Hvers vegna er ekki búið að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss nú þegar?

Það er stórt verkefni að klára uppbyggingu leikskólanna og bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti – en ástæðan fyrir því að við getum gert það núna er að við höfum náð miklum viðsnúningi í fjármálum borgarinnar og höfum því efni á að borga fyrir þessar miklu fjárfestingar sem fylgir því að byggja nýja leikskóla, ráða fleira fólk til starfa og búa vel að börnum og starfsfólki.

Við sögðum fyrir síðustu kosningar að að það væri hægt að gera þetta á tveimur kjörtímabilum. Nú höfum við sett fram ítarlega áætlun um hvað þarf að gera, hvernig og hvenær, til að ná þessu skýra markmiði með nokkrum markvissum skrefum á næstu fjórum árum. Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður við uppbyggingu nýrra leikskóla og nýrra leikskóladeilda verði rúmlega 3 milljarðar á kjörtímabilinu.

Reykjavíkurlistinn byggði upp alvöru leikskólaþjónustu  í borginni á árunum 1994 til 2006 þar sem í fyrsta sinn var boðið uppá heilsdagsþjónustu fyrir almennar barnafjölskyldur fyrir börn frá tveggja ára aldri. Nú er tækifærið til að bjóða yngri börnum á leikskólana og klára í eitt skipti fyrir öll að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.