Heilsueflandi samfélag

 • Með nýrri lýðheilsustefnu viljum við auka vellíðan borgarbúa og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með því að bæta bæði manngert og félagslegt umhverfi allra íbúa og stuðla að jöfnuði.
 • Okkar markmið er að Reykjavík verði heilsueflandi samfélag. Til þess þarf að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.
 • Við viljum heilsueflandi hverfi, skóla og frístundastarf og stefnum að því að  heilsueflingarstarf nái til allrar starfsemi í Reykjavík.
 • Heilsa og líðan íbúa verði með skipulegum hætti í fyrirrúmi í allri stefnumótun á öllum sviðum.
 • Setja á fót samfélagshús hverfa fyrir íbúa á öllum aldri í stað félagsstarfs sem einungis er fyrir eldra fólk. Þetta stuðlar að samskiptum og virkni og styrkir félagsauð í hverfunum.
 • Bæta aðstöðu í borgarrýminu til heilsueflingar utandyra.

Geðheilbrigðismál eru lykilmál í heilsueflandi samfélagi

 • Efla markvissa vinnu gegn kvíða barna og ungmenna í grunnskólum og bjóða þeim stuðning sem greinast með einkenni kvíða og þunglyndis.
 • Auka fræðslu um geðheilbrigði til barna og ungmenna í samvinnu við skólaheilsugæsluna og samfélagið allt.
 • Tryggja aðgengi nemenda að sálfræðiaðstoð en ekki aðeins greiningu.
 • Efla þjónustu við þá sem standa höllum fæti vegna andlegra veikinda í samstarfi við heilbrigðis- og velferðaryfirvöld í landinu, m.a. með opnun geðheilbrigðismiðstöðva í fleiri borgarhlutum líkt og reynst hefur vel í Breiðholti á kjörtímabilinu.

 

Okkar markmið er að Reykjavík verði heilsueflandi samfélag, sem felur í sér að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Öflugur stuðningur við heimilin

 • Þjónusta og sjálfsafgreiðsla á vegum borgarinnar sé aðgengileg á netinu þegar unnt er.
 • Þjónustu á að veita eins nærri þeim sem þarf á henni að halda og kostur er.
 • Auka stuðning við fjölskyldur í vanda og bjóða fjölskyldumeðferð.
 • Undirbúa sólarhringsþjónustu Fjölskylduvaktar.
 • Efla stuðning við börn í námserfiðleikum og fjölskyldur þeirra.
 • Efla stuðning við börn með raskanir eða fatlanir og fjölskyldur þeirra. Í boði sé þjónusta þverfaglegs teymis og stuðningsaðila.
 • Börn finni styrkleika sína og fái tækifæri til að vinna með þá í skóla, frístunda- eða tómstundastarfi.

Alltaf einhver sem hefur trú á þér – líka 16 til 18 ára

 • Fjölga fagstéttum sem starfa í grunnskólum. Efla þverfaglega vinnu til að gera skólunum betur kleift að vinna samkvæmt stefnunni um skóla án aðgreiningar.
 • Skýra verkferla og hlutverk skóla, þjónustumiðstöðva, heilbrigðisþjónustu og barnaverndar og efla samstarf á milli aðila með hag barna og fjölskyldna þeirra að leiðarljósi.
 • Þróa við hvern grunnskóla lítið þjónustuteymi sem tengist beint þjónustu velferðarsviðs fyrir börn og fjölskyldur þeirra.
 • Börn eigi kost á fjölbreyttum námskeiðum sem styrkja sjálfsmynd þeirra og valdefla þau.
 • Við leggjum áherslu á snemmtæka íhlutun því hún skilar mestum árangri.
 • Velferðar- og skólaþjónusta fylgi barni á milli skólastiga. Vinna að því með framhaldsskólum að þar starfi líka þjónustuteymi sem styðji áfram nemendur úr grunnskóla.
 • Börn eiga alltaf að hafa einhvern að leita til á skólatíma.  
 • Bjóða íþróttir fyrir 16 til 18 ára sem ekki stefna á afreksferil en vilja æfa íþróttir.
 • Kynna frístundastyrki sérstaklega fyrir 16 til 18 ára og tryggja að fjölbreytt frístundaframboð hæfi börnum á þeim aldri.

Týndu börnin

 • Skóla- og velferðarkerfið þarf að bregðast strax við þegar grunur vaknar um vanda eða barn sýnir áhættuhegðun.
 • Athvarfsvaktir, samstarfsverkefni lögreglu, þjónustumiðstöðva og frístundamiðstöðva, verði í hverfum eftir þörfum. Teymi fer um hverfin og sinnir börnum sem eru úti eftir að útivistartíma líkur, eru undir áhrifum áfengis eða þurfa stuðning eða athvarf þar til foreldrar sækja þau.  
 • Þjónustumiðstöð hefur samband við foreldra barna sem lögregla hefur haft afskipti af og býður stuðningsviðtal, heima hjá fjölskyldunni og barninu.
 • Börn sem eru í fjölkerfa meðferð (MST) á vegum barnaverndarstofu þurfa stuðning og aðlögun inn í nærumhverfi sitt og þar þarf að vinna með þeim út frá þeirra eigin styrkleikum.
 • Skólakerfið þarf í samvinnu við þjónustumiðstöð að bjóða barni og foreldrum þess stuðning þegar barn hefur verið fjarverandi úr skóla í 10 daga, sama hvernig stendur á fjarvistunum, eða fyrr ef líklegt telst að þörf sé á stuðningnum.
 • Gert verði átak til að fræða foreldra, starfsfólk skóla, heilsugæslu og velferðarþjónustu um einkenni skólaforðunar eða skólafælni, áhrif, forvarnir og snemmtæka íhlutun.
 • Öll börn að eiga rétt á menntun við hæfi. Nemendur taki virkan þátt í námsþróun.
 • Heilsueflingar- og forvarnastarf þarf að þróast með samfélaginu. Það verður að takast markvisst á við áskoranir eins og misnotkun lyfja og markaðssetningu á veipi gagnvart börnum.
 • Unnið verði að því í samvinnu við Barnaverndarstofu að opna fleiri meðferðarúrræði fyrir börn.

Enginn skilinn eftir – stuðningur til sjálfshjálpar

 • Enginn sé utangarðs – af hálfu borgarinnar skal öllum mætt af virðingu þannig að hver og einn haldi reisn sinni.
 • Auka stuðning við útigangsfólk og mæta betur þörfum ungra fíkla.
 • Leggjum áherslu á að nálgast heimilislausa og fíkla með skaðaminnkandi þjónustu að leiðarljósi, meðal annars með því að bjóða húsnæði fyrst.
 • Bjóða upp á öruggt neyslurými í Reykjavík í samvinnu við heilbrigðis- og öryggisstofnanir ríkisins.
 • Kanna kosti nýrrar útfærslu á kynjaskiptri sólarhringsþjónustu.
 • Bjóða aukin tækifæri til samfélagsþjónustu fyrir unga afbrotamenn.
 • Tryggja nægilegt pláss á áfangaheimilum.
 • Fjárhagsaðstoð til framfærslu er neyðaraðstoð. Mæta fólki sem hana fær með vinsemd og virðingu, og hafa að höfuðmarkmiði valdeflingu einstaklings og fjölskyldu..
 • Fjárhagsaðstoð gegni einnig því hlutverki að vera boð um hjálp við að komast út úr erfiðum aðstæðum.

Allir með í borginni

 • Vinna markvisst gegn einangrun í borginni. Einsemd er eitt brýnasta úrlausnarefnið í samfélagi nútímans og snertir fólk í öllum lögum þess, þar á meðal aldraða, ungt fólk, einstæða foreldra, innflytjendur og öryrkja.
 • Finna nýja leiðir til að efla samstarf við félagasamtök sem vinna gegn einangrun á breiðum grundvelli.
 • Koma á skilvirku kerfi vinafjölskyldna á vettvangi hverfa- og þjónustumiðstöðva til stuðnings fólki sem er hætt við einangrun eða finnur til einsemdar.

Fólk með fatlanir

 • Vinna eftir hugmyndum um algilda hönnun í allri þjónustu borgarinnar þar sem komið er til móts við fjölbreyttan hóp fólks með ólíka færni.
 • Valdefla borgara sem nota þjónustuna. Fatlað fólk á rétt á að hafa val um þá þjónustu sem því hentar.
 • Stuðningsþjónusta þarf að bjóðast og vera örugg. Við viljum endurskoða alla stuðningsþjónustu. Stuðningsstarfsmenn vinni með einstaklingunum hvar sem þeir eru.  
 • Búa í hverfunum til þjónustuteymi sem sinna stuðningsþjónustu.
 • Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði raunverulegur valkostur. Borgin hafi forystu um þjónustu samkvæmt þeirri hugmyndafræði í samstarfi við notendur þjónustunnar.
 • Auka samráð við fatlað fólk og koma á fót fötlunarráði til að styrkja hlut þess að ákvörðunum sem varða þjónustu við fatlaða.
 • Tryggja fjölbreytni og skapandi starf í dagþjónustu fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að auka sjálfstæði og trú hvers og eins á eigin getu.
 • Stuðla að því að til verði fjölbreytt störf fyrir fólk með mismunandi þarfir. Fötluðu fólki verði veitt viðeigandi aðlögun í starfi.
 • Fjölga hjúkrunarrýmum fyrir fatlað fólk, sem hentar þeirra þörfum. Ungt fatlað eða langveikt fólk þarf oft annars konar aðbúnað en þeir sem eldri eru.
 • Byggja upp félagslega húsnæðiskosti þar sem komið er til móts við þarfir og óskir fólks með fatlanir. Leggja áherslu á að ungt fatlað fólk fái skýrt fyrirheit um hvenær það má búast við að fá viðeigandi húsnæði.
 • Koma á fót menningar- og heilsukorti fatlaðra í Reykjavík, sem veiti gjaldfrjálsan aðgang að bókasöfnum og öðrum söfnum á vegum borgarinnar, sem og í sundlaugar. Fatlað fólk fái boð um heilsueflandi heimsókn þar sem kortið er kynnt og sýnt hvað er í boði í nærumhverfinu sem tengist kortinu.
 • Ferðaþjónusta fatlaðra bjóðist á þeim tíma sem Strætó gengur. Þar sé örugg og góð þjónusta án takmarkana á ferðafjölda.
 • Allar almenningssamgöngur séu aðgengilegar þannig að hreyfihamlað fólk sem notar hjólastól eða göngugrind geti nýtt sér almenningsvagna. Strætóþjálfar fyrir þá sem þurfa stuðning til að byrja að nota Strætó.
Eldra fólk á að fá rými til að vera það sjálft og fá tækifæri til virkrar þátttöku eða vinnu eins og aðstæður eru til.

Þriðja æviskeiðið – virkt og atorkusamt ævikvöld

 • Reykjavík á að vera heilsueflandi borg. Þar sé markvisst er unnið eftir hugmyndum um aldursvæna borg í samvinnu við öldungaráð Reykjavíkurborgar.
 • Eldra fólk á að fá rými til að vera það sjálft og fá tækifæri til virkrar þátttöku eða vinnu eins og aðstæður eru til.
 • Halda áfram farsælu samstarfi við húsnæðisfélög eldri borgara um uppbyggingu íbúða fyrir aldraða þar sem áhersla er lögð á þægilegar og vel staðsettar smærri íbúðir.
 • Setja á fót samfélagshús hverfa fyrir íbúa á öllum aldri í stað félagsstarfs sem einungis er fyrir eldra fólk.
 • Menningar- og heilsukort eldri borgara í Reykjavík þarf að kynna rækilega og fá fleiri möguleika til heilsueflingar inn í kortið.
 • Þegar fólk verður 70 ára fái allir boð um heilsueflandi heimsókn þar sem menningar- og heilsukortið er kynnt, sem og allt starf fyrir eldri borgara í hverfinu, og farið er yfir öryggisþætti heimilisins í forvarnaskyni.  
 • Félagsstarf eldri borgara er notendastýrt og þess gætt að pláss sé fyrir fólk með mismunandi færni og þarfir og að veittur sé faglegur stuðningur til þátttöku. Æskilegt er að gerð verði þarfagreining í íbúðarkjörnum eldra fólks og þjónustan mönnuð í samræmi við niðurstöðu hennar.
 • Innleiða næringarmarkmið um mat fyrir eldra fólk, bæði heimsendan og í félagsmiðstöðvum, og auka úrval. Tvær máltíðir þurfa að bjóðast alla daga.
 • Styrkja þjónustu heim til þess að fólk hafi raunverulega val um búsetu og geti haldið sér í virkni. Setja á stofn endurhæfingarteymi í öllum borgarhlutum sem hluta af þessari þjónustu.
 • Bæta næringarráðgjöf inn í heimaþjónustu og taka upp skimun eftir vannæringu.
 • Tryggja að starfsfólk heimaþjónustu og hjúkrunarheimila á vegum borgarinnar fái kennslu og þjálfun í persónumiðaðri umönnun og samskiptum við fólk með heilabilun.
 • Lífið á að vera þess virði að lifa því þótt verið sé að takast á við heilsubrest.

Fátækt

Stéttaskipting og ójöfnuður leiðir af sér heilsufarsvanda og félagslega útskúfun. Við megum aldrei sætta okkur við að fólk lifi við sára fátækt.

