Hvenær á að setja í gang framkvæmdir við Kennaraháskólareitinn ?

Borgayrfirvöld hafa mikinn áhuga áð að þetta verkefni fari sem fyrst af stað. Staðan núna er sú að Byggingafélag aldraðra sendi inn fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi fyrir reitinn 18.4 sl.  Við það tækifæri bókaði umhverfis og skipulagsráð eftirfarandi:
Umhverfis og skipulagsráð samþykkir að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna hluta þeirra breytinga sem óskað er eftir, í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. apríl 2018.
 
Einhverra hluta vegan hefur engin formleg tillaga borist okkur til meðferðar.  Hugsanlega er félagið sér ekki meðvitað um að boltinn er hjá þeim að senda inn slíka umsókn.   Um leið og umsókn hefur borist verður hún tekin til skjótrar meðferðar og afgreiðslu. 

Hvað hafa verið byggð mörg hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara á síðustu 8 árum?

Hjúkrunarheimilið í Mörkinni opnaði á þessu tímabili og nú eru framkvæmdir hafnar við væntanlegt hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Því miður hefur ríkið varið alltof litlu fjármagni til uppbyggingar hjúkrunarrýma en það horfir til betri vegar með nýlegu samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um að fundnir verði staðir fyrir 200-300 ný hjúkrunarrými á næstu árum.

Hvað hafið þið hugsað ykkur í sambandi við Elliðaárdalinn og umhverfi hans?

Við viljum vernda Elliðaárdalinn sem einstaka náttúruvin í borginni. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er dalurinn skilgreindur sem hverfisverndarsvæði. Það þýðir að við skipulagvinnu eiga lífríki og náttúrufar að njóta forgangs og allri mannvirkjagerð skal haldið í lágmarki. Undanfarið hefur verið unnið að deiliskipulagi dalsins sem byggir alfarið á þessum forsendum. Í aðalskipulaginu er Stekkjarbakkinn ekki skilgreindur sem hluti af verndarsvæði Elliðaárdalsins, heldur sem „þróunarsvæði í jaðri útivistarsvæðis“. Gert er ráð fyrir að þar geti komið græn starfsemi, svo sem ræktun og gróðrastöð.

Hvað varðar fyrirætlanir um uppbyggingu svokallaðs Biodome á Stekkjarbakka, þá hefur ekki enn verið samþykkt að setja þær í formlegt deiliskipulagsferli. Þær hafa hins vegar verið kynntar hollvinasamtökum Elliðaárdals og Hverfisráði Breiðholts. Umhverfis og skipulagsráð mun á næstu vikum taka ákvörðun um hvort slíkt ferli verður sett af stað. Verði það samþykkt munu allir borgarbúar, félagasamtök og hagsmunaaðilar fá tækifæri til að senda inn formlegar athugasemdir.

Hvar eru allar þessar íbúðir?

Gamla hugsunin var sú að öll íbúðauppbygging í borginni kallaði á að ný hverfi væru reist frá grunni fyrir utan borgarmörkin. En nú á sér stað kraftmikil uppbygging um alla borg. Í stað þess að þenja út byggðina þá hefur á þessu kjörtímabili átt sér stað íbúðauppbygging á um 40 reitum víðsvegar um borgina (m.v. 10 íbúðir eða fleiri á hverjum reit). Þetta er stefna sem styrkir hverfin okkar, gerir þau sjálfbærari og eykur þannig lífsgæði íbúanna.

Er það rétt að nú sé Reykjavík að ganga í gegnum mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar?

Já, Reykjavík er að ganga í gegnum mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar og aldrei hafa fleiri íbúðir farið í uppbyggingu á einu kjörtímabili. Árið 2017 varð mesta íbúafjölgun í Reykjavík í 30 ár.

Súluritið hér að neðan sýnir fjölda íbúða sem hafin er uppbygging á í Reykjavík á hverju kjörtímabili frá árinu 1974. Á næsta kjörtímabili viljum við að halda áfram að leiða kraftmikla uppbyggingu um alla borg og leggja sérstaka áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Nýsmíði íbúða í Reykjavík 1974 – 2018 Fjöldi íbúða sem hafin er uppbygging á samkvæmt útgefnum byggingarleyfum frá Byggingarfulltrúa Reykjavíkur.

Nýsmíði íbúða í Reykjavík 1974 – 2018
Fjöldi íbúða sem hafin er uppbygging á samkvæmt útgefnum byggingarleyfum frá Byggingarfulltrúa Reykjavíkur.

Heimild: www.ibudauppbygging.is