Ert þú með spurningu?

  • This field is for validation purposes and should be left unchanged.

Algengar spurningar

Hvað áætlanir hafið þið uppi um Laugardalinn? Þá er ég að hugsa um Dalinn allan frá Suðurlandsbraut yfir að Sunnuveg, frá Álfheimum að Reykjavegi.

Við viljum að dalurinn verði áfram fallegur borgargarður og frábært útivistarsvæði inni í miðri borg. Ekki stendur til að byggja fjölbýlishús norðan megin Suðurlandsbrautar.

Vefslóð á svar

Samkvæmt upplýsingum undir „Hverfið þitt“ kemur fram að þið hafið tryggt íþróttastarf áfram í Safamýri í samvinnu við íbúa og iðkendur. Getið þið vinsamlegast upplýst mig aðeins frekar um þetta og hvernig farið verður að?

Eftir að skrifað var undir samning við Fram um að félagið myndi fara alfarið upp í Úlfarsárdal hófust vangaveltur um Safamýrarsvæðið. Því hefur margoft verið lýst yfir að gervigrasið og íþróttahúsið og öll þessi aðstaða verði þarna áfram svo hægt verði að bjóða upp á góða þjónustu við börn og ungmenni í hverfinu. Það er bara spurning um hvaða íþróttafélag gerir það. Þróttur var í okkar huga augljós kostur en þau hafa ekki lýst yfir vilja til að taka yfir aðstöðuna. Víkingar hafa sýnt þessu áhuga og sömuleiðis Valur. Hvað sem verður, þá munu krakkarnir í Safamýri fá toppþjónustu hér eftir sem hingað til. Strax á nýju kjörtímabili verður gengið til viðræðna við þessi félög með það að markmiði að finna farsæla lausn í góðu samráði við íbúa í hverfinu.

Vefslóð á svar

Er Borgarlína eitthvað frábrugðin strætó í eðli sínu? Hver er áætlaður kostnaður við Borgarlínu? Hvenær yrði hún tilbúin og nothæf?

Já, borgarlína er frábrugðin strætó að því leyti að hún er BRT kerfi eða Bus Rapid Transit. Borgarlínan er í raun þrír hlutir. 1) leiðarkerfi, 2) þróunaráætlun, 3) tæknikerfi. Það sem skiptir máli þar, er að það er allt annað samgöngukerfi en hið hefðbundna strætókerfi. Það sem aðgreinir þessi tvö kerfi er að biðstöðvar eru stærri og veglegri, tíðnin er hærri og mun borgarlína ganga á 5-7 mínútna fresti, vagnarnir keyra í sérrými alla leið og það er hægt að greiða í vagninn og ganga inn í hann hvar sem er. Það er conceptið á bakvið BRT kerfi sem er hægt að lesa sér til um á t.d. Wikipedia. Borgir um allan heim af öllum stærðum, gerðum og loftslagi eru með BRT kerfi í undirbúningi, í framkæmd eða rekstri og gengur þetta afar vel. Með því að hafa borgarlínu í sérrými gefur það góða möguleika á því að vagnarnir geti þegar fram líða stundir verið sjálfakandi. Kostnaður við fyrsta áfanga borgarlínu eru 40 milljarðar þar sem ríkið mun greiða hluta á móti sveitarfélögunum. Þetta er fjárfesting til framtíðar í almenningssamgöngum sem eru umhverfisvænar, draga úr mengun, bæta ferðatíma og mun gera okkur kleift að byggja þétta borg meðfram helstu stöðvum borgarlínu. Ef allt gengur að óskum þá gætu framkvæmdir hafist á næsta ári í fyrsta lagi eftir að hönnun lýkur. Við höfum sagt að ef við þurfum að bíða of lengi eftir fjármagni frá ríkinu, þá getum við notað sterka stöðu til að lána ríkinu fyrir borgarlínu þar til framlögin koma frá þeim. Þannig fáum við borgarlínu mun fyrr. Borgarlínan gæti orðið nothæf að 3-5 árum liðnum. Tækniþróun getur orðið til þess að við getum orðið sneggri.

Vefslóð á svar

Í stefnu ykkar um vellíðan í heilsueflandi borg segir m.a. „Byggja upp félagslega húsnæðiskosti þar sem komið er til móts við þarfir og óskir fólks með fatlanir. Leggja áherslu á að ungt fatlað fólk fái skýrt fyrirheit um hvenær það má búast við að fá viðeigandi húsnæði“. Getið þið sagt mér hvað þessi málsgrein þýðir?

Núna á sér stað fordæmalaus uppbygging íbúða fyrir fatlað fólk um alla borg í samræmi við samþykkta uppbyggingaráætlun um sértæk húsnæðisúrræði fyrir árin 2018–2030. Áætluninni er skipt niður í þrjá áfanga og samtals verður fjölgunin um 190 íbúðir. Bæði er um að ræða   íbúðakjarna og  félagslegar leiguíbúðir. Ljóst er að þörfin fyrir íbúðir fyrir fatlað fólk er mikil og sumir hafa beðið lengi og því viljum við  bæta verklag og upplýsingagjöf til þeirra sem eru að bíða eftir íbúð þannig að þau viti með vissu hvenær þau mega eiga von á íbúð og geti treyst því að fá þjónustu.  Við höfum sett af stað teymi sem eiga að veita einstaklingsmiðaðan og heildstæðan stuðning inn á heimili fatlaðs fólks með það að markmiði að auka lífsgæði og færni þess.  Teymið starfar eftir stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk, lögum um málefni fatlaðs fólks og sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Vefslóð á svar

Hvenær á að setja í gang framkvæmdir við Kennaraháskólareitinn ?

Borgayrfirvöld hafa mikinn áhuga áð að þetta verkefni fari sem fyrst af stað. Staðan núna er sú að Byggingafélag aldraðra sendi inn fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi fyrir reitinn 18.4 sl.  Við það tækifæri bókaði umhverfis og skipulagsráð eftirfarandi:
Umhverfis og skipulagsráð samþykkir að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna hluta þeirra breytinga sem óskað er eftir, í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. apríl 2018.
 
Einhverra hluta vegan hefur engin formleg tillaga borist okkur til meðferðar.  Hugsanlega er félagið sér ekki meðvitað um að boltinn er hjá þeim að senda inn slíka umsókn.   Um leið og umsókn hefur borist verður hún tekin til skjótrar meðferðar og afgreiðslu. 

Vefslóð á svar

Hvað hafa verið byggð mörg hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara á síðustu 8 árum?

Hjúkrunarheimilið í Mörkinni opnaði á þessu tímabili og nú eru framkvæmdir hafnar við væntanlegt hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Því miður hefur ríkið varið alltof litlu fjármagni til uppbyggingar hjúkrunarrýma en það horfir til betri vegar með nýlegu samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um að fundnir verði staðir fyrir 200-300 ný hjúkrunarrými á næstu árum.

Vefslóð á svar

Er Borgarlína eitthvað frábrugðin strætó í eðli sínu? Hver er áætlaður kostnaður við Borgarlínu? Hvenær yrði hún tilbúin og nothæf?

Já Borgarlína er frábrugðin strætó að því leyti að hún er eins konar hraðvagnakerfi sem á ensku kallast BRT eða Bus Rapid Transit. Borgarlínan er í raun þrír hlutir. 1. Leiðarkerfi, 2 þróunaráætlun, 3 tæknikerfi. Það sem skiptir máli þar, er að það er allt annað samgöngukerfi en hið hefðbundna strætókerfi. Það sem aðgreinir þessi tvö kerfi er að biðstöðvar eru stærri og veglegri, tíðnin er hærri og mun borgarlína ganga á 5-7 mínútna fresti, vagnarnir keyra í sérrými alla leið og það er hægt að greiða í vagninn og ganga inn í hann hvar sem er.  Borgir um allan heim af öllum stærðum, gerðum og loftslagi eru með BRT kerfi í undirbúningi, í framkvæmd eða rekstri og gengur vel. Með því að hafa borgarlínu í sérrými gefur það góða möguleika á því að vagnarnir geti þegar fram líða stundir verið sjálfakandi. Kostnaður við fyrsta áfanga borgarlínu eru 40 milljarðar þar sem ríkið mun greiða hluta á móti sveitarfélögunum. Þetta er fjárfesting til framtíðar í almenningssamgöngum sem bæta verulega umferðarmenninguna, Borgarlínan er umhverfisvæn, dregur úr mengun, styttir ferða- og biðtíma og mun gera okkur kleift að byggja þétta borg meðfram helstu stöðvum hennar.
Ef allt gengur að óskum þá gætu framkvæmdir hafist á næsta ári eftir að samningar um fjármögnun liggja fyrir og hönnun lýkur. Við höfum sagt að ef við þurfum að bíða of lengi eftir fjármagni frá ríkinu, þá getum við notað sterka stöðu borgarsjóðs til að lána ríkinu fyrir Borgarlínu þar til framlögin koma frá þeim. Þannig fáum við Borgarlínu mun fyrr. Borgarlínan gæti orðið nothæf að 3-5 árum liðnum. Tækniþróun getur orðið til þess að stytta þann tíma.

Vefslóð á svar

Í stefnu Samfylkingarinnar er stefnt að leikskóla fyrir 12-18 mánaða börn. Mig langar að vita hvort þið sjáið þá fyrir ykkur að leikskólarnir taki börn inn á öðrum tíma en haustin?

Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um formlega inntöku barna oftar en í byrjun hausts en hins vegar hafa komið fram tillögur um slíkt á undanförnum árum, t.d. um inntöku tvisvar á ári þ.e. í byrjun hausts og aftur fljótlega eftir áramótin t.d. í janúar eða febrúar.  Við munum skoða slíkar hugmyndir með opnum huga í samvinnu við leikskólastjóra.  Aðalmálið er að fjölga plássum til að auka svigrúm leikskólanna til að taka inn fleiri börn og þess vegna ætlum við að fjölga plássum strax í haust um tæplega 200, og um svipaða tölu á næsta ári.  Það gerum við bæði með viðbótarhúsnæði við leikskóla í hverfum þar sem er mikil eftirspurn, s.s. í Fossvogi, Seljahverfi, Háaleiti, Grafarholti og Laugardal og með samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla sem geta tekið á móti fleiri börnum.  Slíkir samningar eru langt komnir við þrjá leikskóla í Vesturbæ og fleiri fylgja væntanlega í kjölfarið síðar.

Vefslóð á svar

Er það á stefnuskrá ykkar að semja sér við kennara í Reykjavík? Ætlið þið að berjast fyrir meiri sveigjanleika og styttri vinnuviku hjá kennurum?

Þegar grunnskólinn færðist frá ríki til sveitarfélaganna var það ósk kennaraforystunnar að það yrði ein samninganefnd á vegum sveitarfélaganna og því vinnulagi hefur verið fylgt síðan.  Það er ekki beinlínis hluti af okkar stefnuskrá að gera á þessu breytingar en ákvörðun um slíkt er alltaf háð mati á því hvað skilar mestum árangri fyrir samfélagið og við leggjum mikla áherslu á að ná góðum samningum við kennara sem tryggi þeim betri laun og starfsaðstæður.

Við viljum að kennarar, alveg eins og annað starfsfólk borgarinnar geti tekið þátt í styttingu vinnuvikunnar en nú þegar eru um 2200 manns af þeim tæplega 9000 starfsmönnum Reykjavíkurborgar sem taka þátt í styttingu vinnuvikunnar. Það fyrsta sem við gerðum eftir að viðsnúningur varð í rekstri borgarinnar var að setja fjármagn í skóla- og velferðarmálin. Við höfum bætt talsvert vinnuaðstæður kennara og annars starfsfólks skólanna og erum að ljúka vinnu við gerð afar metnaðarfullrar menntastefnu þar sem sjónarmið kennara, stjórnenda, starfsfólks, nemenda og foreldra hafa ráðið miklu. Við höfum smíðað ítarlega aðgerðaráætlun sem miðar að því að bæta starfsaðstæður kennara, stuðla að nýliðun í starfi kennara í samstarfi við ríkið og hvernig við gefum þeim aukum tækifæri þeirra til starfsþróunar. Kennararnir okkar í Reykjavík vinna frábært starf alla daga og það er okkur kappsmál að þeim líði vel í starfi og fái tækifæri til starfsþróunar.

Vefslóð á svar

Hvað hafið þið hugsað ykkur í sambandi við Elliðaárdalinn og umhverfi hans?

Við viljum vernda Elliðaárdalinn sem einstaka náttúruvin í borginni. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er dalurinn skilgreindur sem hverfisverndarsvæði. Það þýðir að við skipulagvinnu eiga lífríki og náttúrufar að njóta forgangs og allri mannvirkjagerð skal haldið í lágmarki. Undanfarið hefur verið unnið að deiliskipulagi dalsins sem byggir alfarið á þessum forsendum. Í aðalskipulaginu er Stekkjarbakkinn ekki skilgreindur sem hluti af verndarsvæði Elliðaárdalsins, heldur sem "þróunarsvæði í jaðri útivistarsvæðis". Gert er ráð fyrir að þar geti komið græn starfsemi, svo sem ræktun og gróðrastöð.

Hvað varðar fyrirætlanir um uppbyggingu svokallaðs Biodome á Stekkjarbakka, þá hefur ekki enn verið samþykkt að setja þær í formlegt deiliskipulagsferli. Þær hafa hins vegar verið kynntar hollvinasamtökum Elliðaárdals og Hverfisráði Breiðholts. Umhverfis og skipulagsráð mun á næstu vikum taka ákvörðun um hvort slíkt ferli verður sett af stað. Verði það samþykkt munu allir borgarbúar, félagasamtök og hagsmunaaðilar fá tækifæri til að senda inn formlegar athugasemdir.

Vefslóð á svar

Af hverju Áfram Reykjavík?

Áfram Reykjavík er okkar slagorð vegna þess að Reykjavík er á réttri leið og það skiptir öllu máli að við höldum áfram að byggja upp kraftmikla og nútímalega borg sem er fjölbreytt, skemmtileg og lifandi. Það er í raun mikilvægasta kosningamálið.

Við höfum skýra framtíðarsýn og höfum farið fyrir samhentum meirihluta í borgarstjórn. Stjórn borgarinnar hefur einkennst af stöðugleika undanfarin ár þrátt fyrir nokkurn óstöðugleika í stjórnmálum á landsvísu. Það versta sem gæti komið út úr kosningunum í vor væri afturhvarf til glundroða og gamaldags hugmynda um borgir og borgarskipulag. Við viljum ekki fara til baka í gamla tímann – og þess vegna segjum við: Áfram Reykjavík!

Vefslóð á svar

Hefur Samfylkingin í Reykjavík staðið við kosningaloforðin frá árinu 2014?

Fyrir kosningarnar árið 2014 lögðum við mesta áherslu á þrjú lykilmál. Í fyrsta lagi sögðumst við ætla að koma í uppbyggingu 2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðum á næstu 5 árum í samvinnu við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Ljóst er að það markmið næst og gott betur því útlit er fyrir að fjöldi slíkra íbúða, fullfrágenginna eða á framkvæmdastigi, fari yfir 3.000 á þessu tímabili og staðfest áform á vegum húsnæðisfélaga án hagnaðarsjónarmiða nema alls yfir 4.000 íbúðum.

Í öðru lagi sögðumst við ætla að hækka frístundastyrki úr 35.000 í 50.000 krónur á barn og auka systkinaafslætti, þvert á skólastig, til að létta undir með barnafjölskyldum og auka aðgengi allra barna að fjölbreyttu frístundastarfi. Þetta höfum við gert.

Í þriðja lagi sögðumst við ætla að tryggja áframhaldandi stöðugleika við stjórn borgarinnar. Það hefur svo sannarlega gengið eftir og Reykvíkingar hafa notið góðs af því að búa við afar samhentan fjögurra flokka meirihluta undir forystu Samfylkingarinnar. Við höfum sýnt í verki að stöðugleiki er ekki bara frasi – raunverulegur stöðugleiki fæst með með samtali, sanngirni og ábyrgum stjórnarháttum.

Vefslóð á svar

Er það rétt, sem sumir segja, að fjármál borgarinnar séu í ólestri og reksturinn ósjálfbær?

Nei, það er alls ekki rétt. Reykjavíkurborg var rekin með 28 milljarða afgangi árið 2017 og þarf að leita langt aftur í tímann til að finna jafngóða niðurstöðu.. Rekstur borgarinnar er sjálfbær og skuldahlutföll hafa lækkað hratt og mikið á undanförnum átta árum.

Árið 2010 voru fjármál borgarinnar í miklum ólestri en þá var ráðist í margháttaðar björgunaraðgerðir, meðal annars til að lækka skuldirnar, bjarga rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og vinna gegn atvinnuleysi í borginni. Þessar björgunaraðgerðir skiluðu árangri og á undanförnum árum hefur ábyrg fjármálastjórn gert Reykjavík kleift að snúa vörn í sókn.

Súluritið hér að neðan segir allt sem segja þarf um fjármál og rekstur borgarinnar. Það sýnir þróun heildarskulda Reykjavíkurborgar sem hlutfall af tekjum frá árinu 2010. Það er mikilvægt að skoða skuldirnar sem hlutfall af tekjum því borgin stækkar, fólki fjölgar, umsvif aukast og skatttekjur hækka – og þannig verða skuldirnar viðráðanlegri en ella.

Heimild: Ársreikningar Reykjavíkurborgar

Heimild: Ársreikningar Reykjavíkurborgar

Vefslóð á svar

Hvers vegna var Reykjavíkurborg rekin með 28 milljarða afgangi árið 2017?

Það er ekki nema von að spurt sé enda er 28 milljarða afgangur ansi ríflegur afgangur. Þó er brýnt að hafa í huga að það skiptast alltaf á skin og skúrir og þess vegna er vissara að skila góðum afgangi þegar vel árar. Þetta höfum við gert á undanförnum árum.

Afgangurinn af rekstri borgarinnar árið 2017 var reyndar tvisvar sinnum meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það skýrist að hluta til af því að Reykjavík er að ganga í gegnum mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar og voru tekjur af sölu byggingarréttar enn meiri á árinu en áætlað var.

Vefslóð á svar

Hvað er Borgarlína?

Borgarlína er svokallað hraðvagnakerfi (e. bus rapid transit) sem er hryggjarstykkið í þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 og mun bylta öllum samgöngum í borginni. Borgarlínuvagnar munu ganga fyrir rafmagni og ferðast á 5 til 7 mínútna fresti á sérakreinum og hafa forgang á umferðarljósum. Fargjöld verða greidd fyrirfram og stoppistöðvar verða upphitaðar og yfirbyggðar.

Ávinningur borgarbúa af Borgarlínu er margþættur – bættar almenningssamgöngur fyrir þá sem geta og vilja nota almenningssamgöngur, léttari umferð fyrir alla hina sem geta ekki eða vilja ekki nota almenningssamgöngur og síðast en ekki síst minni mengun og betra loft fyrir okkur öll.

Borgarlína mun ekki koma í stað hefðbundinna strætisvagna heldur munu Borgarlína og Strætó vinna saman þannig að Borgarlína tengir hverfi borgarinnar og Strætó lagar sig að því. Hundruð borga um allan heim hafa komið á fót hraðvagnakerfi á borð við Borgarlínu með góðum árangri.

Nýlegt kynningarmyndband um Borgarlínu.

Vefslóð á svar

En er Borgarlína ekki of dýr?

Nei, Borgarlína er besta og hagkvæmasta leiðin fyrir Reykjavík til að létta á umferðinni og búa í haginn fyrir framtíðina. Það er vegna þess að allir aðrir kostir eru miklu dýrari. Það er búið að reikna þetta út og þetta er það sem umferðarmódelin segja.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga um 70 þúsund til ársins 2040 sem er eins og eitt stykki Kópavogur, eitt stykki Hafnarfjörður og hálfur Garðabær. Ef við gerum ráð fyrir að allir ferðist áfram með einkabílum og bætist ofan á umferðina sem er nú þegar á morgnana og kvöldin, t.d. á Miklubraut og Kringlumýrabraut, þá fer umferðin í algjört og endanlegt stopp.

Jafnvel þó við setjum mörg hundruð milljarða í fleiri akreinar og fleiri mislæg gatnamót þá væri það ekki einu sinni nóg. Tafatíminn myndi stóraukast fyrir alla – bæði þá sem nota almenningssamgöngur og þá sem nota einkabíla. Og þá á eftir að telja einhver hundruð milljarða í viðbót sem lenda á heimilum og fyrirtækjum vegna nýrra bíla og nýrra bílastæða. Áætlaður kostnaður við að fullklára Borgarlínu er 70 milljarðar og það verður gert í tveimur áföngum. Borgarlína er hluti af blandaðri leið sem er besta og hagkvæmasta leiðin fyrir Reykjavík í samanburði við alla aðra kosti.

Vefslóð á svar

Hvar eru allar þessar íbúðir?

Gamla hugsunin var sú að öll íbúðauppbygging í borginni kallaði á að ný hverfi væru reist frá grunni fyrir utan borgarmörkin. En nú á sér stað kraftmikil uppbygging um alla borg. Í stað þess að þenja út byggðina þá hefur á þessu kjörtímabili átt sér stað íbúðauppbygging á um 40 reitum víðsvegar um borgina (m.v. 10 íbúðir eða fleiri á hverjum reit). Þetta er stefna sem styrkir hverfin okkar, gerir þau sjálfbærari og eykur þannig lífsgæði íbúanna.

Vefslóð á svar

Er það rétt að nú sé Reykjavík að ganga í gegnum mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar?

Já, Reykjavík er að ganga í gegnum mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar og aldrei hafa fleiri íbúðir farið í uppbyggingu á einu kjörtímabili. Árið 2017 varð mesta íbúafjölgun í Reykjavík í 30 ár.

Súluritið hér að neðan sýnir fjölda íbúða sem hafin er uppbygging á í Reykjavík á hverju kjörtímabili frá árinu 1974. Á næsta kjörtímabili viljum við að halda áfram að leiða kraftmikla uppbyggingu um alla borg og leggja sérstaka áherslu á hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Nýsmíði íbúða í Reykjavík 1974 – 2018 Fjöldi íbúða sem hafin er uppbygging á samkvæmt útgefnum byggingarleyfum frá Byggingarfulltrúa Reykjavíkur.

Nýsmíði íbúða í Reykjavík 1974 – 2018
Fjöldi íbúða sem hafin er uppbygging á samkvæmt útgefnum byggingarleyfum frá Byggingarfulltrúa Reykjavíkur.

Heimild: www.ibudauppbygging.is

Vefslóð á svar

Hvers vegna er ekki búið að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss nú þegar?

Það er stórt verkefni að klára uppbyggingu leikskólanna og bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss í fyrsta skipti – en ástæðan fyrir því að við getum gert það núna er að við höfum náð miklum viðsnúningi í fjármálum borgarinnar og höfum því efni á að borga fyrir þessar miklu fjárfestingar sem fylgir því að byggja nýja leikskóla, ráða fleira fólk til starfa og búa vel að börnum og starfsfólki.

Við sögðum fyrir síðustu kosningar að að það væri hægt að gera þetta á tveimur kjörtímabilum. Nú höfum við sett fram ítarlega áætlun um hvað þarf að gera, hvernig og hvenær, til að ná þessu skýra markmiði með nokkrum markvissum skrefum á næstu fjórum árum. Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður við uppbyggingu nýrra leikskóla og nýrra leikskóladeilda verði rúmlega 3 milljarðar á kjörtímabilinu.

Reykjavíkurlistinn byggði upp alvöru leikskólaþjónustu  í borginni á árunum 1994 til 2006 þar sem í fyrsta sinn var boðið uppá heilsdagsþjónustu fyrir almennar barnafjölskyldur fyrir börn frá tveggja ára aldri. Nú er tækifærið til að bjóða yngri börnum á leikskólana og klára í eitt skipti fyrir öll að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Vefslóð á svar

Hvernig er hægt að að vinna bug á manneklu á leikskólunum?

Mannekla fylgir oft þenslutímum í hagkerfinu þegar atvinnuleysi er lítið og mikil samkeppni um vinnuafl. Hún var mikil á árunum 2007 til 2008 og hefur verið áberandi undanfarið þegar aftur árar vel í efnahagsmálunum. Við höfum náð miklum árangri í vetur við að leysa mönnunarvandann á leikskólunum og náðum að ráða í 90% af lausum störfum með samstilltum aðgerðum.

Við fórum í almenna kynningarherferð á því hvað störf á leikskólum eru gefandi og fjölbreytt, mikil vinna fór í það að nálgast ungt fólk með ýmsum aðferðum og ekki síst á samfélagsmiðlum, við unnum með ráðningarstofum og tryggjum stjórnendum leikskóla fjármagn og fagaðstoð við að vinna kynningarefni. Við samþykktum fjölmargar aðgerðir til að mæta manneklu, t.d. með auknu fjármagni í starfsmannamál, heilsueflingu og liðsheildarvinnu. Við munum halda þessari vinnu áfram í sumar og haust og þá bætist m.a. við miðlæg afleysingarþjónusta borgarinnar sem mun sérstaklega sinna leikskólunum.

Þessu til viðbótar höfum við unnið að tillögum í samstarfi við Félag leikskólakennara og fleiri um bætt starfsumhverfi leikskólakennnara og fjórtán þeirra hafa þegar verið samþykktar og hrint í framkvæmd.  

Til að ná að bjóða 12 til 18 mánaða börnum leikskólapláss þarf að ráða um 40 nýja starfsmenn á ári en til samanburðar má geta þess að við höfum ráðið um 110 starfsmenn undanfarna 9 mánuði með því að setja mönnunarmálin í forgang.

Vefslóð á svar

Hvað hefur gerst í málefnum grunnskólanna á þessu kjörtímabili?

Við höfum nýtt þann viðsnúning sem náðst hefur í fjármálum borgarinnar í kjarabætur, skólastarf og velferðarmál. Hvað skólamálin varðar þá hafa framlög til málaflokksins aukist um 25% frá árinu 2014 eða rúmlega 9 milljarða króna. Þar af hefur rúmlega helmingur eða 4,7 milljarðar runnið í grunnskólana. Í sérstökum forgangi hefur verið að hækka laun kennara og annars starfsfólk í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum en þar til viðbótar hefur verið aukið verulega í á ákveðnum lykilsviðum.

Þar má nefna tvöfalt hærri framlög í íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku, ráðningu móðurmálskennara sem þjóna sama hópi og hjálpa þeim jafnframt að fóta sig í íslensku skólaumhverfi.  Námsgögn verða gjaldfrjáls í haust, framlög til sérkennslu hafa aukist, sömuleiðis í fagstarf, næðisstund, bókakaup á skólabókasöfnin, framlög í almenna kennslu, ráðnir hafa verið hegðunarráðgjafar og talmeinafræðingar til að bæta stoðþjónustu við nemendur og svo mætti áfram telja. Grunnskólinn er mjög vel fjármagnaður í alþjóðlegum samanburði og eru framlög á hvern nemanda með þeim hæstu sem þekkjast innan OECD.

Heimild: Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar

Vefslóð á svar