Grafarvogurinn út um glugga 6-unnar

Strætóleið 6 eða 6-an eins og flestir þekkja hana er ein af lífæðum Grafarvogs. Hún flytur Grafarvogsbúa milli staða í hverfinu en einnig út úr því til annara staða í Reykjavík.

Maður hittir mikið af Grafavogsbúum í 6-unni. Á morgnana flytur hún framhaldsskólanema í skóla innan sem utan Grafarvogs, þreytta háskólanema í HÍ og HR og fullorðið fólk til vinnu. Hún flytur íbúana úr Grafarvogi niður Miklubrautina, hratt fram hjá umferðinni á strætóreinum og niður í bæ. Á leiðinni tínast þeir svo út stopp eftir stopp. Seinni partinn snýst þetta við. Flestir snúa þá aftur heim með 6-unni í Grafarvoginn, þótt að háskólanemar og ungt fólk standi oftar meira fyrir kvöldumferðinni.

Á milli þessa tveggja háannatíma má sjá grunnskólanema nota 6-una til að koma sér til og frá frístundastarfi. Hvort sem það eru íþróttaæfingar í Egilshöll eða Dalhúsum, skólahljómsveitaræfingar í Húsaskóla eða skátastarf í Foldahverfi þá flytur 6-an unga Grafarvogsbúa þangað og síðar aftur heim.

Kraftmikil uppbygging

Ég hvet alla Grafarvogsbúa til að skoða hverfið okkar út um gluggann á 6-unni; láta bílstjórann um aksturinn og einbeita sér að hverfinu og mannlífi þess. Þá gefst tækifæri til að fylgjast með mikilli uppbyggingu sem nú á sér stað í Grafarvogi- á íþróttamannvirkjum við Egilshöll, nýju stúkunni við Fjölnisvöllinn, flutningi bókasafnsins í Spöngina og nú síðast uppbyggingu íbúðarhús við Móaveg þar sem nýlega hófust framkvæmdir við rúmlega 150 íbúðakjarna. Þetta eru bara nokkur dæmi um þá kraftmiklu uppbyggingu sem við sjáum nú í öllum hlutum borgarinnar.

6-an verður stór

En nú er kominn tími til að 6-an, ein af lífæðum Grafavogs fari að stækka og þroskast. Næsta skref fyrir Reykjavík er stærri og kraftmeiri Borgarlína sem vinnur með strætóleiðum sem áfram munu ganga um hverfis borgarinnar. Skýr framtíðarsýn í samgöngumálum er eitt af því sem dró mig inn í starf Samfylkingarinnar. Núverandi meirihluti, undir forustu Samfylkingarinnar, hefur sýnt að hann er tilbúinn í þær breytingar sem þurfa að verða í samgöngumálum borgarinnar. Þar má telja upp aukna tíðin strætóleiða, svo sem 6-unnar á 10 mínútna fresti, aukinn forgangsakstur og upphaf næturstrætó. Það síðastnefnda hefur haft einna mest áhrif á mig sem ungan háskólanema og það sama við um annað ungt fólk í borginni, sérstaklega þau okkar sem búa í úthverfunum.

Stúdentaíbúðir rísa

Annað mál, sem stendur ungu fólki nærri, sem núverandi meiri hluti hefur staðið að er aukin uppbygging stúdentaíbúða í samstarfi við Byggingafélag námsmanna og Félagsstofnun stúdenta. Hefur Reykjavík þannig eitt sveitarfélaga leitt þá þróun að gera stúdentaíbúðir að raunverulegum valkosti fyrir námsmenn með uppbyggingu á 1340 slíkum íbúðum.

Bættar almenningssamgöngur er nauðsynlegur þáttur í því að gera hverfi í Reykjavík sjálfbærari og skemmtilegri og Samfylkingin hefur blásið til sóknar á þessu sviði. Ég hvet þig til að kjósa Samfylkinguna í borgarstjórnarkosningunum í vor. Áfram Reykjavík!

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu fimmtudaginn 10. maí 2018.

 

Ásmundur Jóhannsson, háskólanemi og íbúi Staðarhverfis í Grafarvogi, skipar 17. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík