Kosið um framtíð Reykjavíkur

Kosningarnar 26. maí skipta miklu máli fyrir framtíð Reykjavíkur og í kosningabaráttu síðustu vikna hafa kristallast mjög ólíkar hugmyndir um þróun borgarinnar. Á undanförnum árum höfum við verið að leiða breytingar í Reykjavík sem blasa við borgarbúum í þeirra nánasta umhverfi. Reykjavík er að verða meiri borg. Hverfin eru að lifna við með fjölbreyttari nærþjónustu. Hvarvetna sjáum við þróast kraftmikla og nútímalega borg sem er fjölbreytt, skemmtileg og lifandi í samræmi við framtíðarsýn borgarinnar. Og við viljum halda áfram að styðja við þessa þróun.

Þinn stuðningur skiptir máli

Til þess þurfum við á þínum stuðningi að halda í kosningunum þann 26. maí. Á næsta kjörtímabili eru gríðarleg tækifæri til að festa í sessi þær breytingar sem eru að verða í borginni og við þurfum skýrt umboð í kosningunum til að geta haldið áfram á sömu braut með Reykjavík. Þróun borgarinnar skiptir máli fyrir okkar öll. Við viljum við hefja framkvæmdir við Borgarlínu strax og setja Miklubraut í stokk. Við viljum halda áfram að leiða mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar með áherslu á hagkvæmt húsnæði á spennandi stöðum um alla borg. Við viljum klára uppbyggingu leikskólana með því að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti. Og síðast en ekki síst viljum við að Reykjavík verði áfram borg fyrir okkur öll.

Áfram Reykjavík

Framtíðarsýn Samfylkinginnar í Reykjavík er skýr. Við erum stolt af því og höfum fundið fyrir miklum meðbyr meðal borgarbúa í kosningabaráttunni. Kosningarnar á laugardaginn snúast um framtíð Reykjavíkur og hverjum við treystum til að leiða breiðan meirihluta í Reykjavík þar kraftmikil uppbygging á sér stað, þar sem við þróum græna, lifandi og fjölbreytta borg saman. Borg fyrir okkur öll. Við viljum halda ótrauð áfram. Áfram Reykjavík!

Greinin birtist í Vesturbæjarblaðinu fimmtudaginn 24. maí 2018.

 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Heiða B. Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar skipa 1. og 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík