Endurreisn miðborgarinnar

Það er mikið um að vera víða í borginni þessi misserin. Byggingarkrana ber við himinn, timburveggir loka gangstéttum, sem er glatað en sem betur fer tímabundið, steypubílar bíða eftir því að röðin komi að þeim. Byggingarnar þjóta upp. Uppi í Efstaleiti við hús Ríkisútvarpsins er verið að byggja 360 íbúðir og niður við Hlíðarenda rísa hvorki meira en 850 íbúðir. Þar er að verða til heilt nýtt borgarhverfi með um það bil 2000 íbúum og nýjum götum sem heita eftir frændfuglum Valsins; Fálkahlíð, Smyrilshlíð, Arnarhlíð.

Við lifum á einhverju mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar. Það sést með berum augum þegar keyrt erum borgina. Helmingsstækkun Bryggjuhverfis, ný Vogabyggð, Kirkjusandur. Líklegast er þó hvergi meira um að vera ákkúrat núna en í miðborginni. Við Hverfisgötu er bygging 250 íbúða á nokkrum lóðum langt komin. Þær eru nánast allar komnar í sölu. Öll húsin eru með háum og glæsilegum jarðhæðum fyrir verslanir og veitingahús. Enginn vafi er að á algjör endurnýjun á yfirborði götunnar og öllum lögnum undir henni sem borgin réðst í fyrir 6 árum á mikinn þátt í þeirri uppreist æru sem Hverfisagatan hefur fengið. Sú mikla fjárfesting mun margborga sig.

Svæðið kringum Hlemm er að ganga í endurnýjun lífdaga sinna. Mathöllin sem þar er hefur slegið í gegn. Við Austurhöfnina milli Hörpu og Lækjatorgs er verið að byggja fjölda íbúða og gengur hratt. Þar verða líka háar jarðhæðir og talsvert mikið skrifstofuhúsnæði. Örlítið vestar er endurbygging gömlu Fiskhallarinnar og Exeterhússins vel á veg komin.

Í raun má tala um endurreisn miðborgarinnar. Lítum á nokkrar tölur. Frá 1950 til 1990 fækkað íbúum innan Hringbrautar úr 30 000 í 12 000. Á fyrri hluta 20 aldar og alveg fram til 1970 var miðborgin miðstöð verslunar, þjónustu og iðnaðar. Og það var frægt og fallegt apótek á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Nú er aftur komið apótek í Kvosina það er á jarðhæði í  endurbyggðu húsi rammagerðarinnar í Hafnarstræti.

Greinin birtist í hverfisblaðinu Miðbær-Hlíðar sem kom út miðvikudaginn 23. maí 2018.

 

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, skipar 5. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík