Hvers vegna var Reykjavíkurborg rekin með 28 milljarða afgangi árið 2017?

Það er ekki nema von að spurt sé enda er 28 milljarða afgangur ansi ríflegur afgangur. Þó er brýnt að hafa í huga að það skiptast alltaf á skin og skúrir og þess vegna er vissara að skila góðum afgangi þegar vel árar. Þetta höfum við gert á undanförnum árum.

Afgangurinn af rekstri borgarinnar árið 2017 var reyndar tvisvar sinnum meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það skýrist að hluta til af því að Reykjavík er að ganga í gegnum mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar og voru tekjur af sölu byggingarréttar enn meiri á árinu en áætlað var.

Er það rétt, sem sumir segja, að fjármál borgarinnar séu í ólestri og reksturinn ósjálfbær?

Nei, það er alls ekki rétt. Reykjavíkurborg var rekin með 28 milljarða afgangi árið 2017 og þarf að leita langt aftur í tímann til að finna jafngóða niðurstöðu.. Rekstur borgarinnar er sjálfbær og skuldahlutföll hafa lækkað hratt og mikið á undanförnum átta árum.

Árið 2010 voru fjármál borgarinnar í miklum ólestri en þá var ráðist í margháttaðar björgunaraðgerðir, meðal annars til að lækka skuldirnar, bjarga rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og vinna gegn atvinnuleysi í borginni. Þessar björgunaraðgerðir skiluðu árangri og á undanförnum árum hefur ábyrg fjármálastjórn gert Reykjavík kleift að snúa vörn í sókn.

Súluritið hér að neðan segir allt sem segja þarf um fjármál og rekstur borgarinnar. Það sýnir þróun heildarskulda Reykjavíkurborgar sem hlutfall af tekjum frá árinu 2010. Það er mikilvægt að skoða skuldirnar sem hlutfall af tekjum því borgin stækkar, fólki fjölgar, umsvif aukast og skatttekjur hækka – og þannig verða skuldirnar viðráðanlegri en ella.

Heimild: Ársreikningar Reykjavíkurborgar

Heimild: Ársreikningar Reykjavíkurborgar