Samfylkingin styður þá stefnu sem mörkuð er í aðalskipulagi Reykjavíkur um þétta, fjölbreytta og blandaða byggð og húsnæði fyrir alla. Samfylkingin leggur áherslu á sjálfbær hverfi og sjálfbæran vöxt borgarinnar, á loftslagsmál, hagkvæma nýtingu lands og auðlinda, bætt umhverfisgæði og lýðheilsu, lífsgæði borgarbúa, kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf, vistvænar samgöngur og verndun náttúru.

 

Lifandi borg – breytt samfélag

Reykjavík er lifandi og skemmtileg borg. Þar hefur stefna okkar um þétta og blandaða byggð þegar skilað árangri en tækifærin til að gera ennþá betur eru óteljandi.

 • Efla alla þjónustu í hverfum borgarinnar til að auka lífsgæði borgarbúa og vinna að endurnýjun gamalla hverfiskjarna þar sem þess er þörf.
 • Leggja áherslu á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í lifandi umhverfi með verslun, þjónustu, ýmiss konar afþreyingu og aðlaðandi útvistarsvæði. Í slíkum hverfum eru mörg tækifæri til að hittast.
 • Samfélagið okkar tekur örum breytingum og það þarf að sjá til þess að á húsnæðismarkaði sé brugðist við þeim breytingum sem við blasa – fjölskyldur minnka, einstaklingum á hverja íbúð fækkar, einstaklingsheimilum fjölgar, fólki yfir 65 ára fjölgar mjög hlutfallslega o.s.frv.
 • Bregðast við sívaxandi þörf fyrir tiltölulega litlar íbúðir, bæði miðlægt í borginni og í öðrum borgarhverfum.
 • Vinna með markvissum hætti gegn einsemd meðal borgarbúa. Samfélagsþróunin virðist leiða af sér aukna einsemd í borgum og okkur ber að taka því af alvöru. Munum að gott borgarskipulag gerir samskipti fólks auðveldari og skemmtilegri.
 • Koma í veg fyrir að stóraukin ferðamennska valdi óhóflegu álagi á íbúa og verðsprengingu á íbúðum í þeim hverfum borgarinnar sem ferðamenn sækja mest, m.a. með því að reglum um Airbnb verði fylgt fastar eftir í samvinnu við ríkið.
 • Þegar fundinn hefur verið nýr og betri staður fyrir Reykjavíkurflugvöll verður 102 Reykjavík nýtt hverfi í borginni. Með því tengjast háskólarnir miklu betur og þar verður í boði búseta fyrir fólk sem vill þétta borgarbyggð í námunda við stóra vinnustaði en í göngufæri við óspillta strandlengju og náttúrufriðlandi í Vatnsmýrinni.

 

Mikilvægt er að Reykjavík sé góð borg til að búa í og starfa í fyrir skapandi fólk. Nauðsynlegt er að hlúa að grasrótinni í listum og styðja eins og kostur er við listamannarekin rými, vinnuaðstöðu listafólks, æfingahúsnæði og sýningarstaði.

 

Menningarborgin Reykjavík – aðdráttarafl fyrir listsköpun

 • Reykjavík er skapandi borg og við viljum efla hana sem slíka á öllum sviðum, ekki síst með því að stuðla að því að borgin sé aðlaðandi fyrir listamenn og hvers kyns listsköpun. Við erum hreykin af því hvað Reykjavík er lífleg og öflug menningarborg.
 • Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka má nefna að gamla síldarverksmiðjan Marshall-húsið gekk í endurnýjun lífdaga sinna og hýsir nú blómlegt listalíf. Við viljum gera meira í þessum dúr.
 • Nýtt danshús við Hjarðarhaga var tekið í notkun, skólahljómsveitir voru efldar og stuðningur við leikstarfsemi í Tjarnarbíói aukinn.
 • Við tökum heilshugar undir hvatningu sambands íslenskra myndlistarmanna, „Við borgum myndlistarmönnum“, og erum hreykin af því að nú fá myndlistarmenn greiðslur fyrir sýningar á vegum borgarinnar.
 • Í Gufunesi er nú að rísa „fríríki frumkvöðlanna“ og þangað eru nú þegar flutt öflug kvikmyndafyrirtæki. Gufunesið er að verða miðstöð íslenskrar kvikmyndagerðar og við viljum halda áfram að aðstoða við uppbyggingunu sem þar fer fram.
 • Efla samstarf við listafólk í hönnun nýrra hverfa og listar í borgarrýminu. Nú þegar hafa verið stigin stór skref í þessa átt með fjármögnun listar í opinberu rými í Vogabyggð og á Kirkjusandi.
 • Það er mikilvægt að Reykjavík sé góð borg til að búa í og starfa í fyrir skapandi fólk. Nauðsynlegt er að hlúa að grasrótinni í listum og styðja eins og kostur er við listamannarekin rými, vinnuaðstöðu listafólks, æfingahúsnæði og sýningarstaði.
 • Tryggja þarf aðgengi allra borgarbúa að listum og menningu, bæði sem þátttakendur og njótendur. Einkum er mikilvægt að börn og ungmenni um alla borg eigi greiða leið að listnámi.
 • Styðja enn frekar samstarf grunnskólanna við söfn, menningarmiðstöðvar og leikhús borgarinnar.
 • Efla og styrkja menningarmiðstöðvar í hverfunum og styðja skapandi framtak í öllum hverfum.
 • Skoða fjölbreytta nýtingu á húsnæði í eigu borgarinnar í hverfunum. Sumt af því gæti hugsanlega nýst fyrir skapandi starf þegar almennri starfsemi í húsnæði er lokið, svo sem vinnustofur listamanna, æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir og leikstarf.
 • Borgin vinni með Listaháskóla Íslands að því að tryggja skólanum gott og hentugt húsnæði í samræmi við þarfir hans og óskir.
 • Lögð verði fram lóð fyrir nýjan menntaskóla í tónlist.
 • Reykjavík er heimili handritanna okkar fornu, sem UNESCO telur til menningarminja alls heimsins. Langþráð Hús íslenskra fræða gefur tækifæri til að setja upp löngu tímabæra sýningu á þessum merku gripum og setja þá í alþjóðlegt samhengi. Hér eiga borgaryfirvöld og ríkið að taka höndum saman.
 • Við stækkun og eflingu Borgarbókasafns í Grófarhúsi gefst tækifæri til að víkka hlutverk safnsins og hússins sem lifandi og fjölbreytts menningar-, margmiðlunar-, lýðræðis-, barna- og bókahúss fyrir alla borgarbúa. Áfram verði unnið að því að þróa nýmæli í bókasöfnum og menningarhúsum hverfanna.
 • Matarmenning er í mikilli sókn í Reykjavík. Gott dæmi er Mathöllin á Hlemmi sem hefur notið mikilla vinsælda og nú í sumar eru fyrirhugaðir matarmarkaðir í Skeifunni og á Grandanum. Borgin haldi áfram að greiða götu verkefna sem þessara.