Gott samfélag

Reykjavíkurborg hefur á liðnu kjörtímabili stóraukið framlög til skólastarfs og velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum, stórhækkað frístundastyrkinn, eflt almenningssamgöngur, nánast eytt launamun kynjanna og verið í fararbroddi í vinnu gegn hvers kyns ofbeldi. Við höfum lagt áherslu á geðheilbrigði og öflugan stuðning við börn og fjölskyldur í vanda. Það er mikilvægt að haldið sé áfram að því að auka jöfnuð og vinna að betri borg fyrir okkur öll og það ætlum við að gera.

Heilsueflandi borg

Reykjavíkurborg hefur tekið ákvörðun um að vera heilsueflandi borg sem þýðir að við vinnum markvisst að því að gera borgina þannig að hún stuðli að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Bæði hvað varðar manngerða umgjörð og félagslega. Það skiptir til að mynda miklu máli að íbúabyggð sé þannig skipulögð að það sé stutt í þjónustu, að fólk hafi tækfæri til hreyfingar, geti hjólað eða gengið til vinnu eða í skóla, nálgast heilsusamlegan mat og gefandi félagsstarf.

Innihaldsríkt líf

Við leggjum sérstaka áherslu á að jafna aðstæður barna til að þroska hæfileika sína í frístundastarfi við hækkuðum frístundastyrkinn úr 35 þúsund í 50 þúsund á barn og viljum halda áfram að efla frístundastarf um alla borg. Auk skólahljómsveita viljum við, opna æfingahúsnæði fyrir tónlistarfólk í hverfum, efna til tilraunverkefnis með hverfiskóra barna og auka tækifæri barna til að prófa ólíkar íþróttir endurgjaldslaust. Við viljum auka þverfaglega þjónustu fyrir börn í grunnskólum borgarinnar og mæta betur þörfum fólks með fíknivanda. Við viljum fjölga geðheilsustöðvum og styðja frjáls félagasamtök sem vinna að bættri geðheilsu borgarbúa.

Velferðarborg

Við höfum lækkað fasteignagjöld á alla borgarbúa og einnig hækkað sérstaklega afslætti á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara og öryrkja. Við viljum á komandi kjörtímabili efla heimaþjónustu og heimahjúkrun enn fekar, brúa kynslóðabilið og hvetja til hreyfingar, útivistar og frístunda eldri borgara með því að þróa áfram Menningar- og heilsukort eldri borgara. Við komum á fót ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkur sem hefur þegar sannað mikilvægi sitt. Við opnuðum Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Við gerðum samkomulag um örugga og ofbeldislausa skemmtistaði og erum að innleiða stóreflda skimun og forvarnir gegn ofbeldi í skólum borgarinnar. Við þurfum áfram að vinna markvisst gegn öllu ofbeldi í borginni.

Áfram Reykjavík

Jöfnuður, jafnrétti og sjálfbærni hefur verið rauður þráður í allri okkar vinnu og við viljum halda áfram að byggja upp kröftuga, nútímalega borg þar sem engin er skilinn eftir. Borg án ofbeldis þar sem jafnrétti, jöfnuður og sjálfbærni eru gildi sem unnið er eftir.

Greinin birtist í hverfisblaðinu Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir.

 

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, 2. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík