Borgin okkar allra

Ég vil sjá samfélag þar sem við öll fáum tækifæri til að þroskast og dafna og enginn er skilinn eftir. Lífið færir flestum okkar áskoranir til að takast á við og þær geta birst hvenær sem er, sama hvar við erum stödd á lífsleiðinni og hvort sem við glímum við veikindi, atvinnuleysi, fötlun eða barnið okkar eða einhver nákominn lendir í vanda. Velferðarþjónustan á að vera til staðar og styðja okkur og valdefla þegar þörf er á. Við eigum að fá jöfn tækifæri og við eigum öll að geta treyst á stuðning.

Meiri velferð

Reykjavíkurborg hefur á liðnu kjörtímabili stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, eflt almenningssamgöngur og nánast eytt launamun kynjanna á vinnustöðum borgarinnar.

Við höfum lagt áherslu á geðheilsu og öflugan stuðning við börn og fjölskyldur í vanda. Við höfum hafið verkefni til að efla þverfaglega þjónustu í skólunum, því að það þarf að auka sálfræðiþjónustu og mæta betur þörfum ungmenna með fíknivanda. Við þurfum líka meiri fræðslu um geðheilsu og öflugri forvarnir. Við viljum fjölga geðheilsustöðvum og styðja félagasamtök sem vinna að bættri geðheilsu í borginni.

Innihaldsríkt líf

Öll börn eiga að geta þroskað hæfileika sína í frístundastarfi. Við hækkuðum frístundastyrkinn og viljum halda áfram að efla frístundastarf um alla borg. Þar má nefna skólahljómsveitir, æfingahúsnæði fyrir tónlistar­fólk, hverfisbarnakóra og tækifæri til að prófa margs konar íþróttir án endurgjalds.

Við viljum styrkja félagsmiðstöðvar eldri borgara og þróa eins konar samfélagshús sem er opið öllum til að eiga góð og uppbyggileg samskipti, fræðast og sinna hugðarefnum sínum. Það þarf að efla heimaþjónustu og heimahjúkrun enn frekar og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með enn betra Menningar- og heilsukorti eldri borgara.

Örugg borg án ofbeldis

Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi í vinnu gegn hvers kyns ofbeldi. Starfsemi hófst í fyrra í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Við gerðum einnig samkomulag um örugga og ofbeldislausa skemmtistaði, bættum öryggi í miðborginni og erum að innleiða forvarnir gegn ofbeldi í skólum borgarinnar. Komin er í gang ný aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í samvinnu við grasrótina í borginni, lögregluna og Embætti landlæknis.

Áfram Reykjavík

Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu og við viljum halda áfram að byggja upp kraftmikla og nútímalega borg þar sem enginn er skilinn eftir. Vilt þú vera með?

Greinin birtist fyrst á visir.is.  25.maí 2018

Höfundur er borgarfulltrúi, varaformaður Samfylkingarinnar og skipar 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík

Aldursvæn og heilsueflandi borg

Gert er ráð fyrir að á næstu 25 árum muni hlutfall Íslendinga 67 ára og eldri hækka úr 12% í tæplega 19%, og fjöldi þeirra nærri tvöfaldast eða úr 41 þúsund í 80 þúsund. Í hópnum eru margir vel á sig komnir, sem lifa lengur og hafa fjölbreyttari starfsreynslu og menntun en nokkru sinni áður.  Þessi hópur vill hafa sem mest áhrif á eigin aðstæður. Hafa val eins lengi og kostur er um atvinnuþátttöku, búsetu, hreyfingu og tómstundir. Þetta hefur Samfylkingin og meirihlutinn í Reykjavík haft að leiðarljósi á undanförnum árum.

Fyrr á árinu var samþykkt ný stefna í málefnum eldri borgara til ársins 2022. Sömuleiðis var samþykkt stefna Reykjavíkurborgar um velferðartækni sem nýtist að hluta til eldri Reykvíkingum og aðstandendum þeirra. Þannig hyggst Reykjavíkurborg nýta í auknum mæli margvíslega tækni og snjalllausnir sem auðvelda fólki að búa á eigin heimili og búa við betri lífsgæði þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi.

Á þessu kjörtímabili

Auk stefnumörkunar og aðgerðaáætlana meðal annars um heilsueflingu eldri borgara voru fasteignagjöld lækkuð um 10% hjá eldri borgurum og öryrkjum. Gjöldin eru nú 0,18% og þau lægstu í landinu. Tekjutengdir afslættir eldri borgara og örorkulífeyrisþega voru hækkaðir og er niðurfellingin frá 50-100% eftir tekjum.

Nú er hafin uppbygging á 100 hjúkrunarrýmum við Sléttuveg og auk þess sem byggingu á um 500 íbúðum Félags eldri borgara í Sóltúni, Mjódd og Mörk er lokið eða lýkur fljótlega. Þá er uppbygging Hrafnistu að hefjast á Sléttuvegi. Í Grafarvogi var opnuð ný og glæsileg félagsmiðstöð eldri borgara í Borgum. Auk þess sem að félagsstarf hefur verið eflt þá var tillögum um heilsueflingu eldri borgara hrint í framkvæmd.

Reykjavík er Aldursvæn borg í samstarfi við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina. Samstarfsnet samtakanna var sett á stofn 2010 og er ætlað að tengja saman borgir um allan heim sem vilja vera frábær staður til að verða eldri og verja efri árum. Þá var öldungaráð Reykjavíkurborgar stofnað en ráðið mótar tilllögur og veitir ráðgjöf um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru 67 ára og eldri. Að auki voru aldursviðmið fyrir frítt í sund, söfn og bókasöfn lækkuð niður í 67 ára aldur. Þetta er auðvitað ekki tæmandi upptalning á þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á kjörtímabilinu en þau hafa vissulega verið fjölbreytt.

Á næsta kjörtímabili

Á næstu árum ætlum við halda áfram að efla endurhæfingu í heimahúsum sem byggir á danskri fyrirmynd og hefur gefið góða raun í Reykjavík. Áfram verður lögð áhersla á heilsueflingu eldri borgara með aðgengi að fjölbreyttri hreyfingu. Einnig ætlum við að fjölga hjúkrunarrýmum í Reykjavík í samvinnu við ríkið og sömuleiðis að hefla heimaþjónustu og heimahjúkrun sem byggir á grunni samkomulags við ríkið og hefur gengið heilt yfir afar vel. Til viðbótar hefst uppbygging Félags eldri borgara á lóð gamla Stýrimannaskólans auk húsnæðisverkefna Samtaka aldraðra í Bryggjuhverfi og á reit gamla Kennaraháskólans. Í tengslum við uppbygginguna á lóð Stýrimannaskólans var í gærmorgun undirritaður samstarfssamningur Félags eldri borgara og Vildarhúsa um stofnun Leigufélags aldraðra. Leigufélagið verður stofnað sem sjálfseignarstofnun rekið án hagnaðarsjónarmiða. Áfram ætlum við að útvega lóðir undir íbúðir eldri borgara sem verður úthlutað til húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Að auki ætlum við að bæta næringarráðgjöf inn í heimaþjónustu og bjóða aukna afslætti í gegnum menningar- og heilsukort eldri borgara. Áfram munum við koma í veg fyrir að möguleg hækkun fasteignaverðs hafi íþyngjandi áhrif á kjör tekjulægra eldri borgara.

Þinn stuðningur skiptir máli

Við í Samfylkingunni viljum halda áfram að vinna að þessum verkefnum og mörgum öðrum sem styðja við þróun borgarinnar. Reykjavík er kraftmikil og nútímaleg borg sem tekur mið af þörfum allra íbúa. Framtíðarsýn Samfylkingarinnar er skýr og við stefnum ótrauð á að halda áfram en til þess þurfum við þinn stuðning í kosningunum á laugardaginn.

Greinin birtist á Vísi föstudaginn 25. maí 2018.

Magnús Már Guðmundsson, varaborgarfulltrúi, skipar 8. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Gott samfélag

Reykjavíkurborg hefur á liðnu kjörtímabili stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, eflt almenningssamgöngur, nánast eytt launamun kynjanna og verið í fararbroddi í vinnu gegn hvers kyns ofbeldi. Við höfum lagt áherslu á geðheilbrigði og öflugan stuðning við börn og fjölskyldur í vanda. Það er mikilvægt að haldið sé áfram að því að auka jöfnuð og vinna að betri borg fyrir okkur öll og það ætlum við að gera.

Heilsueflandi borg

Reykjavíkurborg hefur tekið ákvörðun um að vera heilsueflandi borg sem þýðir að við vinnum markvisst að því að gera borgina þannig að hún stuðli að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Bæði hvað varðar manngerða umgjörð og félagslega. Það skiptir til að mynda miklu máli að íbúabyggð sé þannig skipulögð að það sé stutt í þjónustu, að fólk hafi tækfæri til hreyfingar, geti hjólað eða gengið til vinnu eða í skóla, nálgast heilsusamlegan mat og gefandi félagsstarf.

Innihaldsríkt líf

Við leggjum sérstaka áherslu á að jafna aðstæður barna til að þroska hæfileika sína í frístundastarfi við hækkuðum frístundastyrkinn úr 35 þúsund í 50 þúsund á barn og viljum halda áfram að efla frístundastarf um alla borg. Auk skólahljómsveita viljum við, opna æfingahúsnæði fyrir tónlistarfólk í hverfum, efna til tilraunverkefnis með hverfiskóra barna og auka tækifæri barna til að prófa ólíkar íþróttir endurgjaldslaust. Við viljum auka þverfaglega þjónustu fyrir börn í grunnskólum borgarinnar og mæta betur þörfum fólks með fíknivanda. Við viljum fjölga geðheilsustöðvum og styðja frjáls félagasamtök sem vinna að bættri geðheilsu borgarbúa.

Velferðarborg

Við höfum lækkað fasteignagjöld á alla borgarbúa og einnig hækkað sérstaklega afslætti á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara og öryrkja. Við viljum á komandi kjörtímabili efla heimaþjónustu og heimahjúkrun enn fekar, brúa kynslóðabilið og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með því að þróa áfram Menningar- og heilsukort eldri borgara. Við komum á fót ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkur sem hefur þegar sannað mikilvægi sitt. Við opnuðum Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Við gerðum samkomulag um örugga og ofbeldislausa skemmtistaði og erum að innleiða stóreflda skimun og forvarnir gegn ofbeldi í skólum borgarinnar. Við þurfum áfram að vinna markvisst gegn öllu ofbeldi í borginni.

Áfram Reykjavík

Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu og við viljum halda áfram að byggja upp kröftuga, nútímalega borg þar sem engin er skilinn eftir. Borg án ofbeldis þar sem jafnrétti, jöfnuður og sjálfbærni eru gildi sem unnið er eftir.

Greinin birtist í hverfisblaðinu Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir.

 

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, 2. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík

Áfram Reykjavík

Reykjavík er nú heilsueflandi borg en það þýðir að unnið er að því markvisst að skapa borg sem stuðlar að vellíðan borgarbúa og gerir þeim auðvelt að taka góðar ákvarðanir fyrir sína heilsu. Við viljum móta samfélag þar sem allir fá tækifæri og enginn er skilinn eftir.

Á liðnu kjörtímabili hefur meirihlutinn í borgarstjórn markað skýra stefnu til framtíðar í öllum helstu málaflokkum með jöfnuð, jafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi. Við erum á réttri leið. Nefna má að við höfum stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, lækkað leikskólagjöld, hækkað afslætti á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara og öryrkja og nánast eytt launamun kynjanna á vinnustöðum borgarinnar.

Kraftmikil græn borg

Á næsta kjörtímabili ætlum við að halda áfram kraftmikilli uppbyggingu í öllum hlutum borgarinnar með áherslu á öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, stúdentaíbúðir, íbúðir aldraðra, endurreisn verkamannabústaðakerfisins og sérstaka áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Kjalarnes býður upp á mikla möguleika í íbúabyggð, landbúnaði, ferðaþjónustu og alls konar atvinnuuppbyggingu auk þess að vera ein af perlum höfuðborgarsvæðisins með sína útivistarparadís.

Samningur við skógræktarfélag Kjalarness um skógrækt í Esjuhlíðum, samstarfsverkefnið Grænt Kjalarnes og sjóböðin eru dæmi um verkefni sem eru til fyrirmyndar. Samfylkingin vil vinna með íbúum Kjalarness í að styrkja samfélagið og hlúa að svæðinu. Verið er að skoða hvernig auka megi útivistamöguleika á svæðinu, s.s. stígagerð meðfram sjó og opnun gömlu póstmannaleiðarinnar og fleiri slík verkefni.

Samgöngur

Ný pöntunarþjónusta Strætó fyrir íbúa á Kjalarnesi á leið 29 hefur gefið góða raun og komið til viðbótar við leið 57 ásamt fjölgun ferða á þeirri leið. Þegar nýr Vesturlandsvegur rís mun umferðaröryggi aukast sem er mikilvægt, reiðstígar verða á sínum stað en einnig vonandi göngu- og hjólastígar sem opna á fjölbreyttari og vistvænni ferðamáta.

Meiri velferð

Velferðarþjónustan á að vera til staðar og styðja okkur og valdefla þegar þörf er á. Við eigum að fá jöfn tækifæri og við eigum öll að geta treyst á stuðning, helst í okkar nærumhverfi. Aukin áhersla á snemmtæka íhlutun í skólaþjónustu hefur gefið góða raun í Breiðholti og verið er að innleiða það verklag um alla borg núna. Við höfum lagt áherslu á geðheilsu og öflugan stuðning við börn og fjölskyldur í vanda og viljum sjá fleiri starfsstéttir og aukna sálfræðiþjónustu inni í skólunum og úrræði til að mæta betur þörfum ungmenna með fíknivanda. Efla þarf forvarnir á sviði geðheilsu. Þá þarf að efla stuðningsþjónustu, heimaþjónustu og heimahjúkrun enn frekar og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með enn betra Menningar- og heilsukorti.

Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu og við viljum halda áfram að byggja upp kraftmikla og nútímalega borg þar sem engin er skilinn eftir. Vilt þú vera með?

Greinin birtist í Kjalnesingi miðvikudaginn 23. maí 2018.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, skipar 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík

Borg þar sem er gott að vera ung

Reykjavík er höfuðborg okkar allra. Þess vegna skiptir máli að hún sé fjölbreytt, lifandi og skemmtileg og haldi áfram að vera borg fyrir okkur öll.

Ég vil búa í höfuðborg þar sem hægt er að ganga, hjóla og taka strætó milli hverfa. Þar sem hægt er að taka Borgarlínu hratt og örugglega borgarmarka á milli og minnka mengun í leiðinni. Þar sem auðvelt er að rölta í sund, á kaffihús og í verslanir. Þar sem leiðirnar á þessa staði eru gerðar fyrir gangandi og hjólandi fólk en ekki einungis fyrir bíla.

Þannig borg vil ég – og þannig borg eigum við öll að geta tekið þátt í og búið í. Hún einkennist af blandaðri byggð þar sem stúdentaíbúðir, íbúðir fyrir eldri borgara, íbúðir verkalýðshreyfingarinnar og félagsbústaða eru hluti af öllum hverfum. Borg þar sem þeim sem minnst eiga á milli handanna er ekki hrúgað í ný hverfi á útjaðrinum langt frá hverfum fyrir efnað fólk. Borg sem einkennist af líflegu háskólasvæði þar sem nóg er til af stúdentaíbúðum og þær eru til staðar í nálægð við háskólann. Enda er þéttari byggð forsenda aukinnar þjónustu við þá sem þar búa fyrir.

Ég vil líka búa í borg þar sem verkefni á borð við Druslugönguna eru styrkt af yfirvöldum og átökum til að útrýma kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi er gert hátt undir höfði. Ég vil búa í borg þar sem miðstöðvar eins og Bjarkarhlíð eru starfræktar og brugðist er af festu við áköllum eins og #metoo. Borg þar sem unnið er markvisst að því að útrýma kynbundnum launamun jafnvel þó launamunur ríkisins og almenna markaðarins sé að aukast á sama tíma. Borg þar sem hatursorðræða er fordæmd og markvisst er unnið að því, í samstarfi við grasrótarhreyfingar, að útrýma fordómum gagnvart minnihlutahópum með fræðslu og opnu samtali.

Þannig borg vil ég búa í – og það er borgin sem Reykjavík er og stefnir áfram í að vera ef núverandi meirihluti heldur velli. Þess vegna er mikilvægt að við öll sem trúum á þessa sýn fyrir höfuðborgina okkar tökum þátt í að halda í hana. Tökum virkan þátt í kosningunum framundan og kjósum!

Áfram Reykjavík.

Greinin birtist í Jöfn og frjáls – tímariti Ungra jafnaðarmanna.

 

Ragna Sigurðardóttir, kosningastýra Samfylkingarinnar í Reykjavík og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, skipar 9. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Reykjavík fyrir allar fjölskyldur

Fjölskyldugerðir eru margskonar og má þar meðal annars nefna kjarnafjölskyldur, einstæða foreldra, stjúpfjölskyldur eða fósturfjölskyldur. Að tilheyra fjölskyldu getur þýtt að þú hafir fjölbreytilegar skyldur en sumir eru svo heppnir að eiga börn og aðrir eiga ömmur og afa eða aldraða foreldra. Stundum eru nánustu vinir einnig ígildi fjölskyldu. Við fögnum margbreytilegum fjölskyldugerðum í borgarsamfélagi nútímans.

Kerfi sem léttir undir

Við getum gefið okkur það að öll viljum við fjölskyldum okkar og vinum vel en í hröðu samfélag nútímans, vinnuálags og áreitis er bakið ekki alltaf nógu breitt til að sinna öllu sem við myndum helst vilja gera. Því verðum við einnig að geta treyst á opinbert kerfi og þær lögformlegu skyldur sem kerfinu ber að sinna. Kerfi sem grípur okkur þegar við þurfum á að halda, kerfi sem léttir undir með fjölskyldunni og jafnvel styður við okkur til að geta sinnt þessum ólíku störfum og skyldum sem við höfum öll, mismiklar og misþungar eftir aldursskeiðum.

Aukum stuðninginn

Við í Samfylkingunni viljum auka enn frekar stuðning við fjölskyldur og sérstaklega fjölskyldur í vanda þannig að við komum til móts við fólkið í borginni á öllum aldursskeiðum. Það yrði gert meðal annars með því bjóða upp á fjölskyldumeðferðir og börnum upp á sálfræðiþjónustu. Þá þykir okkur mikilvægt að efla stuðning við börn í námserfiðleikum ásamt því að efla stuðning við börn með raskanir eða fatlanir og fjölskyldur þeirra. Þar ætlum við að bjóða upp á þjónustu þverfaglegra teyma og stuðningsaðila. Með því móti eiga börn að geta notið styrkleika sinna í skóla, frístunda- eða tómstundastarfi og fjölskyldurnar fá stuðning til að auka líkur á að svo verði.

Menningar- og heilsukort

Reykjavík er aldursvæn borg og hefur Samfylkingin unnið ötullega að málefnum aldraðra í samvinnu við öldrunarráð. Þar leggjum við til að borgarbúar fái boð, þegar þeir hafa náð 70 ára aldri, um heilsueflandi heimsókn þar sem menningar- og heilsukort borgarinnar er kynnt ásamt því starfi sem er í boði fyrir eldri borgara í hverfinu þeirra. Við leggjum einnig til að allir íbúar 70 ára og eldri fái heimsókn frá starfsfólki félagsþjónustunnar þar sem farið er yfir öryggisþætti heimilisins með tilliti til forvarna.

Þá ætlum við einnig að koma á fót álíka korti fyrir fatlað fólk í Reykjavík, sem veitir gjaldfrjálsan aðgang að bókasöfnum og öðrum söfnum á vegum borgarinnar, sem og í sundlaugar. Fatlað fólk mun einnig fá boð um heilsueflandi heimsókn þar sem kortið er kynnt og farið er yfir hvað er í boði í nærumhverfinu sem tengist kortinu. Með þessum kynningum og heimsóknum þar sem boðið er upp á leiðbeiningar og aðstoð erum við mögulega að létta á álaginu hjá fjölskyldum og aðstandendum.

Aðgengilegri þjónusta

Þjónusta og sjálfsafgreiðsla á vegum borgarinnar á að verða aðgengileg öllum á netinu þegar unnt er og þá eiga borgarbúar að geta leitað til þjónustumiðstöðva eða þjónustuvers borgarinnar til að fá aðstoð eða leiðbeiningar vegna sjálfsafgreiðslu. Við stefnum á að bæta aðgengi að öllu húsnæði þar sem þjónusta Reykjavíkurborgar.

Gegn fátækt

Við ætlum að vinna gegn fátækt í borginni en Samfylkingin mun ekki leggja til skilyrta fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð til framfærslu er neyðaraðstoð þar sem við leggjum áherslu á að fólki sé mætt með vinsemd og virðingu. Þá skal stuðningurinn til þeirra sem fá fjárhagsaðstoð miðaður að valdeflingu einstaklingsins og fjölskyldunnar. Stuðningur við sálfélagslega þætti er mikilvægur og við munum leggja áherslu á stuðning til að komast út úr erfiðum aðstæðum.

Við viljum að borgarkerfið – hvort sem um er að ræða þjónustu, skipulag eða samgöngur – sé gert til að mæta þörfum fólksins í borginni og að fjölskyldur finni til þess að hægt sé að leita eftir stuðningi og aðstoð hjá Reykjavíkurborg við þau margvíslegu verkefni og skyldur sem mæta þeim á ólíkum aldursskeiðum lífsins.

Áfram Reykjavík fyrir allar fjölskyldur!

Greinin birtist á Kjarnanum fimmtudaginn 18. maí 2018.

Ellen Calmon, grunnskólakennari og fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins, skipar 10. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Reykjavík er okkar allra

Já, hún er okkar allra. Margbreytileiki er það fyrsta sem kemur upp í hugann – þar er rými fyrir alla, sama hvernig við erum og sama hvaðan við komum. Það er ekki draumsýn að vilja sjá góða borg betri, það er eðli borgar að þróast og vera í stöðugri endurnýjum á öllum sviðum. Ég vil að Reykjavík verði áfram fyrirmynd og hvatning fyrir önnur sveitarfélag þegar kemur að því að gera vel við sína íbúa.

Mannréttindaborgin

Reykjavíkurborg hefur aukið framlög til velferðarmála og eflt mannréttindi og þar á Reykjavík að vera áfram fremst í flokki. Ég á þann draum að Reykjavík verði skilgreind sem mannréttindaborg, þar sem mannréttindi og virðing fyrir manneskjum verði það stef sem gangi í gegnum alla þjónustu við borgarbúa, alla stefnumörkum og áætlanir – það sé ein af stoðunum sem við stöndum á.

Mér er umhugað um hag barna og fjölskyldna þeirra. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni með þeirra hagsmuni í huga, geta gripið inn í sem fyrst með stuðningi og fræðslu, fjölskylduaðstoð og sérstökum stuðningi til þeirra barna sem slíkt þurfa. Við viljum byrgja brunninn. Það þarf að efla markvissa vinnu gegn kvíða barna og ungmenna, styrkja sjálfsmyndina og tryggja alla faglega aðstoð til þeirra.

Með kynjagleraugun á nefinu

Við þurfum líka alltaf að vera á vaktinni vegna margþættar mismununar og því væri mannréttindavottun fyrir stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar jákvætt skref. Kynjagleraugun þurfa alltaf að vera á nefinu – þar verður alltaf að halda vöku sinni því ekkert er sjálfgefið í þeim efnum. Höldum áfram að útrýma kynbundum launamun, þar til hann er allur!

Höldum áfram að vera með áberandi forystu í jafnréttis- og kvenfrelsismálum og hugum að jafnrétti kynjanna í allri þjónustu þannig að hún nýtist öllum jafnt. Þróum áfram kynjaðar fjárhagsáætlanir þannig að við sjáum í raun hvar fjármagnið nýtist og höldum áfram á þeirri vegferð að útrýma kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í starfsumhverfi borgarinnar.

Áfram gegn ofbeldi

Ofbeldi og varnir gegn ofbeldi í öllum myndum á að vera forgangsmál, alltaf. Það verður haldið áfram á þeirri farsælu braut sem þegar hefur verið mörkuð af Ofbeldisvarnarnefnd, t.d. með tilkomu Bjarkahlíðar, miðstöðvar þolenda ofbeldis. Áfram þarf að vinna gegn öllu ofbeldi hvar sem er í borginni, hvort sem það er á götum úti, á skemmtistöðum eða á heimilinu. Gerum góða borg betri. Áfram Reykjavík!

Greinin birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 9. maí 2018

 

Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vegna vistheimila og fyrrverandi þingkona, skipar 7. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Aukum stuðning við 16 til 18 ára ungmenni

Fyrir mörgum árum færðist sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 ár. Þetta er flestum ljóst en þó er engu líkara en að samfélagið þurfi að minna sig á þessa staðreynd við og við. Ungmenni á þessum aldri eiga skýlausan rétt á ýmsum stuðningi frá hinu opinbera. Ég tel að við getum gert mun betur til að tryggja þann stuðning en ekki síður tel ég mikilvægt að allar breytingar sem varða þennan aldurshóp séu mjög vel ígrundaðar og helst af öllu ákveðnar í samráði við hópinn sjálfan.

Glíma við kvíða og heilbrigður lífsstíll

Við vitum að ungmenni glíma við kvíða og þunglyndi í meiri mæli en áður, bæði í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Fleiri hverfa brott frá námi en eðlilegt þykir og sá hópur fær lítinn stuðning frá hinu opinbera og hefur fáa möguleika til félagslegrar virkni. En ekki má gleyma þeim jákvæðu staðreyndum að ungir Íslendingar velja sífellt fleiri heilbrigðan lífsstíl án vímuefna, eru virkir í tómstundum og íþróttum og eru mikilvægar fyrirmyndir í sínu nærumhverfi.

Það fara ekki allir sömu leið

Ég hef áhyggjur af hópnum sem hverfur brott frá námi og þær áhyggjur hafa ekki minnkað við styttingu náms til stúdentsprófs. Þeim spurningum hefur ekki verið svarað hvaða áhrif styttingin gæti haft á ungmenni með tilliti til félagslegra þátta og velferðarsjónarmiða. Það gefur augaleið að styttingin eykur álag í námi, á kostnað þess að njóta og fá nauðsynlegt svigrúm til að þroskast. Það var gagnrýnivert að stytta námstíma á framhaldsskólastigi á sama tíma og dregið var úr möguleikum fólks til að setjast aftur á skólabekk. Er hugsanlegt að þetta valdi kvíða hjá ungmennum? Enginn vafi er á því að þessar breytingar hafa valdið auknum kvíða hjá ungmennum. Að mínu mati vorum við á góðu róli enda kláruðu getumiklir námsmenn framhaldsskólann á þremur árum, stór hópur á fjórum árum og enn aðrir síðar og jafnvel með hléum.

Á meðan staðreyndin er sú að við höfum hærra hlutfall nemenda sem hverfa brott frá námi vegna einhverra orsaka þá er mikilvægt að stórauka stuðning eigi róttæk breyting á borð við styttingu náms til stúdentsprófs að vera farsæl. Við eigum ekki að gera ráð fyrir því að allir fari sömu leið, við verðum að bjóða ungu fólki raunverulega möguleika á fjölbreyttri menntun.

Menntun er velferðarmál

Þeir sem fátækastir eru í okkar samfélagi eiga það oft sameiginlegt að vera með litla formlega skólagöngu að baki. Ef við styðjum við ungmennin okkar á menntaveginum hefur það veruleg jákvæð áhrif á velferð og lífsgæði fólks til frambúðar. Við þurfum að skapa samfélag fólks með ólíka menntun, reynslu og þekkingu. Möguleikar til menntunar eiga að vera fjölbreyttir, aðgengilegir og án aðgreiningar. Þeir þurfa að vera formlegir, óformlegir og í formi sí- og endurmenntunar. Taka verður tillit til áhugasviðs og aðstæðna og gera ungu fólki raunverulega kleift að fara á þeim hraða í gegnum nám sitt sem hentar. Sérstaklega þarf að hlúa vel að 16 til 18 ára gömlum ungmennum, sem við berum sameiginlega ríka ábyrgð á. Gleymum því ekki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 14. maí 2018.

 

Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri á þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar á Laugarvegi, skipar 13. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Frá vellíðan frá vöggu til grafar

Þriðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er að „stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar“ og í því felst meðal annars að efla forvarnir og stuðla að geðheilbrigði. Markmið Samfylkingarinnar er að vinna enn frekar að því að gera Reykjavíkurborg að heilsueflandi samfélagi í takt við heimsmarkmiðin.

Með nýrri lýðheilsustefnu viljum við auka vellíðan borgarbúa og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með því að bæta bæði manngert og félagslegt umhverfi allra íbúa. Forvarnir eru einn mikilvægasti þátturinn í lýðheilsustefnunni og í raun sá þáttur sem skilar samfélaginu mestu, það er að styrkja og styðja við fólk en þannig má mögulega koma í veg fyrir heilsubrest.

Okkar markmið er að Reykjavík verði heilsueflandi samfélag og höfum við nú þegar hrint af stað fjölmörgum verkefnum sem snúa að heilsueflandi samfélagi, svo sem í leik- og grunnskólum borgarinnar ásamt því hvetja til heilsueflingar eldri borgara með því að bjóða þeim ókeypis í sund og auka aðgengi þeirra að hreyfingu og félagsheimilum. Einkunnarorð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna eru að enginn verði undanskilinn (e. „leaving no one behind“). Til að uppfylla einkunnarorðin þarf að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, vellíðan allra íbúa og auka jöfnuð. Verður það meðal annars gert með aukinni hverfaþjónustu, öflugri stoðþjónustu í leik- og grunnskólum og stuðningi við fatlað fólk og eldri borgara ásamt hvatningu eða stuðningi til aukinnar virkni.

Samfylkingin ætlar að halda áfram þeirri vinnu sem hafin er við að skapa borg fyrir fólk og ætlar ekki að undanskilja neinn. Áfram Reykjavík fyrir okkur öll!

Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 14. maí 2018.

 

Ellen Calmon, fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins, skipar 10. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Reykjavík í samkeppni við aðrar borgir

Samkeppnishæfni Reykjavíkur hefur verið okkar helsta verkefni á undanförnum árum. Til þess að teljast samkeppnishæf verðum við að vera lífsgæðaborg, skólaborg og velferðarborg en jafnframt fjölga spennandi störfum og tækifærum fyrir ungt fólk og stuðla að öflugu, fjölbreyttu atvinnulífi. Reykjavík hefur verið hástökkvari bæði í nýlegum alþjóðlegum samanburði á lífsgæðum og samkeppnishæfni.

Að þróa fjölbreytta, græna og nútímalega borg fyrir alla byggir á framtíðarsýn og kallar bæði á stefnufestu og úthald. Borg sem er án vegvísis og framtíðarsýnar þróast ekki sjálfkrafa í rétta átt. Við eigum að bera Reykjavík saman við aðrar borgir Norðurlanda frekar en sveitarfélög hérlendis. Í nýjum samanburði Norrænu ráðherranefndarinnar höfum við skákað öllum borgarsvæðum af okkar stærð, tekið fram úr Helsinki og aðeins Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmur skáka Reykjavík í samkeppnishæfni. Á tíu ára fresti tekur tímaritið The Economist saman lista yfir lífsgæði í borgum. Í síðustu mælingu var Reykjavík hástökkvari, m.a. vegna metnaðarfullra uppbyggingarverkefna og aukins menningarframboðs. Hvort tveggja er fagnaðarefni. Við getum verið stolt af þróun borgarinnar okkar.

Það á að vera kappsmál að nýjar kynslóðir vilji búa í Reykjavík fremur en í öðrum borgum. Ungt fólk leitar til borga og getur starfað hvar sem er í heiminum. Ísland á mikið undir því að Reykjavík gangi vel í þessari samkeppni en þar eigum við að keppa á grundvelli menntunar, velferðar, öryggis og góðrar þjónustu, auk þeirra lífsgæða sem kraftmikið og fjölbreytt borgarsamfélag getur boðið upp á. Norðurlöndin hafa sýnt að áhersla á jöfnuð og jöfn tækifæri í bland við öflugt og framsækið atvinnulíf er sú leið sem best hefur gefist í þessu. Það er leið jafnaðarmanna. Það er líka rétta leiðin fyrir Reykjavík. Borgin okkar hefur aldrei verið eins kraftmikil, lifandi og fjölbreytt og einmitt núna. Og það er mikilvægt að halda áfram á réttri leið. Áfram Reykjavík.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. maí 2018.

 

Dagur B. Eggertsson, læknir og borgarstjóri, skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Menningarborgin okkar allra

Borg er rammi um mannfélag, og höfuðborg þarf að vera heimahöfn heillar þjóðar og þeirra sem sækja hana heim. Þar þurfa íbúar og gestir að hafa aðgang að þjónustu og nauðsynlegum innviðum, en jafnframt er þeim nauðsynlegt að geta auðveldlega nálgast þá afþreyingu og hugarfarslegu ögrun sem fólgin er í menningu og listum. Á því sviði hefur margt verið ákaflega vel gert í Reykjavík á undanförnum árum og það er afar mikils vert að halda því góða starfi áfram og helst efla það. Það viljum við í Samfylkingunni gjarna gera í ljúfu samstarfi við alla þá aðila sem yrkja menningarakurinn.

Margir hafa þá samfélagslegu sýn að yfirvöld eigi sem minnst að koma að menningarmálum; þar eigi að fást við það eitt sem stendur undir sér eða nýtur náðar hjá einkafyrirtækjum. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að yfirvöld gegni mikilvægu hlutverki í því að skapa vettvang fyrir listiðkun og aðra menningarstarfsemi enda fegrar slíkt mannlífið og gefur af sér margvíslegan arð. Menningarstarfið göfgar okkur; gerir borgina okkar bæði athyglisverðari og skemmtilegri en ella væri.

Tónlistarborgin Reykjavík iðar af lífi allan ársins hring, þar sem hjartað slær í fallegu Hörpu sem skilar hagnaði, sem ekki verður einungis mældur í krónum og aurum. Myndlistarborgin Reykjavík hefur einnig upp á fjöldamargt að bjóða og starfsemi safna á því sviði er öflug. Í sjónmáli er uppbygging í Gufunesi sem setur Reykjavík enn rækilegar á kortið sem kvikmyndaborg. Leiklistarborg er Reykjavík líka að sönnu; með öflug atvinnuleikhús og frjóa grasrót. Sjálfur þekki ég best til Bókmenntaborgarinnar, enda fékk ég að taka þátt í því á sínum tíma að sækja um að Reykjavík yrði viðurkennd sem ein af Bókamenntaborgum UNESCO, og kæmist þannig inn í net skapandi borga á heimsvísu. Bókmenntaborgin er sprellifandi, með tíðum upplestrum og málþingum, og hér er haldin alþjóðleg bókmenntahátíð annað hvert ár sem hefur tignarstöðu í hugum erlendra sem innlendra rithöfunda, útgefenda og umboðsmanna þó hún teljist ekki til stærstu hátíða. Nú hillir líka undir að Hús íslenskunnar rísi á háskólasvæðinu og þá verður loks unnt að sýna handritasafnið okkar, merkasta framlag okkar til heimsmenningarinnar, á þann myndarlega hátt sem það á skilið. Í Reykjavík opnast þá heimili handritanna og ég efast ekki um að borgarbúar og gestir munu flykkjast til að berja þær gersemar augum og fræðast nánar um þau.

Ég er stoltur af menningarborginni okkar allra og ítreka mikilvægi þess að góðu starfi verði fram haldið. Af þeim sökum er nauðsynlegt að minna á þessa starfsemi í aðdraganda kosninga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 8. maí 2018.

 

Sigurður Svavarsson, útgefandi,  skipar 30. sæti

á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Útrýmum kynbundnum launamun

Í dag fer fram ráðstefna um kynbundinn launamun hjá Reykjavík. Kynbundinn launamunur hjá borginni var fyrst mældur árið 1995, skömmu eftir að Ingibjörg Sólrún varð borgarstjóri – fyrir það skipti kynbundinn launamunur greinilega engu máli. Um leið og þessar mikilvægu mælingar hófust tók launamunurinn að minnka – en á undanförnum árum hefur hann minnkað hraðar og meira í kjölfar markvissra aðgerða af hálfu borgaryfirvalda þar sem stærsti þátturinn er framfylgd jafnlaunastefnu. Við fengum nýlega niðurstöður frá Félagsvísindastofnun Háskólans sem hefur fylgst með þróun launamunar frá árinu 1995. Skemmst er frá því að segja að á því tímabili hefur kynbundinn launamunur farið úr 21,1% niður í 2,2% eins og sést á línuritinu hér fyrir ofan.

Starfsmat er jafnréttistæki

Jafnlaunastefnan er hornsteinn í launastefnu Reykjavíkurborgar. Með því er átt við þá einbeittu stefnu að greiða starfsfólki sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf líkt og jafnréttislög kveða á um. Til að vinna að því marki hefur Reykjavíkurborg frá árinu 2001 byggt launaröðun starfa á starfsmatskerfi hjá þeim stéttarfélögum sem um það hafa samið. Mikill meirihluti starfsmanna Reykjavíkurborgar tekur laun samkvæmt starfsmati sem er í raun það launajafnandi tæki sem hefur reynst okkur best.

Gegn kynbundnum launamun

Sú sérfræðiþekking sem hefur myndast innan borgarinnar á undanförnum árum er ótrúlega mikil og næstu skref hjá okkur verða að miðla þeim árangri til annarra sveitarfélaga og stórra vinnustaða. Sá meirihluti sem nú situr hefur farið í umfangsmiklar aðgerðir gegn kynbundnum launamun sem hafa skilað þessum góða árangri sem við fögnum nú í dag.

Greinin birtist í Fréttablaðinu þriðjudaginn 8. maí 2018.

Dagur skipar 1. sæti á framboðslisti Samfylkingarinnar í Reykjavík

og Heiða Björg 2. sæti

Jöfn tækifæri – félagslega og námslega

Það hafa allir skoðun á skólamálum. Við höfum öll gengið í skóla einhvern tímann á lífsleiðinni og þau okkar sem eru svo heppin að eignast börn fylgjast með skólagöngu þeirra og hafa vissulega á henni skoðun. Samfylkingin hefur mikinn metnað fyrir skólamálum í borginni enda eru þar fyrstu möguleikar jafnaðarmennskunnar til að láta til sín taka og stuðla að jöfnum tækifærum allra barna, félagslega og námslega.

Við viljum tryggja hag allra barna með því að vinna enn frekar að samstilltum aðgerðum gegn einelti samfara vinnu gegn félagslegri einangrun barna. Við fáum fagfólkið til liðs við okkur þannig að aukin áhersla verði lögð á jafningastuðning og samkennd í barnahópum.

Við viljum að börnum með fatlanir eða raskanir verði mætt á þeirra forsendum bæði í námi og frístundum með auknum náms- og félagslegum stuðningi. Forsendur stuðnings mega ekki byggja einvörðungu á læknisfræðilegum greiningar. Við treystum kennurum og öðru fagfólki sem starfar bæði í leik- og grunnskólum borgarinnar til að meta og þekkja hvenær barn þarf aukinn stuðning. Þetta gerum við meðal annars með því að fjölga ólíkum fagstéttum í starfsliði skólanna. Þá leggjum við áherslu á að auka formlegt samstarf ríkis, borgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um raunhæfar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi barna úr framhaldsskólum og skólaforðun eða skólafælni í grunnskólum.

Flest höfum við skoðun á skólamálum en öll ættum við að vera sammála um að börnin okkar eiga rétt á því að ná í mark á sínum hraða, á sínum forsendum með réttum stuðningi. Áfram Reykjavík til framtíðar!

Greinin birtist á frettabladid.is þriðjudaginn 8. maí 2018.

Ellen Calmon, fyrrverandi formaður ÖBÍ, skipar 10. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík

Áhyggjulaust en athafnasamt ævikvöld

Öllum er ljóst að aldur okkar lengist og þeim fjölgar sem tilheyra þriðju kynslóðinni, sextíu ára og eldri. Við viljum stuðla að því að eldri borgarar búi við heilsuvæna borg og áhyggjulaust en athafnasamt ævikvöld.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, og þar með einnig Samfylkingin, hefur kynnt stefnu sína um vellíðan, heilsueflandi umhverfi, stuðning við heimili, heilsukort og endurhæfingu í heimahúsum, velferðarþjónustu og aðgengilega þjónustu, svo fátt eitt sé nefnt. Samfylkingin leggur sérstaka áherslu á að koma til móts við þá sem búa við fátækt og einangrun og tryggja öllum nauðsynlega þjónustu, tækifæri til virkni og þátttöku og innihaldsríks lífs.

Við undirritaðir, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ellert B Schram, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, viljum síðan leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi málefni:

1) Eldri borgarar eiga að geta búið heima, svo lengi sem heilsa og aðrar aðstæður leyfa. Reykjavíkurborg í samvinnu við Félag eldri borgara mun útvega lóðir og stuðla að byggingu húsnæðis til þeirra eldri borgara sem vilja minnka við sig í húsrými, annað hvort til leigu eða kaupa. Áhersla verður lögð á samvinnu við byggingafélög sem ekki byggja í hagnaðarskyni.

2) Þjónusta verður efld við eldri borgara í heimahúsum jafnframt því að þróa endurhæfingu á heimilum, matarþjónustu og aðra aðstoð. Reykjavík bjóðist til að efla enn frekar heimahjúkrun með samningum við ríkið.

3) Reykjavíkurborg og önnur bæjarfélög hafa sett sér reglur um niðurfellingar og/eða lækkanir á fasteignagjöldum að því er varðar eldri borgara. Reykjavíkurborg hefur fellt niður fasteignagjöld hjá þeim sem lægstu tekjurnar hafa og lækkað fasteignagjöld hjá öðrum, ýmist um 80% eða 50% eftir tekjum. Fasteignagjöld almennt voru lækkuð um 10% í október s.l. og ofangreindir afslættir hækkaðir þannig að þeir næðu til fleiri í samráði borgarinnar og Félags eldri borgara í Reykjavík. Því verður haldið áfram til að stuðla að því hækkun fasteignaverðs hafi ekki íþyngjandi áhrif á kjör tekjulágra eldri borgara.

4) Samskipti milli Reykjavíkurborgar og FEB í þágu eldri borgara hafa verið mikil og góð en verða aukin enn frekar í ljósi þess að FEB er málsvari og talsmaður vaxandi hóps borgarbúa sem komnir eru til efri ára.

5) Öldungaráð borgarinnar er nýr og öflugur vettvangur sem þarf einnig að nýta til fulls í samstarfi og umræðum milli borgarinnar annars vegar og borgarbúa á efri árum hins vegar.

6) Eldri borgarar fá afslætti á notkun strætisvagna og áfram ókeypis aðgang að sundlaugum, menningarstofnunum og bókasöfnum frá 67 ára aldri, líkt og nýverið var samþykkt og veita má frekari afslætti á annarri þjónustu, s.s. líkamsrækt, í samvinnu Reykjavíkurborgar og FEB.

7) Lögð verður áhersla á að ná samkomulagi við ríkisstjórnina að hraða uppbyggingu og notkun á þjónustu- og hjúkrunarheimilum í samræmi við nýgefin fyrirheit og að flýtt verði fjölgun rýma í Reykjavík í samræm við stefnu Samfylkingarinnar og yfirlýstan vilja Reykjavíkurborgar.

8) Sérstök áhersla verði lögð á heilsueflingu eldra fólks og aðgang að hreyfingu og virkri þátttöku í margvíslegu og fjölbreyttu frístundastarfi, þar með talið innan íþróttafélaga í hverfum.

Greinin birsti á vefsíðunnni Lifðu núna 3. maí 2018.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismaður og formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis, skipar 41. sæti listans.

Öll með í Reykjavík

Gott borgarsamfélag verður ekki til að sjálfu sér. Gott samfélag verður til þegar allir fá tækifæri til að þroskast og dafna og enginn er skilinn eftir. Þannig samfélag viljum við jafnaðarfólk í Samfylkingunni. Öll viljum við leggja okkar að mörkum, öll eigum við okkur vonir og þrár og öll tökumst við á við mismunandi áskoranir sem lífið færir okkur. Hvar sem við erum stödd á æviskeiðinu, hvort sem við glímum við veikindi, atvinnuleysi, fötlun eða ef börnin okkar lenda í vanda eða einhver okkur nákominn, þá eigum við í góðu samfélagi að geta treyst á stuðning og hjálp og fundið sameiginlega leið. Öll þurfum við að fá tækifæri og engan má skilja eftir.

Verkin tala – höldum áfram

Undir forystu Samfylkingarinnar hefur Reykjavíkurborg á liðnu kjörtímabili stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, eflt almenningssamgöngur, unnið á launamun kynjanna og leitt markvissa vinnu gegn ofbeldi í öllum myndum. Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu. Á næsta kjörtímabili getum við haldið áfram á sömu braut og aukið enn frekar aðstoð við þá sem þurfa á stuðningi að halda í borginni – enda á góðærið að nýta til slíkra hluta, ekki til skattaafslátta fyrir hina ríkari.

Styðjum börn og fjölskyldur í vanda

Við höfum lagt áherslu á geðheilsu og öflugan stuðning við börn í vanda. Það þarf að efla þjónustuna í skólunum, nútímavæða fræðslu og forvarnir um geðheilsu og fíknivanda og bjóða fjölskyldumeðferð.

Við leggjum líka sérstaka áherslu á að jafna aðstæður barna og unglinga til að þroska hæfileika sína í frístundastarfi og listnámi utan skóla. Við viljum halda áfram að efla skólahljómsveitir, opna æfingahúsnæði fyrir tónlistarfólk í hverfum, efna til tilraunaverkefnis með hverfiskóra barna og auka tækifæri yngstu barnanna til að prófa ólíkar íþróttir endurgjaldslaust.

Örugg borg án ofbeldis

Við komum á fót ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkur sem hefur þegar sannað mikilvægi sitt. Við opnuðum Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Við gerðum samkomulag um örugga og ofbeldislausa skemmtistaði og erum að innleiða stóreflda skimun og forvarnir gegn ofbeldi í skólum borgarinnar. Við þurfum áfram að vinna markvisst gegn öllu ofbeldi í borginni.

Aldursvæn borg

Við höfum lækkað fasteignagjöld á alla borgarbúa og einnig hækkað sérstaklega afslætti á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara og öryrkja. Við viljum á komandi kjörtímabili efla heimaþjónustu og heimahjúkrun enn frekar, brúa kynslóðabilið og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með því að þróa áfram Menningar- og heilsukort eldri borgara.

Geðheilsa í breyttu samfélagi

Við þurfum einnig að svara kalli tímans með aukinni áherslu á bætta geðheilsu, vellíðan og geðrækt í borginni – sérstaklega á meðal ungs fólks. Við viljum auka sálfræðiþjónustu fyrir börn í grunnskólum borgarinnar og mæta betur þörfum fólks með fíknivanda. Við viljum fjölga geðheilsustöðvum á borð við þá sem var opnuð í Breiðholti á kjörtímabilinu og styðjum áfram frjáls félagasamtök sem vinna að bættri geðheilsu borgarbúa.

Áfram Reykjavík

Í komandi kosningum er valið skýrt. Viljum við halda áfram að byggja upp kröftuga, nútímalega borg þar sem enginn verður skilinn eftir og þeir sem þess þurfa fá stuðning og hjálp? Viljum við borg án ofbeldis þar sem jafnrétti, jöfnuður og sjálfbærni eru gildi sem unnið er eftir? Ef svarið er já, þá kjósum við XS og höldum áfram að byggja borg fyrir alla.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. apríl 2018.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, 2. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík