Hvað hefur gerst í málefnum grunnskólanna á þessu kjörtímabili?

Við höfum nýtt þann viðsnúning sem náðst hefur í fjármálum borgarinnar í kjarabætur, skólastarf og velferðarmál. Hvað skólamálin varðar þá hafa framlög til málaflokksins aukist um 25% frá árinu 2014 eða rúmlega 9 milljarða króna. Þar af hefur rúmlega helmingur eða 4,7 milljarðar runnið í grunnskólana. Í sérstökum forgangi hefur verið að hækka laun kennara og annars starfsfólk í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum en þar til viðbótar hefur verið aukið verulega í á ákveðnum lykilsviðum.

Þar má nefna tvöfalt hærri framlög í íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku, ráðningu móðurmálskennara sem þjóna sama hópi og hjálpa þeim jafnframt að fóta sig í íslensku skólaumhverfi.  Námsgögn verða gjaldfrjáls í haust, framlög til sérkennslu hafa aukist, sömuleiðis í fagstarf, næðisstund, bókakaup á skólabókasöfnin, framlög í almenna kennslu, ráðnir hafa verið hegðunarráðgjafar og talmeinafræðingar til að bæta stoðþjónustu við nemendur og svo mætti áfram telja. Grunnskólinn er mjög vel fjármagnaður í alþjóðlegum samanburði og eru framlög á hvern nemanda með þeim hæstu sem þekkjast innan OECD.

Heimild: Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar