Hvað hafið þið hugsað ykkur í sambandi við Elliðaárdalinn og umhverfi hans?

Við viljum vernda Elliðaárdalinn sem einstaka náttúruvin í borginni. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er dalurinn skilgreindur sem hverfisverndarsvæði. Það þýðir að við skipulagvinnu eiga lífríki og náttúrufar að njóta forgangs og allri mannvirkjagerð skal haldið í lágmarki. Undanfarið hefur verið unnið að deiliskipulagi dalsins sem byggir alfarið á þessum forsendum. Í aðalskipulaginu er Stekkjarbakkinn ekki skilgreindur sem hluti af verndarsvæði Elliðaárdalsins, heldur sem „þróunarsvæði í jaðri útivistarsvæðis“. Gert er ráð fyrir að þar geti komið græn starfsemi, svo sem ræktun og gróðrastöð.

Hvað varðar fyrirætlanir um uppbyggingu svokallaðs Biodome á Stekkjarbakka, þá hefur ekki enn verið samþykkt að setja þær í formlegt deiliskipulagsferli. Þær hafa hins vegar verið kynntar hollvinasamtökum Elliðaárdals og Hverfisráði Breiðholts. Umhverfis og skipulagsráð mun á næstu vikum taka ákvörðun um hvort slíkt ferli verður sett af stað. Verði það samþykkt munu allir borgarbúar, félagasamtök og hagsmunaaðilar fá tækifæri til að senda inn formlegar athugasemdir.