Hvað er Borgarlína?

Borgarlína er svokallað hraðvagnakerfi (e. bus rapid transit) sem er hryggjarstykkið í þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 og mun bylta öllum samgöngum í borginni. Borgarlínuvagnar munu ganga fyrir rafmagni og ferðast á 5 til 7 mínútna fresti á sérakreinum og hafa forgang á umferðarljósum. Fargjöld verða greidd fyrirfram og stoppistöðvar verða upphitaðar og yfirbyggðar.

Ávinningur borgarbúa af Borgarlínu er margþættur – bættar almenningssamgöngur fyrir þá sem geta og vilja nota almenningssamgöngur, léttari umferð fyrir alla hina sem geta ekki eða vilja ekki nota almenningssamgöngur og síðast en ekki síst minni mengun og betra loft fyrir okkur öll.

Borgarlína mun ekki koma í stað hefðbundinna strætisvagna heldur munu Borgarlína og Strætó vinna saman þannig að Borgarlína tengir hverfi borgarinnar og Strætó lagar sig að því. Hundruð borga um allan heim hafa komið á fót hraðvagnakerfi á borð við Borgarlínu með góðum árangri.

Nýlegt kynningarmyndband um Borgarlínu.