Stöðug stjórn – samhentur meirihluti

 • Stjórn borgarinnar hefur einkennst af miklum stöðugleika undanfarin ár þrátt fyrir nokkurn óstöðugleika í stjórnmálum á landsvísu. Reykvíkingar hafa notið góðs af því að búa við afar samhentan fjögurra flokka meirihluta undir forystu Samfylkingarinnar.
 • Það er mikilvægt að skýr framtíðarsýn liggi til grundvallar við stjórn borgarinnar og að þeirri stefnu sem hún mótar sé fylgt fram af festu með hagsmuni allra íbúa að leiðarljósi. Við höfum þessa skýru sýn og sækjumst eftir umboði borgarbúa til að fylgja stefnunni áfram.
 • Höldum áfram að sýna í verki að stöðugleiki er ekki bara frasi – raunverulegur stöðugleiki fæst með með samtali, sanngirni og ábyrgum stjórnarháttum.

Áfram ábyrga fjármálastjórn

 • Ábyrg fjármálastjórn hefur verið eitt helsta viðfangsefni meirihluta borgarstjórnar á undanförnum árum. Viðsnúningur í rekstri náðist á skömmum tíma og hefur hann verið nýttur í kjarabætur, skólastarf og velferðarmál.
 • Halda áfram að lækka hreinar skuldir Reykjavíkurborgar sem hlutfall af tekjum. Frá árinu 2010 hefur náðst gríðarlegur árangur í þessum efnum og skuldir borgarsamstæðunnar minnkað ár frá ári.
 • Björgunaráætlun í fjármálum Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið fylgt fast eftir á kjörtímabilinu. Það er brýnt að halda þar áfram á sömu braut.
 • Stuðla áfram að því að fjármál borgarinnar séu opin og gagnsæ og kanna leiðir til að gera bókhald borgarinnar enn aðgengilegra.
 • Fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði hafa verið lækkuð á kjörtímabilinu. Þá hefur tekjutengdur afsláttur fyrir eldra fólk og öryrkja af fasteignagjöldum verið hækkaður í góðri samvinnu við Félag eldri borgara í Reykjavík.
 • Stilla gjaldtöku fyrir þjónustu borgarinnar í hóf, einkum með hliðsjón af hagsmunum barnafólks, stúdenta, fatlaðs fólks, aldraðra og öryrkja. Halda áfram að bjóða afslátt fyrir eldri borgara, svo sem  frítt í sund og á söfn.
 • Endurskoða húsnæðismál borgarinnar með tilliti til hagkvæmnissjónarmiða.

 

Svo Reykjavík verði áfram í fararbroddi er brýnt að atvinnulíf borgarinnar byggi á fjölbreytni, sköpunarkrafti og háu þekkingarstigi. Þannig getur Reykjavík staðist alþjóðlega samkeppni við aðrar borgir um fyrirtæki, fjárfestingu og vinnuafl.

 

 

Kraftmikið og skapandi atvinnulíf

 • Kraftmikið og skapandi atvinnulíf er einhver helsti kostur Reykjavíkur, og er nauðsynlegur þáttur í lífsgæðum í borginni.
 • Hagvöxtur á Íslandi undanfarin ár hefur að miklu leyti skapast við blómlegt atvinnulífi og mikla uppbyggingu í borgarhagkerfinu. Þar hefur gott samstarf milli Reykjavíkurborgar og atvinnulífsins skipt höfuðmáli.
 • Til að Reykjavík verði áfram í fararbroddi er brýnt að atvinnulíf borgarinnar byggist á fjölbreytni, sköpunarkrafti og háu þekkingarstigi. Þannig getur Reykjavík staðist alþjóðlega samkeppni við aðrar borgir um fyrirtæki, fjárfestingu og vinnuafl.
 • Það er eilífðarverkefni að þróa nútímalegt atvinnulíf og skapa sem best skilyrði fyrir stofnun og rekstur fyrirtækja. Reykjavík á að styðja við nýsköpun í atvinnulífinu og bæta umhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þeirra sem bera uppi hagkerfi borgarinnar.
 • Þróa borgina áfram sem alþjóðlega menningar- og þekkingarborg þar sem er eftirsóknarvert að búa og starfa og gott að vera gestur.
 • Stuðla að grænu og sjálfbæru atvinnulífi með hagkvæmu skipulagi atvinnusvæða.
 • Vinna áfram að uppbyggingu öflugra klasa á lykilsvæðum þar sem sóknarfæri eru í atvinnulífi.
 • Framtíðarsýnin um þekkingarþorpið í Vatnsmýrinni er að verða að veruleika og er mikilvægt að fylgja eftir sóknarfærum sem leiðir af áframhaldandi uppbyggingu Landspítalans með því að laða að rannsóknar- og heilbrigðistengd þekkingarfyrirtæki.
 • Kvikmyndaþorpið í Gufunesi er nú þegar komið af stað. Það getur orðið skapandi klasi á heimsmælikvarða og laðað að sér fjölmörg alþjóðleg verkefni.
 • Gamla höfnin, Örfirisey og Grandinn þróist áfram sem stærsta löndunarhöfn landsins þar sem einyrkjar, lítil- og meðalstór fyrirtæki, skapandi greinar, litlir veitingastaðir og hönnunarbúðir fái að blómstra.
 • Í Ártúnshöfða og Skeifunni verði blönduð byggð og á Hólmsheiði og Esjumelum þróist fjölbreytt atvinnustarfsemi með áherslu á léttan iðnað.
 • Stuðla að áframhaldandi uppbyggingu í ferðaþjónustu í góðu samstarfi við greinina. Reykjavík er að verða sífellt eftirsóttari áfangastaður og hefur ferðaþjónustan í borginni vaxið mjög á undanförnum árum.

Ferðaþjónstan hefur verið mesta vaxtargrein atvinnulífs á Íslandi á undanförnum árum og Reykjavík hefur verið hjartað í þeirri þróun. Um 95% allra ferðamanna koma til Reykjavíkur og langflest fyrirtæki í ferðaþjónustu eru rekin í Reykjavík.

 

 

Öflug og sjálfbær ferðaþjónusta

 • Ferðaþjónustan hefur verið mesta vaxtargrein atvinnulífs á Íslandi á undanförnum árum og Reykjavík hefur verið hjartað í þeirri þróun. Um 95% allra ferðamanna koma til Reykjavíkur og langflest fyrirtæki í ferðaþjónustu eru rekin í Reykjavík.
 • Efla Reykjavík sem eftirsóttan ferðamannastað fyrir alla með því að þróa borgina áfram sem lifandi og skemmtilega menningarborg. Þarna leikur stefna okkar í skipulagsmálum og samgöngumálum stórt hlutverk.
 • Styrkja enn frekar orðspor Reykjavíkur sem áfangastaðar svo það verði áfram með því besta sem þekkist meðal ferðamanna og fyrirtækja í ferðaþjónustu Kannanir sýna að ferðamenn eru ánægðir eftir veru sína í Reykjavík og langflestir þeirra eru tilbúnir að mæla með borginni við vini sína.
 • Standa vörð um söguna. Opna sýningu um upphaf byggðar í Reykjavík í einu elsta húsi borgarinnar, Aðalstræti 10, og standa vörð um gömul hús og minjar og önnur verðmæti sem við eigum í Reykjavík frá fyrri tíð.
 • Styrkja Reykjavík sem menningarborg og sækja fram í samkeppni við aðrar borgir sem vettvangur fyrir alþjóðlegar ráðstefnur og viðburði.
 • Nýta tækifærin sem felast í nábýli borgarinnar við einstaka náttúru, ómengað umhverfi og orkunýtingu án loftslagsáhrifa.
 • Það eru sameiginlegir hagsmunir borgarinnar og ferðaþjónustunnar að stýra þróun greinarinnar með hagsmuni íbúa í forgangi. Miðbær sem heimamenn vilja sækja er miðbær sem ferðamenn vilja sækja.
 • Til að forðast einsleitni í þróun borgarinnar hefur verið settur kvóti á ný hótel á Laugavegi, Hverfisgötu, í Þingholtunum og Kvosinni, og byggingu nýrra hótela beint á önnur svæði. Það er rétt stefna.
 • Borgin hefur jafnframt sett akstri stórbíla skorður. Borgin þarf að vera tilbúin til að grípa til nýrra ráðstafana í þágu íbúa. Ferðaþjónustan þarf að vera á forsendum borgarinnar til að vaxa og dafna í sátt við samfélagið.
 • Reglum um Airbnb og skammtímagistingu þarf að fylgja eftir af aukinni festu af hálfu ríkisins. Samningaviðræður Airbnb um að ná markmiðum laga um skammtímagistingu eru hafnar.
 • Lögð verður áhersla á gott aðgengi í ferðamannaborginni enda eru eldri borgarar stór hluti ferðamanna.

Reykjavíkurborg hefur verið leiðandi í tilraunum um styttingu vinnuviku, án launaskerðingar, sem hafa gefið góða raun og vakið mikla athygli. Nú þegar tekur um fjórðungur starfsfólks borgarinnar þátt í því verkefni eða um 2.500 manns.

 

 

Stytting vinnuviku

 • Reykjavíkurborg hefur haft forystu við tilraunir um styttingu vinnuviku, án launaskerðingar, sem hafa gefið góða raun og vakið mikla athygli. Nú þegar tekur um fjórðungur starfsfólks borgarinnar þátt í því verkefni, eða um 2.500 manns.
 • Verkefnið um styttingu vinnuvikunnar þarf að efla enn frekar og þróa áfram.
 • Kanna þarf betur langtímaáhrif verkefnisins með því að afla frekari gagna, efla samstarf við starfshóp ríkisins um styttingu vinnuviku og við háskólasamfélagið um áhrif styttingar vinnuvikunnar. Þá gefst færi á að leggja niðurstöðurnar til grundvallar í kjaraviðræðum og öðrum ákvörðunum um næstu skref.

Framtíðarsýn fyrir Orkuveitu Reykjavíkur

 • Orkuveita Reykjavíkur er umhverfisfyrirtæki sem umgengst auðlindir og nýtingu þeirra af samfélagslegri ábyrgð. Orkuveitan verður ekki seld, hvorki að hluta né í heild.
 • Nýjar borholur verði boraðar eftir köldu vatni í Vatnsendakrikum í Heiðmörk til að tryggja hreint vatn, alltaf.
 • Áætlanir verði gerðar um uppfærslu á fráveitustöðvum borgarinnar til að fyrirbyggja að veita þurfi skólpi í sjó við sérstakar aðstæður þannig að strendur borgarinnar verði hreinar, alltaf.
 • Stefnt verði að því að virkjanir Orkuveitunnar verði sporlausar gagnvart kolefnisútblæstri og brennisteinsvetni fyrir árið 2030.
 • Gagnaveitan tryggi opna samkeppni um þjónustu yfir öflugt ljósleiðaranet og stuðli þannig að snjallvæðingu og aukinni samkeppnishæfni borgarinnar.
 • Snjallmælar verði teknir upp til að bæta orkunýtingu, t.d. með því að selja ódýrari raforku á nóttunni og auðvelda rafbílavæðingu og rafhleðslu við heimili.
 • Reykjavíkurborg og Orkuveitan taki forystu um að auðvelda rafbílavæðingu og orkuskipti í samgöngum með því meðal annars að gefa færi á hleðslu á bílastæðum fjölbýlishúsa í samvinnu við húsfélög, og hleðslu á almenningsstæðum eða stæðum þjónustufyrirtækja sem eru auð á nóttunni þegar hagstæðast er að hlaða.
 • Rekstrarbati Orkuveitunnar verði áfram nýttur til að lækka gjaldskrá til viðskiptavina á ábyrgan hátt og til að greiða eðlilegan arð í borgarsjóð.
 • Áfram verði kosnir faglegir fulltrúar fremur en stjórnmálamenn í stjórn Orkuveitunnar en áherslur borgarstjórnar birtist í samþykktri eigendastefnu og þátttöku í veigamiklum og stefnumarkandi ákvörðunum.