 • Fjölga aðgengilegum félagslegum íbúðum og leiguhúsnæði í takt við metna þörf og af sama þrótti og gert var á síðasta ári þannig að þetta sé valkostur fyrir tekjulægstu íbúa Reykjavíkur. Auka áfram framboð á leiguhúsnæði sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða.
 • Auka stuðning við fólk sem býr eitt eða á heimilum einstæðra foreldra. Þetta er sá hópur fólks sem líklegast er að búi við fátækt.
 • Þróa áfram viðbótarstuðning til barna sem hann þurfa til að geta stundað nám og til tómstunda.

Þróun velferðarþjónustu

 • Í þjónustustefnu hefur borgin sett sér það markmið að veita aðgengilega, fjölbreytta og framúrskarandi þjónustu. Þannig velferðarþjónustu á borgin að veita.
 • Aukin nýting á tækninýjungum til að bæta þjónustu við þá sem þurfa.
 • Nýjar tæknilausnir til notkunar í velferðarþjónustu verði þróaðar sem hluti af Snjallborgarverkefni borgarinnar.
 • Íbúar geti undantekningarlaust sótt um þjónustu á netinu, sem sé fyrsti viðkomustaður allrar þjónustu.
 • Íbúar geti fengið allar nauðsynlegar upplýsingar um þjónustu borgarinnar á einum stað. Þær eiga að vera aðgengilegar öllum.
 • Þar sem þjónusta ríkisins og sveitarfélaganna skarast þarf að eyða gráum svæðum, tryggja að nægir tekjustofnar fylgi verkefnum, bæta samskipti og innleiða beina samninga um þjónustu og kostnaðardreifingu.

Aðgengileg þjónusta

 • Allar upplýsingar á vegum borgarinnar verði á auðlesnu máli, svo sem bréf frá Reykjavíkurborg og upplýsingar á netinu.
 • Vefir Reykjavíkurborgar séu aðgengilegir samkvæmt hugmyndum um algilda hönnun.
 • Táknmáls- og/eða rittúlkun sé í boði þegar þess óskað eða þörf reynist fyrir, svo sem þegar haldnir eru opnir fundir á vegum Reykjavíkurborgar og við ýmsa þjónustu.
 • Allt húsnæði þar sem Reykjavíkurborg veitir þjónustu sé aðgengileg.
 • Fólk með ólíka færni fái aðstoð eftir þörfum til að sækja um styrki á vegum borgarinnar og stuðning til þess að framkvæma hugmyndir sínar.

 

 

Matarstefna borgarinnar

 • Efla matarmenningu sem felur í sér að stutt er í vistvænan, góðan og hollan mat. Í skipulagi borgarinnar á að styðja við kaupmanninn á horninu, matjurtagarða í hverfunum og gera ráð fyrir matarmörkuðum með ferskvöru, kaffihúsum og veitingastöðum í hverfunum eins og við verður komið.
 • Til þess þarf að skipuleggja borgina þannig að til séu hentug rými fyrir framleiðendur, veitingamenn og gesti til að hittast, hvort sem það er á torgum, við vagna, á veitingahúsum eða annars staðar í borgarumhverfinu.
 • Tryggja að matur sem Reykvíkingar framleiða sé ekki bara bragðgóður, næringarríkur og skemmtilegur, heldur að neysla hans, framleiðsla og meðhöndlun öll gangi ekki nærri náttúrunni okkar, hvort sem er staðbundið eða hnattrænt.
 • Matur og næring verði mikilvægur þáttur í skólastarfi og velferðarþjónustu. Maturinn sé  eldaður í nálægð við neytanda og með hans aðkomu eins og kostur er. Leikskólum og félagsmiðstöðvum eldri borgara standi til boða að rækta grænmeti.
 • Bjóða grænmetisfæði fyrir þá sem vilja í skólum borgarinnar og félagsþjónustu, þegar matur er heimsendur, á hjúkrunarheimilum og í mötuneytum starfsmanna borgarinnar.
 • Halda áfram að fjölga matjurtagörðum fyrir fjölskyldur í borginni eftir því sem eftirspurn eykst. Hvetja til þess að græn svæði séu nýtt til matjurtaræktar.
 • Í íþróttamannvirkjum og borgarstofnunum þar sem gestum er seldur matur sé miðað við gátlista Embættis landlæknis um heilsueflandi samfélag, Vellíðan með hollu mataræði.
 • Átak gegn matarsóun verði hluti af grænum skrefum í starfi borgarinnar. Það felur meðal annars í sér að vinnustaðir á vegum Reykjavíkurborgar hefji reglubundnar mælingar á því hvað matarúrgangur er þar mikill.