Örugg í íþróttum

Birtist fyrst í Kjarnanum  þann 8. febrúar 2018

Reykja­vík­ur­borg og Íþrótta­banda­lag Reykja­víkur (ÍBR) vinna saman að því að tryggja öryggi barna og ung­menna í íþrótta­starfi. Á fundi okkar þann 1. febr­úar var farið yfir þjón­ustu­samn­ing borg­ar­innar við íþrótta­fé­lögin þar sem kemur fram að fjár­veit­ingar til félag­anna eru skil­yrtar við að virk jafn­rétt­is­stefna og siða­reglur séu til staðar hjá hverju félagi og þar er einnig tekið fram að íþrótta­fé­lögum beri að fylgja mann­rétt­inda- og for­varn­ar­stefnu Reykja­vík­ur­borg­ar.

Það er mik­il­vægt að stefnur séu ekki bara orð á blaði heldur sé fólk með­vitað um þær og noti í dag­legu starfi. Að til séu við­bragðs­reglur um hvernig bregð­ast skuli við ef reglum og stefnum er ekki fylgt. Í kjöl­far frá­sagna íþrótta­kvenna af ofbeldi, áreiti og kynj­aðri mis­munum er ljóst að nauð­syn­legt er að fara yfir allt skipu­lagt íþrótta­starf, greina áhættur og bregð­ast við. Orð og skjöl gera ekk­ert eitt og sér og fram undan er vinna við að fara yfir og tryggja að þær reglur sem settar eru virki í raun fyrir alla og að íþrótta­fé­lögin viti hvernig bregð­ast skuli við komi upp slík mál. Fræðsla fyrir þjálf­ara, for­eldra og stjórn­endur íþrótta­fé­laga, yfir­ferð á siða- og við­bragðs­reglum sem og virkt heilsu­efl­ing­ar­starf eru lyk­il­þættir í starf­inu fram und­an.

Íþrótta­sam­fé­lagið og mik­il­vægi þess

Íþrótta­hreyf­ingin sam­anstendur af íbú­um, almenn­ingi sem hefur áhuga á íþrótt­um, stundar íþróttir eða á börn sem gera það. Við myndum öll í sam­ein­ingu íþrótta­sam­fé­lagið og við verðum því öll að taka höndum saman um að búa börn­unum okkar öruggt umhverfi í íþrótta­starfi sem og í annarri frí­stund sem börnin okkar stunda. Rann­sóknir hafa sýnt að þátt­taka í íþróttum og virkri frí­stund hefur mikið for­varna­gildi gegn neyslu vímu­efna og reyk­ingum auk þess sem hreyf­ingin sjálf gerir börnum gott. Það er því á margan hátt mik­il­vægt að þessir aðilar finni fyrir öryggi og viti hvert eigi að leita sé öryggi þeirra ógn­að.

Heilsu­efl­andi umhverfi barna í Reykja­vík

Öll börn eiga að fá að njóta sín í öruggu umhverfi. Með verk­efn­inu „Op­in­skátt um ofbeld­i“, sem inn­leitt verður í alla leik-, grunn­skóla og frí­stund í Reykja­vík munum við opna umræðu um börn og ofbeldi, fræða börnin um bæði and­legt og lík­am­legt ofbeldi og þjálfa þá sem vinna með börnum í að taka á slíkum málum ef þau koma upp. Sömu þjálfun þurfa allir sem vinna með börnum að fá og að því munum við í sam­ein­ingu stefna borgin og íþrótta­hreyf­ing­in. Við höfum þegar tekið stór skref í að trygga öryggi barna t.a.m með öfl­ugri for­varna­vinnu, breyttu verk­lagi hvað varðar umönn­unn barna sem upp­lifa heim­il­is­of­beldi. Heilsu­efl­ing­ar- og for­varn­ar­starf innan hverfa og skóla­sam­fé­lags­ins tekur til ofbeld­is­for­varna því börn eiga rétt á æsku án áreitni eða ofbeldis og það er okkar sam­eig­in­lega sam­fé­lags­lega verk­efni að tryggja þeim það.

Gætu börnin þín lært að lesa á pólsku?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8.2.2018

Undanfarin ár hefur innflytjendum í Reykjavík fjölgað gífurlega. Þetta fólk kemur hingað til að vinna, tilbúið að leggja sig fram og greiðir sína skatta frá fyrsta degi. Þetta fólk eins og það er stundum kallað, kemur hins vegar ekki bara sem „vinnuafl“ heldur eru þetta manneskjur, fjölskyldur með börn og þessara barna bíður að ganga í gegnum íslenskt skólakerfi. Því miður virðist þróunin vera sú að hátt hlutfall þeirra barna sem hingað koma með erlendum foreldrum nær ekki að komast áfram í framhaldsskóla. Þetta er mikill skaði fyrir marga einstaklinga, en ekki síður fyrir íslenskt samfélag. Á þessum vanda verður að taka föstum tökum á næstu árum ef ekki á illa að fara fyrir bæði einstaklingum og okkar samfélagssáttmála.

Leik- og grunnskólar Reykjavíkur hafa vissulega unnið margt afrekið við að taka á móti börnum með erlent móðurmál en betur má ef duga skal. Á líðandi kjörtímabili hefur verið reynt að styðja við móðurmálskennslu ungra barna með erlent móðurmál, því þau eiga við ramman reip að draga þegar kemur að því að geta lesið sér til gagns. Við vitum að íslensk börn eiga orðið nokkuð erfitt með lestrarnám ef marka má síðustu PISA-kannanir. Það eru flóknar ástæður þar að baki, ekki bara kennsluaðferðir og skólar, heldur einnig hlutverk lestrar og bóka inni á heimilunum.

Allt snýst þetta um læsi

En hvernig ætli íslenskum börnum gengi lestrarnámið ef þau lærðu að lesa pólsku en ekki íslensku? Líkast til ekki vel. Rannsóknir í þessa veru hafa sýnt að börn eiga ekki aðeins auðveldara með að læra að lesa á móðurmálinu. Þau eiga líka auðveldara með að læra annað mál á grundvelli móðurmálsins. Þetta er þekking sem við eigum að nýta okkur við skipulagningu skólastarfs á næstu árum því ljóst er að fjöldi barna með erlent móðurmál fer hraðvaxandi í íslenskum skólum og skólarnir verða að fá stuðning og þekkingu til að takast á við þá áskorun.

Við höfum þegar lagt grunn að slíku starfi á þessu kjörtímabili, en nú ríður á að málin verði tekin föstum tökum í samráði við foreldra, kennara og skólastjórnendur.

Tvítyngi er fjársjóður

Á þessu kjörtímabili höfum við m.a. dæmis innleitt gjaldfrjálsa frístund í þrjá mánuði fyrir börn sem eru nýflutt til landsins. Við höfum tvöfaldað framlag til íslenskukennslu barna af erlendum uppruna. Við höfum tvöfaldað þróunarsjóð skóla- og frístundasviðs með mikla áherslu á fjölmenningu. En einnig höfum við ráðið móðurmálskennara og brúarsmiði. Þau styðja börn af erlendum uppruna í náminu sínu til þess að virkja þann fjársjóð sem virkt tvítyngi er. Það er skylda okkar að leyfa öllum börnum að njóta sín til fulls og leyfa þeim að þroska sína styrkleika. Og hvað getur verið meiri styrkleiki, meiri fjársjóður, en að geta talað, skrifað og hugsað á fleiri en einu tungumáli?

Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

11 mánuðir í Hvergilandi stjórnvalda

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 3. febrúar 2018.

Fæðingarorlofi foreldra lýkur við 9 mánaða aldur barns og börn eru að meðaltali 20 mánaða þegar þau komst inn á leikskóla. Í 11 mánuði eru þau hvorki hér né þar, föst í Hvergilandi stjórnvalda. Í 11 mánuði þurfa foreldrar að brúa bilið – vera launalaus heima, fá meiriháttar aðstoð annarra fjölskyldumeðlima eða borga háar fjárhæðir til að komast að hjá dagforeldri eða í einkareknum leikskóla. Miðað við þann tíma sem það hefur tekið stjórnvöld að bregðast við þessum vanda er engu líkara en þetta sé óbrúanlegt bil, ævarandi hluti þess að eignast barn á Íslandi. En þetta þarf ekki að vera svona. Með réttri forgangsröðun er hægt að brúa þetta bil.

Lengjum fæðingarorlofið

Fjölskyldum verður að vera gert kleift að vera heima með nýjum fjölskyldumeðlimi í að minnsta kosti eitt ár frá fæðingu. Fyrir því er margvísleg rök og þau veigamestu snúa að því að það er ungu barni fyrir bestu að vera lengur hjá foreldrum sínum upp á tengslamyndun og þroska þess.

Það er því orðið löngu tímabært að lengja fæðingarorlofið. Algjör óþarfi er að þæfa málið eins lagt er til í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna og hægriflokkanna. Hvað lengd fæðingarorlofs varðar erum við eftirbátar þjóða sem við berum okkur að jafnaði við. Lengra fæðingarorlof er ein lykilforsenda þess að brúa bilið sem skapast þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur við 9 mánaða aldur og þar til börn komast komast inn á leikskóla.

Á Alþingi liggur fyrir frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar um að lengja fæðingarorlofið úr 9 mánuði í 12 mánuði. Það er ekkert því til fyrirstöðu en að ganga hratt og örugglega til verka hvað þetta varðar. Nógu margar skýrslur og tillögur liggja fyrir.

Tryggjum dagvistunarúrræði strax að loknu fæðingarorlofi

Könnun sem BSRB gerði á síðasta ári leiddi í ljós að börn eru að meðaltali 20 mánaða þegar þau komast inn á leikskóla hér á landi. Þá kom fram útttekt BSRB að dagforeldrar er aðeins starfandi í 21 af 74 sveitarfélögum. Bent hefur verið á skekkjuna sem í því felst að sveitarfélögum er í sjálfsvald sett við hvaða aldur börn eiga rétt á dagvistunarúrræðum. Þar sker Ísland sig frá hinum Norðurlöndunum, sem við berum okkur svo gjarnan við, en þar er skýrt kveðið á um rétt barna til dagvistunar eftir fæðingarorlof sem er auk þess alltaf lengra en hér á landi.

Við í Samfylkingunni í Reykjavík höfum unnið að því markmiði að öllum 18 mánaða börnum standi pláss á leikskóla til boða. Stefnt er að því að lækka þann aldur enn frekar þegar fram í sækir. Fjölgun dagforeldra, en ekki síst stofnun ungbarnadeilda á leikskólum, eða srstakir ungbarnaleikskólar, eru lykilatriði þegar kemur að því að brúa bilið. Settar voru á stofn sjö ungbarnadeildir á síðasta ári í Reykjavík. Þeim mun fjölga á næstunni. Í mars kynnum við áætlanir sem gera ráð fyrir inntöku enn yngri barna í lekskólana. Lokatakmarkið er síðan að bjóða leikskólavistun frá 12 mánaða aldri. Þannig leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar til að brúa bilið.

Brotið kerfi

Umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og fram að því að barn kemst að jafnaði inn á leikskóla er  11 mánuðir. Rætt tæplega ár. Þetta bil sem skapast reynist ansi mörgum erfitt að brúa og skapar auk þess mikið óöryggi og jafnvel vanlíðan þegar ekki liggur fyrir hvað taki við að loknu fæðingarorlofi. Villta vesturs ástand er staðreynd þar sem foreldrar keppast um að koma börnum sínum að á biðlista hjá einkareknum leikskólum eða dagforeldrunum. Utanumhald og gegnsæi er svo gott sem ekkert og kunningjaskapur og rétt tengsl geta hjálpað til. Þá er þekkt að foreldrar borgi sérstakar greiðslur til að tryggja barni  vistun. Þetta ástand hefur fengið að viðgangast alltof lengi og því þarf hreinlega að breyta.

Til marks um stöðuna er hópurinn „Foreldarar sem fá ekki daggæslu fyrir börn sín að loknu fæðingarorlofi“ sem stofnaður var í janúar á Facebook. Nú þegar eru hátt í 1200 foreldrar komnir í hópinn og skiptast þar á reynslusögum úr ólíkum bæjarfélögum. Neyðin er mörgum erfið og vandinn öllum augljós.

Ég og konan mín erum sjálf í þessum aðstæðum núna. Við eigum þrjú börn fædd 2011, 2013 og 2016 og höfum í öll skiptin tekið marga launalausa mánuði til að brúa bilið. Í þetta sinn blanda ég saman vinnu og færðingarorlofi á meðan konan mín er í fullri vinnu. Eina áástæðan fyrir því að þetta fyrirkomulag gengur upp er sú að tengdamamma tekur strákinn sem er 16 mánaða þá daga sem ég er að vinna. Öðruvísi gætum við ekki brúað bilið. Við erum heppin því ekki hafa allir  möguleika á brúa bilið með þessum hætti.

Fjölskylduvænna samfélag

Bilið verður seint brúað á skömmum tíma en það á heldur ekki að þurfa að taka mörg ár. Með því að samþykkja frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar um lengra fæðingarorlof og tryggja markviss skref sveitarfélaga á borð við Reykjavík þar sem börn eru tekin fyrr inn á leikskólana en nú ert gert tryggjum við að bilið verði á endanum brúað. Einungis þannig komum við á fjölskylduvænna samfélagi og tryggjum að Ísland verði aðlaðandi kostur á ný fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur.

Skólar á forsendum nemenda

Óvíða er algengara að ungt fólk hafi ekki lokið framhaldsskólanámi en á Íslandi þar sem athuganir liðanna ára sýna allt að  25-30% framhaldsskólanema ljúka ekki námi. Þessi hópur er útsettari fyrir því en aðrir að verða lélegri til heilsu síðar á lífsleiðinni samanborið við þá sem hafa menntun á framhaldsskóla- og háskólastigi. Lífslíkur eru sömuleiðis verri. Einstaklingur með menntun frá háskóla hefur þannig 9,3 lífár umfram það sem hann hefði haft hefði hann bara hlotið menntun á grunnskólastigi. Þá hafa þeir sem meiri menntun hafa almennt hærri tekjur en aðrir auk þess sem þeir eru líklegri til að þurfa ekki á félagslegri aðstoð að halda. Það er því til mikils að vinna fyrir þessa nemendur og samfélagið allt ef við náum að draga úr brotthvarfi úr námi. Áætlað hefur verið að kostnaður þjóðfélagsins við brotthvarf nemi um 14 milljónum á hvern þann sem hættir námi í framhaldsskóla eða um tíu milljörðum á ári. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lét vinna og var kynnt fyrir tveimur árum sem hluti af sóknaráætlun sveitarfélaganna í skólamálum til næstu ára.

Ólíkar ástæður

Í ljósi þess að við búum við mikið og viðvarandi brotthvarf úr námi er mikilvægt að greina stöðuna vel. Ýmsar ástæður hafa verið taldar til sem stuðla að brotthvarfi. Námskráin hefur talsvert um stöðuna að segja og þá nálgun sem hún ýtir undir eða stuðlar að í námi. Þetta hefur breyst en þarf að breytast meira. Námið, nálgunin og kennsluaðferðir hreinlega höfða ekki til margra nemenda sem gefast upp.

Sem fyrrverandi framhaldsskólakennari leyfi ég mér að fullyrða að nám og kennsla standi á ákveðnum tímamótum. Sem er spennandi. Samfélagið er að breytast, hraðinn að aukast og kröfurnar eru aðrar. Fjölmargir kennarar og grunn- og framhaldsskólar hafa tekið mið af þessu í sínu starfi og má segja að talsverð gerjun eigi sér nú stað.

Meðal ástæðna sem einnig stuðla að háu brotthvarfi á Íslandi er lítið og illa ígrundað námsval nemenda sem og innprentuð áhersla samfélagsins á mikilvægi bóknáms umfram verknám. Rannsóknir hafa sýnt að hópur nemenda virðist velja námsbraut í framhaldsskóla gagnstætt áhugasviði sínu. Þrátt fyrir að allt að helmingur nemenda  á unglingastigi grunnskóla hafi meiri á áhuga á verknámi velja fjölmargir nemendur frekar að fara í bóknám.

Fræðikonurnar Kristjana Stella Blöndal og Bjarney Ægisdóttir hafa bent á að skuldbinding margra nemenda til náms er ekki til staðar. Þannig virðast margir nemendur ekki sjá tilgang  með námi sínu. Því óvissari sem grunnskólanemendur eru um val á námi og námsbraut því minni er skuldbindingin og meiri líkur eru á þeir flosni upp úr námi í framhaldsskóla. Skortur á upplýsingum um nám og störf skiptir þar miklu og þar er hægt að gera betur. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að vinna með námi er algengari á Íslandi en í flestöllum öðrum ríkjum OECD.

Aðgerðaráætlun í fimm liðum

Afar brýnt er að marka stefnu til framtíðar og ráðast í markvissar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi úr framhaldsskólum. Horfa þarf til lesblindra nemenda og ungmenna af erlendum uppruna. Vinnubrögð og val á viðfangsefnum í námi skipta þannig gríðarlega miklu máli. Mæta þarf nemendum betur. Líkur eru á að hluti hópsins festist í óvirkni þrátt fyrir fjölmörg virkniúrræði standi til boða á vegum ríkis, sveitarfélaga og samstarfsaðila og að þau þurfi á fjárhagsaðstoð til framfærslu á að halda hjá sveitarfélögunum. Í verstu tilfellum leiðir óvirknin til örorku sem er skelfilegt hlutskipti fyrir þá nemendur sem með markvissari hætti hefði hefði verið hægt að veita meiri stuðning.

Móta þarf áætlun þar sem nemendamiðað skólastarf er aukið, vægi verknáms er eflt, boðið verði upp á sálfræðiþjónustu í frekari mæli, það rýnt hvort fjölga þurfi námsráðgjöfum auk þess sem byrja þarf að skima fyrir áhættuþáttum brotthvarfs fyrr en nú er það gert í fyrstu vikum nemenda í framhaldsskóla. Náms- og starfsfræðsla er mikilvæg og hefur verið bent á að í sumum löndum er hún hluti af skyldunámskeiðum í grunnskólum, meðal annars í Bretlandi og Noregi. Skoða þarf hvort fara eigi þá leið í grunnskólum hér á landi auk þess að byrja að skima þar.

Þá hafa áðurnefnd Kristjana Stella Blöndal og Sigrún Aðalbjarnardóttir komist að því í sínum rannsóknum að stuðningur við börn þegar þau eru 14 ára og uppeldisaðferðir foreldra skipti máli og geti haft áhrif á brotthvarf úr námi síðar. Þannig að ábyrgð foreldra er sömuleiðis mikil og þar munar mestu um hlýju og stuðning á æskuárum.

Fjárfestum í framtíðinni

Skólarnir eiga að vera jöfnunartæki þar sem aðstöðumunur barna úr ólíku umhverfi og fjölskyldum jafnast út.  Við eigum að ráðast í stórátak í menntamálum með áherslu á jákvæðar aðgerðir sem draga úr brotthvarfi nemenda og fjárfesta þannig í framtíðinni.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. ágúst 2016.

Borg fyrir börn

Skúli Helgason skrifar:

Samfylkingin leggur áherslu á húsnæðismál og málefni barnafólks í borgarstjórnarkosningunum .  Þar vega þungt skóla- og frístundamál enda renna um 40% af útgjöldum borgarsjóðs til þeirra mikilvægu mála.  Mikilvægustu verkefni skólamálanna eru bætt kjör kennara í leikskólum og grunnskólum, nemendamiðað skólastarf sem tekur mið af hæfileikum og áhugasviði hvers og eins og aukinn stuðningur við innra starfið í skólunum,m.a. með snemmtækri íhlutun í þágu nemenda sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.

Hærri frístundastyrkur

Við viljum hækka frístundastyrkinn um ríflega helming á kjörtímabilinu – í 50 þúsund krónur með hverju barni og auka systkinaafslætti þannig að foreldrar sem eru með börn bæði á leikskóla og í frístundastarfi grunnskóla njóti afsláttarins.  Það mun auka ráðstöfunartekjur þeirra um 80-100 þúsund krónur á ári eftir fjölda barna og aldri þeirra, og munar um minna.

Brúum bilið

Mikil eftirspurn er eftir fleiri úrræðum fyrir ungbarnafjölskyldur í borginni og er nauðsynlegt að fjölga leikskólaplássum fyrir yngsta aldurshópinn á sama tíma og við styrkjum samstarfið við dagforeldra, en þeir veita mikilvæga þjónustu, sem foreldrar kunna vel að meta.  Við viljum taka yngri börn inn í leikskólana í áföngum, með það að markmiði að börn komist að haustið sem þau verða 18 mánaða.

Þá viljum við efla enn frekar frístundastarfið í borginni og jafna aðgengi barna að frístundastarfi, þar með talið barna af erlendum uppruna.

Skóla- og frístundamál eru undirstaða velferðar í samfélaginu því þar getum við skapað börnum jöfn tækifæri til að blómstra sem sterkir skapandi einstaklingar.

Greinin birtist upphaflega í Vesturbæjarblaðinu. 

Fjárfestum í fólki

Skúli Helgason skrifar:

Ungir karlmenn eru fjölmennastir í hópi þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna samkvæmt nýrri skýrslu Rauða Kross Íslands. 57% þeirra 3.350 einstaklinga sem þáðu framfærslustyrk í Reykjavík á árinu 2013 hafa eingöngu lokið grunnskólaprófi og má því ætla að meirihluti þeirra komi úr röðum nemenda sem fallið hafa brott úr framhaldsskóla. Brotthvarf úr framhaldsskólum á Íslandi er rúmlega tvöfalt hærra en á hinum Norðurlöndunum að meðaltali. Löngu tímabært er að bregðast við þessum staðreyndum í skólakerfinu með auknu samstarfi grunnskóla og framhaldsskóla, ríkis og sveitarfélaga. Þar mun ekki duga til að stytta nám í framhaldsskólunum. Við þurfum að grípa til aðgerða strax í grunnskólunum til að koma í veg fyrir að börn falli frá námi síðar.

Reykjavík greiðir 4 milljarða króna á ári í fjárhagsaðstoð til einstaklinga án atvinnu og bótaréttar gagnvart ríkinu. Slíkt úrræði verður alltaf að vera til staðar en mikið er til vinnandi fyrir viðkomandi einstaklinga og samfélagið að við náum að breyta áherslum í þá veru að fleiri úr þessum hópi komist til vinnu og sjálfsbjargar. Þar er hlutverk skólanna mikilvægt ekki síst grunnskólans, þar sem tækifærin til að draga úr brotthvarfsáhættu eru mest að mínu mati.

Leiðin liggur í gegnum aukna áherslu á virkni nemenda og námsval við hæfi hvers og eins. Við eigum að setja okkur það markmið að öll börn og ungmenni læri það sem þau hafa áhuga á og nýtir best hæfileika þeirra. Við þurfum að skapa fagfólki í skólum þá umgjörð sem dregur fram það besta úr hverjum nemanda. Það kallar vissulega á meiri stuðning í skólastofunni og aukna þverfaglega samvinnu kennara og sérhæfðs starfsfólks við að mæta ólíkum þörfum nemenda.

Þróuð hafa verið skimunarpróf hér á landi til að greina snemma þá nemendur sem eru í mestri brotthvarfshættu. Til þessa hafa slík próf aðeins verið notuð í framhaldsskólum hérlendis en næsta skref er að hagnýta þau í grunnskólum borgarinnar með það í huga að öll börn njóti sín í skólanum.

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu.

Barnaborgin Reykjavík

HEIÐA HILMISDÓTTIR SKRIFAR:

Fátt skiptir okkur foreldra meira máli en að geta veitt börnum okkar hamingjuríka æsku og sjá þau vaxa og dafna. Reykjavíkurborg er á margan hátt fyrirmyndarstaður fyrir barnafjölskyldur, enda búum við að góðum skólum, fjölbreyttu frístundastarfi, heilbrigðu borgarumhverfi og þéttu öryggis- og stuðningsneti ef eitthvað bjátar á. Við erum því að mörgu leyti afar lánsöm.

Getum gert betur
En við getum gert enn betur og í mínum huga skiptir fátt meira máli í stjórnmálum dagsins, en einmitt það að gera borgina okkar að enn betri stað fyrir börn og barnafjölskyldur. Þannig borg viljum við sem bjóðum okkur fram fyrir XS í Reykjavík og þess vegna ætlum við að forgangsraða málefnum barnafjölskyldna á næsta kjörtímabili.

Við ætlum að efla stuðning við barnafjölskyldur og tryggja að foreldrum standi til boða ráðgjöf og fræðsla sem taki mið af ólíkum þörfum og aldursskeiðum barna. Öll börn eiga að njóta sín í skólunum, þeim á að líða vel og ganga vel í námi. Það er borgarkerfisins að laga sig að börnunum en ekki að laga börnin að kerfinu.

Fjölga rýmum
Við ætlum að fjölga leikskólarýmum fyrir fjölskyldur með ung börn. Við ætlum að hækka frístundastyrk með hverju barni í 50 þúsund krónur á kjörtímabilinu og taka upp samræmdan systkinaafslátt á milli leikskóla og frístundaheimila.

Við ætlum að stytta „vinnudag“ barna með samþættingu frístunda- og skólastarfs og stuðla um leið að fleiri samverustundum fjölskyldna. Við ætlum að tryggja að hollar og ódýrar skólamáltíðir standi leik- og grunnskólabörnum til boða óháð efnahag.

Minna skutl
Við ætlum líka að minnka skutlið og efla enn frekar hinn svokallaða frístundastrætó. Við viljum einnig eyða þeirri óvissu sem bíður margra ungra fjölskyldna þegar fæðingarorlofi foreldra lýkur og á næsta kjörtímabili ætlum við að taka markviss skref við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og þar til börn komast inn á leikskóla.

Undir forystu Dags B. Eggertssonar ætlar XS að tryggja að í Reykjavík verði áfram komið ríkulega til móts við barnafjölskyldur þannig að þær geti treyst því að þar sé hagstæðast að búa fyrir barnafjölskyldur.

Barnapakkinn

 Magnús Már Guðmundsson skrifar:

Eitt mikilvægasta verkefni Reykvíkinga er að tryggja sem best velferð barna og unglinga í borginni. Reykjavík á umfram allt að vera barnvæn borg en það gerist ekki af sjálfu sér. Þess vegna hefur Samfylkingin lagt fram sérstakan „barnapakka“ sem er eitt af aðalstefnumálum flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Eftirsótt fjölskylduborg

Föst fjárútlát hjá ungum fjölskyldum eru mikil og eiga barnafjölskyldur oft erfitt með að láta enda ná saman. Í hverjum mánuði þurfa flestar fjölskyldur að standa skil á íbúða-, bíla- og/eða námslánum, greiða fyrir húsaleigu, leikskólapláss eða aðra dagvistun sem og tómstunda- og íþróttastarf barnanna. Af nógu er að taka og verður Reykjavík að halda áfram að koma til móts við barnafjölskyldur þannig að borgin verði áfram öflug og eftirsótt fjölskylduborg.
Borg fyrir börnin

Barnapakkinn er í fjórum hlutum. Í fyrsta lagi á Reykjavík að vera áfram hagstæðust fyrir barnafjölskyldur. Þannig styðjum við stóran hóp borgarbúa og fáum ungt fjölskyldufólk til borgarinnar. Í öðru lagi ætlar Samfylkingin að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum aðferðum í áföngum í samvinnu við dagforelda og ungbarnaleikskóla. Um gríðarlega stórt hagsmunamál er að ræða fyrir ungar fjölskyldur og aðstandendur þeirra. Frístundakortið hefur gefið góða raun til að tryggja aðgang barna að frístundastarfi óháð fjárhagsaðstæðum foreldra sinna og stefnir Samfylkingin að því hækka frístundastyrkinn í 50 þúsund krónur á hvert barn á kjörtímabilinu í samstarfi við íþróttafélög, tónlistarskóla og æskulýðssamtök. Þá mun Samfylkingin beita sér fyrir systkinaafslætti þvert á skólastig.
Til þess að barnapakkinn komist í framkvæmd þarf Samfylkingin að fá góða kosningu í komandi borgarstjórnarkosningum. Þannig tryggjum við að áfram verður gott að ala upp börn í Reykjavík.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 22. apríl 2014