Nýtt Breiðholt – Nýtt samfélag

Kynni mín af Breiðholtinu hófust árið 1986 þegar ég fór að æfa sund með Sundfélaginu Ægi, í Breiðholtslaug, tæplega níu ára gömul. Sem barn hjólaði ég úr Kópavogi, um undirgöngin í Mjóddina, eftir göngustígum hverfisins upp í sundlaug. Ræturnar gagnvart hverfinu voru lagðar, og liggja enn, víða um hverfið. Ég vissi ekki þá, að ég myndi sjálf enda sem íbúi í hverfinu, að ungarnir mínir myndu hjóla um sömu göngustíga og ég gerði forðum og að maðurinn minn yrði uppalinn Breiðhyltingur.

Oft þróast hverfi hraðar en kerfin sem þjónusta þau og það má segja um Breiðholtið. Mér finnst ásýnd hverfisins hafa breyst meira síðustu árin en öll árin þar á undan. Breiðholtið, sem ég þekkti og upplifði sem barn, hefur elst og þroskast. Þegar ég flutti í hverfið var viðhaldi víða ábótavant, eins og við skóla og leikskóla, og víða í samtölum upplifði ég vissa vanþekkingu og fordóma gagnvart hverfinu. Á þessum árum sem liðið hafa, eru fleiri en ég sem hafa séð tækifærin sem hverfið býður upp á, enda mikil og jákvæð uppbygging átt sér stað síðustu árin.

Mér finnst grettistaki hafa verið við lyft uppbyggingu innviða og í ásýnd hverfisins síðustu árin. Aðbúnaður sem ég og börnin mín höfum notið góðs af, eins og endurbætur við leiksskóla og skólalóðir. Nýjum leiktækjum hefur verið komið fyrir á skólalóðum og grænum svæðum innan hverfisins. Gervigrasvellir hafa risið og eru vinsælir viðkomustaðir krakka í hverfinu. Græn svæði hafa verið fegruð eftir ábendingum íbúa í gegnum Betri Reykjavík að ógleymdum tveimur frisbígolfvöllum sem eru vinsælir yfir sumarmánuðina.

Hjarta Breiðholtsins

Hjarta Breiðholtsins, að mínu mati, slær í sundlauginni. Laugina hef ég sótt frá blautu barnsbeini og má segja að laugarsvæðið hafi tekið stakkaskiptum, vatnsgufa, endurbættir klefar, kaldi potturinn handan við hornið og nýjasta viðbótin, heilsurækt í hjarta hverfisins. Þvílík lyftistöng fyrir hverfið og íbúa þess.

Fyrir utan sundlaugina er Elliðaárdalurinn sem er minn uppáhaldsstaður. Nálægð Breiðholtsins við dalinn, Árbæjarsafnið, uppbygging göngu- og hjólastíga síðustu ár, tengingin við náttúruna og fuglalíf er ómetanleg. Það eru forréttindi að búa í borg en á sama tíma hafa aðgang að þeirri náttúruperlu sem Elliðaárdalurinn er. Það eru lífsgæði sem seint verða metin til fjár. Heilsurækt er geðrækt. Að hafa góðan aðgang að heilsurækt í göngu- og hjólafjarlægð eru ein bestu lífsgæði sem völ er á.

Fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf innan hverfis

Mjög öflugt íþrótta- og tómstundastarf er í hverfinu og hefur bæst við flóruna frá því að ég naut góðs af starfinu. Barnafólk hverfisins veit hversu gott aðgengi ungviðið hefur að fjölbreyttu og skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi innan hverfis en skipulagt starf fyrir börn og ungmenni er ein allra besta forvörn sem völ er á. Haustið 2016 lagði ég upp í vegferð til að tryggja uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði ÍR við Suður Mjódd, þannig að börnum hverfisins og komandi kynslóðum yrði tryggður aðgangur að fjölbreyttu íþróttasvæði um ókomna tíð. Samningur var undirritaður í ársbyrjun 2017 um uppbyggingu mannvirkja á landsvæðinu.

Aðbúnaður fyrir ungviði hverfisins eru mér hjartans mál og ég veit að mikil vinna hefur verið innt af hendi til að keyra framkvæmdir í gang, bæði af hálfu borgarinnar og forsvarsmanna ÍR. Breiðhyltingar eins og ég, hafa sýnt mikið langlundargeð í gegnum árin og við vitum öll að biðlundin er komin að þolmörkum. Það væri óskandi að skóflustunga yrði tekin sem fyrst og framkvæmdum þar með ýtt úr vör. Með vonina að vopni hef ég fulla trú á að þessar efndir verði að veruleika.

Það besta við Breiðholtið

Það besta við Breiðholtið finnst mér samt vera allur félagsauðurinn, fólkið, fjölbreytt menning og sýnileiki hennar. Það er ómetanlegt veganesti fyrir börn okkar allra og komandi kynslóðir að fá tækifæri til að alast upp í iðu margbreytileika. Það er gott að heyra ólík tungumál, kynnast því að heimurinn er stærri en bakgarðurinn heima og læra að við séum einstök á meðan við erum eins.

Breiðholt fyrir komandi kynslóðir

Þann 26. maí næstkomandi gefst íbúum Breiðholtsins tækifæri til að leggja mat á verkefni liðinna ára. Spurningin er einföld. Viltu áframhaldandi uppbyggingu innviða innan Breiðholtsins, með hagsmuni barnafólks og ungmenna að leiðarljósi. Ef svarið er já þá þarf að tryggja Samfylkingunni brautargengi með því setja X við S í kosningunum 26. maí 2018.

Áfram Breiðholt – Áfram Reykjavík.

Greinin birtist í Breiðholtsblaðinu fimmtudaginn 17. maí 2018

 

Sara Björg Sigurðardóttir, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur, skipar 16. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík