Hefur Samfylkingin í Reykjavík staðið við kosningaloforðin frá árinu 2014?

Fyrir kosningarnar árið 2014 lögðum við mesta áherslu á þrjú lykilmál. Í fyrsta lagi sögðumst við ætla að koma í uppbyggingu 2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðum á næstu 5 árum í samvinnu við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Ljóst er að það markmið næst og gott betur því útlit er fyrir að fjöldi slíkra íbúða, fullfrágenginna eða á framkvæmdastigi, fari yfir 3.000 á þessu tímabili og staðfest áform á vegum húsnæðisfélaga án hagnaðarsjónarmiða nema alls yfir 4.000 íbúðum.

Í öðru lagi sögðumst við ætla að hækka frístundastyrki úr 35.000 í 50.000 krónur á barn og auka systkinaafslætti, þvert á skólastig, til að létta undir með barnafjölskyldum og auka aðgengi allra barna að fjölbreyttu frístundastarfi. Þetta höfum við gert.

Í þriðja lagi sögðumst við ætla að tryggja áframhaldandi stöðugleika við stjórn borgarinnar. Það hefur svo sannarlega gengið eftir og Reykvíkingar hafa notið góðs af því að búa við afar samhentan fjögurra flokka meirihluta undir forystu Samfylkingarinnar. Við höfum sýnt í verki að stöðugleiki er ekki bara frasi – raunverulegur stöðugleiki fæst með með samtali, sanngirni og ábyrgum stjórnarháttum.