Í stefnu ykkar um vellíðan í heilsueflandi borg segir m.a. „Byggja upp félagslega húsnæðiskosti þar sem komið er til móts við þarfir og óskir fólks með fatlanir. Leggja áherslu á að ungt fatlað fólk fái skýrt fyrirheit um hvenær það má búast við að fá viðeigandi húsnæði“. Getið þið sagt mér hvað þessi málsgrein þýðir?

Núna á sér stað fordæmalaus uppbygging íbúða fyrir fatlað fólk um alla borg í samræmi við samþykkta uppbyggingaráætlun um sértæk húsnæðisúrræði fyrir árin 2018–2030. Áætluninni er skipt niður í þrjá áfanga og samtals verður fjölgunin um 190 íbúðir. Bæði er um að ræða   íbúðakjarna og  félagslegar leiguíbúðir. Ljóst er að þörfin fyrir íbúðir fyrir fatlað fólk er mikil og sumir hafa beðið lengi og því viljum við  bæta verklag og upplýsingagjöf til þeirra sem eru að bíða eftir íbúð þannig að þau viti með vissu hvenær þau mega eiga von á íbúð og geti treyst því að fá þjónustu.  Við höfum sett af stað teymi sem eiga að veita einstaklingsmiðaðan og heildstæðan stuðning inn á heimili fatlaðs fólks með það að markmiði að auka lífsgæði og færni þess.  Teymið starfar eftir stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk, lögum um málefni fatlaðs fólks og sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Hvað hafa verið byggð mörg hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara á síðustu 8 árum?

Hjúkrunarheimilið í Mörkinni opnaði á þessu tímabili og nú eru framkvæmdir hafnar við væntanlegt hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Því miður hefur ríkið varið alltof litlu fjármagni til uppbyggingar hjúkrunarrýma en það horfir til betri vegar með nýlegu samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um að fundnir verði staðir fyrir 200-300 ný hjúkrunarrými á næstu árum.