Í stefnu Samfylkingarinnar er stefnt að leikskóla fyrir 12-18 mánaða börn. Mig langar að vita hvort þið sjáið þá fyrir ykkur að leikskólarnir taki börn inn á öðrum tíma en haustin?

Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um formlega inntöku barna oftar en í byrjun hausts en hins vegar hafa komið fram tillögur um slíkt á undanförnum árum, t.d. um inntöku tvisvar á ári þ.e. í byrjun hausts og aftur fljótlega eftir áramótin t.d. í janúar eða febrúar.  Við munum skoða slíkar hugmyndir með opnum huga í samvinnu við leikskólastjóra.  Aðalmálið er að fjölga plássum til að auka svigrúm leikskólanna til að taka inn fleiri börn og þess vegna ætlum við að fjölga plássum strax í haust um tæplega 200, og um svipaða tölu á næsta ári.  Það gerum við bæði með viðbótarhúsnæði við leikskóla í hverfum þar sem er mikil eftirspurn, s.s. í Fossvogi, Seljahverfi, Háaleiti, Grafarholti og Laugardal og með samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla sem geta tekið á móti fleiri börnum.  Slíkir samningar eru langt komnir við þrjá leikskóla í Vesturbæ og fleiri fylgja væntanlega í kjölfarið síðar.

Hvað hefur gerst í málefnum grunnskólanna á þessu kjörtímabili?

Við höfum nýtt þann viðsnúning sem náðst hefur í fjármálum borgarinnar í kjarabætur, skólastarf og velferðarmál. Hvað skólamálin varðar þá hafa framlög til málaflokksins aukist um 25% frá árinu 2014 eða rúmlega 9 milljarða króna. Þar af hefur rúmlega helmingur eða 4,7 milljarðar runnið í grunnskólana. Í sérstökum forgangi hefur verið að hækka laun kennara og annars starfsfólk í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum en þar til viðbótar hefur verið aukið verulega í á ákveðnum lykilsviðum.

Þar má nefna tvöfalt hærri framlög í íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku, ráðningu móðurmálskennara sem þjóna sama hópi og hjálpa þeim jafnframt að fóta sig í íslensku skólaumhverfi.  Námsgögn verða gjaldfrjáls í haust, framlög til sérkennslu hafa aukist, sömuleiðis í fagstarf, næðisstund, bókakaup á skólabókasöfnin, framlög í almenna kennslu, ráðnir hafa verið hegðunarráðgjafar og talmeinafræðingar til að bæta stoðþjónustu við nemendur og svo mætti áfram telja. Grunnskólinn er mjög vel fjármagnaður í alþjóðlegum samanburði og eru framlög á hvern nemanda með þeim hæstu sem þekkjast innan OECD.

Heimild: Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar

Hvernig er hægt að að vinna bug á manneklu á leikskólunum?

Mannekla fylgir oft þenslutímum í hagkerfinu þegar atvinnuleysi er lítið og mikil samkeppni um vinnuafl. Hún var mikil á árunum 2007 til 2008 og hefur verið áberandi undanfarið þegar aftur árar vel í efnahagsmálunum. Við höfum náð miklum árangri í vetur við að leysa mönnunarvandann á leikskólunum og náðum að ráða í 90% af lausum störfum með samstilltum aðgerðum.

Við fórum í almenna kynningarherferð á því hvað störf á leikskólum eru gefandi og fjölbreytt, mikil vinna fór í það að nálgast ungt fólk með ýmsum aðferðum og ekki síst á samfélagsmiðlum, við unnum með ráðningarstofum og tryggjum stjórnendum leikskóla fjármagn og fagaðstoð við að vinna kynningarefni. Við samþykktum fjölmargar aðgerðir til að mæta manneklu, t.d. með auknu fjármagni í starfsmannamál, heilsueflingu og liðsheildarvinnu. Við munum halda þessari vinnu áfram í sumar og haust og þá bætist m.a. við miðlæg afleysingarþjónusta borgarinnar sem mun sérstaklega sinna leikskólunum.

Þessu til viðbótar höfum við unnið að tillögum í samstarfi við Félag leikskólakennara og fleiri um bætt starfsumhverfi leikskólakennnara og fjórtán þeirra hafa þegar verið samþykktar og hrint í framkvæmd.  

Til að ná að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss þarf að ráða um 40 nýja starfsmenn á ári en til samanburðar má geta þess að við höfum ráðið um 110 starfsmenn undanfarna 9 mánuði með því að setja mönnunarmálin í forgang.

Hvers vegna er ekki búið að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss nú þegar?

Það er stórt verkefni að klára uppbyggingu leikskólanna og bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti – en ástæðan fyrir því að við getum gert það núna er að við höfum náð miklum viðsnúningi í fjármálum borgarinnar og höfum því efni á að borga fyrir þessar miklu fjárfestingar sem fylgir því að byggja nýja leikskóla, ráða fleira fólk til starfa og búa vel að börnum og starfsfólki.

Við sögðum fyrir síðustu kosningar að að það væri hægt að gera þetta á tveimur kjörtímabilum. Nú höfum við sett fram ítarlega áætlun um hvað þarf að gera, hvernig og hvenær, til að ná þessu skýra markmiði með nokkrum markvissum skrefum á næstu fjórum árum. Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður við uppbyggingu nýrra leikskóla og nýrra leikskóladeilda verði rúmlega 3 milljarðar á kjörtímabilinu.

Reykjavíkurlistinn byggði upp alvöru leikskólaþjónustu  í borginni á árunum 1994 til 2006 þar sem í fyrsta sinn var boðið uppá heilsdagsþjónustu fyrir almennar barnafjölskyldur fyrir börn frá tveggja ára aldri. Nú er tækifærið til að bjóða yngri börnum á leikskólana og klára í eitt skipti fyrir öll að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.