Léttum á umferðinni

 • Samkvæmt spám Hagstofunnar fjölgar íbúum höfuðborgarsvæðisins um 70 þúsund manns til ársins 2040. Mesta verkefni Reykjavíkurborgar í umferðamálum við þessar aðstæður er að tryggja að þessi mikla fjölgun geti átt sér stað án þess að þjónustustig gatnakerfisins versni, þ.e. án þess að umferðin aukist.
 • Til að létta á umferðinni er nauðsynlegt að fara blandaða leið og beita alls konar lausnum, t.d. að byggja Borgarlínu og setja Miklubraut í stokk, halda áfram að vinna á flöskuhálsum og auka hlut gangandi og hjólandi í umferðinni, nýta deilibíla, rafhjól og rafbíla, búa í haginn fyrir sjálfstýrða bíla í framtíðinni og vinna að fleytitíð (sveigjanlegum upphafs- og lokatímum fyrirtækja og stofnana til að draga úr álagstoppum í umferðinni).
 • Samgöngustefna sem einungis byggist á áframhaldandi fjölgun einkabíla er úrelt stefna. Umferðarlíkön sýna að slík stefna myndi þyngja umferðina og stórauka tafatíma fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins.
 • Reykjavíkurborg á í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að leita samninga við ríkið um að flýta Borgalínu og öðrum mikilvægustu framkvæmdum í samgöngum, þar með talið að setja Miklubraut í stokk. Þetta eru lykilframkvæmdir í samgöngumálum og þurfa að komast í verk án tafar.
 • Samhliða nýrri umferðaröryggisáætlun verði gerð fjárhags- og framkvæmdaáætlun um fækkun umferðarslysa í Reykjavík um 20% á næstu 5 árum.

 

Borgarlína mun bylta almenningssamgöngum með aukinni tíðni, styttri ferðatíma, stóraukinni flutningsgetu, bættu aðgengi í vagna og betri biðstöðvum.

 

Borgarlína og betri Strætó

 • Byggjum Borgarlínu. Það er besta og hagkvæmasta leiðin fyrir Reykjavík. Borgarlína nýtur stuðnings ríkisstjórnarinnar og allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og getur því farið hratt af stað strax á næsta kjörtímabili.
 • Klára samninga við ríkið og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um Borgarlínu fyrir árslok. Í viðræðunum bjóðist Reykjavík til að flýta framkvæmd Borgarlínu með því að fjármagna sameiginlegt félag ríkis og sveitarfélaga sem komi Borgarlínuverkefninu í framkvæmd og setji Miklubraut í stokk.
 • Borgarlína byltir almenningssamgöngum með aukinni tíðni, styttri ferðatíma, stóraukinni flutningsgetu, bættu aðgengi í vagna og betri stoppistöðvum.
 • Á sama tíma léttir Borgarlína á umferðinni fyrir alla þá sem geta ekki notað almenningssamgöngur eða vilja það ekki. Með því að draga úr álagi á stofnbrautum styttir hún ferðatíma allra, einkum þeirra sem búsettir eru í austurhluta borgarinnar.
 • Borgarlína er hryggjarstykkið í þróun höfuðborgarsvæðisins og mikilvægasta einstaka aðgerðin til að bæta lífsgæði borgarbúa til frambúðar. Ný og þétt byggð við viðkomustöðvar Borgarlínu tryggir þúsundum íbúa besta mögulega aðgengi að almenningssamgöngum.
 • Að auki á Borgarlínan að ganga fyrir rafmagni. Þannig dregur hún úr mengun í borginni og bætir loftgæði.
 • Höldum áfram að efla Strætó með áherslu á aukna tíðni og forgang í umferðinni. Slíkar aðgerðir eru forsmekkurinn að Borgarlínu en í framtíðinni vinna Borgarlína og Strætó vel saman.
 • Næturstrætó um helgar og lengri þjónustutími eru mikilvæg skref sem tekin hafa verið til að bæta þjónustu Strætó. Höldum áfram á sömu braut og tryggjum þannig að Strætó verði valkostur oftar og fyrir fleiri.
 • Tryggja þarf að aðstaða Strætófarþega við stoppistöðvar sé í takti við veðurfar og sé þægileg fyrir farþega.

Bílaumferð og alls konar lausnir

 • Setja Miklubraut í stokk. Þá fer gegnumstreymisumferð neðanjarðar en á yfirborði verður róleg og blönduð umferð Borgarlínu, bíla, gangandi og hjólandi. Stokkurinn skiptir sköpum fyrir Hlíðahverfið, jafnar aðstöðumun barna til að iðka íþróttir, bætir hljóðvist verulega og dregur úr mengun.
 • Halda áfram samstarfi við Vegagerðina um að greina flöskuhálsa og eyða þeim.
 • Styðja við starfsemi deilibíla sem reynst hafa vel í öðrum borgum víða um heim. Þannig má draga úr fjölgun einkabíla og létta á umferð.
 • Hafa samráð við stærstu vinnustaðina, þar á meðal háskóla og framhaldsskóla um það markmið að koma á fleytitíð eða sveigjanlegum vinnutíma og draga þannig úr umferð á álagstímum.
 • Vinna áfram að tilraunaverkefnum um bátastrætó og stefna að því að bátastrætó verði hluti af samgönguneti borgarinnar.
 • Fylgjast náið með þróun sjálfkeyrandi bíla og búa í haginn fyrir slíka tækni í framtíðinni.
 • Snjallvæða bílastæði og bílastæðahús og gera þau þannig aðgengilegri.
Við ætlum að halda áfram að bæta aðstæður fyrir gangandi og hjólandi og auka þannig hlut þeirra í umferðinni. Þar hefur þegar náðst árangur sem er langt fram úr björtustu vonum.

 

Áfram gangandi og hjólandi

 • Halda áfram að bæta aðstæður fyrir gangandi og hjólandi og auka þannig hlut þeirra í umferðinni. Þar hefur þegar náðst árangur sem er langt fram úr björtustu vonum.
 • Byggja brú yfir Fossvoginn í Kársnes fyrir gangandi, hjólandi og Strætó.
 • Tengja hverfin og útivistarsvæðin betur með öruggum gönguleiðum og huga sérstaklega að tengingum við stofnstígakerfi og strandlengjuna þar sem það er hægt.
 • Leggja fleiri hjólastíga um alla borg og aðskilja göngu- og hjólastíga sem tengja hverfin.
 • Hjólaleiga WOW Air hefur gengið vel. Gera tilraun með að færra hjólaleigur í auknum mæli út í hverfi borgarinnar.
 • Festa miðborgina í sessi sem áfangastað fjölskyldna allt árið með því að fjölga göngugötum og gera Laugaveginn að göngugötu allt árið. Fara samhliða í að endurgera göturýmisins og bæta aðgengi fyrir alla.
 • Stefna að því að yfirbyggð hjólastæði verði við alla grunnskóla og helstu stofnanir borgarinnar.
 • Bæta lýsingu í borginni með áherslu á að lýsa fyrir gangandi og hjólandi. Nota snjallar lausnir til að auka öryggi án þess að valda óþarfri ljósmengun.
 • Hugmyndir um algilda hönnun verði hafðar að leiðarljósi við alla mannvirkjagerð.

Orkuskipti í samgöngum

 • Reykjavík haldi áfram að vera í forystu þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum. Næstu skref eru aukin rafvæðing Strætó og síðan Borgarlínu, fjölgun hleðslustöðva og átak til að fjölga möguleikum almennings á að hlaða bíla nálægt heimilum sínum.
 • Setja metnaðarfull markmið um að auðvelda orkuskipti, og ná þeim, m.a. með samvinnu Orkuveitunnar og húsfélaga fjölbýlishúsa, á bílastæðum í hverfiskjörnum, í bílastæðahúsum og á lóðum fyrirtækja.
 • Orkuveitan á að stefna að innleiðingu snjallmæla til að auðvelda orkuskipti og dreifingu álags. Kanna hvort hleðsla að nóttu getur verið ódýrari en á álagstíma.
 • Stefna að rafvæðingu Faxaflóahafna.

Betri hverfi – betra líf

 • Efla alla þjónustu í hverfum til að auka lífsgæði og draga í leiðinni úr umferð. Fólk fer þriðjung af ferðum sínum í borginni til að sækja líkamsrækt, sund eða afþreyingu, kaupa í matinn eða útrétta. Þessar ferðir má stytta og gera vistvæna ferðamáta að betri valkosti með því að gera þessa þjónustu aðgengilegri með góðu skipulagi í hverfunum.
 • Auka öryggi í íbúðahverfum, t.d. með því að vinna markvisst gegn hraðakstri þar, stækka svæði með 30 kílómetra hámarkshraða, fjölga vistgötum og lækka hraða á stofnbrautum á þeim köflum sem liggja í gegnum íbúðahverfi.
 • Bæta vetrarþjónustu í hverfunum og hvetja þannig til þess að börn og fullorðnir fari styttri ferðir gangandi eða hjólandi allt árið.
 • Dagvistun innan hverfis til að tryggja að foreldrar og börn hafi val um að ganga eða hjóla í stað bílferðar. Þannig má draga úr umferð og fjölga tækifærum fjölskyldunnar til útiveru.
 • Við endurnýjun eldri hverfa og þéttingu byggðar verði lögð áhersla á þarfir gangandi og hjólandi. Einnig skal horfa til þess að auka trjárækt og vinna að skjólmyndun í sátt við umhverfið.
 • Auka þarf hreinsun og umhirðu borgarlandsins. Virkja íbúa til að taka þátt í umhirðu (plokki), svo sem með samhentu hreinsunarátaki á hverju vori.
 • Bæta upplýsingar á vefsetri borgarinnar um t.d. mokstur, hreinsun gatna, vorhreinsun  o.s.frv. þannig að fólk geti fylgst vel með viðburðum af því tagi í hverfinu sínu.
 • Gera fyrirhugaða sundlaug í Fossvogsdal í kjölfar nýjustu laugarinnar sem nú er í smíðum í Úlfarsárdal.
 • Takmarka umferð hópbifreiða í hverfum borgarinnar við aðalgötur og þær leiðir sem Strætó ekur.

Loftslagsmál og loftgæði

 • Reykjavík verði kolefnishlutlaus árið 2040 og lagi sig að loftslagsbreytingum með vistvænum og mannvænum hætti. Losun frá bílaumferð og almenningssamgöngum linni árið 2040.
 • Hlutdeild einkabíla í umferðinni verði ekki meiri en 58% árið 2030, almenningssamgangna að minnsta kosti 12% og gangandi og hjólandi að minnsta kosti 30%. Í því skyni skal stefnt að því að 90% nýrra íbúða verði áfram innan þéttbýlismarka til að efla nærþjónustu og draga úr þörf á langferðum.
 • Aukin loftgæði fáist með því að draga stórlega úr notkun nagladekkja og stuðla að því að fleiri noti almenningssamgöngur og gangi eða hjóli.
 • Byggja Borgarlínu, bæta þannig loftgæði í borginni og draga úr mengun.
 • Gera fólki auðveldara að eiga og reka rafbíl og ýta með því undir orkuskipti í samgöngum. Sýna gott fordæmi með rafvæðingu Strætó og Borgarlínu.
 • Faxaflóahafnir verði rafvæddar þannig að skemmtiferðaskip og öll önnur skip sem koma til Reykjavíkur geti tengst hreinu rafmagni.
 • Umfangsmikil snjallvæðing innviða og annarra mannvirkja borgarinnar til að draga úr sóun og stuðla að orkusparnaði.
 • Efla samstarf Reykjavíkurborgar, Festu og yfir hundrað íslenskra fyrirtækja, og virkja þannig enn frekar metnað atvinnulífsins til að draga úr losun og minnka sorp. Mæla árangurinn líkt og kveðið er á um í samkomulagi Reykjavíkur og Festu frá árinu 2015.
 • Setja upp vefsetur til að efla almenna þekkingu á því hvernig draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera heimili kolefnishlutlaus.
 • Hefja söfnun lífræns úrgangs árið 2019 þegar gas- og jarðgerðarstöðin verður risin.
 • Reykjavíkurborg verði í stakk búin til að aðlagast loftslagsbreytingum, m.a. með aðgerðum í skipulagi, með blágrænum ofanvatnslausnum og flóðavörnum.

Endurvinnsla

 • Á síðustu átta árum hefur borgin og borgarbúar tekið risastökk í endurvinnslu úrgangs. Á flestum heimilum er flokkaður pappír, skilagjaldsskyldar umbúðir og spilliefni, og plasttunnan er í sókn. Járn er seglað frá sorpinu á mótttökustað, og nú er hægt að skila gleri á ákveðnum grenndarstöðvum.
 • Næsta skref er að ganga lengra með plastið og stefna að því að á sem allra flestum heimilum sé plast flokkað frá almennu sorpi. Reist verði jarð- og gasgerðarstöð og hafin söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Unnin verði áætlun um notkun lífgass sem eldsneytis.
 • Endurvinnslutunnur verði endurgjaldslausar fyrstu þrjá mánuðina til að hvetja heimili til að prófa aukna endurvinnslu.
 • Tvo eða fleiri daga á ári geti borgarbúar losað sig við stærri muni frá heimilum án endurgjalds, svo sem gömul húsgögn, rafmagnstæki, pappa og tilfallandi efni eftir viðhaldsframkvæmdir.
 • Kynna þarf möguleika á að nota maíspoka undir sorp. Þeir eru ódýr og umhverfisvæn lausn og fyrsta skrefið í átt að plastpokalausum lífsstíl.
 • Bæta umhverfi grenndarstöðva og fjölga móttökuflokkum. Tryggja að umgengni sé góð og að hirðutíðni, þ.e. hversu oft er náð í sorp, samræmist þörfum íbúa á hverjum stað.
 • Reykjavíkurborg fari í samstarf við verslunar- og þjónustufyritæki um að hætta að selja eða bjóða einnota plastpoka.
Græn svæði og fjölbreytt leiksvæði fyrir allan aldur og með aðgengi fyrir alla eiga að vera í öllum borgarhlutum. Aðstaða til að grilla og matast skal vera til staðar og vel við haldið.

 

Græn svæði

 • Stefna að opnun nýrra ylstranda í Gufunesi og Laugarnesi og fjölga þannig útivistarmöguleikum í borginni.
 • Elliðaárdalur verði friðaður borgargarður sem njóti hverfisverndar.
 • Gera grænar göngutengingar milli grænna svæða í borginni – Græna netið.
 • Hafa í öllum borgarhlutum græn svæði og fjölbreytt leiksvæði fyrir allan aldur og með aðgengi fyrir alla. Aðstaða til að grilla og matast sé til staðar og vel við haldið.
 • Auka samstarf og stuðning við íbúa þegar kemur að viðhaldi og endurnýjun grænna og opinna svæða í hverfum borgarinnar.
 • Bæta aðstöðu fyrir hunda og hundaeigendur. Hundaleikvellir eiga að vera til í öllum borgarhlutum.
 • Fjölga almenningssalernum sem eru aðgengileg öllum, þar með talið fötluðu fólki, við vinsæl útivistarsvæði og leikvelli í borginni. Stefna að því að vera með þjónustu á vinsælustu grænu svæðunum, svo sem í Hljómskálagarðinum, svo sem veitingasölu og salernis- og skiptiaðstöðu.
 • Lokið verði við sundlaug og menningarmiðstöð í Úlfarsárdal og gerð sundlaug í Fossvogsdal.