Leikskólauppbyggingin í Vesturbæ

Við erum stolt af leikskólunum okkar og erum ekki ein um það því samkvæmt nýjustu þjónustukönnun þá eru 96 prósent foreldra ánægðir með leikskóla barna sinna. Fátt skiptir meira máli fyrir lífsgæði barna en að fá að þroskast, læra og leika við örvandi aðstæður. Þess vegna leggur Samfylkingin höfuðáherslu á að öll börn eigi þess kost innan fárra ára að vera á leikskóla frá lokum fæðingarorlofs.

Í Vesturbæ munum við opna tvær nýjar ungbarnadeildir og fjölga leikskólarýmum  í hverfinu strax í haust.  Þá stefnir í að byggður verði nýr leikskóli á Vatnsmýrarsvæðinu m.a. til að þjóna nýjum íbúum í Skerjafirði, Hlíðarenda og svæði Háskólans í Reykjavík.

Skýr aðgerðaáætlun

Markmiðið er skýrt: Öllum 12 til 18 mánaða börnum í Reykjavík bjóðist leikskólarými á næstu fjórum árum. Meirihlutinn í borgarstjórn undir forystu Samfylkingarinnar hefur lagt fram útfærða og ítarlega áætlun um það hvað þarf að gera, hvernig og hvenær, til að ná þessu skýra markmiði – og hvað það kostar.

Það þarf að bæta við allt að 800 nýjum leikskólaplássum, byggja 5 til 6 leikskóla, opna fleiri ungbarnadeildir og fjölga starfsfólki á leikskólum um 20-50 á ári, mest á seinni hluta tímabilsins. Þetta kostar rúma þrjá milljarða í framkvæmdakostnað og rúman milljarð í rekstrarkostnað. Við opnuðum sjö nýjar ungbarnadeildir í fyrra og sjö til viðbótar opna strax í haust. Þá verða þær í boði í öllum borgarhlutum. Við munum samhliða þessu styðja fjölgun rýma í sjálfstætt reknum leikskólum og efla dagforeldrakerfið.

Uppbygging í Vesturbæ

Hér í Vesturbænum munu tvær ungbarnadeildir opna í haust, við leikskólana Hagaborg og Grandaborg fyrir 30 börn alls. Þar mun leikrými, skiptiaðstaða, útisvæði og búnaður miðast við þarfir yngstu barnanna. Í haust komast yngri börn á ungbarnadeildirnar en verið hefur. Fyrst um sinn 16 til 18 mánaða börn en síðar enn yngri eftir því sem deildunum fjölgar.  Við munum einnig ganga til samninga um fjölgun barna á þremur sjálfstætt starfandi leikskólum í Vesturbæ: Mánagarði á vegum Félagsstofnunar stúdenta, Sælukoti og Skerjagarði.  Samtals munu tæplega 90 börn til viðbótar fá inni á þessum leikskólum á þessu ári.

Hvað með mannekluna?

Mannekla hefur oft verið vandamál á leikskólum, einkum á þenslutímum. Við stóðum frammi fyrir mikilli manneklu síðasta haust en með samstilltu átaki tókst að ráða 110 manns til starfa á rúmlega hálfu ári og þar með leysa mesta vandann.  Núna vantar innan við hálft stöðugildi á hvern leikskóla að meðaltali, sem er lægra hlutfall en í tveimur stærstu nágrannasveitarfélögum okkar á höfuðborgarsvæðinu.

Mönnun leikskólanna verður áfram stórt verkefni og helsta takmarkið er að fjölga leikskólakennurum, m.a. með því að gera leikskólana að eftirsóknarverðari vinnustöðum. Í því skyni höfum við unnið mjög náið með Félagi leikskólakennara og fleirum að því að bæta starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík. Þessi samvinna skilaði góðum tillögum og koma 14 þeirra til framkvæmda strax á þessu ári. Við munum m.a. auka leikrými barna, fjölga starfsfólki á elstu deildum, fjölga undirbúningstímum, tryggja fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, bæta móttöku nýliða,bjóða 60 ungmennum sumarstörf til að kveikja áhuga þeirra á starfinu og kennaranámi og og munum halda áfram að kynna störf á leikskólum sem eftirsóknarverð og gefandi. Loks hefur mikil áhersla verið á að bæta kjör leikskólakennara og við leggjum áherslu á bæta enn frekar kjör starfsfólks á leikskólum.

Klárum dæmið

Við í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar setjum markið hátt en treystum okkur til að standa við stóru orðin því við höfum sýnt í verki að skólamálin njóta forgangs í borginni. Framlög til skólamála hafa aukist um heila 9 milljarða á kjörtímabilinu og vegna traustrar stöðu borgarsjóðs treystum við okkur til að fjármagna þessa miklu uppbyggingu leikskóla á næsta kjörtímabili samhliða því að hækka laun kennara og annars starfsfólks, innleiða nýja metnaðarfulla menntastefnu með áherslu á alhliða valdeflingu barna og bæta húsnæðisaðstöðu skóla eins og Melaskóla og Hagaskóla. Við óskum eftir þínum stuðningi og annarra Vesturbæinga til að klára þessi mikilvægu verkefni með sóma.

Greinin birtist í Vesturbæjarblaðinu fimmtudaginn 24. maí 2018.

 

Skúli Helgason er formaður skóla- og frístundaráðs og skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík.