Frá vellíðan frá vöggu til grafar

Þriðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er að „stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar“ og í því felst meðal annars að efla forvarnir og stuðla að geðheilbrigði. Markmið Samfylkingarinnar er að vinna enn frekar að því að gera Reykjavíkurborg að heilsueflandi samfélagi í takt við heimsmarkmiðin.

Með nýrri lýðheilsustefnu viljum við auka vellíðan borgarbúa og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með því að bæta bæði manngert og félagslegt umhverfi allra íbúa. Forvarnir eru einn mikilvægasti þátturinn í lýðheilsustefnunni og í raun sá þáttur sem skilar samfélaginu mestu, það er að styrkja og styðja við fólk en þannig má mögulega koma í veg fyrir heilsubrest.

Okkar markmið er að Reykjavík verði heilsueflandi samfélag og höfum við nú þegar hrint af stað fjölmörgum verkefnum sem snúa að heilsueflandi samfélagi, svo sem í leik- og grunnskólum borgarinnar ásamt því hvetja til heilsueflingar eldri borgara með því að bjóða þeim ókeypis í sund og auka aðgengi þeirra að hreyfingu og félagsheimilum. Einkunnarorð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna eru að enginn verði undanskilinn (e. „leaving no one behind“). Til að uppfylla einkunnarorðin þarf að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, vellíðan allra íbúa og auka jöfnuð. Verður það meðal annars gert með aukinni hverfaþjónustu, öflugri stoðþjónustu í leik- og grunnskólum og stuðningi við fatlað fólk og eldri borgara ásamt hvatningu eða stuðningi til aukinnar virkni.

Samfylkingin ætlar að halda áfram þeirri vinnu sem hafin er við að skapa borg fyrir fólk og ætlar ekki að undanskilja neinn. Áfram Reykjavík fyrir okkur öll!

Greinin birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 14. maí 2018.

 

Ellen Calmon, fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins, skipar 10. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík