Í stefnu Samfylkingarinnar er stefnt að leikskóla fyrir 12-18 mánaða börn. Mig langar að vita hvort þið sjáið þá fyrir ykkur að leikskólarnir taki börn inn á öðrum tíma en haustin?

Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um formlega inntöku barna oftar en í byrjun hausts en hins vegar hafa komið fram tillögur um slíkt á undanförnum árum, t.d. um inntöku tvisvar á ári þ.e. í byrjun hausts og aftur fljótlega eftir áramótin t.d. í janúar eða febrúar.  Við munum skoða slíkar hugmyndir með opnum huga í samvinnu við leikskólastjóra.  Aðalmálið er að fjölga plássum til að auka svigrúm leikskólanna til að taka inn fleiri börn og þess vegna ætlum við að fjölga plássum strax í haust um tæplega 200, og um svipaða tölu á næsta ári.  Það gerum við bæði með viðbótarhúsnæði við leikskóla í hverfum þar sem er mikil eftirspurn, s.s. í Fossvogi, Seljahverfi, Háaleiti, Grafarholti og Laugardal og með samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla sem geta tekið á móti fleiri börnum.  Slíkir samningar eru langt komnir við þrjá leikskóla í Vesturbæ og fleiri fylgja væntanlega í kjölfarið síðar.