Hvernig er hægt að að vinna bug á manneklu á leikskólunum?

Mannekla fylgir oft þenslutímum í hagkerfinu þegar atvinnuleysi er lítið og mikil samkeppni um vinnuafl. Hún var mikil á árunum 2007 til 2008 og hefur verið áberandi undanfarið þegar aftur árar vel í efnahagsmálunum. Við höfum náð miklum árangri í vetur við að leysa mönnunarvandann á leikskólunum og náðum að ráða í 90% af lausum störfum með samstilltum aðgerðum.

Við fórum í almenna kynningarherferð á því hvað störf á leikskólum eru gefandi og fjölbreytt, mikil vinna fór í það að nálgast ungt fólk með ýmsum aðferðum og ekki síst á samfélagsmiðlum, við unnum með ráðningarstofum og tryggjum stjórnendum leikskóla fjármagn og fagaðstoð við að vinna kynningarefni. Við samþykktum fjölmargar aðgerðir til að mæta manneklu, t.d. með auknu fjármagni í starfsmannamál, heilsueflingu og liðsheildarvinnu. Við munum halda þessari vinnu áfram í sumar og haust og þá bætist m.a. við miðlæg afleysingarþjónusta borgarinnar sem mun sérstaklega sinna leikskólunum.

Þessu til viðbótar höfum við unnið að tillögum í samstarfi við Félag leikskólakennara og fleiri um bætt starfsumhverfi leikskólakennnara og fjórtán þeirra hafa þegar verið samþykktar og hrint í framkvæmd.  

Til að ná að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss þarf að ráða um 40 nýja starfsmenn á ári en til samanburðar má geta þess að við höfum ráðið um 110 starfsmenn undanfarna 9 mánuði með því að setja mönnunarmálin í forgang.