Við lifum á einu mesta uppbyggingarskeiði í sögu Reykjavíkur. Árið 2017 varð mesta fjölgun íbúa í Reykjavík í 30 ár samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Uppbygging er hafin á svæðum víðsvegar um borgina þar sem rísa 3.700 íbúðir næstu árin. Að auki eru um 6.500 íbúðir í skipulagsferli. Mikilvægt er að uppbyggingin eigi sér stað á þéttingarreitum sem bjóða mikil lífsgæði og liggja vel við almenningssamgöngum, þar á meðal fyrirhugaðri Borgarlínu. Blönduð byggð verður áfram rauður þráður í allri uppbyggingu undir okkar forystu. Við þessa miklu uppbyggingu er lykilatriði að hugsjónir jafnaðarmanna séu hafðar að leiðarljósi.

 

Áfram félagsleg húsnæðisstefna

 • Reykjavík á að vera áfram í fararbroddi við uppbyggingu félagslegs húsnæðis og samvinnu við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Sumir trúa að markaðurinn geti leyst allan húsnæðisvanda einn síns liðs en reynslan kennir að fjölbreyttar félagslegar lausnir þurfa einnig að vera fyrir hendi.
 • Stuðla í auknum mæli að fjölbreyttum valkostum á húsnæðismarkaði með uppbyggingu séreignaríbúða, leiguíbúða, íbúða húsnæðisfélaga, búseturéttaríbúða o.s.frv.
 • Fyrir kosningar 2014 sögðum við að á næstu 5 árum færu 2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir í uppbyggingu. Ljóst er að það markmið næst og gott betur. Útlit er fyrir að fjöldi slíkra íbúða, fullfrágenginna eða á framkvæmdastigi, fari yfir 3.000 og staðfest áform á vegum húsnæðisfélaga án hagnaðarsjónarmiða nema alls yfir 4.000 íbúðum. Forgangsmál er að fylgja þessum áformum eftir og þrýsta á fjölgun íbúða fyrir tekjulægri sem fái stofnframlög frá ríkinu í tengslum við komandi kjarasamninga.
 • Leiða áfram endurreisn gamla verkamannabústaðakerfisins í samvinnu við ASÍ og BSRB.
 • Gera stúdentaíbúðir að raunverulegum valkosti á Íslandi með því að bera áfram hitann og þungann af uppbyggingu slíkra íbúða í samstarfi við stúdenta.
 • Halda áfram farsælu samstarfi við húsnæðisfélög eldri borgara, Kvennaathvarfið, Sjálfsbjörgu og Brynju, hússjóð Öryrkjabandalagsins.
 • Fjölga íbúðum og búsetuúrræðum Félagsbústaða um 700 á næstu fimm árum í samræmi við áætlanir.
 • Borgarbúar sem þurfa gott aðgengi verði studdir til að aðgengið við eigið húsnæði þannig að þeir lifi sjálfstæðu lífi heima hjá sér.
Við viljum koma í byggingu 500 hagkvæmum íbúðum á næsta kjörtímabili sem fyrsta áfanga verkefnis sem mæti þörfum ungs fólks og fyrstu kaupenda. Lóðir hafa þegar verið teknar frá fyrir verkefnið á spennandi stöðum víðs vegar um borgina.

Hagkvæmt húsnæði – ungt fólk og fyrstu kaupendur

 • Leggja áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.
 • Koma í byggingu 500 hagkvæmum íbúðum á næsta kjörtímabili sem fyrsta áfanga verkefnis sem mæti þörfum ungs fólks og fyrstu kaupenda. Lóðir hafa þegar verið teknar frá fyrir verkefnið á spennandi stöðum víðs vegar um borgina.
 • Styðja við nýsköpun og frumlegar lausnir í húsnæðismálum. Leita allra leiða til uppbyggingar hagkvæmra húsnæðiskosta og þora að grípa til fjölbreyttra ráða.
 • Nýsköpun og nytsamlegar lausnir við byggingu húsnæðis skipta miklu máli nú þegar öllum er ljóst að náttúruauðlindir og manngerðir innviðir eru takmörkuð verðmæti.
 • Mikilvægt er að kaupendur eða leigjendur njóti góðs af hagkvæmum byggingaraðferðum.
 • Það getur verið góður kostur fyrir suma borgarbúa að innrétta sínar íbúðir sjálfir á þeim hraða sem hentar.