En er Borgarlína ekki of dýr?

Nei, Borgarlína er besta og hagkvæmasta leiðin fyrir Reykjavík til að létta á umferðinni og búa í haginn fyrir framtíðina. Það er vegna þess að allir aðrir kostir eru miklu dýrari. Það er búið að reikna þetta út og þetta er það sem umferðarmódelin segja.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga um 70 þúsund til ársins 2040 sem er eins og eitt stykki Kópavogur, eitt stykki Hafnarfjörður og hálfur Garðabær. Ef við gerum ráð fyrir að allir ferðist áfram með einkabílum og bætist ofan á umferðina sem er nú þegar á morgnana og kvöldin, t.d. á Miklubraut og Kringlumýrabraut, þá fer umferðin í algjört og endanlegt stopp.

Jafnvel þó við setjum mörg hundruð milljarða í fleiri akreinar og fleiri mislæg gatnamót þá væri það ekki einu sinni nóg. Tafatíminn myndi stóraukast fyrir alla – bæði þá sem nota almenningssamgöngur og þá sem nota einkabíla. Og þá á eftir að telja einhver hundruð milljarða í viðbót sem lenda á heimilum og fyrirtækjum vegna nýrra bíla og nýrra bílastæða. Áætlaður kostnaður við að fullklára Borgarlínu er 70 milljarðar og það verður gert í tveimur áföngum. Borgarlína er hluti af blandaðri leið sem er besta og hagkvæmasta leiðin fyrir Reykjavík í samanburði við alla aðra kosti.