Er Borgarlína eitthvað frábrugðin strætó í eðli sínu? Hver er áætlaður kostnaður við Borgarlínu? Hvenær yrði hún tilbúin og nothæf?

Já, borgarlína er frábrugðin strætó að því leyti að hún er BRT kerfi eða Bus Rapid Transit. Borgarlínan er í raun þrír hlutir. 1) leiðarkerfi, 2) þróunaráætlun, 3) tæknikerfi. Það sem skiptir máli þar, er að það er allt annað samgöngukerfi en hið hefðbundna strætókerfi. Það sem aðgreinir þessi tvö kerfi er að biðstöðvar eru stærri og veglegri, tíðnin er hærri og mun borgarlína ganga á 5-7 mínútna fresti, vagnarnir keyra í sérrými alla leið og það er hægt að greiða í vagninn og ganga inn í hann hvar sem er. Það er conceptið á bakvið BRT kerfi sem er hægt að lesa sér til um á t.d. Wikipedia. Borgir um allan heim af öllum stærðum, gerðum og loftslagi eru með BRT kerfi í undirbúningi, í framkæmd eða rekstri og gengur þetta afar vel. Með því að hafa borgarlínu í sérrými gefur það góða möguleika á því að vagnarnir geti þegar fram líða stundir verið sjálfakandi. Kostnaður við fyrsta áfanga borgarlínu eru 40 milljarðar þar sem ríkið mun greiða hluta á móti sveitarfélögunum. Þetta er fjárfesting til framtíðar í almenningssamgöngum sem eru umhverfisvænar, draga úr mengun, bæta ferðatíma og mun gera okkur kleift að byggja þétta borg meðfram helstu stöðvum borgarlínu. Ef allt gengur að óskum þá gætu framkvæmdir hafist á næsta ári í fyrsta lagi eftir að hönnun lýkur. Við höfum sagt að ef við þurfum að bíða of lengi eftir fjármagni frá ríkinu, þá getum við notað sterka stöðu til að lána ríkinu fyrir borgarlínu þar til framlögin koma frá þeim. Þannig fáum við borgarlínu mun fyrr. Borgarlínan gæti orðið nothæf að 3-5 árum liðnum. Tækniþróun getur orðið til þess að við getum orðið sneggri.