman milljarð í rekstrarkostnað. Við opnuðum sjö nýjar ungbarnadeildir í fyrra og sjö til viðbótar opna strax í haust. Þá verða þær í boði í öllum borgarhlutum. Við munum samhliða þessu styðja fjölgun rýma í sjálfstætt reknum leikskólum og efla dagforeldrakerfið.

Uppbygging í Vesturbæ

Hér í Vesturbænum munu tvær ungbarnadeildir opna í haust, við leikskólana Hagaborg og Grandaborg fyrir 30 börn alls. Þar mun leikrými, skiptiaðstaða, útisvæði og búnaður miðast við þarfir yngstu barnanna. Í haust komast yngri börn á ungbarnadeildirnar en verið hefur. Fyrst um sinn 16 til 18 mánaða börn en síðar enn yngri eftir því sem deildunum fjölgar.  Við munum einnig ganga til samninga um fjölgun barna á þremur sjálfstætt starfandi leikskólum í Vesturbæ: Mánagarði á vegum Félagsstofnunar stúdenta, Sælukoti og Skerjagarði.  Samtals munu tæplega 90 börn til viðbótar fá inni á þessum leikskólum á þessu ári.

Hvað með mannekluna?

Mannekla hefur oft verið vandamál á leikskólum, einkum á þenslutímum. Við stóðum frammi fyrir mikilli manneklu síðasta haust en með samstilltu átaki tókst að ráða 110 manns til starfa á rúmlega hálfu ári og þar með leysa mesta vandann.  Núna vantar innan við hálft stöðugildi á hvern leikskóla að meðaltali, sem er lægra hlutfall en í tveimur stærstu nágrannasveitarfélögum okkar á höfuðborgarsvæðinu.

Mönnun leikskólanna verður áfram stórt verkefni og helsta takmarkið er að fjölga leikskólakennurum, m.a. með því að gera leikskólana að eftirsóknarverðari vinnustöðum. Í því skyni höfum við unnið mjög náið með Félagi leikskólakennara og fleirum að því að bæta starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík. Þessi samvinna skilaði góðum tillögum og koma 14 þeirra til framkvæmda strax á þessu ári. Við munum m.a. auka leikrými barna, fjölga starfsfólki á elstu deildum, fjölga undirbúningstímum, tryggja fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, bæta móttöku nýliða,bjóða 60 ungmennum sumarstörf til að kveikja áhuga þeirra á starfinu og kennaranámi og og munum halda áfram að kynna störf á leikskólum sem eftirsóknarverð og gefandi. Loks hefur mikil áhersla verið á að bæta kjör leikskólakennara og við leggjum áherslu á bæta enn frekar kjör starfsfólks á leikskólum.

Klárum dæmið

Við í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar setjum markið hátt en treystum okkur til að standa við stóru orðin því við höfum sýnt í verki að skólamálin njóta forgangs í borginni. Framlög til skólamála hafa aukist um heila 9 milljarða á kjörtímabilinu og vegna traustrar stöðu borgarsjóðs treystum við okkur til að fjármagna þessa miklu uppbyggingu leikskóla á næsta kjörtímabili samhliða því að hækka laun kennara og annars starfsfólks, innleiða nýja metnaðarfulla menntastefnu með áherslu á alhliða valdeflingu barna og bæta húsnæðisaðstöðu skóla eins og Melaskóla og Hagaskóla. Við óskum eftir þínum stuðningi og annarra Vesturbæinga til að klára þessi mikilvægu verkefni með sóma.

Greinin birtist í Vesturbæjarblaðinu fimmtudaginn 24. maí 2018.

 

Skúli Helgason er formaður skóla- og frístundaráðs og skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Kosið um framtíð Reykjavíkur

Kosningarnar 26. maí skipta miklu máli fyrir framtíð Reykjavíkur og í kosningabaráttu síðustu vikna hafa kristallast mjög ólíkar hugmyndir um þróun borgarinnar. Á undanförnum árum höfum við verið að leiða breytingar í Reykjavík sem blasa við borgarbúum í þeirra nánasta umhverfi. Reykjavík er að verða meiri borg. Hverfin eru að lifna við með fjölbreyttari nærþjónustu. Hvarvetna sjáum við þróast kraftmikla og nútímalega borg sem er fjölbreytt, skemmtileg og lifandi í samræmi við framtíðarsýn borgarinnar. Og við viljum halda áfram að styðja við þessa þróun.

Þinn stuðningur skiptir máli

Til þess þurfum við á þínum stuðningi að halda í kosningunum þann 26. maí. Á næsta kjörtímabili eru gríðarleg tækifæri til að festa í sessi þær breytingar sem eru að verða í borginni og við þurfum skýrt umboð í kosningunum til að geta haldið áfram á sömu braut með Reykjavík. Þróun borgarinnar skiptir máli fyrir okkar öll. Við viljum við hefja framkvæmdir við Borgarlínu strax og setja Miklubraut í stokk. Við viljum halda áfram að leiða mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar með áherslu á hagkvæmt húsnæði á spennandi stöðum um alla borg. Við viljum klára uppbyggingu leikskólana með því að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti. Og síðast en ekki síst viljum við að Reykjavík verði áfram borg fyrir okkur öll.

Áfram Reykjavík

Framtíðarsýn Samfylkinginnar í Reykjavík er skýr. Við erum stolt af því og höfum fundið fyrir miklum meðbyr meðal borgarbúa í kosningabaráttunni. Kosningarnar á laugardaginn snúast um framtíð Reykjavíkur og hverjum við treystum til að leiða breiðan meirihluta í Reykjavík þar kraftmikil uppbygging á sér stað, þar sem við þróum græna, lifandi og fjölbreytta borg saman. Borg fyrir okkur öll. Við viljum halda ótrauð áfram. Áfram Reykjavík!

Greinin birtist í Vesturbæjarblaðinu fimmtudaginn 24. maí 2018.

 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Heiða B. Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar skipa 1. og 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík

Leikskólauppbygging í Grafarvogi strax í haust

Leikskólarnir í borginni eru í hæsta gæðaflokki enda eru 96 prósent foreldra ánægðir með leikskóla barna sinna samkvæmt nýjustu þjónustukönnun. Fátt skiptir meira máli fyrir lífsgæði barna en að fá að þroskast, læra og leika við örvandi aðstæður. Þess vegna leggur Samfylkingin í Reykjavík höfuðáherslu á að öll börn eigi þess kost innan fárra ára að vera á leikskóla frá lokum fæðingarorlofs.

Í Grafarvogi verða opnaðar tvær nýjar ungbarnadeildir strax í haust og í hinu nýja Bryggjuhverfi stefnir í að byggður verði nýr leikskóli fyrir a.m.k. 150 börn.

Skýr aðgerðaáætlun

Markmiðið er skýrt: Öllum 12 til 18 mánaða börnum í Reykjavík bjóðist leikskólarými á næstu fjórum til sex árum. Er það hægt? Já, engin spurning. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur lagt fram útfærða og ítarlega áætlun um það hvað þarf að gera, hvernig og hvenær, til að ná þessu skýra markmiði – og hvað það kostar.

Það þarf að bæta við allt að 800 nýjum leikskólaplássum, byggja 5 til 6 leikskóla, opna fleiri ungbarnadeildir og fjölga starfsfólki á leikskólum um 150 til 170 manns. Þetta kallar á fjárfestingu upp á rúma þrjá milljarða á næstu árum í nýjum leikskólum og rúman milljarð í rekstrarkostnað. Við opnuðum 7 nýjar ungbarnadeildir síðasta haust og opnum 7 til viðbótar strax í haust. Þá verða ungbarnadeildir í boði í öllum borgarhlutum. Við munum samhliða þessu styðja frekari uppbyggingu sjálfstætt rekinna leikskóla og efla dagforeldrakerfið.

Uppbygging í Grafarvogi

Hér í Grafarvogi munu tvær ungbarnadeildir opna í haust, við leikskólana Sunnufold og Engjaborg. Þær verða sérhæfðar, þar sem leikrými, skiptiaðstaða, útisvæði og búnaður miðast við þarfir yngstu barnanna. Í haust komast yngri börn á ungbarnadeildirnar en verið hefur. Fyrst um sinn 16 til 18 mánaða börn en síðar enn yngri.

Okkar áætlun gerir ráð fyrir að í Grafarvogi verði bætt við plássum fyrir allt að 200 börn á leikskólaaldri á næstu árum, einkum í hinu nýja Bryggjuhverfi þar sem stefnt er að því að byggður verði nýr leikskóli fyrir um 150 börn.

Hvað með mannekluna?

Mannekla hefur oft verið vandamál á leikskólum, einkum á þenslutímum. Við stóðum frammi fyrir mikilli manneklu síðasta haust en með samstilltu átaki tókst að ráða 110 manns til starfa á rúmlega hálfu ári og þar með leysa mesta vandann.

Mönnun leikskólanna verður áfram stórt verkefni og takmarkið er að fjölga leikskólakennurum, m.a. með því að gera leikskólana að eftirsóknarverðari vinnustöðum. Í því skyni höfum við unnið mjög náið með Félagi leikskólakennara og fleirum að því að bæta starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík. Þessi samvinna skilaði fjölda tillagna og koma 14 þeirra til framkvæmda strax á þessu ári. Við munum auka leikrými barna, fjölga starfsfólki á elstu deildum, fjölga undirbúningstímum, tryggja fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, bæta móttöku nýliða,bjóða sumarstörf fyrir ungt fólk á leikskólum og halda áfram að kynna störf á leikskólum sem eftirsóknarverð og gefandi. Þá hafa kjör leikskólakennara batnað þó enn sé sannarlega verk að vinna við að bæta kjör starfsfólks á leikskólum.

Klárum dæmið

Við í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar setjum markið hátt en treystum okkur til að standa við stóru orðin því við höfum sýnt í verki að skólamálin njóta forgangs í borginni. Framlög til skólamála hafa aukist um heila 9 milljarða á kjörtímabilinu og með bættum hag borgarsjóðs treystum við okkur til að fjármagna þessa miklu uppbyggingu leikskóla á næsta kjörtímabili. Við óskum eftir þínum stuðningi og annarra Grafarvogsbúa til að klára þetta stóra verkefni með sóma.

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu.

 

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar

Aukum stuðning við 16 til 18 ára ungmenni

Fyrir mörgum árum færðist sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár. Þetta er flestum ljóst en þó er engu líkara en að samfélagið þurfi að minna sig á þessa staðreynd við og við. Ungmenni á þessum aldri eiga skýlausan rétt á ýmsum stuðningi frá hinu opinbera. Ég tel að við getum gert mun betur til að tryggja þann stuðning en ekki síður tel ég mikilvægt að allar breytingar sem varða þennan aldurshóp séu mjög vel ígrundaðar og helst af öllu ákveðnar í samráði við hópinn sjálfan.

Glíma við kvíða og heilbrigður lífsstíll

Við vitum að ungmenni glíma við kvíða og þunglyndi í meiri mæli en áður, bæði í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Fleiri hverfa brott frá námi en eðlilegt þykir og sá hópur fær lítinn stuðning frá hinu opinbera og hefur fáa möguleika til félagslegrar virkni. En ekki má gleyma þeim jákvæðu staðreyndum að ungir Íslendingar velja sífellt fleiri heilbrigðan lífsstíl án vímuefna, eru virkir í tómstundum og íþróttum og eru mikilvægar fyrirmyndir í sínu nærumhverfi.

Það fara ekki allir sömu leið

Ég hef áhyggjur af hópnum sem hverfur brott frá námi og þær áhyggjur hafa ekki minnkað við styttingu náms til stúdentsprófs. Þeim spurningum hefur ekki verið svarað hvaða áhrif styttingin gæti haft á ungmenni með tilliti til félagslegra þátta og velferðarsjónarmiða. Það gefur augaleið að styttingin eykur álag í námi, á kostnað þess að njóta og fá nauðsynlegt svigrúm til að þroskast. Það var gagnrýnivert að stytta námstíma á framhaldsskólastigi á sama tíma og dregið var úr möguleikum fólks til að setjast aftur á skólabekk. Er hugsanlegt að þetta valdi kvíða hjá ungmennum? Enginn vafi er á því að þessar breytingar hafa valdið auknum kvíða hjá ungmennum. Að mínu mati vorum við á góðu róli enda kláruðu getumiklir námsmenn framhaldsskólann á þremur árum, stór hópur á fjórum árum og enn aðrir síðar og jafnvel með hléum.

Á meðan staðreyndin er sú að við höfum hærra hlutfall nemenda sem hverfa brott frá námi vegna einhverra orsaka þá er mikilvægt að stórauka stuðning eigi róttæk breyting á borð við styttingu náms til stúdentsprófs að vera farsæl. Við eigum ekki að gera ráð fyrir því að allir fari sömu leið, við verðum að bjóða ungu fólki raunverulega möguleika á fjölbreyttri menntun.

Menntun er velferðarmál

Þeir sem fátækastir eru í okkar samfélagi eiga það oft sameiginlegt að vera með litla formlega skólagöngu að baki. Ef við styðjum við ungmennin okkar á menntaveginum hefur það veruleg jákvæð áhrif á velferð og lífsgæði fólks til frambúðar. Við þurfum að skapa samfélag fólks með ólíka menntun, reynslu og þekkingu. Möguleikar til menntunar eiga að vera fjölbreyttir, aðgengilegir og án aðgreiningar. Þeir þurfa að vera formlegir, óformlegir og í formi sí- og endurmenntunar. Taka verður tillit til áhugasviðs og aðstæðna og gera ungu fólki raunverulega kleift að fara á þeim hraða í gegnum nám sitt sem hentar. Sérstaklega þarf að hlúa vel að 16 til 18 ára gömlum ungmennum, sem við berum sameiginlega ríka ábyrgð á. Gleymum því ekki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 14. maí 2018.

 

Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri á þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar á Laugarvegi, skipar 13. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Góðar fréttir og aðrar falskar um leikskólamál

Mikil umræða hefur verið um menntamál og þar með talið leikskólamál að undanförnu og er það vel. Það er hins vegar nauðsynlegt að halda á lofti réttum og áreiðanlegum upplýsingum í þeim efnum en nokkur dæmi eru um að flaggað sé falsfréttum sem ætlað er að slá ryki í augu kjósenda rétt fyrir kosningar.

Rangar og villandi upplýsingar um biðlista

Því miður hafa frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins haldið á lofti röngum og úreltum upplýsingum um stöðu svokallaðra biðlista á leikskólum, sem er dapurlegur vitnisburður um fátæklega málefnastöðu. Því er haldið fram í myndböndum, sjónvarpsauglýsingum og blaðagreinum að 1629 börn séu á biðlista í Reykjavík eftir leikskólaþjónustu og í grein sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, birtir í Morgunblaðinu sl. fimmtudag er því haldið fram að fjöldinn sé tæplega tvö þúsund börn.

Hið rétta er hins vegar að af þeim rúmlega 1600 börnum sem voru á biðlista í byrjun apríl hefur nú um 1400 börnum verið boðin leikskólavist í haust og um 200 börn til viðbótar munu fá slíkt boð síðar í þessum mánuði.

Hið rétta er hins vegar að af þeim rúmlega 1600 börnum sem voru á biðlista í byrjun apríl hefur nú um 1400 börnum verið boðin leikskólavist í haust og um 200 börn til viðbótar munu fá slíkt boð síðar í þessum mánuði.  Forráðamenn 1600 barna sem voru á fyrrnefndum biðlista fá því boð um leikskólarými núna í maí og börn þeirra verða tekin inn á leikskólana í haust.

Innritun gengur vel – líka á ungbarnadeildir

Innritun á leikskóla borgarinnar gengur vel og raunar betur en á síðastliðnu ári. Nú hafa öll börn sem fædd eru 2016 eða fyrr fengið boð um leikskólarými og stefnir í að öll börn sem verða 18 mánaða 1. september næstkomandi fái boð um að komast inn á leikskóla borgarinnar í haust. Innritun er hafin á ungbarnadeildirnar og þar með talið nýju deildirnar sjö sem opna í haust í Grafarvogi, Vesturbæ, Grafarholti og Hlíðum. Ungbarnadeildirnar verða þá alls fjórtán talsins í öllum borgarhlutum og þær eru mikilvægt framfaraskref því þar er aðstaða, leikrými, búnaður og útisvæði sniðið að þörfum yngstu barnanna.

Mikill áhugi á sumarstörfum á leikskóla

Borgarráð samþykkti á dögunum tillögu um að bjóða ungu fólki sumarstörf á leikskólum, sem við teljum mikilvægt til að glæða áhuga ungu kynslóðarinnar á því að starfa með börnum á leikskólum og ekki síður kveikja áhuga hjá fleirum á því að sækja sér menntun í leikskólakennarafræðum. Samþykkt var fjárveiting fyrir 60 sumarstörfum og voru viðbrögð framar vonum, því 240 umsóknir bárust um þessi störf. Nú er verið að velja úr umsóknum en allir leikskólar borgarinnar munu fá sumarstarfsmann í tengslum við þetta átak.

Fjölgun leikskólarýma strax í haust og nýbyggingar á komandi árum

Samfylkingin leggur áherslu á að til að koma betur til móts við foreldra yngstu barna verði fjölgað leikskólarýmum um nærri 200 á þessu ári, bæði við borgarrekna leikskóla í Laugardal, Breiðholti, Grafarvogi, Fossvogi og Háaleiti og fjölgun plássa í tilteknum sjálfstætt reknum leikskólum í Vesturbænum. Það mun gera okkur kleift að bjóða yngri börnum leikskólavist en verið hefur um leið og þetta viðbótarhúsnæði verður tilbúið til notkunar á komandi haustmánuðum.

Á næsta ári fjölgar leikskólarýmum enn um 200 m.a. með tilkomu nýs leikskóla í hinu glæsilega húsnæði Dalskóla í Úlfarsárdal en líka víðar. Á árunum 2020 til 2024 verða svo reistir nýjir leikskólar og eru þar eftirtalin svæði á áætlun: Kirkjusandur, Vatnsmýrarsvæðið, Vogabyggð, Miðborg, Ártúnshöfði og Bryggjuhverfi. Alls er stefnt að fjölgun um allt að 800 leikskólarými sem á að nægja til að geta boðið öllum 12 mánaða börnum leikskólaþjónustu á næstu 4 til 6 árum.

Nýliðun leikskólakennara og aðgerðir til að styrkja mönnun leikskóla

Eitthvert mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir er að stuðla að aukinni nýliðun í stétt kennara í leik- og grunnskólum sem og fagfólks í frístundastarfi. Í Reykjavík erum við að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að bæta vinnuumhverfi starfsfólks og þar með gera starfsvettvanginn eftirsóknarverðari, m.a. með fjölgun starfsfólks á elstu deildum, auknu rými barna og starfsfólks, auknu fjármagni í viðhald og endurbætur húsnæðis.

Þá liggja fyrir tillögur um að auka aðsókn ungs fólks í kennaranám, gera nauðsynlegar breytingar á inntaki námsins í takt við óskir vettvangs um hagnýtari áherslur, samþykkja sértæka hvata á borð við námsstyrki eða lægri endurgreiðslur í gegnum LÍN, bæta móttöku nýliða, t.d. með leiðsagnarkennurum, efla starfsþróun og svigrúm til frekari menntunar o.s.frv. Allar þessar áherslur koma fram í tillögum sem starfshópar á vegum Reykjavíkurborgar hafa lagt til í því skyni að auka nýliðun og bæta starfsumhverfi kennara í leik- og grunnskólum.

Það er verk að vinna í leikskólamálum en gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða til að bæta stöðuna og það er engum ofsögum sagt að leikskólastarf í Reykjavík er á heimsmælikvarða. 96% foreldra eru ánægð með leikskóla barna sinna í Reykjavík skv. nýjustu viðhorfskönnun og framlög til leikskólastarfs í Reykjavík hafa aukist til mikilla muna á undanförnum árum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. maí 2018.

 

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Klárum uppbyggingu leikskólanna

Leikskólarnir okkar eru á heimsmælikvarða og 96 prósent foreldra eru ánægðir með leikskóla barna sinna samkvæmt nýjustu þjónustukönnun. Þar fá börnin okkar kjöraðstæður til að þroskast, læra og leika. Fátt skiptir meira máli fyrir lífsgæði okkar allra en öflugir leikskólar. Þess vegna leggur Samfylkingin í Reykjavík höfuðáherslu á að börnum verði boðið pláss á leikskóla fyrr en verið hefur svo börn og foreldrar fái að njóta þeirra lengur.

Raunhæf áætlun

Markmiðið er skýrt: Öllum 12 til 18 mánaða börnum í Reykjavík bjóðist pláss á leikskóla á næstu fjórum til sex árum. Er það hægt? Já, og við ætlum að gera það. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur lagt fram útfærða áætlun um hvað þarf að gera, hvernig og hvenær, til að ná þessu skýra markmiði – og hvað það kostar.

Það þarf að bæta við allt að 800 nýjum leikskólaplássum, byggja 5 til 6 leikskóla, opna fleiri ungbarnadeildir og fjölga starfsfólki á leikskólum um 150 til 170 manns. Þetta kallar á fjárfestingu upp á rúma þrjá milljarða á næstu árum í nýjum leikskólum og rúman milljarð króna í aukinn rekstrarkostnað. Við opnuðum 7 nýjar ungbarnadeildir síðasta haust og munum opna 7 til viðbótar í haust.

Stór ungbarnadeild við Blásali

Síðastliðið haust opnuðu tvær ungbarnadeildir við leikskólann Blásali í Árbæjarhverfi þar sem leikrými, skiptiaðstaða, útisvæði og starfsmannaaðstaða miðast við þarfir yngstu barnanna. Í haust verður heimilt að bjóða yngri börnum á ungbarnadeildirnar. Fyrst um sinn verða þær opnaðar fyrir 16 til 18 mánaða börnum en síðar munum við geta lækkað þann aldur enn frekar eftir því sem ungbarnadeildum í borginni fjölgar.

Á komandi árum fer svo í hönd mikil uppbygging í Ártúnshöfða og í áætlunum okkar er gert ráð fyrir að þar geti risið a.m.k. 150 barna leikskóli.

Slagurinn við mannekluna

Mannekla hefur oft verið vandamál á leikskólum, einkum á þenslutímum. Við stóðum frammi fyrir mikilli manneklu síðasta haust en með samstilltu átaki tókst að ráða 110 manns til starfa á rúmlega hálfu ári og þar með leysa mesta vandann.

En mönnun leikskóla verður áfram stórt viðfangsefni þar sem fjölgun leikskólakennara verður sérstakt áherslumál. Við höfum unnið náið með Félagi íslenskra leikskólakennara og fleirum í starfshópi um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík og sú samvinna skilaði góðum tillögum sem margar komast strax til framkvæmda á þessu ári. Við munum auka leikrými barna, fjölga starfsfólki á elstu deildum, fjölga undirbúningstímum, tryggja fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, bæta móttöku nýliða og halda áfram að kynna störf á leikskólum sem eftirsóknarverð og gefandi. Þá hafa kjör leikskólakennara batnað þó enn sé sannarlega verk að vinna við að bæta kjör starfsfólks á leikskólum.

Klárum dæmið

Á síðustu öld voru leikskólarnir ekki fyrir alla heldur fáa útvalda. Það þurfti risavaxið átak Reykjavíkurlistans til að breyta þessu en á árunum 1994 til 2002 jókst hlutfall barna í Reykjavík með heilsdagspláss á leikskóla úr 30 prósent í 80 prósent.

Nú er mál að lyfta öðru grettistaki. Það er kominn tími til að klára verkefnið sem Reykjavíkurlistinn byrjaði og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Okkur í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar er treystandi til þess að standa við stóru orðin því við höfum sett skólamálin í forgang á þessu kjörtímabili með stórauknum framlögum, um 9 milljörðum, í bætt innra starf, hærri laun og betri aðbúnað. Vonandi fáum við stuðning þinn til verksins og annarra Árbæinga sem vilja klára uppbyggingu leikskólanna.

Greinin birtist í Árbæjarblaðinu í apríl 2018.

 

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar

Ný og framsækin menntastefna Reykjavíkur

Undanfarna 18 mánuði hefur staðið yfir merkileg vinna í Reykjavík við að móta sameiginlega menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030. Þúsundir manna hafi komið að þessari vinnu sem hafði það markmið að ná samstöðu um mikilvægustu umbætur á skóla- og frístundastarfi borgarinnar með það í huga að nesta börn og unglinga í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi sem best fyrir líf og starf. Nú liggja fyrir drög að menntastefnunni og borgarráð samþykkti í liðinni viku að senda þau út til umsagnar þeirra sem hafa hlutverki að gegna eða hagsmuna að gæta í menntamálum borgarinnar.

Náið samráð

Algeng mistök við stefnumótun eru að vinna hana í þröngum hópi stjórnmálamanna og embættismanna í efstu lögum stjórnsýslunnar og senda hana svo til þeirra sem bera uppi daglegt starf viðkomandi stofnana til innleiðingar og framkvæmdar, án þess að eiga raunverulegt samráð um innihald stefnunnar og megináherslur. Slík vinnubrögð bera dauðann í sér og skila litlum sem engum árangri.

Mótun menntastefnu Reykjavíkur hefur farið fram í nánu samráði við kennara, skólastjórnendur, annað starfsfólk leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva en einnig foreldra, fræðimenn, innlenda og erlenda ráðgjafa og síðast en ekki síst börn og unglinga sem hafa sterkar skoðanir á því sem fram fer í skólum og frístundastarfi borgarinnar. Loks var almenningi boðið að koma með hugmyndir, ábendingar og tillögur í gegnum vefinn Betri Reykjavík og nýttu margir sér það tækifæri. Talið er að um 10 þúsund manns hafi komið að því að móta stefnuna á síðastliðnu ári.

Ákall um breytingar

Menntastefnan er ekki lýsing á núverandi menntakerfi heldur ákall um breytingar í veigamiklum atriðum og þó sérstaklega leiðarvísir um það hvaða þætti þurfi helst að styrkja í menntamálum borgarinnar til komandi ára. Ýmis merki eru um að löngu tímabært sé að gera breytingar á þessu kerfi. Samkvæmt ítarlegri rannsókn Gerðar G. Óskarsdóttur og fleiri fræðimanna á starfsháttum í grunnskólum vantar enn mikið upp á að stefnu sem leidd hefur verið í lög sé í raun fylgt í grunnskólum landsins, þ.m.t. um einstaklingsmiðað nám, nám við hæfi hvers og eins og skóla án aðgreiningar. Brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum er tvöfalt meira á Íslandi en í löndum OECD og árangur í samanburðarkönnun PISA á námsárangri 10. bekkjar nemenda í þremur greinum sýnir afturför hjá íslenskum nemendum. Staða reykvískra nemenda er þar reyndar mun betri en t.d. á landsbyggðinni, sérstaklega í stærðfræði og íslensku, og reykvískir nemendur eru í 1. eða 2. sæti í samanburði milli landshluta í samræmdum prófum í 4., 7. og 10. bekk.

Það er einkenni á íslensku menntakerfi að áhersla á hefðbundið bóknám er mikil og meiri en í nágrannalöndunum, kennsluhættir eru enn að miklu leyti hefðbundnir og áhrif nemenda á eigið nám eru takmörkuð og fara minnkandi með hækkandi aldri. Á sama tíma fer kvíði og þunglyndi vaxandi meðal nemenda sem reyndar er alþjóðleg þróun austan hafs og vestan.

Gegn íhaldssemi

Menntastefna Reykjavíkur vísar veginn úr kerfi sem að mörgu leyti er íhaldssamt með því að horfa á hvernig megi stuðla að alhliða menntun og þroska barna í anda Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með áherslu á valdeflingu barna og ungmenna, að hlusta á og taka mark á sjónarmiðum þeirra um innihald og forgangsröðun náms, vinna með styrkleika og áhugasvið þeirra og draga fram það besta í hverjum og einum en ekki steypa nemendur í sama mót. Því fylgir stefna um að auka vægi list- og verknáms, útináms og náttúrugreina – sem merkilegt nokk er stærsti akkilesarhæll íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburði námsárangurs, ef marka má PISA.

Það er alvarlegur dómur yfir Sjálfstæðisflokki Brynjars Níelssonar og fleiri sem hafa tjáð sig um menntastefnuna á undanförnum dögum að menntamálaráðherrar flokksins skuli ekki hafa brugðist við slakri stöðu nemenda í náttúrugreinum, þó þær niðurstöður hafi legið fyrir í fjölda ára. Reykjavíkurborg mun ekki bíða eftir leiðsögn ríkisins í þeim efnum og mun fylgja fast eftir því ákvæði menntastefnunnar að auka vægi náttúrugreina í skólastarfinu, í samvinnu við stofnanir og fyrirtæki sem tengjast umhverfisvernd og náttúru. Við væntum hins vegar mikils af samvinnu við nýjan menntamálaráðherra sem hefur þegar sýnt vilja í verki til samvinnu við borgina um sameiginleg baráttumál eins og að styrkja stöðu kennara og fjölga þeim sem leggja stund á kennslu, draga úr brotthvarfi í framhaldsskólum og bæta stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku.

Fimm hæfniþættir í forgangi

Menntastefna Reykjavíkur byggir á því að setja í forgang áherslu á fimm hæfniþætti nemenda til næstu ára: félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði.  Þessir þættir styðja vel við áherslur í aðalnámskrá en lýsa þó ákveðinni forgangsröðun umfram það sem þar kemur fram.  Því til viðbótar fylgja tillögur að aðgerðum sem sýna hvernig megi innleiða stefnuna, m.a. um aukna áherslu á hæfniþættina fimm.

Mikilvægt er að árétta að áfram verður að sjálfsögðu unnið með einstakar námsgreinar, miðlun og öflun þekkingar eins og kveðið er á um í lögum og aðalnámskrá en vægi fyrrnefndra hæfniþátta mun aukast í samræmi við þá forgangsröðun sem birst hefur í vinnu skólafólks á vettvangi við mótun menntastefnunnar.

Stóraukið fjármagn til skólaþróunar

Borgarráð samþykkti í síðustu viku að samhliða samþykkt stefnunnar í haust verði aukið verulega fjármagn til þróunarstarfs í skólunum, sem mun renna beint til leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva. Þannig verður á þessu ári 100 milljónum króna varið til þróunarstarfs í skólunum og 200 milljónum á því næsta sem er risaskref upp á við frá þeim 19 milljónum sem voru til ráðstöfunar á síðastliðnu ári í þróunarsjóð skóla- og frístundaráðs. Þessu fjármagni er ætlað að tryggja að áherslur menntastefnunnar komist strax til framkvæmda og að hver og einn leikskóli, grunnskóli og frístundaheimili fái fjárhagslegt og faglegt svigrúm til að innleiða stefnuna í samræmi við áherslur og forgangsröðun á hverjum stað.

Framtíðin er sannarlega björt í skóla- og frístundamálum borgarinnar. Áfram Reykjavík!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. maí 2018.

 

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Metnaðarfull menntastefna Samfylkingarinnar

Samfylkingin hefur sett menntamál í borginni í forgang með því að auka framlög um 9 milljarða að raungildi frá 2014. Forgangsverkefni er að bæta kjör starfsfólks og vinnuumhverfi og nú liggja fyrir drög að framsækinni menntastefnu Reykjavíkur til 2030 sem þúsundir aðila í skólasamfélaginu hafa tekið þátt í að móta.

Leikskólar fyrir börn frá 12 mánaða aldri                   

Samfylkingin hefur ein flokka lagt fram raunhæfa áætlun um hvernig við brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.  Strax í haust fjölgar leikskólaplássum um nærri 200 m.a. með viðbótarhúsnæði við starfandi leikskóla og á næsta ári fjölgar þeim um 200 til viðbótar m.a. með tilkomu nýs Dalskóla.  Á árunum 2020-2024 er svo ráðgert að nýir borgarreknir leikskólar rísi á nýbygginga- og þéttingarsvæðum, á Kirkjusandi, í Vatnsmýri, Vogabyggð og víðar.  Alls fjölgar leikskólarýmum um 750-800 og þar með getum við boðið öllum 12 mánaða börnum og eldri leikskólavist í borginni innan 4-6 ára. Sjö nýjar ungbarnadeildir með sérhæfðri aðstöðu fyrir yngstu börnin bætast við í haust og verða þær þá fjórtán alls í öllum borgarhlutum. Samhliða þessu verður haldið áfram að bæta kjör og vinnuumhverfi kennara og starfsfólks leikskóla og vinna með ríkinu að því að fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám.

Öflugra dagforeldrakerfi

Við höfum líka skipulagt úrbætur á kerfi dagforeldraþjónustu í samráði við félög dagforeldra í borginni. Þær miða m.a. að því að auka gæði og öryggi þjónustunnar, tryggja húsnæðisstuðning, fagstuðning og fleira til að fjölga dagforeldrum og hvetja þá til að vinna saman í pörum og loks hækka niðurgreiðslur til foreldra.

Jöfn tækifæri allra barna

Jöfnuður í menntakerfinu er grundvallar markmið okkar jafnaðarmanna og brýnasta hlutverk okkar er að búa svo um hnútana að öll börn hafi jöfn tækifæri til menntunar og alhliða þroska en efnahagur og félagsleg staða foreldri setji ákveðnum börnum ekki stólinn fyrir dyrnar þegar kemur að tækifærum til þátttöku í fjölbreyttu skóla- og frístundastarfi.  Mikilvægt er að einfalda allt fyrirkomulag sérkennslu og stuðnings og gera breytingar á fyrirkomulagi skólaþjónustunnar í þá veru að þjónusta við börn með sérstakar þarfir fari að mestu fram úti í skólunum.  Stuðningur við börn á að miðast við þarfir þeirra en ekki vera háður læknisfræðilegum greiningum. Við viljum fjölga fagfólki sem starfi við hlið kennara í skólum að því að mæta fjölbreytilegum þörfum nemenda.  Síðast en ekki síst viljum við að aukið fjármagn renni til skóla í hverfum þar sem er lágt menntunarstig foreldra og hátt hlutfall fólks sem býr við þröngan hag.

Greinin birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 10. maí 2018.

 

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík

 

Nýjar leikskóladeildir í Grafarholti strax í haust

Samfylkingin í Reykjavík ætlar að klára uppbyggingu leikskólanna á næsta kjörtímabili með því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það er kominn tími til að klára leikskólabyltinguna sem Reykjavíkurlistinn hóf fyrir aldarfjórðungi. Markmiðið er skýrt: Öll 12 til 18 mánaða börn í Reykjavík fái boð um leikskólavist á næstu fjórum til sex árum. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur lagt fram útfærða og ítarlega áætlun til að ná þessu skýra markmiði – og sýnt hvað hún kostar.

Þessi áætlun hefur í för með sér mikla uppbyggingu í Grafarholti og Úlfarsárdal sem hefst strax í haust með opnun nýrra leikskóladeilda við leikskólana Geislabaug og Reynisholt. Við Geislabaug opnar ný sérhæfð ungbarnadeild þar sem leikrými, skiptiaðstaða, útisvæði og starfsmannaaðstaða miðast við þarfir barna á öðru aldursári. Strax í haust munu ungbarnadeildirnar fá heimild til að bjóða yngri börnum leikskólapláss en gert er í dag, fyrst um sinn verður 16 til 18 mánaða börnum boðið pláss og síðan verður sá aldur lækkaður eftir því sem ungbarnadeildum fjölgar. Þá verður opnuð ný almenn leikskóladeild í Reynisholti.

Síðast en ekki síst verður opnaður nýr leikskóli í hinu glæsilega húsnæði Dalskóla og er gert ráð fyrir að hann verið í tekinn í notkun haustið 2019. Þar með mun fjölga leikskólaplássum um 100 á svæðinu en í Grafarholti og Úlfarsárdal eru í dag fjórir leikskólar með tæplega 400 börnum. Alls er gert ráð fyrir því að börnum á leikskólaaldri muni fjölga um rúmlega 160 á næstu 5 árum í takt við uppbyggingu á svæðinu, einkum í Úlfarsárdal.

Þessi mikla uppbygging er þó ekki bundin við Grafarholt og Úlfarsárdal. Staðreyndin er sú að það þarf að bæta við allt að 800 nýjum leikskólaplássum til að unnt sé að opna leikskólana fyrir börnum á aldrinum 12 til 18 mánaða. Til þess þarf að byggja 5 til 6 nýja leikskóla, halda áfram að opna sérstakar ungbarnadeildir og fjölga starfsfólki á leikskólum um 150 til 170 manns. Þetta kallar á fjárfestingu upp á rúma þrjá milljarða á næstu árum í nýjum leikskólum og rúman milljarð króna í aukinn rekstrarkostnað.

Við opnuðum 7 nýjar ungbarnadeildir síðasta haust og munum opna 7 til viðbótar strax í haust. Við látum verkin tala. Okkur í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar er treystandi til þess að standa við stóru orðin enda höfum við sýnt í verki að skólamálin njóta forgangs með stórauknum framlögum í innra starfið, bætt launakjör og betri aðbúnað, alls 9 milljörðum til viðbótar á síðustu fjórum árum. Vonandi fáum við stuðning þinn til verksins og sem flestra annarra íbúa í Grafarholti.

Greinin birtist í Grafarholtsblaðinu í apríl 2018.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar

Kraftmikil sókn í menntamálum

Mikill vöxtur hefur verið í menntamálum í Reykjavík og hafa framlög til málaflokksins aukist um 25% frá 2014 eða um rúmlega níu milljarða króna. Stærstur hluti hefur farið í að borga hærri laun til starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum en einnig hafa framlög aukist verulega til innra starfs, sérstaklega undanfarin tvö ár eftir að hagur borgarsjóðs fór að vænkast. Sterk fjárhagsstaða borgarinnar er einmitt lykillinn að því að nú er hægt að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu í leikskólamálum sem lengi hefur verið beðið eftir.

Tvöfalt hærri framlög

Góðu heilli er íbúasamsetning þjóðarinnar fjölskrúðugri nú en áður og hlutfall barna af erlendum uppruna fer vaxandi í skólum borgarinnar. Meirihlutinn í borginni hefur mætt því með tvöföldun framlaga í fjölmenningarlegt leikskólastarf og tvöfalt hærri framlögum til íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku. Nú njóta um 2.200 börn þeirrar kennslu en voru að meðaltali rúmlega 300 á árunum 2004-2014.

Aukin áhersla á sérkennslu og faglegt starf

Framlög til faglegs starfs og sérkennslu hafa aukist mjög í leikskólum og grunnskólum og við hyggjumst taka meira tillit til lýðfræðilegra þátta við úthlutun fjármagns. Það mun koma til góða í skólum og skólahverfum með hátt hlutfall barna sem þurfa sérstakan stuðning vegna félagslegra eða efnahagslegra aðstæðna. Það er jafnaðarstefna í framkvæmd sem er okkar leiðarljós við stjórn borgarinnar.

Bætt starfsumhverfi

Mikil og góð samvinna hefur verið við forystu kennara í leikskólum og grunnskólum og starfsfólk frístundamiðstöðva um að greina og leggja til úrbætur á starfsumhverfi þeirra. Nú þegar hafa rúmlega 20 af þessum tillögum verið samþykktar og hefur meira en 600 milljónum verið úthlutað til að hrinda þeim í framkvæmd auk þess sem framlög til viðhalds og endurbóta á húsnæði og starfsaðstöðu hafa rúmlega tvöfaldast á tveimur árum. Þessi mál verða áfram í forgangi á komandi misserum.

Menntastefna verður til

Undanfarið ár hefur staðið yfir tímamótavinna við mótun nýrrar menntastefnu Reykjavíkur til 2030 og hafa þúsundir lagt þar gott til málanna: kennarar, skólastjórar og annað starfsfólk, foreldrar, ráðgjafar og síðast en ekki síst börn og ungmenni sem hafa sterkar og spennandi skoðanir á skóla- og frístundastarfinu. Þessi vinna hefur vakið athygli út fyrir landsteinana en til stendur að kynna hana á komandi vikum og innleiða frá og með næsta skólaári. Þar verður m.a. aukin áhersla á félagsfærni, sjálfseflingu og alhliða þroska barna, meira val og fjölbreytni í viðfangsefnum þeirra og markvissari stuðning við börn með fjölþættar þarfir sem mikilvægt er að sinna fljótt og vel til að þau njóti sömu tækifæra og jafnaldrar þeirra.

Skólamálin í borginni eru í mikilli sókn og fram undan eru spennandi tímar í þessum mikilvæga málaflokki.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. apríl 2018.

 


Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs, skipar 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík.