Jöfn tækifæri – félagslega og námslega

Það hafa allir skoðun á skólamálum. Við höfum öll gengið í skóla einhvern tímann á lífsleiðinni og þau okkar sem eru svo heppin að eignast börn fylgjast með skólagöngu þeirra og hafa vissulega á henni skoðun. Samfylkingin hefur mikinn metnað fyrir skólamálum í borginni enda eru þar fyrstu möguleikar jafnaðarmennskunnar til að láta til sín taka og stuðla að jöfnum tækifærum allra barna, félagslega og námslega.

Við viljum tryggja hag allra barna með því að vinna enn frekar að samstilltum aðgerðum gegn einelti samfara vinnu gegn félagslegri einangrun barna. Við fáum fagfólkið til liðs við okkur þannig að aukin áhersla verði lögð á jafningastuðning og samkennd í barnahópum.

Við viljum að börnum með fatlanir eða raskanir verði mætt á þeirra forsendum bæði í námi og frístundum með auknum náms- og félagslegum stuðningi. Forsendur stuðnings mega ekki byggja einvörðungu á læknisfræðilegum greiningar. Við treystum kennurum og öðru fagfólki sem starfar bæði í leik- og grunnskólum borgarinnar til að meta og þekkja hvenær barn þarf aukinn stuðning. Þetta gerum við meðal annars með því að fjölga ólíkum fagstéttum í starfsliði skólanna. Þá leggjum við áherslu á að auka formlegt samstarf ríkis, borgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um raunhæfar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi barna úr framhaldsskólum og skólaforðun eða skólafælni í grunnskólum.

Flest höfum við skoðun á skólamálum en öll ættum við að vera sammála um að börnin okkar eiga rétt á því að ná í mark á sínum hraða, á sínum forsendum með réttum stuðningi. Áfram Reykjavík til framtíðar!

Greinin birtist á frettabladid.is þriðjudaginn 8. maí 2018.

Ellen Calmon, fyrrverandi formaður ÖBÍ, skipar 10. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík