Borgarlína og Miklubraut í stokk

Við viljum byggja upp nútímalegri, grænni og betri borg með því auka skilvirkni í samgöngum, stytta ferðatíma borgarbúa og draga úr mengun. Það eykur lífsgæði allra. Til þess þarf að fara blandaða leið í samgöngumálum og halda áfram að beita allskonar lausnum.

Á kjörtímabilinu höfum við aukið tíðni stærstu leiða Strætó, fjölgað forgangsreinum og forgangsljósum fyrir Strætó og hafið næturakstur strætisvagna. Á næsta kjörtímabili ætlum við að halda áfram að taka stór skref í átt að nútímalegri borg með skilvirkari samgöngum.

Við viljum flýta framkvæmdum við Borgarlínu og Miklubraut í stokk – til dæmis með samningum um að Reykjavíkurborg fjármagni sameiginlegt félag ríkis, borgar og annarra sveitarfélaga sem tryggir að framkvæmdirnar færu strax í gang þó ríkið leggi til fjármuni til verkefnanna á lengri tíma.

Borgarlína strax

 • Klárum samninga um fjármögnun Borgarlínu á þessu ári
 • Hefjum framkvæmdir við Borgarlínu árið 2019
 • Nýtum sterka stöðu borgarinnar til að flýta framkvæmdum við fyrsta áfanga Borgarlínu

Miklubraut í stokk

 • Setjum Miklubraut í stokk samhliða framkvæmdum við fyrsta áfanga Borgarlínu
 • Höfum rólega, blandaða hverfisumferð á yfirborðinu – Borgarlínu, bíla, gangandi og hjólandi
 • Leiðum hraðari umferð í gegnum hverfið neðanjarðar

Hagkvæmt húsnæði

Við viljum byggja upp skemmtilega og lifandi borg fyrir alla. Til þess þarf að tryggja öruggt húsnæði fyrir alla þjóðfélagshópa og halda áfram að bjóða fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði.

Nú stendur yfir mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar og árið 2017 var mesta íbúafjölgun í Reykjavík í 30 ár. Síðustu þrjú ár hafa verið metár í útgáfu nýrra byggingarleyfa og aldrei hafa fleiri íbúðir farið í uppbyggingu á einu kjörtímabili í sögu borgarinnar.

Við sögðum í upphafi kjörtímabils að innan fimm ára myndu 2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir fara af stað í Reykjavík. Það loforð stenst og gott betur. Staðfest áform í samstarfi við félög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni nema alls um 4.000 íbúðum. Á næsta kjörtímabili ætlum við að halda áfram kraftmikilli uppbyggingu í öllum hlutum borgarinnar með áherslu á öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, stúdentaíbúðir, íbúðir aldraðra, endurreisn verkamannabústaðakerfisins og sérstakri áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Ungt fólk og fyrstu kaupendur

 • Byggjum hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Gufu­nesi, Úlfarsár­dal­, Bryggju­hverfi, Skerja­firði, á Veður­stofu­hæð og á lóð Stýri­manna­skól­ans
 • Styðjum nýsköpun á húsnæðismarkaði til að mæta eftirspurn eftir hagkvæmu húsnæði
 • 500 íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í fyrsta áfanga og 500 til viðbótar á kjörtímabilinu

Leikskóli fyrir 12 til 18 mánaða

Við viljum búa í borg sem er framúrskarandi fyrir börn og barnafjölskyldur. Til þess þarf að klára uppbyggingu leikskólanna í eitt skipti fyrir öll og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Leikskólar í Reykjavík eru í hæsta gæðaflokki og um 96 prósent foreldra eru ánægðir með leikskólana. Reykjavíkurlistinn byggði upp leikskólana eins og við þekkjum þá núna á árunum frá 1994 til 2006. Nú er kominn tími til að klára uppbyggingu leikskólanna með því að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti.

Núverandi meirihluti hefur náð langt við að leysa mannekluna í leikskólunum og leggur nú fram útfærða og ítarlega áætlun um það hvað þarf að gera, hvernig og hvenær, til að ná þessu skýra markmiði. Við getum gert það á næsta kjörtímabili.

Klárum uppbyggingu leikskólanna

 • Byggjum 5 til 6 nýja leikskóla og fjölgum leikskólaplássum um 750 til 800 á kjörtímabilinu
 • Opnum 7 nýjar ungbarnadeildir víðs vegar um borgina strax haustið 2018 og byrjum að bjóða 16 mánaða börnum pláss á þeim.
 • Bætum við 6 nýjum leikskóladeildum þar sem eftirspurnin er mest strax í haust
 • Eflum dagforeldrakerfið og gerum það að öruggari valkosti fyrir foreldra yngstu barnanna
 • Bjóðum 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss á kjörtímabilinu

Fjölgum leikskólakennurum

 • Höldum áfram að bæta kjör leikskólakennara og starfsumhverfi
 • Ráðum 35 til 40 nýja starfsmenn inn í leikskóla borgarinnar á hverju ári til viðbótar við yfir 100 nýja starfsmenn sem ráðnir hafa verið frá því í ágúst 2017
 • Aukum sjálfstæði og sveigjanleika leikskólakennara í starfi, leggjum áherslu á tækifæri alls starfsfólks leikskóla til menntunar og starfsþróunar og vinnum áfram að styttingu vinnuvikunnar

Borg fyrir alla

Við viljum búa í borg fyrir alla. Til þess þarf að tryggja að allir fái tækifæri og að enginn sé skilinn eftir. Jafnréttismál og kvenfrelsi verða áfram rauður þráður í allri okkar stefnu.

Við höfum aukið framlög til velferðarmála, fjölgað félagslegum íbúðum og eflt mannréttindaskrifstofu borgarinnar auk þess að leiða markvissa vinnu gegn ofbeldi í öllum myndum. Á næsta kjörtímabili getum við haldið áfram á sömu braut og aukið enn frekar aðstoð við þá sem eru utangarðs eða útundan í borginni.

Við leggjum sérstaka áherslu á að jafna aðstæður barna og unglinga til að þroska hæfileika sína í frístundastarfi og listnámi utan skóla. Við viljum halda áfram að efla skólahljómsveitir, opna æfingahúsnæði fyrir tónlistarfólk í hverfum, efna til tilraunaverkefnis með hverfiskóra barna og auka tækifæri yngstu barnanna til að prófa ólíkar íþróttir endurgjaldslaust.

Geðheilsa í breyttu samfélagi

 • Svörum kalli tímans með aukinni áherslu á bætta geðheilsu, vellíðan og geðrækt í borginni – sérstaklega á meðal ungs fólks
 • Aukum sálfræðiþjónustu fyrir börn í grunnskólum borgarinnar
 • Mætum betur þörfum fólks með fíknivanda
 • Fjölgum geðheilsustöðvum á borð við þá sem var opnuð í Breiðholti á kjörtímabilinu og styðjum áfram frjáls félagasamtök sem vinna að bættri geðheilsu borgarbúa

Heilsuefling, virkni og jöfn tækifæri fyrir alla

 • Vinnum að jöfnum tækifærum til frístunda og tryggjum að börn fái tækifæri til að kynna sér og stunda listnám, íþróttir og annað æskulýðsstarf óháð efnahag
 • Vinnum að heilsueflingu og gegn einsemd og einangrun eldri borgara með markvissum hætti
 • Núverandi félagsmiðstöðvar í hverfunum fái einnig hlutverk samfélagshúss fyrir íbúa á öllum aldri
 • Festum í sessi nýtt Menningar- og heilsukort eldri borgara
 • Höldum áfram og eflum hinseginfræðslu í skólum fyrir nemendur og starfsfólk
 • Valdeflum fólk með fatlanir og vinnum áfram að bættu aðgengi í borginni
 • Styðjum fjölmenningu og leggjum sérstaka áherslu á að auka þátttöku og tækifæri fólks með annað móðurmál en íslensku