Menningarborgin okkar allra

Borg er rammi um mannfélag, og höfuðborg þarf að vera heimahöfn heillar þjóðar og þeirra sem sækja hana heim. Þar þurfa íbúar og gestir að hafa aðgang að þjónustu og nauðsynlegum innviðum, en jafnframt er þeim nauðsynlegt að geta auðveldlega nálgast þá afþreyingu og hugarfarslegu ögrun sem fólgin er í menningu og listum. Á því sviði hefur margt verið ákaflega vel gert í Reykjavík á undanförnum árum og það er afar mikils vert að halda því góða starfi áfram og helst efla það. Það viljum við í Samfylkingunni gjarna gera í ljúfu samstarfi við alla þá aðila sem yrkja menningarakurinn.

Margir hafa þá samfélagslegu sýn að yfirvöld eigi sem minnst að koma að menningarmálum; þar eigi að fást við það eitt sem stendur undir sér eða nýtur náðar hjá einkafyrirtækjum. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að yfirvöld gegni mikilvægu hlutverki í því að skapa vettvang fyrir listiðkun og aðra menningarstarfsemi enda fegrar slíkt mannlífið og gefur af sér margvíslegan arð. Menningarstarfið göfgar okkur; gerir borgina okkar bæði athyglisverðari og skemmtilegri en ella væri.

Tónlistarborgin Reykjavík iðar af lífi allan ársins hring, þar sem hjartað slær í fallegu Hörpu sem skilar hagnaði, sem ekki verður einungis mældur í krónum og aurum. Myndlistarborgin Reykjavík hefur einnig upp á fjöldamargt að bjóða og starfsemi safna á því sviði er öflug. Í sjónmáli er uppbygging í Gufunesi sem setur Reykjavík enn rækilegar á kortið sem kvikmyndaborg. Leiklistarborg er Reykjavík líka að sönnu; með öflug atvinnuleikhús og frjóa grasrót. Sjálfur þekki ég best til Bókmenntaborgarinnar, enda fékk ég að taka þátt í því á sínum tíma að sækja um að Reykjavík yrði viðurkennd sem ein af Bókamenntaborgum UNESCO, og kæmist þannig inn í net skapandi borga á heimsvísu. Bókmenntaborgin er sprellifandi, með tíðum upplestrum og málþingum, og hér er haldin alþjóðleg bókmenntahátíð annað hvert ár sem hefur tignarstöðu í hugum erlendra sem innlendra rithöfunda, útgefenda og umboðsmanna þó hún teljist ekki til stærstu hátíða. Nú hillir líka undir að Hús íslenskunnar rísi á háskólasvæðinu og þá verður loks unnt að sýna handritasafnið okkar, merkasta framlag okkar til heimsmenningarinnar, á þann myndarlega hátt sem það á skilið. Í Reykjavík opnast þá heimili handritanna og ég efast ekki um að borgarbúar og gestir munu flykkjast til að berja þær gersemar augum og fræðast nánar um þau.

Ég er stoltur af menningarborginni okkar allra og ítreka mikilvægi þess að góðu starfi verði fram haldið. Af þeim sökum er nauðsynlegt að minna á þessa starfsemi í aðdraganda kosninga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 8. maí 2018.

 

Sigurður Svavarsson, útgefandi,  skipar 30. sæti

á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík.