Kraftmikil húsnæðisuppbygging í Reykjavík

Alls voru samþykktar lóðaúthlutanir fyrir 1711 íbúðir í Reykjavík á síðasta ári. Mikill meirihluti úthlutaðra lóða var fyrir byggingarfélög sem starfa án hagnaðarsjónarmiða. Til að setja þessar lóðaúthlutanir í eitthvað samhengi er gott að hafa í huga í árslok 2016 voru einmitt 1711 íbúðir á Seltjarnarnesi. Lóðaúthlutun síðasta árs í Reykjavík var þannig á pari við heilt bæjarfélag á höfuðborgarsvæðinu.

Kraftmikil húsnæðisuppbygging stendur nú yfir í Reykjavík sem allir taka eftir. Húsnæðisáætlun borgarinnar gerir á næstunni ráð fyrir uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði á vegum húsnæðisfélaga á sambærilegum mælikvarða og við höfum ekki séð fyrir utan metár þegar Breiðholtið var í uppbyggingu. Þannig eru 3700 staðfest áform um íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur auk annarra íbúða.

Ábyrg byggingafélög

Eftir litla sem enga uppbyggingu íbúðahúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á árunum eftir hrun og með stórauknum áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi undanfarin ár skapaðist þröng staða á húsnæðismarkaði. Að auki hefur landsmönnum fjölgað jafnt og þétt og alltaf búa færri og færri undir sama þaki. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa mætt þessum veruleika með ólíkum hætti.

Megináhersla Reykjavíkur hefur verið og er á samstarf við byggingafélög sem reisa íbúðir án hagnaðarsjónarmiða. Auk þess sem nýtt land er ekki brotið undir þessa uppbyggingu. Hrunárið 2008 fóru 348 íbúðir í byggingu í Reykjavík samanborið við 667 árið undan. Árið 2010 var algjört frost á byggingamarkaði en þá fóru ekki nema 10 íbúðir í byggingu. Mikil vöntun er eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og því er ánægjulegt að bæði 2015 og 2016 fóru yfir 900 íbúðir í byggingu í Reykjavík og gera áætlanir fyrir umtalsverðri aukningu á næstu árum. Í dag eru um 52 þúsund íbúðir í Reykavík.

Félagsleg uppbygging

Húsnæðisáætlun Reykjavíkur gerir ráð fyrir mikilli fjölgun félagslegra íbúða, sértækra búsetuúrræða auk annarra leiguíbúða og búseturéttaríbúða á næstu árum. Slík uppbygging stuðlar að heilbrigðari húsnæðismarkaði sem kallað hefur verið eftir í árabil.

Til að mæta bráðavanda hefur Reykjavíkurborg keypti tugi íbúða í vetur. Þar fær fólk húsnæði úthlutað tímabundið áður en varanlegri lausn finnst, meðal annars hjá Félagsbústöðum sem bætt hafa í eignasafnið síðustu ár með sérstakri áherslu á 1-2ja herbergja íbúðum og íbúðum fyrir barnafólk. Þá var samþykkt í haust að Félagsbústaðir byggi fjögur fjölbýlishús með 8-10 einstaklingsíbúðum hvert og eitt.

Samfélagsábyrgð skortir

Um 2000 félagslegar íbúðir eru í Reykjavík og 16 íbúðir á hverja þúsund íbúa. Hlutafallið er 2 íbúðir á hverja þúsund íbúa í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Félagslegar íbúðir í Reykjavík eru því hlutfallslega átta sinnum fleiri miðað við þessi tvö bæjarfélög sem gangast ekki við samfélagslegri ábyrgð sinni.

Á nýjum uppbyggingarsvæðum í Reykjavík eins í Vogabyggð er stefnt að því að 20-25% íbúða verði leigu eða búseturéttaríbúðir, þar af 5% í eigu Félagsbústaða.

Það er sannarlega vöntun á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg hefur brugðist við stöðunni sem kom eftir hrun með metnaðarfullum hætti á meðan að önnur bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu hreyfa sig hægt og huga ekki að fjölgun leiguhúsnæðis og uppbyggingu félagslegs húsnæðis í sama mæli og Reykjavík. Húsnæðisuppbyggingin í Reykjavík er þannig allt í senn krafmikil, róttæk og félagsleg.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2018.